Tölum um nettó upphæðir þegar verið er að segja frá kostnaði við Almannatryggingakerfið!

10.janúar 2020

Góðan daginn

Eins og margir vita hef ég oft á tíðum gagnrýnt Gráa herinn og fundist hann frekar einkennilegt apparat.

Svona hópar geta breyst og það hefur einmitt gerst með Gráa herinn. Hann er núna allt annað fyrirbæri en fyrir 2 árum eða svo.

Ég lýsti því hér fyrir nokkrum mánuðum að nú væri ég ánægð með hvað félagsskapurinn væri að gera og nú gæti ég óhikað stutt málstaðinn.

Ég las í commenti að viðkomandi væri ekki sérlega ánægð og hennar skoðun var að þeir sem í baráttunni stæðu væru ekki láglauna eftirlaunafólk og skildu þar af leiðandi ekki kjör þeirra sem berjast í bökkum.

Ég er ekki frá því að þetta sé kannski nokkuð almenn skoðun og á hún jafn mikinn rétt á sér og aðrar skoðanir.

Ég hef velt því fyrir mér lengi hvernig standi á því að fólkið sem virkilega berst í bökkum fer ekki inn í svona baráttu. Ég veit ekki svarið en það gæti til dæmis verið vegna þess að slíkir einstaklingar hafa hreinlega ekki kjark og þor til þess að láta til sín taka. Það gæti líka verið að þetta fólk sé svo aðframkomið af barningi við daglegt líf að ekkert sé eftir til þess að berjast fyrir.

Að standa í félagslegu stússi eins og Grái herinn er nú að gera og geta skilað árangri þarf mikinn baráttuvilja og ótal stundir í vinnu, samtölum og upplýsingasöfnun svo eitthvað sé nefnt.

Ég hlustaði á viðtalið á Bylgjunni við Helga P, sem sér um markaðsmálin hjá Gráa hernum núna. Þetta var gott viðtal og margt sem kom þar fram og hvet ég fólk til þess að hlusta.

Helgi ræddi meðal annars um viðhorf til eldri borgara og þá mynd sem við sjáum oftast þegar verið er að fjalla um þessi mál. Hann tók dæmi um fólk sem er upprétt og hreikið af aldrinum og lætur ekki troða á sér lengur. Hann tók líka dæmi um fólkið sem er orðið háaldrað og jafnvel komið á elliheimili og hjúkrunarheimili. Báðir þessir hópa eiga skilið allt það besta. Þetta er fólkið sem byggði upp þjóðfélagið fyrir kynslóðina sem nú er meðal annars á Alþingi og stjórnar lögum og reglum í landinu!

Helgi talaði líka um hvernig hann upplifði skilning þingmanna þegar verið var að heimsækja þá og skýra út málefni eldri borgara! Jú, þingmenn vildu laga þetta strax, ekki málið, en hvort þeir hefðu skilning á því hvernig málið væri vaxið fannst mér Helgi ekki vera alveg sannfærður!

Helgi var spurður um hvort kostnaður við afnám skerðinga yrði ekki óheyrilegur?

Þetta er spurning og rök sem eiga ábyggilega eftir að koma upp ótt og títt á meðan á málaferlunum stendur.

Þegar talað er um kostnað við að bæta kjör eldri borgara og öryrkja eru ævinlega notaðar tölur sem tilheyra brúttó fjölskyldunni.

Nú vill svo einkennilega til að þegar reiknað er út hvað hitt og þetta kostar eru 2hliðar á málinu.

Önnur hliðin er debet og hin er kredit. Þessar systur fylgjast að þegar kostnaður og útgjöld eru skoðuð. Systurnar eru hins vegar slitnar í sundur þegar pólitíkin kemur inn í málið og önnur er eiginlega aldrei nefnd. Sú sem er útundan hjá pólitíkinni er óskaplega mikilvæg. Hún er sú sem skilar til baka í ríkissjóð í formi ýmissa skatta bæði beinna og óbeinna drjúgum skerði af brúttó kostnaðinum.

Ég vona að þeir sem eru í forystu fyrir baráttu bættra kjara eldri borgara breyti þessari umræðuhefð og sameini systurnar og leifi þeim að búa hlið við hlið. Ég vona að umræðan endi í því að farið verði almennt að tala um netto kostnað við breytingar til batnaðar fyrir hópinn.

Það mætti líka breyta viðhorfi til eldra fólks með því að hætta að tala niður til þessa hóps og vitiði hvað, oft eru það eldri borgarar sjálfir sem nota niðurlægjandi frasa eins og til dæmis heldri borgarar, ellismellir, við hin gömlu, eða við gömlu og svona gæti ég haldið áfram.

Ég held að þegar við tökum Helga P til fyrirmyndar og förum að líta á okkur sem flott fólk og þorum að viðurkenna að við erum hópurinn sem byggði upp velferðina þá breytist ýmislegt.

Að lokum ætla ég að setja hér inn upplýsingar um hvar hægt er að leggja málssókninni lið ef einhver hefur ekki enn séð þær upplýsingar.

Ég er búin að setja inn fasta mánaðarlega greiðslu hjá mér sem fer út af íslenska reikninginum mínum í hverjum mánuði og er það líklega einhver sú ánægjulegasta greiðsla sem ég inni af hendi reglulega, fyrir utan auðvitað framlag mitt til slökkviliðsins í bæjarfélaginu mínu hér í Portúgal þar sem unnið er ótrúlegt sjálfboðastarf allan ársins hring.

Hér er bankareikningur Málsóknarsjóðs Gráa hersins :
Íslandsbanki Suðurlandsbraut
Málsóknarsjóður Gráa hersins
kt. 691119-0840
0515-26-007337
IBAN nr.IS160515260073376911190840
Ef einhver vill senda kvittun ( valfrjálst) þá er netfangið: malsokn.gh@gmail.com
Munið að það er hægt að stilla heimabankann ef þið viljið láta eitthvað af hendi rakna mánaðarlega….
DREIFA – DREIFA- DREIFA – DREIFA

Með kærri kveðju

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: