Ég er munaðarlaus eldri borgari og tilheyri miðhópnum – Enginn baráttuvilji fyrir þann hóp, eða hvað?

 

 1. desember 2018

Hvað er helst í fréttum frá Skrípaskeri?

Jú, þingmaður fer í frí til þess að fá “bata” frá einhverju sem er frekar óskilgreint.

Formaður félags fólks sem er komið yfir 65 ára hefur labbað inn á þing af því að hinir varamennirnir voru uppteknir, þeir sem áttu að taka við fyrir þann sem er í “bataferlinu”

Ógnar gleði ríkir nú á hinu háttvirta þar sem gamalmenni hefur sest þar inn í fyrsta skipti

Sá gamli ætlar að lesa yfir hinu háttvirta og segja þeim hvernig gamalt fólk hefur það í þjóðfélaginu og ætlar að tala um “hina minnstu bræður”

Varamaðurinn situr líklega eina viku á virku þingi þar sem allir hinir eru að fara í jólafrí sem stendur held ég fram í janúar

Stöngin inn og mark

Við fáum jólahugvekju formanns félags með 11 þúsund félagsmenn úr ræðustól Alþingis, ég var búin að minnast á þetta áður

Við “hinir minnstu bræður” verðum líklega mærð líkt og kappinn sem settist inn aftur og nýtur gamals frægðarljóma í botn

Ég verð skömmuð fyrir vanþakklæti og ótuktarskap

Klausturssystkyni falla nú í skuggann og ekkert meira rætt um þau því glorian er gengin í garð

Mikið vildi ég að Albert Guðmundsson væri kominn til baka, þá væri nú fyrst gaman og gott að halla sér upp að bumbunni á honum og fá gott klapp á kollinn. Hann var maður að mínu skapi og frægur að eindæmum í þokkabót. Það er betra að hafa eitthvað til þess að halla sér upp að en auvitað er vinurinn löngu horfinn og aðrir komnir í hans stað.

Munaðarleysi okkar sem tilheyrum ekki hinum vel stæðu eldri borgururm og ekki heldur hinum “minnstu bræðrum” er algjört.

Við eigum engann sem berst fyrir okkur. Öllum er nákvæmlega sama um hvernig sparnaði okkar er stolið í hverjum einasta mánuði, löglega.

Sum okkar hafa tekið þann kost að flýja land og höfum við sest að í löndum sem gera okkur kleyft að standa á eigin fótum og eiga mat á diskinn okkar út mánuðinn jafnvel þó við fáum engar félagslegar uppbætur frá TR.

Við sem höfum flúið land erum eins og óhreinu börnin hennar EVU. Aldrei minnst á okkur í umræðunni um kjör eldri borgara.

Óhreinu börnin hennar EVU eru ekki til.

Nei, það þarf eitthvað mikið að gerast til þess að við sem tilheyrum millihópnum í hópi eldri borgarar fáum talsmann. Ég veit ekki hver það gæti verið. Við erum ekki bara munaðarlaus. Við eru algjörir niðursetningar og eigum okkur ekki uppreisnar von.

Jú, láttu nú ekki svona, gæti einhver sagt.

Við eigum jú talsmann og talsmenn í FEB og LEB og nú er yfirvaldið komið í þingsal og getur messað yfir liðinu þar, gæti einhver sagt.

Ég er bara vanþakklát og svartsýn Skrípaskers flóttamaður.

Ég trúi ekki lengur orði sem flestir stjórnarandstöðumenn láta út úr sér.

Það er þó lítill hópur ungs fólks sem er á samkomunni og ég hef trú á því fólki, einfaldlega vegna þess að það fylgir sínum málum eftir og að ég tali nú ekki um að þau svara kjósendum þegar þeir bera upp spurningar. Þetta unga fólk er með sprotann í hendi sér og vonandi komast þau í aðstöðu til þess að fá mál samþykkt þegar ríkisstjórnin gefst upp eftir áramót og verkföll og skærur taka völdin.

Kannski þurfum við að segja þessu unga fólki meira frá því hvernig raunveruleiki miðhóps eldri borgara lítur út svo þau geri sér grein fyrir hvar skóinn kreppir. Munaðarleysingjarnir ættu að snúa sér að þeim sem svara þeim og eru tilbúnir að hlusta án hroka og yfirgangs.

Skrípasker er orðið enn skrípalegra þessa síðustu daga og var þó ekki úr háum stalli að detta.

Munaðarleysingjarnir þurfa að rísa upp og sýna lágkúrunni og höfðingjaslepjunni hvar Davíð keypti ölið.

Það er alveg ljóst að FEB og LEB mun aldrei gera neitt í málum okkar sem niðurgreiðum eftirlaun okkar með sparnaði okkar, semsagt það verður aldrei farið í mál á vegum þessara samtaka fyrir okkur. Í forystu þessara samkundna veljast menn og konur sem hafa ekki hugmynd um hvað það er að svelta eða hafa ekki húsaskjól yfir veturinn þegar kuldinn og rokið heldur þeim innan dyra.

Eldri borgarar í miðhópnum!

Við eigum ekki einn einasta málssvara. Við verðum að finna okkur farveg og hann verður ferskur og baráttuglaður laus við höfðingjasleikju og snobb.

Hvar er þessi farvegur?

Hulda Björnsdóttir

 

Opið bréf til Alþingismanna – ofbeldi ?

 1. desember 2018

Opið bréf til alþingismanna

Þingmenn!

Ég veit ekki hvernig ég á að ávarpa ykkur. Mér finnst háttvirtir ekki eiga við alla. Mér finnst virðulegi ekki eiga við alla og ég get alls ekki sett Kæri þingmaður því margir eru mér ekki kærir þessa dagana og ég er ekki þekkt fyrir að smjaður og þess háttar.

Ofan á verður því að ávarpa ykkur einfaldelga sem

ÞINGMENN

6 úr ykkar hópi eru nú athlægi út um allan heim og ekkert hægt að gera til þess að losna við lýðinn. 6 fyllibyttur sem kjörnar hafa verið til þess að stjórna landinu og setja lög fyrir þjóðina til þess að hægt sé að bera virðingu fyrir öllum sitja að sumbli og þjóðfélagið fer á hvolf.

Þið komið hver á fætur öðrum í útvarps- og sjónvarpsþætti og ræðið alvarleika málsins og sumir geta ekki sofið vegna ásakana og ummæla þessa sóma hóps sem gengin er nú í Klaustur og verður líklega staðsettur þar næstu vikurnar en svo gleymist allt gumsið, nýjar kosningar og allir vinir.

Ég er hjartanlega sammála því að ummæli sexmenninganna eru viðbjóður og ég hef ekki hlustað á upptökuna, nema það sem birt var í viðtali við Lilju í gær. Það sem ég heyrði frá hópnum þar var miklu meira en nóg fyrir mig.

Lilja komst vel frá viðtalinu og var málefnaleg og hreinskilin.

Sigmundur hefur eins og venjulega logið áfram og auðvitað verður ekkert gert við hann. Hann stofnar bara nýjan flokk og allt í gúdí gúddí.

Einn kvenráðherra er hrædd. Ég veit ekki við hvað hún er hrædd. Líklegt þykir mér að ekki verði hún lamin eða húðstrýkt af öðrum þingmönnum.

Ofbeldið er auðvitað voðalegt og ef einhver dugur er í ykkur Þingmönnum, þá sjáið þið einhvern vegin til þess að 6 menningarnir, allir, víki af samkundunni og varamenn komi inn.

Ofbeldið er ekki bara á hinu háa Alþingi.

Ofbeldið er stundað daglega og þykir þeim sem að kjötkötlunum standa og ráða yfir ríkisfjármálunum ekki neitt athugavert við það ofbeldi og kalla það ekki einu sinni sínu rétta nafni.

Hér er ég að tala um kjör eldri borgara og öryrkja og hvernig ríkisstjórninni, sem margir ykkar þingmanna standa að, þykir ekkert athugavert við og styðjið ofbeldið daglega og ekkert heyrist í ykkur.

Þið þingmenn fenguð jólabónus sem skagar hátt upp í eftirlaun mín.

Ekki ætla ég að telja það eftir þó þið fáið bónus fyrir jólin, það er að segja ef mér þætti ekki sárt að vera beitt ofbeldi í hverjum einasta mánuði þegar ég er látin greiða niður þann lífeyri sem ég hef áunnið mér með greiðslu skatta til þjóðfélagsins alla mína hundstíð og tekjur mínar frá Lífeyrisjsóði verða að svo til engu þegar búið er að lækka lífeyrinn frá TR.

Auðvitað finnst ykkur þetta ekkert sambærilegt við ofbeldið sem sumum var sýnt með ummælum sexmenninganna á Klaustrinu yfir glasi á meðan verið var að ræða fjárlög fyrir næsta ár á vinnustað hópsins sem þau áttu auðvitað að vera á en kusu Klaustrið og sumbl frekar.

ÞINGMAÐUR

Hefur þú hugleitt hvernig fátækum eftirlaunaþega og öryrkja líður núna fyrir jólin?

Hefur þú hugleitt hvernig það er að hlusta á allar auglýsingarnar og horfa á allt sem hægt er að gera sér til gamans í þjóðfélaginu í desembermánuði, ef þú átt ekki fyrir mat nema rétt hálfan mánuðinn? Hefur þú hugleitt þessa líðan og hvort það gæti kannski jaðrað við ofbeldi að stjórnarherrar skammti svo þröngt að ekki sé hægt að lifa út mánuðinn?

Hefur þú hugleitt hvernig það er fyri öryrkjann með börn að geta ekki svarað því hvort jólagjafir verði í ár, eða hvort matur verði á borðum þessi jól?

Hefur þú hugleitt hvernig öryrkjanum líður sem getur ekki gefið barninu sínu nýtt klæði fyrir jólin eða leyft barninu að fara á jólaskemmtun með félögunum eða hvort barnið fái yfirleitt að borða yfir jólin? Hefur þú hugleitt þetta ÞINGMAÐUR?

Eldri borgarar, margir hverjir, kvíða hátíðsdögum meira en öðrum dögum. Jólin eru hjá þeim myndbirting helvítis á jörðu. Þeir eiga kannski ættingja sem þeir vildu gjarnan vera hjá um jólin en treysta sér ekki til þess að láta ættingjana sjá hve bágt ástandið er, bæði andlega og líkamlega.

Desember er hræðilegasti mánuður allra mánaða hjá slíkum eldri borgurum. Þeir bíða eftir því að janúar komi svo þeir geti andað aftur. Þeir standa á öndinni og hjartað berst eins og það sé að reyna að komast út úr líkamanum. Sumir hafa ekki þrek og stytta vanlíðanina og hraða för yfir í eilífðina. Aðrir þrauka eitt ár enn og reyna að vona að þið ÞINGMENN sjáið aumur að þeim sem byggðu upp þjóðfélagið og hættið að svelta þá þegar komið er að starfslokum.

Fyrirlitning sexmenninganna á öryrkjum var alveg kýrskýr. Kannski er það sem þeir sögðu um þann hóp á fylliríinu viðhorf fleiri sem sitja við stjórnvölinn.

Það er alla vega ljóst að gjörðirnar bera því viðhorfi vitni.

ÞINGMENN sem sitjið í ríkisstjórn!

Þið getið hneykslast á Klausturklíkunni og er það alveg rétt EN þið þurfið að líta í eigin barm og skoða hverjir það eru sem beita öryrkja og eftirlaunaþega ofbeldi ALLA DAGA allan ársins hring með því að skammta þessum hópum svo smánarleg kjör að ekki sæmir hundinum ykkar.

Nú er búið að leggja niður Kjararáð og þið ÞINGMENN búnir að verðtryggja laun ykkar.

Jólabónus eða ekki er ekki aðal málið. Aðal málið er að þið hvert og eitt ykkar sem situr í ríkisstjórn eruð kannski ekki svo mjög ólík þeim sem sátu að sumbli þegar litið er á framkomu ykkar við öryrkja og eldri borgara.

Ljósið í myrkrinu er þó að það eru nokkri ÞINGMENN sem sjá sóma sinn í því að grafast fyrir um hvernig spillingin hefur grasserað í áratugi á Alþingi Íslendinga og fá þessir ágætu þingmenn auðvitað bágt fyrir hjá spillingarliðinu, bæði því sem nú situr og því sem hefur setið að kjötkötlunum undanfarna áratugi.

Ég veit ekki hvort þetta bréf mitt hefur nokkur áhrif. Ég gat hins vegar ekki orða bundist og þegar ég hugsa til þess tíma þegar ég var að berjast í bökkum og sá ekki fram á næsta dag, hvað þá fram á jól fyrir fjölskylduna og það rifjaðist upp fyrir mér hvernig mér leið og hvernig ég náði ekki andanum þegar verið var að spyrja mig hvort ekki væri kominn tími til þess að fara að versla fyrir jólin, þá varð ég að tala við þingmennina sem einhverja sómatilfinningu hafa innra með sér og biðja þá að sýna eftirlaunafólki og öryrkjum sömu virðingu og kvótagreifum.

Ég get ekki sagt að mér sé létt í huga núna. Ég er ofboðslega reið og sár fyrir hönd þessara hópa og ef við, þessir hópar, hefðum fengið jafn mikla umfjöllun í fjölmiðlum og á Alþingi og fyllibytturnar þá hefði líklega eitthvað gerst í málum okkar.

Nei, öryrkjar og eftirlaunaþegar eru hornrekur í íslensku þjóðfélagi og verða líklega áfram á næsta ári á meðan fyllibyttur fá uppreisn æru og halda áfram að lepja veigar úr glasi og draga niður skó þeirra sem þeir vilja á meðan þeir ættu að vera í vinnunni á Alþingi.

Hulda Björnsdóttir

Er hægt að sameina eldri borgara og bæta kjör allra?

 1. nóvember 2018

 

Eldri borgarar – Ég er að pæla

Ég hef velt því fyrir mér lengi hvernig standi á því að eldri borgarar geta ekki komið sér saman um hvernig haga skuli baráttu fyrir hópinn.

Til þess að skoða þetta betur skipti ég hópnum niður í 6 flokka, allavega í bili og ætla að reyna að gera mér grein fyrir hvað einkennir þessa flokka og hvernig hægt væri að virkja þá til samstöðu. Hvort þetta tekst eða ekki er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er að skoða málið frá fleiri en einum pól og sjá hvort eitthvað kemur út úr pælingunni.

Hér eru flokkarnir sem ég ætla að skoða:

 1. Fólk sem vill vinna eftir 67 ára
 2. Fólk sem getur ekki unnið eftir 67 ára
 3. Fólk sem vill ekki vinna eftir 67 ára
 4. Fólk sem á réttindi í lífeyrissjóði
 5. Fólk sem á ekki réttindi í lífeyrissjóði
 6. Er til vinna fyrir alla sem vilja vinna eftir 67 ára?

 

Flokkur 1 samanstendur af fólki sem vill vinna eftir 67 ára aldurinn og getur fengið vinnu.

Þessi hópur er væntanlega sá sem hefur lagt mesta áherslu á að frítekjumark vegna atvinnutekna verði hækkað því hópurinn vill fá eitthvað fyrir sinn snúð, sem er eðlilegt.

Hverjir eru í þessum hópi?

Til dæmis gætu það verið fyrirtækjaeigendur, það gætu verið ýmiskonar listamenn eða stjórnendur í þeim geira. Svo eru læknar, lögfræðingar, verkfræðingar og fleiri hálaunahópar líklega í þessum hópi. Alþingismenn eru auðvitað gulltryggðir og þurfa líklega ekki að berjast fyrir bættum kjörum þegar þeir eru komnir á eftirlaun, það hefur verið séð fyrir þeim.

Ég hef lesið skrif nokkurra sem starfa í listageiranum og eru þar við stjórnarstörf og finnst að hækka eigi frítekjumarkið og hafa einhverjir til dæmis nefnt 200 þúsund krónur sem algjört lágmark.

Ég er ekki að gagnrýna skoðanir þessa hóps, ég er einfaldlega að skoða hvernig fólk hugsar.

Flokkur 2 er fólk sem getur ekki unnið eftir 67 ára aldurinn.

Þetta fólk gæti verið fyrrverandi öryrkjar, til dæmis, en þegar öryrki verður 67 ára hættir hann að vera öryrki í kerfinu og verður eftirlaunaþegi.

Í þessum hópi er líklega fólk sem hefur unnið erfiðsvinnu allt sitt líf og heilsan er farin, til dæmis gæti þetta verið fiskvinnslufólk, fólk í ummönnunarstörfum, sjúkraliðar og fleiri hópa mætti setja hér inn.

Þessi hópur hefur hreinlega ekki líkamlega krafta til þess að vinna eftir 67 ára, jafnvel þó það gjarnan vildi til þess að haldast inni í samfélaginu.

Flokkur 3 gæti verið fólk sem vill ekki vinna eftir 67 ára

Þessi hópur er búinn að skila sínu hlutverki og hefur lagt til efri áranna og telur að nú sé kominn tími til þess að njóta ávaxta erfiðisins.

Þessi hópur er ekki endilega orðinn útsltinn af erfiðisvinnu. Þetta er einfaldlega fólk sem getur hugsað sér að sinna til dæmis áhugamálum sem ekki hefur verið tími til þess að sinna á meðan unnið var úti og hópurinn hefur hlakkað til efri áranna. Þessi hópur hefur hlakkað til að geta ferðast til annara landa og kannski notið betra veðurs og skoðað sögu framandi landa.

Þetta er hópurinn sem hefur ekki eingöngu lifað fyrir vinnuna, en hefur þurft að láta hana ganga fyrir öllu öðru.

Sumir geta ekki hugsað sér að hætta að vinna því vinnan hefur verið félagslegur grunnur þess fólks og hætti það einangrast það og lífið verður autt. Þessi hópur er hins vegar þannig að hann á sér fleiri áhugamál en vinnuna og lífsfyllingin er ekki bara vinna, hún er lífið sjálft.

Flokkur 4 gæti verið fólk sem á réttindi í lífeyrissjóði

Þessi hópur hefur borgað skatta og skyldur til þjóðfélgasins alla sína tíð, hann hefur unnið og fylgt lögum og reglum og sparað lögbundna prósentu af launum sínum í lífeyrissjóð í þeirri trú að þegar að efri árum kæmi þá væri framtíðin björt.

Þegar þessi hópur skoðar málið kemur í ljós að hann er ekki alveg eins vel staddur og hann hélt. Þessi hópur fær eftirlaun frá TR en þau eru skorin niður vegna tekna sem hópurinn fær frá Lífeyrissjóði.

Misvitrum stjórnmálamönnum hefur tekist að krukka í lög og reglur og breyta tilgangi sparnaðar í Lífeyrissjóði, og notar nú kerfið sparnaðinn til þess að spara ríkinu greiðslur lögbundinna eftirlauna frá TR, sem urðu til vegna greiðslu skatta til þjóðfélagsins.

Margir eru á þeirri skoðun að sú eignaupptaka sé ólögleg og mikið rætt um að fara þurfi í mál til þess að hnekkja gjörningnum. Mikið hefur verið talað en ekki bólar á málssókninni og er hún bæði dýr og tímafrek og ekki fyrir einstaka eftirlaunaþega að fara út í slíkt ævintýri. Til þess að málssókn sé möguleg þarf að hafa stuðning frá mörgum.

Það er ekki hægt að senda málið til Mannréttindadómstóls. Fyrst þarf málið að fara fyrir öll dómsstig á Íslandi og tekur það óratíma, ekki síst þar sem líkur væru á að farið yrði fram á gjafsókn sem mundi draga málið. Undirbúningsvinna er líka gríðarleg og söfnun gagna og vitnisburður þeirra sem stóðu að málinu í upphafi og þeirra sem hafa síðan séð um framhaldið. Smátt og smátt fellur það fólk frá sem var við í upphafi og kannski glatast þekking þar.

Flokkur 5 gæti verið samsettur af fólki sem á ekki réttindi í lífeyrissjóði

Það geta verið ýmsar ástæður fyrir skorti á réttindum í lífeyrissjóði

Til dæmis gæti verið um öryrkja að ræða sem hefur verið öryrki allt sitt líf. Hann hefur ekki haft tök á því að spara í sjóð.

Það getur verið um að ræða fólk sem hefur einhverra hluta vegna ekki greitt skatta og skyldur til þjóðfélagsins og þar af leiðandi ekki heldur greitt í lífeyrissjóði. Ég veit ekkert hvort þetta fólk er til eða ekki, held þó að það geti verið og að minnsta kosti gætu réttindi verið af skornum skammti í lífeyrissjóði. Það eru til stéttir sem á árum áður áttu enga lífeyrissjóði til þess að greiða í.

Þessi hópur á rétt á greiðslum frá TR og fær þær. Þeir sem eru giftir fá strípaðan lífeyri en þeir sem búa einir fá félagslega aðstoð sem heitir “heimilisuppbót” og var sett á til þess að létta undir með þeim sem halda einir heimili því það er talið dýrara en þegar 2 eða fleiri búa saman.

Hvernig er svo ellilífeyrir frá TR reiknaður út?

“Heimilisuppbót” hefur hækkað mun meira en almennur ellilífeyrir í prósentu tölum.

Núna þegar þetta er skrifað er uppbótin 60.516 krónur á mánuði fyrir skerðingar.

Ellilífeyrir er krónur 239.484 á mánuði fyrir skerðingar

Frítekjumark vegna almennra tekna annarra en atvinnutekna er 25.000 á mánuði

Frítekjumark vegna atvinnutekna er 100.000 krónur á mánuði

Greiðslur frá TR falla niður ef tekjur fara yfir 557.187 krónur á mánuði

Áhrif tekna yfir frítekjumörkum ellilífeyris eru 45% skerðing en hins vegar eru áhrif tekna yfir frítekjumörkum á heimilisuppbót mun minni, eða 11,90% skerðing.

Uppbætur er hægt að fá búi einstaklingurinn á Íslandi. Til dæmis er hægt að fá uppbót vegna reksturs bifreiðar og nemur sú uppbót krónum 16.583. Uppbætur falla niður ef eignir í peningum og/eða verðbréfum fara yfir 4 milljónir hjá einstaklingi og 8 milljónum hjá hjónum.

Einhverjar niðurgreiðslur er hægt að fá þegar búið er á Íslandi og ýmsa afslætti hjá fyrirtækjum. Þar sem ég þekki ekki það mál læt ég öðrum eftir að telja þá þætti upp.

Einstaklingur sem fær 152 þúsund krónur frá Lífeyrissjóði stendur ekki mikið betur en sá sem aldrei hefur sparað í sjóð. Mismunurinn á útgreiddum launum mánaðarlega eftir að skattar hafa verið dregnir af er :

264.726 krónur sem fást eftir skatta fyrir þann sem fær 152 þúsund frá lífeyrissjóði

204.914 krónur sem fást eftir skatta fyrir þann sem ekki hefur neitt frá lífeyrissjóði

59.812 krónur er það sem sparnaðurinn færir þeim sem hefur greitt í Lífeyrissjóð framyfir þann sem eingöngu nýtur greiðslna frá TR.

Er þetta ekki eitthvað kengbogið kerfi?

Flokkur 6 gæti verið um þetta: Er til vinna fyrir alla sem vilja vinna eftir 67 ára?

Það eru rök sem hamrað er á þegar verið er að tala um frítekjumark vegna atvinnutekna að það sé svo dásamlegt fyrir fólk á efri árum að geta haldið áfram að taka þátt í atvinnulífinu og þar með þjóðfélaginu! Og að þess vegna þurfi að vera hærra frítekjumark fyrir þá sem vinna en þá sem hafa sparað í Lífeyrissjóði.

Þegar ég husta á þessi rök spyr ég alltaf hvort til sé vinna fyrir fólk sem er komið yfir 67 ára aldurinn?

Ég velti fyrir mér hvort allt í einu sé allt vaðandi í vinnu fyrir alla á Íslandi?

Ég velti líka fyrir mér hvers konar vinna er í boði fyrir þennan aldursflokk?

Er það vinna á kassa í bónus eða öðrum súpermörkuðum?

Er það vinna á sjúkrahúsum við þrif?

Er það vinna við ummönnun eldri borgara og sjúklinga?

Er það vinna við fiskvinnslu?

Er það vinna á sjó fyrir sjómennina?

Hvaða vinna er í boði fyrir þá sem eru orðnir slitnir af erfiðisvinnu í gegnum ævina og þrotnir af líkamlegum kröftum?

Eitthvað mikið hefur breyst á Íslandi ef allt í einu er til vinna fyrir alla sem vinna vilja sama á hvaða aldri þeir eru. Sú var tíðin að væri kona komin yfir 50 var ekki mikil von til þess að hún gæti skipt um vinnustað. Kannski er þetta bara allt svo gott í lala landi núna og nýja staðreyndin sú að allir geti fengið vinnu við sitt fag, sama hvað er.

Ég verð þó að leyfa mér að efast um að breyting í lala landi sé almennum eldri borgurum í hag varðandi vinnumarkaðinn.

Ég gæti best trúað að þeir sem berjast hvað harðast fyrir “allir út að vinna “ tilheyri flokki númer eitt ásamt formanni Landssambands eldri borgara og einhverra þingmanna sem hugsa sér að slá sér upp á gjörningnum.

Geðveikin í þessu öllu saman finnst mér líklega vera hálf eftirlaun fyrir þá sem hafa efni á því að taka hálf eftirlaun. Það er ekki fátæka fólkið sem þarf að velta fyrir sér hverri krónu alla daga mánaðarins. Nei það er enn ein gjörðin til þess að sjá um hina vel stæðu í þjóðfélaginu og gæta þess að þeir missi nú ekki af aurunum sem hinir vesælu almennu borgarar þurfa að sætta sig við.

Hafir þú efni á því að taka hálf eftirlaun frá TR og hálf frá Lífeyrissjóði eru engar skerðingar, ekki ein króna. Til þess að geta lifað af þessu þarftu auðvitað að vera nokkuð sæmilega stæður einstaklingur en hver spáir í það? Allt fyrir auðvaldið, rétt eins og sannast svo dásamlega á fjárlagafrumvarpi fyrir næsta ár þar sem venjulegt fólk, öryrkjar og eftirlaunafólk er skilið eftir en veiðigjöldin blessuð lækkuð svo ekki þurfi að koma til sveltis hjá þeim sem þau borga.

Réttlætið í lala landi er ekkert slor.

Niðurstaða mín er líklega sú að ekki sé hægt að samræma hópa eldri borgara og fá þá til þess að vinna saman að bættum kjörum fyrir ALLA. Auðvaldið verður líklega alltaf ofan á og hinir sitja eftir með sárt ennið. Misréttið eykst og hinir fátæku verða fátækari.

Hulda Björnsdóttir

 

Eru geðsjúklingar minna virði en aðrir sjúklingar?

 1. nóvember 2018

Fyrir nokkrum dögum lét ég inn á Facebook síðu mína færslu þar sem ég sagðist hafa eytt geðsjúklingi af vinalista mínum.

Ég gæti hugsanlega hafa sært einhvern vina minna og ætla því að útskýra hvers vegna og einnig að skoða viðhorf mitt til geðrænna vandamála því einn spurði hvort geðsjúkdómar væru eitthvað öðruvísi en aðrir sjúkdómar.

Gerðræn vandamál eru margvísleg, rétt eins og líkamlegir sjúkdómar eru ekki allir eins. Það er ekki það sama að vera með krabbamein og beinþynningu, svo dæmi sé tekið. Það er heldur ekki það sama að brjóta á sér fótinn og það að vera með kvef.

Auðvitað eru þetta öfgar en mér finnst þetta vera svona.

Geðræn vandamál til dæmis hjá alkóhólistum og eiturlyfjaneitendum eru staðreynd. Það gerir hins vegar þetta fólk ekki að verri manneskjum.

Margir öryrkjar stríða við depurð og vonleysi sem byrja oftar en ekki vegna hinna skelfilegu kjara sem þeim eru búin og hvernig komið er í veg fyrir að þeir, ef þeir hafa einangrast, komist aftur út í samfélagið. Margir öryrkjar sjá ekki dagsbirtu næsta dags og svartnættið er algjört og eina leiðin sem þeir sjá út úr þjáningunni er að svifta sig lífi.

Eldri borgarar sem eiga aldrei fyrir mat síðustu daga mánaðarins og geta oftar en ekki leyst út lyf sem þeir þurfa nauðsynlega til þess að geta haldið áfram að tikka í tilverunni eru líka oft það örvæntingarfullir að þeir sjá þann kost einan að taka lífið sitt, kannski það eina sem þeir eiga eftir og hafa yfirráð yfir.

Sálfræðingar eru til þess að hjálpa þeim sem eiga við geðræna kvilla að stríða.

Geðlæknar eru einnig til þess að hjálpa þessum sjúklingum og þegar ég var að læra sálfræði fyrir mörgum árum var mér sagt að munurinn á sálfræðingi og geðlækni væri að læknirinn gæti gefið lyf en fræðingurinn ekki.

Líklega eru fáir sem komast í gegnum lífið án þess að verða fyrir geðrænum áföllum einhvern tíman á ævinni. Sumir eru heppnir og fá hjálp til þess að vinna úr málunum og aðrir eru óheppnir og fá ekki þá hjálp sem þeir þurfa og sjúkdómurinn grasserar þar til hann verður meira og minna óviðráðanlegur.

Einstaklingurinn sem ég eyddi af Facebook lista mínum er í hópi þeirra sem líklega er löngu hættur að ráða við sjúkdóminn og kannski veigrar fólk sér við að grípa inn í og aðstoða viðkomandi. Þegar ég fékk vinabeiðnina hugsaði ég mig vel um áður en ég samþykkti viðkomandi. Mér þykir vænt um þennan einstakling og þekki hann nokkuð vel persónulega.

Það sem gerði útslagið og ég blokkaði þennan sjúka einstaking var þegar farið var að ráðast á mig persónulega með lygum. Sjúkdómurinn var greinilega komin á það stig að ég þurfti að forða mér því hver getur tekið ábyrgð á minni geðheilsu annar en ég sjálf?

Ég dáist að fólki sem hefur kjark og dug til þess að leita sér hjálpar og hefur tækifæri til þess að fá hjálp. Það eru því miður ekki allir. Margir sem eru orðnir öryrkjar hafa ekki efni á því að sækja sér dýra hjálp. Þannig býr þjóðfélag einnar ríkustu þjóðar heimsins að þeim sem eru veikir. Það er ekki sama að vera Jón og séra Jón á þessu ágæta forríka landi.

Ég finn til með þeim sem ekki geta einhverra hluta vegna fengið hjálp.

Geðræn vandamál eru ekkert annað en sjúkdómar rétt eins og krabbamein og aðrir áþreifanlegir kvillar. Þeir sem eiga við geðræn vandamál að stríða eru ekkert minna virði í huga mínum. Þjóðfélagið þarf að hjálpa því fólki rétt eins og sett er gifs á brot eða gefin lyf við háum blóðþrýstingi, svo dæmi séu nefnd.

Þegar ég samþykki fólk á vinalista minn á Facebook skoða ég upplýsingarnar sem fólkið gefur áður en ég samþykki það. Stundum eyði ég vinum af Facebook og stundum held ég í þá. Það fer allt eftir því hvort mér finnst eitthvað sameina okkur og ef ekki þá eyði ég þeim út. Það hefur ekkert að gera með hvort fólk er með einhverja líkamlega eða andlega kvilla í farteskinu. Það fer eftir því hvort vinirnir eru til þess að byggja mig upp eða draga mig niður.

Ég eyddi þessum einstaklingi sem ég talaði um í byrjun vegna þess að ég hef reynt að hjálpa en ekki tekist og aðrir þurfa að taka við. Ég óska þessum einstaklingi alls hins besta og vona svo sannarlega að hann fái hjálp.

Við erum öll með einhvers konar vandamál á bakinu sem tengjast andlegri líðan okkar. Ég þekki ekki eina manneskjum sem hefur ekki orðið fyrir einhverju í lífinu. Fólk er bara ekkert að bera þau vandamál á torg og persónugera á aðra. Þegar það ferli hefst forða ég mér.

Ég óska öllum bata, hvaða sjúkleika sem þeir eru að fást við, hvort sem það er andleg heilsa eða líkamleg. Ég vildi óska að stjórnvöld á Íslandi sæu að sér og settu fjármagn til þess að aðstoða þá sem þurfa á heilbrigðiskerfinu að halda, hvaða sjúkdóma sem um er að ræða. Hvort sú von rætist er svo allt annað mál.

Hafi ég sært einhvern vina minna með því að segja frá að ég eyddi sjúklingi af lista mínum þá bið ég innilega fyrirgefningar og það var ekki meiningin. Meiningin var að sýna fram á að við höfum val um hverja við viljum hafa í kringum okkur hvort sem það er í netheimum eða hinu raunverulega daglega lífi.

Hulda Björnsdóttir

 

 

Hugleiðing á laugardegi – Það er kaldur og dimmur laugardagur í litla landinu mínu

 1. nóvember 2018

Nokkrar hugleiðingar á laugardagsmorgni.

Ég hef eytt góðum tíma í dag við að hlusta á umræður á Alþingi um fjárlögin.

Undur og stórmerki hafa gerst.

Ég er sammála BB um eitt atriði. Hann sagði í ræðu sinni að ekki væri skynsamlegt eða rétt að þeir sem hafa háar atvinnekjur fengju frítekjumark sitt afnumið.

Ég er hjartanlega sammála manninum, aldrei þessu vant, og hef lagt á það áherslu í mínum málflutningi að þak þyrfti að vera á afnámi skerðinganna.

Í framhaldinu velti ég fyrir mér hverjir það eru sem hamast og heimta afnám skerðinga vegna atvinnutekna og sýnist mér það í flestum tilfellum vera þeir sem eru að vinna og sjá fram á að þeir geti haldið áfram að vinna eftir 67 ára aldurinn og vilji fá eftirlaun frá TR.

Þetta ágæta fólk, margt af því, minnist ekki á hvernig við sem höfum fylgt lögum á starfsæfi okkar og greitt í lífeyrissjóði til þess að eiga áhyggjulaust ævikvöld erum látin niðurgreiða það sem kemur frá TR.

Líklega veit þetta ágæta fólk ekki mikið um hvernig Almannatryggingakerfið virkar.

Ég verð bæði sár og reið fyrir hönd fjöldans sem hefur samviskusamlega greitt af launum sínum í Lífeyrissjóði og situr svo þegar upp er staðið nokkurn vegin við sama borð og þeir sem aldrei, einhverra hluta vegna, hafa sparað í þessa sjóði.

Sumir þeirra sem ekki hafa sparað hafa svikið undan skatti alla sína hundstíð og fá svo eftirlaun frá TR og finnst ekkert athugavert við það.

Formaður FF skrifar enn og aftur um hvernig lífeyrissjóðirnir séu að notfæra sér skatt sem við borgum af framlagi okkar í sjóðina. Ég hreinlega nenni ekki eina ferðina enn að reyna að koma konunni í skilning um að við greiðum EKKI skatta af framlagi okkar í lífeyrissjóð fyrr en við förum að taka út réttindi okkar og þeirri staðgreiðslu er skilað rétt eins og öllum almennilegum launagreiðendum ber að gera. Það hefur verið reynt að koma vitinu fyrir frúna í þessu máli í rúmt ár og ekkert gerist. Ég gefst upp og læt henni hér eftir að rugla út í eitt.

Að hlusta á umræður á Alþingi er ágætt.

Það hvarlar hins vegar að mér hvort þeir sem ég hallast að núna og gætu hugsanlega breytt aðstæðum öryrkja og aldraðra ásamt þeim sem minnst mega sín í íslensku þjóðfélagi mundu tala eins ef þeir væru við stjórnvölinn.

Er það ekki sorglegt að efinn um efndirnar og fallegu orðin vegi svo þungt í ljósi reynslunnar að jafnvel hið besta fólk njóti ekki vafans í hugum kjósenda?

Mér finnst það sorglegt.

Segjum að þessi ömurlega mannfjandsamlega stjórn fari frá og kosningar gangi í garð.

Hvað gerist?

Jú, allir flokkar, ALLIR FLOKKAR, lofa öllu fögru til þess að fá atkvæði kjósenda.

Síðan færu í stjórn Samfylking, Píratar og kannski Viðreisn. Ég hef ekki mikla trú á Viðreisn sem flokki fyrir venjulegt fólk. Ég mundi vona að ekki yrðu Miðflokksmenn við stjórnvölin og alls ekki MINI sjálfstæðisflokkurinn. Þá er nú fátt um fína drætti.

Líklega þurkast VG út eftir næstu kosningar en Sjálfstæðisflokkurinn á trygga kjósendur sem mundu örugglega veita honum brautargengi eina ferðina enn. Það virðist vera algjörlega vonlaust að koma þessu viðbjóðslega apparati græðgi og eiginhagsmunapotara frá. 30 prósent eldri borgara kjósa þetta aftur og aftur og aftur.

Græðgin mun líklega halda velli hversu oft sem kosið verður.

Loforð gleymast um leið og komið er í stjórnarstólana.

Hvað er til ráða?

Ég held að það þurfi að leggja niður Alþingi og ráða góðan erlendan framkvæmdastjóra fyrir landið. Það þýðir ekkert að hafa einhvern innlendan því hann kæmi án efa úr röðum eina prósentsins.

Auðvitað verður þetta aldrei gert.

Valdapotararnir þurfa sitt og allt stjórnkerfið er rotið í gegn og verður líklega ekki bjargað.

Ég vona að ég verði dauð þegar næsta hrun skellur á en líklega er ekki mikil von til þess að 10 ár líði áður en núverandi liði tekst að flytja peningana til skattaskjólslanda og gefa skít í þá sem eftir sitja.

Viðbjóðurinn er algjör og skrípasker er líklega réttnefni.

Það er ágætt að tala um að ég tali niður til þeirra einu sem eru að berjast fyrir aumingjana. Þeir sem svo tala lýsa sjálfum sér betur en ég get gert. Við erum ekki aumingjar eða minniborgarar eða undirmálsfólk. Við erum venjulegt fólk sem flest hefur fylgt lögum og reglum þjóðfélagsins og lagt okkar af mörkum í þeirri trú að þegar á bjátaði vegna örorku eða aldurs værum við vel undirbúin. Þeir sem kjósa að tala niður til okkar geta gert það en þeir ættu að halda sig á sínum heimavelli og láta okkur hin í friði.

Mér dettur ekki í hug að ganga í hóp þeirra sem trúa lýðskrumi og fagurgala. Það er ekki nóg að baða út öllum öngum og hafa hátt. Það er nauðsynlegt að vita hvað er verið að tala um og þekkja kerfið áður en farið er að bulla út í eitt, jafnvel úr hinum háæruverðuga ræðustól Alþingis og vera ámynntur þaðan er ekki vitnisburður um góða framkomu. Það er sterkara að sýna gott fordæmi en að æpa hátt.

Besta dæmið sem nú blasir við í heiminum er Trump og hans tryggu fylgifiskar.

Það er auðvelt að falla í sömu gildru og Trumps fylgjendur þegar lýðskrum tekur völdin og aumingja fólkið sem trúir skruminu rekur sig að lokum á og fellur með háum skelli.

Ég gagnrýni þegar mér finnst ástæða til og ég hrósa þegar mér finnst það eiga við. Það er engin skömm fyrir mig að viðurkenna ef ég hef haft rangt fyrir mér og kannast ég fúslega við það. Allar skoðanir eru jafn réttháar en kannski eru sumar hættulegri en aðrar eins og dæmin sanna.

Ég er mjög sjaldan sammála fjármálaráðherra en þegar ég hlustaði á hann í morgun tala fyrir því að ekki ættu allir rétt á að njóta afnáms skerðinga frá TR var ég sammála honum og viðurkenni það fúslega en það þýðir ekki að ég mundi eða muni yfirleitt nokkurn tímann kjósa flokk hans.

Hulda Björnsdóttir

 

 

Hvernig er hægt að hjálpa Wilhelm og konunni hans?

21.nóvember 2018

Hvernig er hægt að hjálpa Wilhelm og konunni hans að komast af án þess að skilja?

Ef þau skilja og búa ein fá þau hvort um sig heimilisuppbót að upphæð krónum 60.516

Wilhelm fær að vísu minna því hann er með lífeyrissjóðstekjur og þær niðurgreiða part af heimilisuppbótinni en kona hans á ekki réttindi í lífeyrissjóði og fengi því upphæðina óskerta.

Fyrir samþykkt nýju laganna um Almannatryggingar sem gengu í gildi árið 2017 var frítekjumarkið 109.600 krónur

Eftir samþykkt nýju laganna um Almannatryggingar var frítekjumarkið 25 þúsund krónur

Auðvelt er að hjálpa Wilhelm og konunni hans með því einu að hækka frítekjumarkið upp í 109.600 krónur.

BB lofaði að frítekjumarkið færi upp í 100 þúsund á einhverjum árum en nú er allt á blússandi góðæris róli og ekki nema sjálfsagt að hækka markið upp í 109.600 krónur fyrir allt liðið. Bara si svona Bjarni Benediktsson.

109.600 eru ekki 120 þúsund sem tvöföld heimilisuppbót er, en þar sem Willa tekjur frá Lífeyrissjóði skerða uppbótina hans þá held ég að þetta gæti komið nokkuð vel út fyrir hjónin.

Nú er ekkert annað en vinda sér í þetta.

Umræður um fjárlög eru á Alþingi og tilvalið að breyta þessu og hjálpa hjónunum út úr ógöngunum sem þau eru að komast í.

Ég efast ekki um að allir sjái hvað þetta er einfalt, það er að segja þeir sem ráða málum, alþingismenn.

Það er óþarfi að flækja einföld mál og hér er lausnin lögð á borð á silfurfati fyrir þingheim og ég efast ekki um að tillögunni verði tekið opnum örmum og samþykkt við umræðuna í dag. Ekki spurning!

Hulda Björnsdóttir

Wilhelm Wessman hittir naglann á höfuðið

21.nóvember 2018

Góðan daginn

Hér í Penela eru sýnishorn af veðri á 10 mínútna fresti. Það rigndi eins og allt væri að fara til fjandans í nótt og ég vaknaði upp klukkan 3 og hélt að nú færi allt á flot hjá mér, sem það gerði auðvitað.

Eftir svefnlitla nótt þá er eitt og annað sem mér liggur á hjarta en ég ætla nú einu sinni að reyna að einbeita mér að einu!

Í marga mánuði, og jafnvel ár, hef ég andskotast yfir bulli í ýmsum framámönnum þegar þeir hafa verið að tala um heimilisuppbót sem part af eftirlaunum frá TR.

Árangur hefur ekki verið mikill. 60 þúsund rúmlega sem heita heimilisuppbót skjóta upp kollinum hér og þar á tyllidögum.

Hvernig er hægt að fá fólk til þess að hætta þessu bulli og hætta að tala um félagslega aðstoð sem part af eftirlaunum? hef ég spurt aftur og aftur.

Svo gerist þetta:

Wilhelm Wessman skrifar og segir frá því að hann sé að hugsa um að skilja við konuna sína því þá fái þau hvort um sig rúmlega 60 þúsund krónum meira á mánuði frá TR.

Hann þyrfti reyndar að flytja frá henni og mætti alls ekki heldur búa hjá börnum sínum. Þau yrðu bæði að holast einhvers staðar alein til þess að fá þessar rétt rúmu 60 þúsund, sem svo auðvitað mundu skerðast hjá Willa þar sem hann fær greiðslur frá Lífeyrissjóði og eins og við vitum erum þær greiðslur notaðar til þess að niðurgreiða TR.

Ég hef ekki mikla trú á því að Willi og konan hans séu í alvöru að fara að skilja vegna þessara smáaura.

Hins vegar hefur honum tekist að vekja athygli á hversu fáránleg þessi heimilisuppbót er og það helgar svo sannarlega meðalið. Grein hans hefur verið deilt um allar trissur.

Frábært, nú eru margir að tala um fyrirbærið og hve rangt þetta fyrirkomulag er.

Ég vona svo sannarlega að Wilhelm fylgi þessu eftir og komi með tillögu um að eftirlaun verði þau sömu fyrir alla hvort sem þeir eru giftir eða ekki. Félagslegir pakkar eru fínir og eiga fullan rétt á sér en ekki til þess að mismuna fólki eftir hjúskaparstöðu eða búsetu.

Já, já, ég veit vel að þessi bót var sett til þess að hjálpa þeim sem búa einir af því það er dýrara en að búa fleiri saman. Það breytir ekki þeirri staðreynd að þetta er félagsleg aðstoð en ekki eftirlaun.

Hverjum dytti til dæmis í hug að tala um bílastyrk sem part af eftirlaunum frá TR?

Eins og þið sjáið hefur mér tekist þó nokkuð vel að einbeita mér að einu atriði og til þess að detta ekki í fleira hætti ég núna. Ég verð þó að segja að í allri umræðunni um þessar bévaðans heimilisuppbót er ALDREI talað um okkur ræflana sem búum ein í útlöndum og höfum samt greitt skatta og skyldur í 40 ár eða meira til íslenska ríkisins. Við fáum ekki heimilisuppbót. Við vorum svo ósvífin að taka þann kost að búa ekki við sult og seyru á Íslandi síðasta sprett ævinnar og auðvitað er sjálfsagt að taka upp vöndinn og refsa svoleiðis fólki. Skárra væri það nú.

Hulda Björnsdóttir