OPIÐ bréf til þingmanna sent með e-maili til allra þingmanna og vona ég að þeir opni mailið og lesi bréfið.

  1. nóvember 2018

OPIÐ bréf til þingmanna sent með e-maili til allra þingmanna og vona ég að þeir opni mailið og lesi bréfið.

Ég niðurgreiði greiðslu frá TR með sparnaði mínum í Lífeyrissjóð.

Vitið þið af þessu háttvirtu þingmenn?

Finnst ykkur þetta vera í lagi?

Ætlið þið að gera eitthvað í málinu?

Ég ætla að leyfa mér að sýna fram á hvernig mitt persónulega dæmi lítur út í krónum. Ég tek mig sem dæmi þar sem ég tilheyri ekki hópnum sem hefur aldrei greitt í Lífeyrissjóð, einhverra hluta vegna og ég tilheyri heldur ekki hópnum sem er allra verst settur í þessu kerfi. Ég tek mig sem dæmi vegna þess að hækki eftirlaun frá TR mun ég fá enn minna af tekjum mínum frá Lífeyrissjóði, sem ég hef þó greitt í samkvæmt lögum í 40 ár, eða alla starfsæfi mína á Íslandi.

Það er nefninlega þannig að í núverandi kerfi niðurgreiðir sparnaður minn í Lífeyrissjóð það sem ég á rétt á að fá frá Tryggingastofnun ríksins!

Lífeyrir minn eftir 40 ára starfsæfi og greiðslu skatta allan þann tíma er þessi:

Frá Lífeyrissjóði fæ ég krónur 152.000 á mánuði fyrir skatt

Frá Tryggingastofnun fæ ég krónur 182.334 á mánuði fyrir skatt

Samtals gerir þetta krónur 334.334 fyrir skatt, og eftir skatt eru þetta 264.726 krónur

Þar sem ég bý erlendis fæ ég ekki heimlisuppbót, sem ég fengi annars ef ég byggi ein og á Íslandi. Heimilisuppbót er ekki partur af lífeyri, hún er félagsleg aðstoð sem ég ætti rétt á ef búseta mín væri ekki erlendis.

Skoðum dæmið aðeins betur.

Ef ég fengi ekkert frá Lífeyrissjóði, hefði aldrei sparað í hann, þá væru tekjur mínar þessar:

Frá TR 239.484 krónur á mánuði fyrir skatta.

Eftir skatt væri upphæðin krónur 204.914 á mánuði.

Eins og ég sagði fyrr fæ ég greiddar krónur 152.000 á mánuði frá Lífeyrissjóði og verða þær til þess að lífeyrir frá TR lækkar um krónur 57.150 á mánuði fyrir skatt.

Greiðsla til mín frá Lífeyrissjóði niðurgreiðir lífeyri frá TR um 57.150 krónur á mánuði, er þetta ekki eitthvað einkennilegt?.

Annað sem ég vil einnig vekja athygli á er að mismunur á greiðslum til mín og þess sem aldrei hefur greitt í lífeyrissjóð eru krónur 59.182 eftir skatt.

Ég fengi kr. 264.726 eftir skatt

Sá sem ekki hefur greitt í lífeyrissjóð fengi kr. 204.914 eftir skatt

Ég fengi 59.182 krónum meira samkvæmt núverandi kerfi en sá sem aldrei hefur greitt í Lífeyrissjóð

Frítekjumark eftirlauna frá TR eru krónur 25 þúsund á mánuði.

Þá spyr ég:

Nú hefur gengið tekið á sig uppsveiflu svo um munar. Verðbólga fer væntanlega af stað. Laun frá Lífeyrissjóði hækka um verðbólgu prósentuna. Hvað gerist þá?

Hækki lífeyrir frá TR og hækki greiðslur frá Lífeyrissjóði vegna verðbólgu, hver greiðir þá hækkunina frá TR? Jú, hækkun Lífeyrissjóðstekna niðurgreiðir hækkunina hjá TR. Skerðingarkerfið er þannig.

25 þúsund króna frítekjumark breytist ekki

Jú, jú, það er 100 þúsund króna frítekjumark ef fólk er enn á vinnumarkaði.

Jú, það er líka hægt að taka hálfan ellilífeyri og fá óskertar greiðslur frá TR, auðvitað bara hálfar greiðslur, en engine skerðing þar.

Hver hefur efni á því að taka hálfan ellilífeyri?

Er það fólk eins og ég sem niðurgreiðir það sem greitt er frá TR?

Nei, það eru þeir sem einhverra hluta vegna hafa það góðar tekjur að þeir þyrftu ekki endilega að sækja um ellilífeyri frá TR.

Venjulegt fólk, fólk eins og ég, getur ekki frestað því að taka eftirlaun frá TR. Venjulegt fólk eins og ég er ekki par hrifið af því að hafa borgað í lífeyrissjóð alla sína starfsæfi og niðurgreiða svo þau réttindi sem hafa áunnist við það að greiða skatta og skyldur til samfélagsins.

Skerðingar vegna greiðslna úr Lífeyrissjóði eru til háborinnar skammar fyrir íslensk þjóðfélag.

Alþingismenn geta, ef þeir vilja, fundið peninga í hýtinni til þess að afnema þessar skerðingar hjá venjulegu fólki en auðvitað þyrfti að vera þak á gjörningnum.

Ég sé ekki ástæðu til þess að sá sem hefur t.d. milljón á mánuði í tekjur, einhverjar tekjur, eigi að fá greitt frá opinberu kerfi. Þeir sem svo er ástatt fyrir geta séð um sig sjálfir á meðan við hinn venjulegi lítilmótlegi eldri borgari sem byggði upp þjóðfélagið fyrir þá sem nú sitja hið háa Alþingi eiga ekki að þurfa að niðurgreiða með sparnaði sínum það sem þeim er skammtað með lögum í ellilífeyri frá TR.

Einhver gæti sagt að mér væri heitt í hamsi.

Já, það er rétt.

Ég vona að alþingismenn sjái sóma sinn í því að opna þetta mail frá mér og lesi það. Setjist síðan niður og hugleiðið málið. Ég gæti verið ættingi ykkar. Ég gæti verið móðir ykkar. Ég gæti verið einhver úti í bæ og ekkert skyld ykkur.

Það sem ég er, ásamt svo mörgum öðrum, er eldri borgari sem er ekki par hrifinn af stjórnaháttum sem passa upp á að eldri borgarar geti helst ekki lifað og fyrir víst ekki haft mat á diskinum sínum alla daga mánaðarins.

Það eru til peningar.

Spurningin er einfaldlega í hvað þeir eru notaðir.

Ríkið er ekki síður ég og fátæku eldri borgararnir, en þú ágæti þingmaður, sem þarft líklega ekki að kvíða eftirlaunadeginum þínum.

Nú er kominn tími til þess að sýna manneskjuhliðina og afnema skerðingar á eftirlaunum frá TR og setja þak á skerðingarnar. Þeir sem hafa milljón á mánuði eiga ekki að fá eftirlaun frá TR.

Virðingarfyllst

Hulda Björnsdóttir

Skerðingar tekna frá Almannatryggingum eru aðalmálið

27.október 2018

Góðan daginn.

Það eru einhverjir sem skrifa jafnt og þétt á Facebook og í blöð og krefjast þess að ellilífeyrir frá TR hækki, og ekki bara að hann hækki heldur að hann skuli hækka STRAX.

Hvað lífeyririnn á að hækka mikið er svolítið á reiki hjá skríbentunum, og ekkert eðlilegra en að fólk hafi mismunandi skoðun á upphæðinni.

Það er ágætt að hrópa og heimta hærri lífeyrir frá TR en það er líka sniðugt að setjast aðeins niður og skoða hvað hækkun hefði í för með sér og hverjum hún mundi skila auknum tekjum.

Auðvitað á ég að vita það að verið er að tala um ÞÁ LÆGST LAUNUÐU SEM EKKI SKRIMTA AF ÞVÍ SEM TRYGGINGAKERFIÐ SKAMMTAR ÞEIM.

Það er líka talað aftur og aftur um þá sem ekki njóta neinna annara tekna en þeirra sem TR skammtar.

Ég ætla að leyfa mér að sýna fram á hvernig mitt persónulega dæmi lítur út í krónum. Ég tek mig sem dæmi þar sem ég tilheyri ekki hópnum sem hefur aldrei greitt í Lífeyrissjóð, einhverra hluta vegna og ég tilheyri heldur ekki hópnum sem er allra verst settur í þessu kerfi. Ég tek mig sem dæmi vegna þess að hækki eftirlaun frá TR mun ég fá enn minna af tekjum mínum frá Lífeyrissjóði, sem ég hef þó greitt í samkvæmt lögum í 40 ár, eða alla starfsæfi mína á Íslandi.

Það er nefninlega þannig að í núverandi kerfi niðurgreiðir sparnaður minn í Lífeyrissjóð það sem ég á rétt á að fá frá Tryggingastofnun ríksins!

Lífeyrir minn eftir 40 ára starfsæfi og greiðslu skatta allan þann tíma er þessi:

Frá Lífeyrissjóði fæ ég krónur 152.000 á mánuði fyrir skatt

Frá Tryggingastofnun fæ ég krónur 182.334 á mánuði fyrir skatt

Samtals gerir þetta krónur 334.334 fyrir skatt, og eftir skatt eru þetta 264.726 krónur

Þar sem ég bý erlendis fæ ég ekki heimlisuppbót, sem ég fengi annars ef ég byggi ein og á Íslandi. Heimilisuppbót er ekki partur af lífeyri, hún er félagsleg aðstoð sem ég ætti rétt á ef búseta mín væri ekki erlendis.

Skoðum dæmið aðeins betur.

Ef ég fengi ekkert frá Lífeyrissjóði, hefði aldrei sparað í hann, þá væru tekjur mínar þessar:

Frá TR 239.484 krónur á mánuði fyrir skatta.

Eftir skatt væri upphæðin krónur 204.914 á mánuði.

Eins og ég sagði fyrr fæ ég greiddar krónur 152.000 á mánuði frá Lífeyrissjóði og verða þær til þess að lífeyrir frá TR lækkar um krónur 57.150 á mánuði fyrir skatt.

Greiðsla til mín frá Lífeyrissjóði niðurgreiðir lífeyri frá TR um 57.150 krónur á mánuði, er þetta ekki eitthvað einkennilegt?.

Annað sem ég vil einnig vekja athygli á er að mismunur á greiðslum til mín og þess sem aldrei hefur greitt í lífeyrissjóð eru krónur 59.182 eftir skatt.

Ég fengi kr. 264.726 eftir skatt

Sá sem ekki hefur greitt í lífeyrissjóð fengi kr. 204.914 eftir skatt

Ég fengi 59.182 krónum meira samkvæmt núverandi kerfi en sá sem aldrei hefur greitt í Lífeyrissjóð

Frítekjumark eftirlauna frá TR eru krónur 25 þúsund á mánuði.

Þá spyr ég:

Nú hefur gengið tekið á sig uppsveiflu svo um munar. Verðbólga fer væntanlega af stað. Laun frá Lífeyrissjóði hækka um verðbólgu prósentuna. Hvað gerist þá? Hafa skríbentar hækkaðs lífeyris frá TR skoðaða það mál?

Hækki lífeyrir frá TR og hækki greiðslur frá Lífeyrissjóði vegna verðbólgu, hver greiðir þá hækkunina frá TR? Jú, hækkun Lífeyrissjóðstekna niðurgreiðir hækkunina hjá TR. Skerðingarkerfið er þannig. 25 þúsund króna frítekjumark breytist ekki. Ég hef ekki séð skríbentana tala um að það eigi að hækka.

Enn eina ferðina held ég því fram að það þurfi að hafa hugsað málið til enda þegar farið fram með kröfur um að þetta og hitt sé ekkert mál að leiðrétta strax.

Það þarf að skoða allann hópinn, ekki bara neðsta þrepið.

Ég hef sagt það 170 sinnum að skerðingarnar eru aðalmálið. Það er svo ótrúlega heimskulegt og brýtur í bága við allt hvernig við sem höfum sparað í Lífeyrissjóði, og farið eftir lögum um þann sparnað, erum látin niðurgreiða það sem greitt er frá Tryggingastofnun Ríkisins.

Einhver heldur því fram í dag að ný forysta ASÍ sem kosin var í gær sé handónýt.

Það getur vel verið að hún sé það, ég veit ekkert um það. Ég er svo heimsk að halda að þeir sem taka við forystu, hvar sem er, þurfi tíma til þess að sýna fram á að þeir séu starfi sínu vaxnir. En auðvitað er ég bara heimsk kona sem ekki er takandi mark á, eða hvað?

Ég er á þeirri skoðun að verkalýðsforystan í heild muni snúa sér að því að leiðrétta hið hörmulega óréttlæti, sem þeir sem fá tekjur úr lífeyrissjóði þurfa að sæta.

Forystumaður í FEB sagði á dögunum að ekki ætti að skammast út í FEB og stjórn þess félags. Skammast ætti út í ríkisstjórn því þar væri valdið.

Við forystu FEB og LEB vil ég segja þetta:

Ég og hinn almenni borgari sem kominn er á eftirlauna aldur erum ekki með þúsundir félagsmanna á bak við okkur. Ég og hinn almenni borgari á eftirlauna aldri þurfum að reiða okkur á forystu félaga eldri borgara og að sú forysta berjist fyrir bættum kjörum okkar rétt eins og verkalýðsfélag berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna. Ég og hinn almenni eftirlaunaþegi höfum ekki þann aðgang að ríkisstjórn og þingheimi sem félag með tugi þúsunda manna á bak við sig hefur.

Forysta FEB og LEB verður áfram að búast við því að við, þessir vanþakklátu uppreisnarseggir, fylgjumst með því sem hægt er að fylgjast með af baráttu þessara samtaka. Upplýsingarnar eru nú reyndar ekki fljúgandi eða fljótandi til okkar vesæls almenningsins sem er þó að reyna að harka af sér og drepast ekki úr hungri eða vosbúð.

Að lokum þetta:

Ég fann hvernig kviknaði von í brjósti mér þegar síðasta stjórn FEB var valin.

Ég verð að viðurkenna að sú von hefur fölnað og fjarað út rétt eins og eldurinn í arninum mínum gerir ef ég bæti ekki á hann nýjum spýtum.

Ég fæ kr. 264.726 eftir skatt jafnvel þó ég fái 152 þúsund frá Lífeyrissjóði

Sá sem ekki hefur greitt í lífeyrissjóð fæ kr. 204.914 eftir skatt

59.182 krónur flytja mig í velmegunar hóp, samkvæmt þeim sem tala um baráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara.

Er ég svo ýkja mikið betur sett en þeir sem hafa einungis eftirlaun frá Tryggingastofnun?

SKERÐINGAR VEGNA SPARNAÐAR Í LÍFEYRSSJÓÐ, ættu að vera forgangsmál þeirra sem tala um leiðréttingu á kjörum eldri borgara.

Auðvitað verður að vera þak á frítekjum. Það er enginn heilvita maður að tala um að þeir sem hafa “ofurtekjur” séu að fá það sama frá TR og sá sem er með 152 þúsund á mánuði í tekjur. Það þarf ekkert að taka þetta fram, bara augljós staðreynd.

Hulda Björnsdóttir

Virðist það of gott til að geta verið satt er það líklega ekki satt!

  1. október 2018

Góðan daginn.

Ég er enn fjúkandi ill yfir því að Sjónvarp og dagblöð skuli birta bullið um skattleysi okkar hér í Portúgal og gylliboð Ástþórs á sama tíma og þessar ágætu stofnanir sjá ekki ástæðu til þess að birta tölur um hvernig búið er að eldri borgurum á Íslandi.

Maður eins og Ástþór sem hefur langan slóða á eftir sér virðist geta komið fram í sjónvarpi og dagblöðum aftur og aftur með sama málið.

Ég er líka undrandi á því hvernig fólk skrifar um málefni sem það hefur akkúrat enga hugmynd um og vitleysan sem haldið er fram er fyrir ofan minn skilning og er ég þó nokkuð vel gefin.

Mér datt í hug hvort það gæti verið t.d. að fólk sem setur langt og mikið blogg á DV viti ekki muninn á HAGSTOFU OG ÞJÓÐSKRÁ.

Ég á frekar bágt með að trúa því að Hagstofa sé að skipta sér af búsetu fóks, það er hlutverk Þjóðskrár, eða var það þegar ég fékk bréf um árið.

Ég veit að nú fæ ég líklega í hausinn einhverjar skammir en ætla þó að leyfa mér að setja eftirfarandi fram:

Eftir að ég skoðaði grúppur sem gætu hugsanlega haft Íslendinga búsetta í Portúgal innanborðs fann ég 2. Þær eru líklega fleiri en ég nenni ekki að leita.

Ástþór er að bjóða fólki upp á að svíkjast undan þvi að greiða til samfélagsins skatta og skyldur.

Ég veit að erlendis búa nokkrir íslenskir einstaklingar sem eru eftirlaunaþegar og þiggja eftirlaun sín frá Íslandi en eru skráðir til heimilis á Íslandi.

Ég þekki persónulega dæmi um þetta svo ég er ekki að fullyrða eitthvað út í bláinn. Því miður eru líka einhverjir öryrkjar sem leika þennan leik líka.

Eftirlaunaþegi sem er skráður ranglega á Íslandi heldur öllum bótaréttindum.

Eftirlaunaþegi sem er skráður löglega í landinu þar sem hann býr meira en 6 mánuði á ári missir heimilisuppbót og aðrar uppbætur, sama gildir um öryrkja.

Það er sorglegt að kerfið á Íslandi skuli vera þannig að fólk sjái sér hag í því að sveigja í kringum það. Það væri nær að búið væri svo að þeim sem eru komnir á eftirlauna aldur að þeir gætu farið eftir þeim reglum sem í gildi eru.

Ég hef oft sagt að það eigi að hætta að tala um heimilisuppbót sem part af eftirlaunum frá TR. Hún er félagsleg aðstoð og er bara fyrir suma.

Þessi dæmalausa uppbót mismunar eftirlaunaþegum harpallega og er í alla staði óréttlát að ég tali nú ekki um hvernig hún hefur hækkað mun meira en ellilífeyririnn sjálfur.

Ég ráðlegg fólki sem er að hlusta á Ástþór og hans útsendara að tala við RSK áður en fólk lætur peningana sína í hendur grúppunnar.

Ég bendi fólki líka á að þegar það spyr grúppufélaga um eitt og annað varðandi Portúgal þá breytast hlutirnir mjög hratt í landinu og það sem var í gildi fyrir 3 árum, að ég tali nú ekki um 8 árum, getur hafa snúist í marga hringi.

Aðgengi að bönkum og stofnun reikninga er allt annað í dag en það var fyrir örfáum árum.

Aðgengi að lánum fyrir eftirlaunaþega í Portúgal er ekki rétt eins og að drekka vatn.

Skattareglur í landinu eru flóknar og ekki hægt að gefa einhverja eina formúlu um hvað skattar séu háir. Það er prósenta í gangi, stigskipt eftir tekjum, en ýmislegt spilar inn í og getur haft áhrif á hve háir skattarnir eru.

Ég gæti hugsanlega gefið þeim sem hyggja á flutning til landsins það ráð að tala við Portúgala sem búa eða vinna á Íslandi. Það er fullt af þeim og þeir vita hvernig aðstæður eru í landinu.

Það getur vel verið að einhverjum detti í hug að allir tali ensku hér í landinu og ekki þurfi að hafa áhyggjur af málaerfiðleikum t.d. þegar farið er til læknis, á spítala eða bara á opinbera stofnun. Það er fullt af stofnunum hér í landi þar sem enginn, nákvæmlega enginn talar ensku og þá þarf að grípa til Portúgölsku. Öll pappírsvinna er á portúgölsku.

Eru þeir sem velta fyrir sér flutningi til landsins tilbúnir til þess að læra málið?

Það getur vel verið að íslenskt fólk sem býr í Portúgal sé allt strangheiðarlegt. Ég ætla ekkert að hafa neina skoðun á því, hver og einn getur svarað sinni samvisku.

Mér er vel kunnugt um að á Spáni finnst mörgum það ekki tiltökumál að svindla á kerfinu á Íslandi en auðvitað eru það líklega undantekningar en ekki reglan.

Ég þekki persónulega dæmi frá Bandaríkjunum þar sem ágætt fólk hefur svindlað í áratug og komist upp með það vegna aumingjaskapar míns meðal annars um að tilkynna ekki plottið.

Eftirlaun og bætur öryrkja eru til háborinnar skammar á Íslandi.

Ég hef sagt þetta hundrað og sjötíu sinnum að minnsta kosti og lítið þokast. Það er þó von núna þegar verkalýðsforysta er að taka málefni þessara hópa inn í baráttu verðandi kjarasamninga. Einhvern vegin þarf að koma í veg fyrir að regluverkið sé þannig að það bjóði upp á svik og svínarí. Sé það gert komast menn eins og Ástþór og co ekki inn í fjölmiðlana með gylliboð sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og vekja upp vonir hjá fólki sem þegar á hólminn er komið eru loftbólur og ekkert annað.

Þið sem eruð að skoða tilboð Ástþórs gætuð til dæmis skoðað hvað hann sagði fyrir ári um Valhalla dæmið. Þið gætuð líka skoðað þetta með að hann sé að fara að byggja heilt hverfi. Var hann ekki að tala um þetta í maí? Ganga framkvæmdir eitthvað skrykkjótt hjá herranum?

Ég nenni ekki að tala um veðrið eða byggingalag og hvað það er dásamlega hlýtt yfir veturinn og gott fyrir gigtarsjúklinga að vera í litla landinu mínu, landinu sem mér þykir nú orðið svo ósköp vænt um og ætla að bera beinin í og láta svo dreifa mér yfir hafið á endasprettinum.

Ég ætla ekki heldur að tala um dauðaslysin sem eru á hverjum degi og skógareldana sem hafa svift landið skjóli frá ógnarvindi og lagt heilu þorpin í rúst og drepið fólk sem hefur verið að reyna að komast undan logunum sem læstu sig svo inn um bílrúðurnar.

Nei, ég ætla ekki að tala um þetta. Ég ætla bara að biðja fólk að trúa ekki Ástþóri, því hann lýgur lengra en hann mýgur.

Hulda Björnsdóttir

Eru íslenskir fjölmiðlar í þöggunarham?

20.október 2018

Góðan daginn

Hér í Penela er fallegt vetrarveður, sól og sæmilega hlýtt þar sem hún skýn.

Viðurinn kemur í hús í dag og þá get ég hitað upp með arninum. Þegar kólnar meira verður sentral hitunin sett í gang og þá fljóta evrurnar eins og iðandi foss út um gluggann.

Það er munur á því að borga 8 evrur á mánuði fyrir gas og stökkva svo yfir veturinn upp í 3 eða 4 hundruð. Ég er auðvitað kuldaskræfa með of þröngar æðar og skildi vetrar snjóbuxurnar eftir á Íslandi fyrir mörgum mörgum árum. Það væri oft gott að hafa þær hér í litla landinu mínu en vonandi halda þær hita á einhverjum Íslendingi sem þarf þeirra með. Þær voru góðar!

Jæja, nú er ég komin langt út fyrir erindið.

Hvers vegna sest ég niður núna og skrifa?

Jú, ég hef verið að hugleiða svolítið hvernig fólk sem skrifar um kjör eldri borgara og öryrkja finnur fjölina sína.

Einhverjir virðast hafa greiðan aðgang að fjölmiðlum og er það fínt.

Aðrir hafa líklega ekki aðgang að einu eða neinu öðru en Facebook.

Einhverjir hafa sett upp sérstakar bloggsíður og enn aðrir hafa sett upp sér síður á Facebook.

Félag eldri borgara í Reykjavík og nágrenni heldur úti þáttum í sjónvarpi þar sem fjallað er um málefni þeirra sem standa sæmilega að vígi, sýnist mér.

Og einn netmiðill er í loftinu, það er að segja einn sem ég veit um, kannski eru þeir fleiri.

Þá eru það einstaklingarnir sem skrifa á Facebook síðuna sína og hafa kannski ekki aðgang að neinu öðru.

Síðast en ekki síst eru svo þeir sem hvorki hafa Facebokk, blogg, netmiðil eða aðgang að fjölmiðlum. Þessi hópur talar sín á milli og við vini og kunningja um málefnin.

Þetta eru leiðirnar sem mér detta í hug í augnablikinu.

Nú bregður svo við að þeir sem hafa getað farið í fjölmiðla þegar þeim hefur líkað, halda því fram að fjölmiðlar séu komnir í vont hlutverk og kannski orðnir óvinir viðkomandi.

Það er talað um ÞÖGGUN og ég bíð spennt eftir því að nú komi upp hróp um að fjölmiðlar, langflestir, séu orðnir ÓVINIR ÞJÓÐARINNAR.

Ég hef trú á fjölmiðlum.

Ég hef hins vegar ekki hugmynd um hvað fjölmiðlum finnst merkilegt og hvað ekki.

Ég fer ekki í fýlu ef fjölmiðill vill ekki birta það sem ég er að skrifa um málefni sem liggja mér þungt á hjarta. Eg bíð bara róleg eftir því að minn tími komi.

Það eru margar leiðir til í baráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja.

Ég er þó farin að hallast að því að best sé að snúa sér beint til þingheims. Það tekur tíma að ná athygli þeirra, sérstaklega ef maður er ekki á landinu.

Þolinmæði er það sem ég hef verið að argast við. Þolinmæði og að gefast ekki upp. Ég held að það sé líka nokkuð vænlegt til árangurs þegar verið er að heimta að kjör eldri borgara og öryrkja séu leiðrétt STRAX að benda á hvar peningarnir sem á að nota strax séu niður komnir.

Það er ekkert endilega víst að þingheimur hafi komið auga á STRAX peningana og þá er auðvitað ekkert auðveldara en að þeir sem skrifa kannski dag eftir dag eftir dag eftir dag um að leiðrétta SKULI kjörin STRAX bendi þingheimi á í hvaða skúffu skuli fara.

Það er ánægjulegt þegar þingmenn taka eftir því sem verið er að skrifa. Ég er sannfærð um að fleiri en þeir sem hafa orð á því hvað þeir hafa lesið, hafa séð skrif og vaknað aðeins til hugsunar sem er örlítið á skjön við það sem venjulega er. Það er hins vegar óþarfi og ekki vænlegt til árangurs að æpa um þöggun og valdnýðslu fjölmiðla þó þeir birti ekki allt sem kemur til dæmis á Facebook eða á blogg síðum.

Ég er sannfærð um að engin þöggun sé í gangi. Fréttamat er bara misjafnt og getur breyst á einu augnabliki.

Einn góðann veðurdag verða fjölmiðlar ábyggilega fullir áhuga á málefnum eldri borgara. Það þarf bara þolinmæði og þrautseigju þeirra sem eru að vekja athygli á málefninu og óþarfi að fara í fýlu þó BESTI STAÐUR færist til í einhverju blaði.

Þorlinmæðin borgar sig yfirleitt.

Ég ætti kannski að enda þetta með því að berja mér aðeins á brjóst! Nei, ég held ég geymi það til betri tíma, og kannski þarf ég bara ekkert að berja mér brjóst.

Ég er bjartsýnni núna en ég var fyrir nokkrum vikum. Ég held að ég hafi fundið part af fjölinni minni og líklega fylgir heil spýta í kjölfarið.

Hulda Björnsdóttir

Gengið er farið til andskotans – takk fyrir að tala endalaust um það baráttufólk fyrir eldri borgara!

17.okbóber 2018

Ég er öskureið.

Hefur einhver hér séð mig segja þetta áður?

Líklega, en ekkert sérlega oft þó.

Á örfáum dögum hef ég orðið fyrir launatapi sem nemur hvorki meira né minna en 26.628 krónum.

Gengið fellur og þetta er einfaldlega staðreynd hvernig ég kem út í dag og líklega enn verra á morgun þar sem hátökk krónunnar heldur áfram.

Tugir þúsunda íslendinga hafa flúið örbirgð á landinu og sest að í útlöndum í þeirri von að geta lifað dag frá degi án þess að þurfa að óttast að hafa ekki mat næsta dag.

Þessir Íslendingar hafa ekki hátt.

Þessir Íslendingar eru eftirlaunafólk og öryrkjar ásamt fátæku ungu fólki.

Á Íslandi er gamall pólitíkus sem skrifar fjálglega á hverjum einasta degi um að hækka skuli bætur TR og það skuli gera strax. Þessi ágæti pólitíkus vill ekki að honum sé mótmælt og segir að ég eigi ekki að vera að skrifa á móti honum. Nú er hann búinn að afreka að fá 7.905 manns til þess að setja nafn sitt við undirskriftasöfnun, sem var EKKI aðgengileg fyrir ALLA, og gaurinn kominn með mynd af sér ásamt fríðu föruneyti afhenda Steingrími listann.

Heimska sumra er svo ótrúlega dásamleg að meira að segja mig skortir orð.

Talar Björgvin og frúin sem var ábyrgðarmaður fyrirbærisins einhverntíman um þá Íslendinga sem hafa flúið land?

Tala þau einhvern tíman um hvernig eftirlaun frá TR eru skert vegna sparnaðar í Lífeyrissjóði?

Tala þau einhvern tíman um hina margfrægu heimilisuppbót sem hækkað hefur stórkostlega á meðan eðlilegum eftirlaunum hefur verið haldið niðri?

Tala þau einhvern tíman um þá sem hafa safnað áratugum saman í Lífeyrissjóð og niðurgreiða svo það sem kemur frá TR?

Og þá kem ég að rúsinunni í pylsuendanum.

Talar þetta fólk einhvern tíman um hvernig gengið, sem nú er handstýrt af valdagráðugri ríkisstjórn, fer með fólkið sem hefur flúið landið til þess að svelta ekki?

Nei, nú er fátt um lausnir og hefur reyndar alltaf verið. Það er hægt að heimta og heimta dag eftir dag og segja í sjónvarpi að þeir sem hafi rétt yfir 200 þúsund á mánuði komist ekki af og þurfi að fá aðstoð frá ættingjum eða bara eitthvað. Flott var það þegar ég horfði og hlustaði. Alveg hreint eins og út úr munni forhertra pólitíkusa sem hafa ekki hugmynd um hvernig venjulegt fólk lítur út.

Gengið á hástökksbraut hefur ekki bara áhrif á okkur sem höfum flúið landið. Það hefur áhrif á allt láglaunafólk á Íslandi hvaða hópi sem það tilheyrir.

Verðlag á landinu hækkar.

Lánin hækka.

Verðbólgan fer af stað.

Þeir sem eiga peninga koma þeim úr landi og er skítsama um “aumingjana”.

Eina prósentið sem á allt á landinu og lætur þjóðina borga hvert tapið á fætur öðru er nú himinlifandi yfir því að loksins loksins loksins sé komin gengisfelling!

Já, þetta hét gengisfelling og var venjulega gert í einu stökki t.d. þegar DO var við völd.

Nú er auðvtiað búið að finna upp fínna orð og kallast þetta sig.

Þeir sem berjast fyrir fátæka fólkið eru grútmáttlausir vegna heimsku. Þeir eru í fína skókassanum og fara ekki upp úr honu, líta ekki einu sinni út fyrir brúnina á kassa greyinu.

Er frú bandamaður öryrkja núna að þenja sig?

Er frúin flutt út og búin að fá sér nýja íbúð eða er hún enn á spenanum?

Tek þetta bara sem dæmi án þess að ætla að vera andstyggileg. Skattpeningar fátæka fólksins borga fyrir frúna formanns launin, er það ekki?

Viðbjóðslegt eiginhagsmunapot fárra er að éta íslenskt þjóðfélag innan frá og það er orðið holt og springur eins og graftarbóla rétt bráðum.

Jú, það var eitt svo VOÐA merkilegt við könnunina.

Steingrímur tók henni vel!

Hvaða endemis fíflalæti eru þetta?

Bjóst einhver við því að maðurinn yrði með fýlusvip og dónaskap fyrir framan sjónvarpsvélarnar?

Nei, líklega skemmtir skrattinn sér vel, hvar svo sem hann er niðurkominn núna, þegar hann horfir á íslenskt baráttufólk fyrir suma mega vart halda vatni yfir afreki sem verður lengi í mynnum haft, á sama tíma og ALDREI er minnst á aumingjana sem þurfa að taka á sig birgðar gengisfellingar og missa heimili sín og alla reisn.

Skrattinn sér í gegnum hræsnina og hlær dátt.

Ég sé líka í gegnum hræsnina en ég hlæ ekki.

Ég þjáist með fátæka fólkinu á Íslandi og ég er öskureið yfir því að enn og aftur er verið að stela af eftirlaunum mínum og forysta eldri borgara segir ekki neitt, ekki MÚKK.

Ég er æfareið og þið sem ætlið að bera í bætiflákann fyrir hræsnina getið auðvitað gert það en hugleiðið smávegis að þeir sem virkilega eru að berjast þurfa ekki að standa á torgum og berja sér á brjóst.

Alvöru baráttufólk berst með öllum tiltæknum ráðum og lætur ekki mikið fyrir sér fara.

Sem betur fer er til þannig fólk, þið hafið bara ekki komið auga á það. Það verður barátta þessa auðmjúka fólks sem mun koma á betra þjóðfélagi á meðan skrumararnir falla um eigin lappir.

Hulda Björnsdóttir

Stormurinn heltók landið

14.október 2018

Góðan daginn gott fólk.

Ég veit að margir íslenskir vinir mínir voru áhyggjufullir vegna ofsaveðursins sem gekk yfir litla landið mitt í nótt.

Klukkan rúmlega 10 í gærkvöld fór rafmagnið af í litla bænum mínum og enginn sími og internet.

Nú er kominn sunnudagur og veðrið gengið niður að mestu.

Ég viðurkenni fúslega að í gær var ég kvíðin. Ég kveið fyrir ofsarokinu sem hefur komið hér stundum á þessum tæpum 8 árum sem ég hef búið hérna en nú vissi ég að það sem hafði dunið yfir áður gæti verið smámunir miðað við það sem í vændum var.

Reyndin varð líka sú. Rokið sem dundi á í nótt og gærkvöld var eins og það versta sem ég upplifði í Kína.

Upp úr klukkan 9 í gærkvöld var farið að hvessa verulega og vandræðin byrjuð í Porto. Portó er þó nokkuð fyrir norðan mig, um það bil 200 km í norður. Ég sá í fréttunum að tré væru tekin að falla í borginni og rigning og rok vaxandi.

Það færðist yfir mig einhver undarleg ró og ég vissi að ég hafði gert allt sem ég gat til þess að verjast ófreskjunni og nú var bara að vona hið besta og sitja veðrið af sér.

Einhver spurði mig hvort ekki væri hægt að fara eitthvað í skjól, til dæmis í shelters eða bara eitthvað? Nei það er ekkert svoleiðis hér. Við björgum okkur bara sem best við getum þar sem við erum niðurkomin.

Upp úr klukkan 10 skall rokið á með ofsaþunga í bænum mínum og rafmagnið fór, ég vissi að nú væri líklega vonin það eina sem eftir væri í bili.

Það hristist allt og skalf, rigningin lamdi glugga og veggi og ef eitthvað lauslegt var einhvers staðar þaut það af stað með ofsahraða. Sem betur fór virtust íbúar götunnar minnar hafa búið sig undir ófreskjuna og flestir tekið allt lauslegt inn en bílarnir stóðu úti og svo auðvitað gróðurinn. Það var ekki hægt að færa trén. Nú reyndi á hversu sveigjanleg þau yrðu.

Eins og ég hef stundum sagt frá þá eru allar rafmagnslínur á lofti og strengdar inn á milli trjánna og staurarnir trjábolir. Það örlar aðeins á því að farið sé að leggja nýja staura sem eru steyptir en það er algjör undantekning. Í stormi og skógareldum vitum við að rafmagnið muni fara og síminn detta dauður líka. Þetta er bara svona hérna í litla landinu mínu.

Með morgninum, um sexleitið, fór að lægja og þá var loksins kominn tími til þess að geta sofnað. Vökunótt er ekkert til þess að tala um í svona ástandi. Það er hægt að bæta sér svefninn, hitt er verra að tjónið sem orðið er verður í sumum tilfellum ekki bætt og er undarlegt að minnast þess að 15. Október í fyrra geysuðu hrikalegir skógareldar fyrir norðan og tugir manna létu lífið og ótal hús eyðilögðust.

Að þessu sinni voru það ekki eldar sem lögðu heimili í rúst og slösuðu fólk, það var stormurinn og rigningin.

Þau svæði sem verst urðu úti í nótt voru Coimbra, svæðið sem ég tilheyri, Aveiro, Viseo og Leiria.

Þjóðvegir hafa lokast vegna trjáa sem liggja þvert yfir. Vegirnir verða auðvitað opnaðir fljótlega en vatnsskemmdir á húsum til dæmis í Coimbra eru miklar og heilu trén féllu á húsin og eyðilögðu hús og bíla, vítt og breitt um landið.

Figueira da Foz varð mjög illa úti. Þar æddi sjórinn upp á landið og eyrði engu.

Ég gæti haldi áfram að telja upp allt það sem gerðist en læt þetta duga.

Vinkona mín hringdi í mig í morgun og grét í símann, hún sagðist aldrei á ævinni hafa upplifað annað eins og var skelfingu lostin. Hún og fjölskylda hennar eru heil á húfi og það er einhvern vegin það sem mestu máli skiptir. Það liggja niðri rafmagnslínur um allt hjá þeim en EDP vinnur hörðum höndum nótt og dag til þess að koma fólki í samband aftur.

Einhverjar skemmdir eru á blokkinni minni. Veggurinn á næstu hæð fyrir ofan mig hefur sprungið á þtemur stöðum í látunum og gætu verið fleiri skemmdir en mér fannst nóg að skoða þessa hæð í morgun. Það flæddi ekki inn í bílageymsluna sem var gott mál en við íbúarnir bjuggumst hálft í hvoru við því.

Í morgun fór ég í göngutúr um þorpið, rétt um 10 leytið. Ég lagði af stað í nokkuð fallegu veðri en á miðri göngunni skall á hellirigning og rok. Ég kom heim holdvot og veðurbarin en sólin var farin að skína þegar ég gekk síðasta spölinn niður götuna mína. Ótrúlegar sviftingar og hafa þær haldið áfram í dag.

Kirkjugarðurinn fallegi er í rúst. Þar hafa legsteinar og blóm fokið út í veður og vind og verður sárt fyrir aðstandendur sem sjá vel um fólkið sem er farið að horfa upp á skemmdirnar. Auðvitað verður þetta allt lagfært en sorgin er ábyggilega mikil.

Ég gekk fram hjá húsi nágranna minna, þau búa í blokkinni, en eiga stórt fallegt hús á öðrum stað í bænum. Í kringum húsið var allt í rúst. Tré og runner, blómapottar og hengirunnar, allt brotið og bramlað.

Það er mikið af skiltum sem segja að íbúðir og hús séu til sölu hangandi utan á húsum. Þessi skilti eru ekki lengur heil, vindurinn hefur svift þeim í marga parta.

Út um op á húsi sem verið er byggja ekki langt frá mér héngu einangrunarplöst og alls konar plöst. Þetta voru eins og saur pokar utan á manneskju. Ótrúlegt en satt. Grindur sem voru fyrir öðru húsi sem er í byggingu lágu á miðri götunni. Byggingaverktakinn var að renna í hlað til þess að fjarlægja grindurnar þegar ég kom labbandi.

Íbúar voru í óða önn að sópa upp laufum og greinum af stéttunum sem liggja að húsunum. Sumir höfðu orðið fyrir vatnstjóni og aðrir virtust vera með brotna glugga.

Fallegu stóru appelsínurnar sem ég hef verið að gefa auga undanfarnar vikur fyrir utan elliheimilið lágu út um alla gangstéttina. Stóra fallega tréð á hringtorginu sem liggur við götuna sem ég geng venjulega var í rúst. Greinarnar lágu út um allt.

Núna, þegar ég skrifa þetta er himininn grár og ylgdur og sést varla í fjöllin fyrir framan mig.

Svona dagar líða líklega ekki úr minni. Ég man eins og gerst hafi í gær þegar ofsarokin skullu á húsinu mínu í Kína og pálmatrén og eiginlega öll tré voru rifin upp með rótum og lágu eins og hráviður út um alla eyjuna.

Nóttin í nótt verður vonandi sú síðasta á þessu ári þar sem veðurguðirnir steyta hnefann framan í okkur mannfólkið sem hlustum ekki á hljóðin sem biðja okkur um að hlífa jörðinni og hætta að spúa eitri út í loftið og eyðileggja heiminn.

Kæru íslensku vinir, sem höfðu áhyggjur af mér og senduð mér hlýja strauma, ég þakka ykkur fyrir og veit að góðar hugsanir á erfiðum stundum eru gulli betri.

Nú heldur lífið áfram og ný vika framundan með fallegum haustdögum og viðurinn kemur í hús í vikunni svo hægt verður að kveikja upp í arninum og hlýja íbúðina þegar kuldinn læsir klónum í gegnum hola veggina. Það er góð líkamsrækt að bera viðinn upp á aðra hæð og ætti að styrkja heilsuna. Standi ég á öndinni á miðri leið eru góðir nágrannar á næsta strái sem draga mig að landi eins og svo oft áður.

Hulda Björnsdóttir

Ríkisstjórn Íslands er skítsama um öryrkja, en hvar er samviska þingheims?

  1. október 2018

Á Alþingi er nú frumvarp um afnám skerðinga krónu á móti krónu hjá örykjum.

Því miður eru ekki miklar líkur á því að frumvarpið verði samþykkt þar sem það er flutt af stjórnarandstöðunni.

Ég hef aldrei skilið þetta fyrirkomulag að frumvörp flutt af stjórnarandstöðu nái svo til aldrei fram að ganga.

Góð mál ættu að fá brautargengi hvaðan sem þau koma.

Stundum er það bara venjulegt fólk sem kemur með tillögur að frumvörpum og skrifar jafnvel góða greinargerð með þeim en ef það er ekki borið upp af stjórnarliðum og samþykkt í þingflokkum stjórnarflokka þá er málið dautt.

Þetta er voðalega einkennilegt finnst mér.

Þegar nýju lögin um Almannatryggingar voru lögð fram var í þeim ákvæði um krónu á móti krónu skerðingu bæði hjá öryrkjum og eldri borgurum.

Fyrir nýju lögin hafði frítekjumark hjá eldri borgurum verið 109 þúsund.

Rétt fyrir samþykkt laganna vatt ríkisstjórnin sér í að breyta krónu á móti krónu skerðingunni hjá eldri borgurum í 25 þúsund krónu frítekjumark. Frá 109 þúsund niður í 25 þúsund. Vel af sér vikið hjá Bjarna Ben og Co.

Samskonar leiðrétting, ef leiðréttingu skyldi kalla, var ekki gerð hjá öryrkjum.

Þeir áttu að fara í starfsgetumat.

Starfsgetumat var eitthvað fínt sem stjórnin hafði fundið og nú var komin leið til þess að henda út öryrkjum sem “nenntu ekki að vinna”, að áliti stjórnvalda.

Öryrkjar samþykktu ekki þetta mat.

Þeir reyndu að sýna fram á að þetta væri ekki raunhæf leið.

Jú, í starfsgetumat skuluð þið fara, hvað sem tautar og raular, sagði BB og co og króna á móti krónu skerðing var ekki felld niður hjá öryrkjum þegar nýju lögin um Almannatryggingar voru samþykkt.

Þessi nýju lög voru 10 ár í smíðum.

10 ár!

Mér hefði fundist að 10 ár hefðu átt að nægja til þess að opna augu þeirra sem að bákninu stóðu og leiða þeim fyrir sjónir að íslenskt atvinnulíf er ekki tilbúið til þess að taka við öryrkjum út á vinnumarkaðinn hvort heldur er í fullt starf eða hálft starf.

Ég minnist þess þegar rætt var við einn þingmann sem nú situr á Alþingi og hann spurður hvernig hann færi að ef hann þyrfti vegna örorku sinnar að vera frá þingstörfum, þá sagðist hann fá inn varaþingmann á meðan hann væri í veikindaleyfi.

Ekki eru venjulegir öryrkjar með varamenn sem geta tekið við og líklega yrðu þeir sendir heim ef þeir gætu ekki sinnt vinnunni eins og fullfrískt fólk og mundu auk þess missa vinnuna.

Ástandið á Íslandi hefur ekkert breyst. Það eru ekki til störf fyrir fólk með skerta starfsgetu að ég tali nú ekki um fólk sem komið er á eftirlauna aldur og er bara venjulegt verkafólk eða annað erfiðisvinnu fólk.

Íslenskt atvinnulíf vill ekki fólk yfir 50 ára gamalt í vinnu. Það vill yngra fólk og þeir sem eru komnir yfir 50 ár og láta sig dreyma um að skipta um starf eru í miklum vanda.

Í þessu þjóðfélagi er ætlast til þess að öryrkjar fari í starfsgetumat og út á vinnumarkaðinn í vinnu sem er EKKI TIL.

Á meðan örorkubætur eru skertar um krónu á móti krónu er ekki von til þess að öryrkjarnir fari út á vinnumarkaðinn, allavega ekki til þess að vinna löglega. Þetta er grafalvarlegt ástand og hefur í för með sér að öryrkjar eru fastir í gildru sem þeir komast engan vegin út úr.

Á meðan stjórnvöld og íslenskt atvinnulíf í sameiningu sjá ekki til þess að öryrkjar geti farið út á vinnumarkaðinn og unnið eins mikið og þeir treysta sér til án þess að þurfa að borga til baka allan ágóðann, fjölgar öryrkjum.

Til þess að komast út úr öryrkja gildrunni verður fólk að geta bjargað sér án þess að vera refsað fyrir eins og nú er gert.

Ég hef ekki verið öryrki sjálf en ólst upp hjá móður sem var öryrki. Við bjuggum við sára fátækt og oft var ekki til matur fyrir okkur en móðir mín fór með mig sem ráðskona út í sveit á sumrin og þá fengum við nóg að borða. Ég þekki vel hvernig það er að fara til Félagsmálastofnunar yfir veturinn til þess að betla fyrir mat. Það voru erfið spor fyrir barnið þegar móðirin treysti sér ekki út fyrir dyr.

Ég hef séð örvæntinguna hjá öryrkjanum sem á sér enga viðreisnar von.

Ég veit ekki hvernig á að koma stjórnvöldum í skilning um að á meðan öryrkjanum er refsað fyrir að reyna að bjarga sér þá fjölgar þeim og sjálfsbjargarviðleitnin hverfur.

Starfsgetumat er ekki lausnin.

Þjóðfélagið er ekki tilbúið til þess að sjá þessum hópi fyrir vinnu í stórum stíl.

Nú eru skorin niður úrræði fyrir þennan hóp í stórum stíl. Úrræði sem gætu komið fólki aftur til lífsins og hjálpað því að komast upp úr örvæntingu þunglyndis sem stafar oft og tíðum af því að áhyggjur vegna sjálfsagðra mannréttinda eins og húsaskjóls og fæðis og klæða eru að gera út af við einstaklingana.

Andleg úrræði fyrir öryrkja og hjálp til þess að byggja upp sjálfið eru skorin niður eða hreinlega hætt.

Hjálparstofnunum er lokað í stórum stíl, þeim stofnunum sem geta byggt fólkið upp andlega og líkamleg uppbygging er eitthvað sem íslensk stjórnvöld virðast ekki skilja og heimska þeirra er svo dæmalaus að ég velti því fyrir mér hvort ekki væri gott fyrir þá sem setjast í stjórnarstólana að fara á násmkeið um endurhæfingu og andlega uppbyggingu. Á slíku námskeiði gætu hugsanlega opnast augu einhverra sem hafa vald til þess að breyta því sem breyta þarf.

Ég þekki þó nokkuð af öryrkjum sem hafa af ýmsum ástæðum misst þrek til þess að vinna við fyrri störf. Sumir eru útslitnir af því að lyfta sjúklingum. Aðrir hafa orðið fyrir slysum og enn aðrir þjást af ýmsum ástæðum af þunglyndi og tengdum sjúkdómum.

Ég þekki engan öryrkja sem vill vera öryrki.

Ég þekki ekki heldur allar gerðir öryrkja en ég er sannfærð um að íslensk stjórnvöld eru ekki að reyna að leysa vanda þessa hóps með því að refsa þeim fyrir að vilja ekki fara í starfsgetumat, sem er ekki alls staðar viðurkennt sem góð lausn, og láta þá greiða til baka krónu á móti krónu uppbætur, aðstoð og að ég tali nú ekki um ef þeir eru svo ósvífnir að reyna að komast inn í þjóðfélagið með því að vinna svolítið. Nei, allt skal rifið af þeim aftur.

Nú var flutt frumvarp um að þeir eldri borgarar sem vildu vinna eftir eftirlauna aldur ættu ekki að verða fyrir skerðingum. Þetta frumvarp er flutt af öllum stjórnarandstöðu flokkum.

Fyrir hverja er það? Jú, enn eina ferðina fyrir þá vel stæðu. Þetta frumvarp er ekki fyrir öryrkja sem verður eldri borgari þegar hann kemst á ákveðinn aldur.

Á sama tíma og krónu á móti krónu skerðing er í gildi fyrir öryrkja og 25 þúsund krónu frítekjumark er hjá venulegum eldri borgurum er flutt frumvarp um að þeir sem vilja og geta unnið löngu eftir eftirlaunaaldur eigi að sleppa við allar skerðingar, jafnvel þó þeir séu með 700 þúsund eða 2 milljónir á mánuði og fá fullar greiðslur frá TR í ofanálag.

Er eitthvað vit í svona þjóðfélagi?

Hvað eru þingmenn sem flytja frumvarp um frítekjur eldri borgara vegna atvinnu að hugsa? Hvað eru þessir þingmenn að hugsa varðandi skyldu greiðslur í lífeyrissjóði sem niðurgreiða það sem greitt er frá TR?

Hvað er eiginlega að þeim sem halda að öryrki sem situr uppi með launaumslag eftir vinnu sína, tómt, af því að TR skerðir hverja einustu krónu og tekur allt til baka?

Hvað er eiginlega að í íslensku þóðfélagi sem kýs aftur og aftur sama sukkið og heldur að eitthvað breytist?

Hvað er að í þjóðfélagi sem fór á höfuðið fyrir 10 árum og stefnir nú glaðbeitt að öðru hruni?

Lærir íslensk þjóð aldrei af mistökum sínum?

Þjóðflutningar til Spánar standa nú yfir, eldri borgarar og öryrkjar flykkjast þangað til þess að deyja ekki á Íslandi á sama tíma og þeir ríku maka krókinn endalaust með samþykki 63 þingmanna.

Hvað varð um baráttu fyrir bættum kjörum og viðsnúning frá fátækt og örbyrgð? Eru Íslendingar á leið í torfkofana aftur?

Ríkisstjórn Íslendinga!

Skammist þið ykkar ekki þegar þið leggist á koddann á kvöldin og vitið af fólki sem getur enga björg sér veitt og á engann kodda til þess að leggjast á?

Vitið þið ekki af fólkinu, venjulega fólkinu, í landinu þar sem þið hælið ykkur af hagvexti og gróða þegar þið farið til útlanda?

Líklega vitið þið ekkert um öryrkja annað en að þeir SKULU Í STARFSGETUMAT ellegar geti þeir étið það sem úti frýs sem er helkaldur klakinn nú þegar vetur gengur í garð í Fróni.

Hulda Björnsdóttir