Ég er öskureið ! Sendið hrossin heim og reiðmennina með skottið á milli lappanna!

28.september 2020

Þá er þessi mánuður ALVEG að verða búinn, bara eftir 2 dagar og október rennur í hlað.

Gengið á evrunni virðist enn sem komið er vera það sama og á föstudaginn en ómögulegt að vita hvað gerist seinna í dag.

Það sem mér liggur á hjarta í dag er þetta:

Ég var kölluð hælisleitandi á Facebook og ástæðan var að ég sem eftirlauna manneskja kýs að búa EKKI á Íslandi þar sem ég mundi lepja dauðann úr skel og líklega vera komin til himna fyrir þó nokkrum árum, væri ég á Íslandi.

Það er mikil umræða núna eins og svo oft áður um hælisleitendur og ætla ég ekkert endilega að blanda mér í þá umræðu. Því er haldið fram að þeir sem koma sem slíkir til Íslands fái gull og græna skóga upp í hendurnar án þess að þurfa að hafa nokkuð fyrir lífinu.

Ég þekki aðeins hvernig þetta er hér í Portúgal þar sem fimm fjölskyldur hælisleitenda bjuggu í næsta nágrenni við mig og ég fylgdist með hvernig þeim vegnaði. Í byrjun fengu þær allt upp í hendurnar, húsnæði, túlk, málakennslu, mat, föt og allt sem til þarf. Fljótlega var karlmönnunum komið í vinnu og voru þeir misánægðir með vinnuna. Til að gera langa sögu stutta þá fóru flestar fjölskyldurnar eitthvað annað. Hvort þær fóru úr landinu eða hvað veit ég ekki. Ein fjölskylda er allavega eftir en ég hef ekki séð neinn karlanna líklega í heilt ár eða meira.

Þá ætla ég aftur að koma að mér og reiði minni yfir því að vera kölluð hælisleitandi.

Ég flutti til Portúgal fyrir tæpum 10 árum og kom hingað frá Kína.

Ég keypti hér íbúð, húsgögn, bíl og kom mér fyrir hér, rétt eins og ég hefði gert á Íslandi ef ég hefði verið að flytja þangað aftur frá Kína. Ég hef borgað alla skatta og skyldur hér í landinu, lagt fram fé í eitt og annað sem mér hefur fundist vera þess vert að styrkja. Ég hef aldrei fengið eina krónu frá hinu opinbera hér í landinu. Væri ég hælisleitandi hefði ég væntanlega verið á framfæri hins opinbera og mundi til dæmis ekki vera að kikna undan skattbyrði nú þegar krónan er á leið til helvítis.

Ég get hins vegar fallist á að þá sem ekki greiða skatta hérna og nota óprúttna lögfræðinga til þess að svindla á kerfinu mætti kalla hælisleitendur mér að vandalausu.

Sá hinn sami og hélt því fram að ég væri hælisleitandi í útlöndum gat þess að margir Íslendingar byggju á Spáni sem hælisleitendur.

Ég ætla aðeins að hafa skoðun á þeirri fullyrðingu.

Ég veit ekki hvað það eru margir sem búa á Spáni og eru með heimilisfesti á Íslandi þó svo þeir búi erlendis megnið af árinu. Ég veit hins vegar að sé ekki skipt um heimilisfesti falla ekki niður ýmsar greiðslur frá Tryggingastofnun Ríksins og þar í felst svindlið að mínu mati.

Það eru alls ekki allir sem búa á Spáni, öryrkjar og eldri borgarar, sem ekki fara eftir lögum og reglum. Líklega eru langflestir sem virða tvísköttunarsamninga landanna og hafa flutt lögheimili sitt til búsetulandsins og lúta þar af leiðandi sömu skerðinga og við hin sem förum eftir lögunum.

Eru svindlararnir hælisleitendur?

Ég get ekki svarað því en við sem förum eftir lögum og reglum erum ÚTLAGAR í mínum huga. Eins og ég hef oft sagt hér þá eru margir sem hafa neyðst til að flytja frá Íslandi vegna þess hvernig búið er að þeim sem ekki tilheyra efri lögum þjóðfélagsin. Þetta fólk hefur neyðst til þess að gerast ÚTLAGAR en þetta fólk er hreint ekki HÆLISNEITENDUR ef það tekur þátt í kostnaði við að reka þjóðfélagið sem það býr í erlendis.

Mér er nokkuð runnin reiðin en eftir situr sorgin yfir því hvernig erfiðir tímar sem nú eru að renna upp á Íslandi verða ekki til þess að þeir ríku verði fátækari og þeir fátækari ríkari.

Nei, nú eru að renna upp tímar þar sem hinum fátæku verður látið blæða á meðan hinir ríku græða á tá og fingri.

2008 er að renna upp aftur.

Skerðingar sem þá voru settar á hjá hinum allra lægst launuðu hafa ALDREI verið leiðréttar.

Nú verður, árið 2020 ár gjaldþrota heimila og örvæntingar hins sauðsvarta almúga sem ríkisstjórnir allra tíma vilja ekki vita af nema rétt fyrir kosningar svo hægt sé að stinga túttu loforða upp í sveltandi fólkið.

Íslensk alþýða, fátækt fólk er að verða verr sett en hælisleitendur sem koma frá fjarlægum löndum.

Er ekki eitthvað verulega mikið að í þessu þjóðfélagi, eða er þetta bara allt í fínasta lagi?

Er ekki hægt á einu ríkasta landi veraldar að búa jafn vel að hælisleitendum og fátækum Íslendingum?

Er ekki hægt að búa þannig að eldri borgurum og öryrkjum á Íslandi að þeir geti lifað þar og þurfi ekki að flýja land?

Er endilega nauðsynlegt að þeir sem eiga 80 prósent alls á landinu maki krókinn á meðan sárafátæk börn svelta heilu hungri og foreldrar þeirra og afar og ömmur sjái ekki fram á hvernig hægt verður að finna mat eða húsaskjól í framtíðinni?

Er ekki kominn tími til þess að taka til í ranni þeirra sem stjórna landinu og hrista þá til skilnings á veruleika sem ríkir utan kassanna sem þeir hafa komið sér fyrir í til þess að þurfa ekki að horfa hvernig raunveruleikinn er í laginu?

Nýjar málpípur auðvaldsins stíga nú fram hver á fætur annari og gera lítið úr mér og þér sem lest þetta. Þessar nýju málpípur eru með góðan talanda og hafa lært vel hvernig halda skal ræðu og rökræða en skilningur þeirra á lífinu fyrir utan kassana er ekki að sama skapi fínpússaður.

Mun almenningur, sveltandi almenningur rísa upp? Er þrælsóttinn svo rótgróinn að ekkert verði að gert? Er sagan að endurtaka sig enn eina ferðina og labba í rólegheitum til tímans þar sem heldri menn riðu um héruð og fengu það sem þeir girntust, hvað svo sem það var?

Halló, það er árið 2020 núna og árið 2021 er hinumegin við hornið. Nú er tími til þess að taka í taumana á hrossunum og senda þau og herra þeirra til síns heima með skottið á milli lappanna. Það gerist ekki nema að alþýðan standi saman og geri uppreins gegn þrælahöldurunum.

Hulda Björnsdóttir

Ómerkilegir íslenskir flottræflar sem ekki borga skatta í búsetulandi ?

25. september 2020

Þessi mánuður er alveg að verða búinn og ég get varla beðið.

Erfiðasti mánuður í mínu minni, eða allavega í langan tíma hefur ástandið ekki verið eins slæmt og núna.

Gengið er að drepa mig og þá sem búa erlendis og auðvitað líka þá sem búa á Íslandi en ég ætla að tala um útlagana núna.

Hvers vegna er ég að drepast úr einhverju núna af því að gengið er svo óhagstætt?

Jú, það er einfaldlega þannig að ég sinni skyldu minni og greiði skatta í Portúgal, þar sem ég bý og hef búið undanfarin tæp 10 ár. Við greiðum skatta eftirá og þegar gengið fór til helvítis var ég ekki búin að safna fyrir öllum þúsundunum sem ég á að borga, átti fyrir helmingnum og er nú að streða við standa við mitt.

Vinkona mín sagði mér að ég ætti ekki að borga skatta af eftirlaunum þar sem ég byggi í Portúgal!

Þessi vinkona mín veit líklega betur en ég sem bý hérna en hún hefur sína kunnáttu frá óprúttnu fólki sem hefur fengið ómerkilega glæpa lögfræðinga til þess að fiffa fyrir sig málin þannig að litið sé á eftirlaunin sem auðæfi auðkýfinga og þar af leiðandi hægt að komast undan því að greiða til þjóðfélagsins hér.

Það gerðist hér fyrir nokkrum árum að yfirvöld ákváðu að búa til kerfi til þess að laða að milljónamæringa til þess að fjárfesta og bæta hag þjóðarinnar. Þetta kerfi var fyrir milljónamæringa en eins og alltaf er í öllum kerfum geta óprúttnir glæponar fundið smugur og nýtt sér. Bretar hafa til dæmis verið einkar duglegir við að nota lögfræðinga sem sjá sóma sinn í glæpum.

Það eru nokkrir Íslendingar sem mér er kunnugt um sem búa hér og borga ekki til samfélagsins.

Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta fólk ómerkilegt og tala nú ekki um þar sem sumir hafa verið háværir að gagnrýna mafíuna á Íslandi sem neitar að hækka eftirlaun hjá hinum almenna borgara.

Ég bý í frekar fátæku landi þar sem lágmarkslaun eru rétt um 700 evrur á mánuði. Á því þarf fólk að lifa og margir vinna margfalda vinnu til þess að ná endum saman.

Íslensku skattsvikararnir nýta sér heilsugæslu og alla opinbera þjónustu í landinu sem þeir þykjast of góðir til þess að borga skatta í.

Þvílík skömm að tilheyra þeim. Ég reyni að láta Portúgalska vini mína ekki vita af því að ég þekki eitthvað af svona fólki. Ég skammast mín þegar ég sé vini mína streða við að ná endum saman á sama tíma íslenskir AUÐKÝFINGAR láta ekki svo lítið að greiða til samfélagsins en þyggja án þess að blikna heilsugæslu og kvarta jafnvel yfir því að hún skuli ekki vera frí.

Það er varla hægt að leggjast lægra en að láta fátæka Portúgala sjá fyrir þeirri opinberu þjónustu sem íslenskir eftirlaunaþegar nýta sér í landinu, því það er það sem gerist ef ekki eru greiddir skattar til samfélagsins.

Sumir hafa flutt fínu drossíurnar frá Íslandi með sér og hafa fengið glæpalögfræðinga í Lissabon til þess að redda því máli og þessum flottu Íslendingum þykir þetta bara flott fyrirkomulag.

Íslensk skattayfirvöld ættu líklega að skoða þessa brottfluttu íslensku flottræfla en það er væntanlega borin von.

Svíar stoppuðu upp í þennan leka og kannski ættu íslensku skattayfirvöldin að gera það líka.

Frá því í mars hafa reglur breyst þannig að nú þurfa flottræflar sem flytjast á framfæri Portúgala að greiða að minnsta kosti 10 prósent af innkomu sinni í skatta til samfélagsins.

Þeir sem hafa komist inn í svikamylluna eru reyndar ekki á framfæri Portúgala nema í 10 ár og þá þurfa ræflarnir að borga eins og ég og aðrir heiðarlegir borgarar, skatta á hverju ári.

Það eru aumingjar sem gagnrýna íslenskt kerfi og hamast í því hvað það sé óréttlátt og fari illa með þá sem hafa minna, en leggjast svo á garðinn hjá fátækum löndum úti í heimi og láta fátæka íbúa landanna sjá fyrir sér.

Ég fyrirlít heitt og innilega svona tvískynnung.

Útlagarnir í Svíþjóð, Noregi, Danmörku og ef til vill fleiri löndum þurfa margir að borga skatta í báðum löndum. Ég borga alla mína skatta hér í Portúgal en þeir eru hreint ekki lægri en á Norðurlöndum, einfaldlega þar sem eftirlaun á Íslandi eru hærri en hér í Portúgal og flokkast undir háa skattprósentu.

Einhverjir af flottræflunum verða líklega reiðir þegar þeir sjá þessi skrif mín og mér er nokk sama um það. Það er borin von að þeir sjái að sér og sinni skyldu sinni en það gæti hugsast að til dæmis bílasvindl kæmist upp og yrði dýrt fyrir viðkomandi. Það er nefninlega þannig að glæpagengið í Lissabon er undir smásjá og yfirvöld að taka það ásamt viðskiptavinum í gegn smám saman. Sektirnar eru ekkert til þess að hlæja að, það veit ég fyrir víst.

Hulda Björnsdóttir

Hugleiðingar um Veiruna ógurlegu

25.september 2020

Í dag talaði ég við nokkra um Covid veiruna og var að forvitnast um viðhorf fólks.

Það eru ótrúlega skiptar skoðanir um hættuna sem felst í því að færa lífið í normal horf aftur. Viðskiptasjónarmið voru efst á baugi.

Fjölmiðlar gera allt of mikið úr ástandinu, sagði einn.

Flensa kemur á hverju ári og við lifum það af, sagði annar.

Ég túi ekki því sem sagt er um hættuna, sagði einn.

Fjölmiðlar segja bara það sem stjórnvöld vilja að þeir segi, sagði einn.

Við verðum að passa okkur sjálf, var eitt viðhorfið.

Maskar eru nauðsynlegir, sögðu margir.

Það má ekki loka löndum aftur, það drepur fjárhag allra, var annað svar.

Sjáðu hvernig Svíþjóð hefur komist í gegnum þetta, sagði einn, allt í fínu lagi hjá þeim.

Ég reyndi að malda í móinn og útskýra að ég til dæmis væri á áhættuhópi sem teldist „high risk“ og þess vegna gengi ég með maskann ALLTAF innan um annað fólk, þess vegna heimsækti ég ekki vini mína, en talaði við þá í síma eða gegnum netið.

Það horfðu sumir á mig stórum augum, aðrir skildu viðhorf mitt og enn aðrir tóku undir og sögðust haga sér nákvæmlega eins. Nota maska, halda sig heima eins mikið og hægt er og hafa samband símleiðis eða á netinu.

Ég er enginn sérfræðingur í veirumálum. Ég hef hins vegar fréttir frá mörgum í Kína og frá öðrum löndum bæði í Evrópu og Asíu. Ég á vini í Ástralíu, Canada og Nýja Sjálandi, allir þessir vinir hafa haft samband og við rætt um ástandið og þau sagt mér hvernig þeirra reynsla er.

Flestir hafa annað hvort misst ættingja eða eiga ættingja eða vini sem hafa fengið veiruna og læknast en glíma við eftirköst og hafa ekki náð upp sama þrótti eða heilsu og fyrir veikindinn, jafnvel mörgum mánuðum síðar.

Ég ætla ekkert að dæma um hvað lönd eru að gera og hvort allt sé rétt sem sagt er um fjölda smitaðra eða dauðra.

Ég ætla hins vegar að leyfa mér að hafa þá skoðun að mér ber að taka ábyrgð á því að ég smitist ekki eða smiti aðra og það held ég að gerist ekki nema að ég fylgi ýtrustu leiðbeininum yfirvalda.

Hér í landi er skylda að vera með maska. Fari maður inn í súpermarkað eða verlsun eða einhverja stofnun SKAL vera með maska. Í búðum og á öðrum stöðum eru merki á gólfum þar sem þú átt að vera í röð. Ákveðinn fjöldi má koma inn í minni fyrirtæki og bíða verður fyrir utan þar til röðin kemur að viðkomandi, til dæmis í apótekum og ýmsum verslunum inni í súpermörkuðum og mollum.

Ákveðin fjarlægð þarf að vera á milli tækja í íþróttasölum og búningsklefar eru með merkjum um hvaða skápa megi ekki nota. Alls staðar eru sprittbrúsar (eða eitthvað hreinsiefni). Ég ber með mér mínar blautservíettur og nota þær því ég vil ekki snerta það sem aðrir hafa snert.

Meira ruglið, gæti einhver sagt.

Þetta er nýr sjúkdómur, alls óþekktur og allt lagt í sölurnar til þess að finna bóluefni sem allra fyrst. Þeir bjartsýnustu tala um mitt næsta ár, og þar er ég að tala um áreiðanlega vísindamenn en ekki Trump fylgjendur.

Veiran hefur tekið stökkbreytingu og nú er að kólna, skólar að byrja, fólk að færa sig inn í hús þegar fer að kólna vítt og breytt í heiminum og bestu skilyrði fyrir ófétið skapast og hún getur dreift sér eins og enginn sé morgundagurinn.

ÞAÐ ER UNDIR OKKUR SJÁLFUM KOMIÐ AÐ HALDA FYRIRTÆKJUM OPNUM OG ATVINNU GANGANDI.

Ef við förum með gát og fylgjum ýtrustu kröfum um varúð þá erum við öll að leggja okkar af mörkum til að hemja skrímslið.

Er það til of mikils mælst?

Hulda Björnsdóttir

Standa pólitíkusar við loforðin eftir að þeir setjast í stólana þægilegu?

24.september 2020

Þá er þessi erfiði mánuður að verða búinn og ég vona að næsti verði skárri.

Það eru margir sem nú lepja dauðann úr skel jafnvel þó þeir hafi gerst flóttamenn frá Íslandi og flutt til landa þar sem hægt VAR að draga fram lífið án sultar ALLA DAGA mánaðarins jafnvel þó fólk væri öryrkjar og eldri borgarar á lágum mánaðarlegum greiðslum.

Gengið hefur sett allt í ótrúlegt far, far sem er dýpra og dýpra með hverjum deginum og hverjum mánuðinum sem líður.

Núna þegar þetta er skrifað þá er evran á 161,93 og er það gengi frá því í gær sem hefur ekki verið uppfært enn, enda klukkan á Íslandi ekki orðin 9.

Það er stór munur á 161 krónu og 165 krónum en samt er þetta erfitt fyrir útlagana og það sem er kannski allra erfiðast er óstöðugleikinn.

Íslendingar sem búa á Íslandi finna ekki síður fyrir þunga gengisins. Allt hækkar í verði og laun standa í stað. Ég gæti skrifað langa grein um þetta en ætla að gera annað í dag.

Núna er kominn kosningaskjálfti í suma, líklega nokkuð marga og pólitíkin, þessi viðbjóslega tík, farin að búa sig undir loforðaflauminn.

Öryrkjar og fátæka fólkið getur ekki beðið, sagði Katrín Jakobsdóttir áður en hún komst í ráðherrastól.

Bjarni Ben, ráðherra ýmissa ráðuneyta fyrr og nú sendi bréf árið 2013 til allra eldri borgara og lofaði gulli og grænum skógum. Fólk trúði honum og kaus hann. Nú er árið 2020 og honum finnst þetta fólk bara hafa það fínt og ekkert vit í því að hækka „BÆTUR“ .

Nýir liðsmenn flokka stíga nú fram og einn af þeim sem ég sá fréttir um að ætlaði í framboð fyrir Flokk fólksins er Tommi í Tommaborgurum.

Ég þekki Tomma ekkert, ég þekki nafnið og þar með búið.

Ég gerðist svo djörf að skrifa comment þar sem ég spurði hvernig hann hefði beytt sér fyrir bættum kjörum eldri borgara af því að einhvers staðar sá ég að hrifning var yfir því að fá málssvara eldri borgara á Alþingi.

Ég held að það sé ekkert óeðlilegt við að setja svona spurningu fram.

Svar var að þeir sem gerðu góðverkin væru ekki að auglýsa þau!

Ég veit ekkert um góðverk Tomma, ég veit ekkert um manninn, ég veit hreint ekkert hvort hann er góður ræðumaður og ég veit ekkert hvort hann hefur barist með kjafti og klóm fyrir því að loforð Katrínar og Bjarna væru efnd. Ég veit heldur ekkert hvort hann hefur verið í einhverjum stjórnmálaflokki einhverntíman.

Ég hugsa þó til þess að í Flokki fólksins voru 2 sem sviku fólkið sem kaus flokkinn og fóru í Miðflokkinn.  Ég hugsa líka til framámanns í Flokki fólksins sem var ekta sjálfstæðismaður og var kannski ekki alltaf á sömu línu og til dæmis Guðmundur Ingi. Ég veit reyndar ekkert hvað hefur orðið um Holts höfðingjann, hvort hann er enn í FF eða ekki.

Óskastaða væri auðvitað að öll lítil framboð sameinuðust í eitt stórt svo þau gætu haft veruleg áhrif á stjórn mála á Íslandi og þar gæti þrifist mannúð í stað græðgi. 10 prósentin sem eiga svo til allt þurfa að fá sterkt mótafl og það gerist ekki nema með einhverri fjöldasameiningu.

Mér kemur ekkert við hvað fólk á Íslandi kýs, eða er það?

Af hverju er ég að skipta mér af eftir áralanga útivist og vissu um að hverfa aldrei aftur til landsins sem ég fæddist á?

Jú, ég er í þeirri vonlausu stöðu að hafa greitt skatta og skyldur alla mína starfsævi til þessa lands og þar af leiðandi fæ ég eftirlaun frá Íslandi og þess vegna skiptir mig máli hvernig genginu er stýrt af græðgisöflum mafíunnar á landinu.

Ef ég væri ekki í þessari hrikalegu stöðu mundi ég ALDREI nokkurn tíman lesa íslenska frétt eða fylgjast með því sem hauglygnir pólitíkusar í ráðherrastólum eru að blaðra.

Nú rís auðvitað einhver upp og mótmælir þessari frekju í mér og ósvífni og það er allt í góðu lagi.

Fólk sem býr á Íslandi og er fast í fátæktargildru og kemst aldrei upp úr henni hefur hvorki kraft eða þor til þess að rísa upp. Hvað er hægt að gera til þess að hjálpa þessu fólki svo það þurfi ekki að svelta endalaust og að ég tali nú ekki um að það þurfi ekki að gerast flóttamenn til þess að deyja hreinlega ekki úr hungri, vosbúð og örvæntingu?

Ég hef sagt það milljón sinnum að þeir sem þora að tala verði að láta að heyra í sér.

Ég hef líka sagt það milljón sinnum að við erum sterk sameinuð en veik sundruð.

Hvernig á að sameina þennan sundurleita hóp veit ég ekki en einhver veit það og sá hinn sami ætti að segja okkur hvernig. Ég bíð eftir lausninni og ég bíð óþreyjufull eftir mánaðmótum og vona að gengið hafið ekki enn eina ferðina verið fært upp í hæstu hæðir, en það er líklega borin von.

Hulda Björnsdóttir

Are you going to follow me ?

20. September 2020

Good morning

I do blog about different matters that interest me. By reading my blogs you might get to know me a little bit but fake accounts and followers will be deleted immediately. There is a lot of fake accounts these days and people don´t hesitated to tell you all kinds of lies. Please be careful when you accept a friend request or if you get a call from Whatsap.

I have got some idiots trying to contact with me on WhatsApp and they don´t give up. They turn up under different names but it is easy to see through the new account and connect them to the old one.

Why I am talking about this here is because one of those began following me here and got to know something about me through my profile here on WordPress.

Now I have changed my profile here and of course blocked the idiot.

I seriously don´t want people here that are fake. If you want to follow me and you are real I will accept you but otherwise DELITE.

Let us unite and report the scham.

Let us make the internet clean

I think we can if you unite.

Have a great day my friends and take care of your health during this pandemic that is killing our world these days. We can protect us and everyone else around us. This morning I saw a report from Taiwan and how they managed. They used masks, everyone used them. In Singapore I have friends and they are all using masks. I can name many other cities in China that seriously take care of the protection and are making progress.

Here in Portugal we use masks, most of us, and there are strict rules about how to behave.

Hulda Bjornsdottir

Fyrir hverja vinnur Tryggingastofnun Ríkisins á Íslandi?

18. september 2020
Það er spurning fyrir hverja þessi stofnun er að vinna. Er hún að vinna fyrir viðskiptavinina eða einhverja aðra? Hvers vegna kvartar fólk yfir þjónustulundarskorti hjá þeim sem eiga að gefa upplýsingar og leiðbeina fólki?

Er það af því að fólkið sem leitar til stofnunarinnar eru fífl, eða er það kannski viðhorf stofnunarinnar að gefa sem minnstar upplýsingar? Ætti ekki stofnun sem þessi að passa upp á viðskiptavinina?
Hvað veldur því að þjónustufulltrúi gefur ekki upp nafn ef hann er spurður um það?
Óttast stofnunin að viðkomandi verði ofsóttur eða hvað?
Ég veit ekki betur en opinber fyrirtæki sem ég hringi í gefi mér upp nafn þess sem ég er að tala við inni ég eftir því!

Ég fékk þá skýringu á nafnleysinu, og þá skýringu fékk ég frá annari opinberri stofnun, að litið væri á að viðkomandi væri að hringja í stofnunina en ekki einstaklinginn og ef hann hringdi síðar mundi einhver annar þjónustufulltrúi svara!

Stundum hef ég hitt á fólk hjá stofnuninn, Tryggingastofnun ríkisins á Íslandi, sem er kurteist og hægt að tala við. Það eru undantekningar. Nú hefur tvisvar verið skellt á mig hjá þessari viðbjóðslegu stofnun og sökin var að ég gekk eftir því að fá að tala við yfirmann og vildi fá almennilegar skýringar á því sem verið var að halda fram.

Hvers vegan kvartar fólk í stríðum straumum yfir lélegri upplýsingagjöf stofnunarinnar þegar leitað er eftir upplýsingum?
Er það af því að viðskiptavinirnir eru allir fífl?

Ég held að það þurfi að taka þessa stofnun og innviði hennar til rækilegrar úttektar og endurskipuleggja skipurit starfsmanna og vinnubrögð.

Eftir að hafa talað við þjónustufulltrúa núna er ég á því að ég sé ókurteis og ómerkileg kona sem komin er á eftirlaun að mati stofnunarinnar og það taki því ekki að vera að eyða orðum í vitleysinginn.

Halda þeir sem vinna hjá Tryggingastofnun ríkisins að þeir séu persónlega og prívat að sjá fyrir mér?

Heldur þetta fólk að eftir 40 ára starfsæfi og greiðslu skatta til þjóðfélagsins sé einfaldlega best að slíkt fólk drepist sem fyrst svo ekki þurfi að vera að hafa fyrir því að tala við einhver gamalmenni sem eru kolrugluð og ókurteis í þokkabót?

Ég hef þurft að eiga samskipti við kerfi og stofnanir í Kína og í Portúgal ásamt Íslandi. Ekkert hefur verið eins ömurlegt og viðskipti mín við Tryggingastofnun ríkisins á Íslandi. Enginn þjónustufulltrúi í Kína eða Portúgal hefur sýnt mér slíkan dónaskap og þann sem ég hef orðið fyrir hjá Tryggingastofnun ríkisins.
Þetta er viðbjóðslegt apparat og ekkert annað.

Þegar ég var í Kína talaði ég ekki málið í byrjun og var með túlka með mér. Oft var ég ósátt við hvernig mál stóðu en ALDREI NOKKURN TÍMAN var mér sýnt annað en kurteisi frá þeim sem voru að afgreiða mig. ALDREI var skellt á mig símanum og ég var alltaf viðskiptavinur sem bar að sýna virðingu.

Hjá Tryggingastofnun Ríkisins eru þjónustufulltrúar þeir sem ég hef talað við oftast í þeim ham að gefa sem minnstar upplýsingar og ef einhverjar eru að segja þá “Þetta er bara svona”.

Í janúar síðastliðinn hringdi ég í stofnunina vegna afdreginnar staðgreiðslu sem átti ekki að vera þar sem ég borga skatta í Portúgal en ekki á Íslandi. Brá nú svo við að ég gat ekki lengur notað Skype til þess að hringja og þurfti að nota símann og borga morð fjár fyrir.

Ég sendi mail og spurði hvers vegna þetta hefði breyst.

Svarið var: Þetta er bara svona!

Ég vildi óska þess að ég þyrfti aldrei að tala við þessa VIÐBJÓÐSLEGU STOFNUN en það er því miður ekki í kortunum. Á hverju ári, 2svar á ári þarf ég að argast í afdreginni staðgreiðslu sem stofnunin stundar eins og ekkert sé sjálfsagðara.

Í gær var mér sagt að fyrirmæli frá Ríkisskattstjóra væru að taka staðgreiðslu af mér.

Ég talaði við RSK og þar á bæ kannaðist fólk ekki við þessi fyrirmæli.

Tryggingastofnun lýgur alveg miskunnarlaust að fólki og treystir því að við séum fífl sem göngum ekki eftir sannleikanum.

Það þarf að taka þessa stofnun og rífa stafnanna á milli. Hún er full af fyrirmælum um að sýna fólki mannvonsku í stað manngæsku og meirihluti þeirra sem þarna vinna eiga að fara. Yfirstjórn stofnunarinnar er óhæf því væri hún hæf tíðkuðust ekki þessi viðbjóðslegu vinnubrögð gagnvart viðskiptamönnum.

Ég er æfareið eins og sjá má af þessum skrifum. Ég er ekki sú eina sem hefur sömu sögu að segja.

Síðasta dæmið sem ég ætla að taka er að í gær átti, samkvæmt skriflegu loforði, í bréfi til mín, að leggja inn á reikning minn vanreiknaðar greiðslur frá TR fyrir árið 2019. EKKERT KOM INN Í GÆR. Það var ekki fyrr en í morgun sem greiðslan barst.

Mun Tryggingastofnun biðja mig og aðra viðskiptavini afsökunar á töfinni?

Nei, Tryggingastofnun ríkisins á Íslandi biður aldrei afsökunar á einu eða neinu. Hún er hafin yfir mannlega reisn og liggur í svaðinu samanborið við Kínverskt kerfi sem er flókið eða sambanborið við kerfi í Portúgal sem er líka flókið og oft gamaldags en í báðum þessum löndum tíðkast kurteisi gagnvart viðskiptavinum og allt reynt til þess að leiðrétta mistök, hafi þau verið gerð.

Hulda Björnsdóttir

Our serving men and women being remembered

7th of September 2020

Have you thought about the men and women who are serving the countries all around the world?

Do you think about them and wonder how they are doing?

There is not a world war but there is war everywhere in the world these days.

I have a dear friend, in fact more than one, in more than one country, serving in the army and I think about them often.

I know my friends are sometimes lonely and they want to be with their families and loved ones.

Can we do anything to help them cope with the loneliness?

I’m sure we can, we just have to figure out how. Let’s remember our serving men and women today and send them our love and support. Let them know we are grateful for their sacrifices. Let them know we are here for them if we can do something to ease the burden they are carrying every day, emotionally.

Let´s send them love and kisses and tell them when we will see them we will embrace them with our love.

Hulda Björnsdóttir

Örykjar og eldri borgarar tilheyra ekki FÓLKINU – arrrrgggg

3.september 2020

Þetta eru tillögur Samfylkingarinnar núna!

“Ég hvet stjórnaliða til þess að sýna hugrekki, standa með fólkinu í landinu og styðja þessar tillögur” – Helga Vala Helgadóttir

Við leggjum til að…
• atvinnuleysisbætur hækki í að minnsta kosti eitt ár.
• hlutabótaleiðin verði framlengd til 1. júní 2021.
• einingaviðmið verði hækkað að 22 einingum svo komið sé til móts við þá námsmenn sem ekki geta verið í fullu námi og þeim veitt heimild til töku atvinnuleysisbóta.
• veitt verði heimild til að greiðslur launa í sóttkví nái til þeirra foreldra sem ekki gets sinnt vinnu að öllu leyti eða að hluta vegna sóttvarnaráðstafana sem leiða til skerðingar á þjónustu eða lokunar skóla barns undir 18 ára aldri sem foreldri hefur forsjá með en þiggur þjónustu á grundvelli laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir þó að barnið hafi ekki sætt sóttkví.”

Ég spyr: “af hverju er ekki minnst á öryrkja og eldri borgara? Erum við ekki FÓLK?”

Ágúst Ólafur svarar: “við erum svo sannarlega lagt fram tillögur sem snerta öryrkja. Mjög margar slíkar og höldum því áfram. Enda mjög brýnt.”

Ég spurði Ágúst ekki hvað HEFÐI verið gert.

Ég spurði af hverju ekki væri talað um öryrkja og eldri borgara í þeim tillögum sem Helga var að kynna og verið er að flytja NÚNA.

Það er einhvern vegin þannig að stjórnmálamenn geta aldrei haldið sig við nútíðina og þegar þeir þurfa að svara óþægilegum spurningum eins þeirri hvort við öryrkjar og eldri borgarar tilheyrum ekki fólkinu í landinu þá er svarið um hvað HAFI verið gert einhverntíman!

Ég er viss um að bæði Helga og Ágúst eru hið besta fólk.

Hins vegar er ég reið og sár yfir því að vera ekki talin með FÓLKINU í landinu, bara af því að ég er á vitlausum aldri.

Það eru að koma kosningar. Það er ljóst. Nú rísa upp þingmenn og alls konar fólk og reka aróður fyrir ágæti hvers og eins.

Ég var að láta mér detta í hug að kannski væri Samfylkingin flokkur sem mundi hugsa um okkur þessa 2 hópa sem alltaf eru skilin eftir, en ekki líst mér beint á umræðuna í dag.

Ég hef oft talað um það hvað það mundi spara ríki og sveitarfélögum ef þessir 2 hópar væru á launum sem hægt væri að framfæra sér á. Það mundi spara læknis kostnað, sálfræðiþjónustu, lyfjakostnað og margt fleira sem fylgir því að vera alltaf á hausnum.

Það væru greiddir skattar, beinir og óbeinir til þjóðfélagsins og ef útkoman væri skoðuð grannt er ég sannfærð um að hækkun örorkulífeyris og ellilífeyris mundi skila sér ansi vel til baka.

Það hlýtur að vera til bóta fyrir þjóðfélagið að sem flestir séu við sæmilega heilsu, bæði andlega og líkamlega. Það bara hlýtur að spara heilsugæslukostnað.

Til þess að fólk sé sæmilega hraust  þarf það að geta keypt í matinn og það er ekki hægt alla daga mánaðarins eins og ástandið er núna hjá þeim sem ekki tilheyra elítunni en eru öryrkjar eða eftirlauna fólk.

Já, nú verður hægt að fylgjast með loforðabunkanum streyma af vörum þeirra sem ætla sér að komast á þing næst og loforðin um gull og græna skóga, og svo skammir til núverandi ríkisstjórnar sem fellir allt sem andstaðan leggur fram. Þetta er söngur sem við þekkjum og spurningin verður hvort lagið breytist eitthvað núna? Ég hef ekki trú á því.

Hvað gerir þjóðin svo? Jú, hún segir að ástandið sé slæmt en ekkert hægt að gera.

Hvernig var það í búsáhaldabyltingunni og hvað gerði Hörður?

Sat hann heima og gerði ekki neitt?

Nei, hann barðist og fékk fólk í lið með sér og allt varð vitlaust sem betur fer.

Núna er bara vonleysi og engin barátta að ráði, sýnist mér. Passið ykkur þegar pólitíkin fer að vitna í það sem þau hafi gert og hafi ekki fengið stuðning. Þar liggur hundurinn nefninlega grafinn. Þegar þeir sem voru hundsaðir af núverandi ríkisstjórn komast til valda breytist allt. Það hefur alltaf gert það og mun gerast núna.

Loforð sem ekki er hægt að standa við af því að stjórnin er eins og hún er verða EKKI EFND að loknum kosningum. Margir munu láta blekkjast og halda að eitthvað gott sé í pokahorninu, því miður.

Öryrkjar og eldri borgarar eru afætur á þjóðfélaginu samkvæmt pólitíkinni og tilheyra ekki FÓLKINU.

Hulda Björnsdóttir

Ég HATA ríkisstjórnina

2. sept. 2020

Seðlabankastjóri birtir flottar myndir af sér á fjalli. Ég verð öskureið þegar ég birti gengis klifrið. Við erum greinilega EKKI á sömu blaðsíðunni.

Hvað gerðist í dag sem olli því að evran fer úr 164,24 í gær yfir í 165,04 í dag?

Hvað gerðist?

ALLIR GJALDMIÐLAR ERU HÆRRI Í DAG EN ÞEIR VORU BARA Í MORGUN

Á þetta að halda áfram svona?

Á að drepa þjóðina núna úr hungri ofan á veiruna?

Hvaða skýringu gefur SEÐLABANKINN á gengisfallinu?

Hvaða skýringu gefur RÍKISSTJÓRNIN á fallinu á genginu?

Eru allir sofnaðir sem ráða lögum og ríkjum á eyjunni úti í hafi rétt hjá NoðurPólnum?

Hvenær ætlar fólk að vakna og garga hátt?

Er búið að drepa alla baráttu úr þjóðinni?

Ég arga á hverjum degi og ekkert heyrist annað en ámátlegt kjökur!

Það brennur í litla landinu mínu í litla þorpinu mínu. Slökkviliðið þarf á öllum framlögum að halda og nú getur það ekki fengið mitt af því að bölvuð ríkisstjórnin og Seðlabankinn á Íslandi fella gengið oft á dag og ég hef ekki glóru um hvernig ég á að fara að því að lifa það sem eftir er af árinu.

Ég HATA þetta ástandi.

Ég nota orðið HATA sárasjaldan en núna er það viðeigandi.

Ég HATA ríkisstjórn sem brosir breitt á meðan almúganum blæðir út.

Já, þið getið alveg sagt að mér sé nær og ég eigi ekki að vera að kvarta. Þið sem gerið það ættuð líklega að hætta að lesa það sem ég skrifa og setjast að í KASSANUM ykkar þar sem allt er svo yndislegt og peningarnir ykkar fljúga til skattaskjóla og hlakkar í ykkur djöfullega vegna þess að fólkið mun kjósa ykkur aftur og aftur, EÐA HVAÐ?

MUN FÓLKIÐ KJÓSA SPILLINGUNA ENN EINU SINNI AÐ TÆPU ÁRI ?

Hulda Björnsdóttir

Það verður þó alla vega matur í einn dag! Er það ekki bara fínt?

30. ágúst 2020

Á morgun er síðasti dagur ágúst mánaðar og september heilsar með 30 dögum.

Munurinn er einn dagur og virðist ekki mikill fyrir flesta.

Margir eru þó sem telja hvern einasta dag og gleðjast yfir þeim sem líður.

Það er fólkið sem hefur ekki til hnífs og skeiðar alla daga mánaðarins.

Það er fátæka fólkið í ríka landinu Íslandi.

Það er fátæka fólkið á lágu laununum sem ríkisstjórnin vill nú að fresti kauphækkunum sem það átti að fá.

Ríkisstjórnin sem nú talar um að fresta skuli kauphækkunum fékk ríflega hækkun fyrir nokkrum mánuðum, og var hún ekki afturvirk eins og venjulega, eða hvað?

Á Íslandi eru 2 stéttir, það eru hinir ofurríku og það eru hinir fátæku og sárafátæku.

Hinir ofurríku maka krókinn. Þeir stjórna genginu. Þeir stjórna landinu. Þeir verða gjaldþrota og hinir fátæku borga brúsann.

Hinir ofurríku eru líklega sælir með sitt, eða er það?

Ef þeir væru sælir með sitt mundu þeir þá alltaf heimta meira og meira og troða meiru og meiru undir sig?

Ég held að ríkisbubbarnir á Íslandi séu líklega frekar óhamingjusamir og leiðir á lífinu. Ég held að þeir séu eins og kallinn sem taldi gullpeningana alla daga og var skíthræddur um að eitthvað vantaði upp á auðinn.

Það er svo gott að búa í kassa sem aldrei þarf að líta út fyrir, nema þegar einhverjir hundleiðinlegir fréttamenn taka til að spyrja spurninga um málefni sem þeim koma akkúrat ekkert við.

Hvað kemur til dæmis einhverjum fréttahauk við hvort Samherji hafi greitt mútur í útlöndum, hvað þá á Íslandi? Auðvitað eiga fréttahaukar ekkert að vera að skipta sér af einkamálum fólks sem hefur fengið fiskimiðin að gjöf frá þjóðinni og svo erfa krakkarnir allt saman. Meiri frekjan að vera alltaf að tala um þetta.

Auðvitað eru engin skattaundanskot hjá auðnum þó eitthvað smávegis sé geymt í útlöndum. Það þarf jú að hafa skiptimynt þegar farið er til Ameríku í sumarfrí og svoleiðis.

Hvað er fólk eiginlega að skipta sér af því þó að nokkur hundruð milljóna séu afskrifaðar hjá einhverjum sem blómstrar í pólitík á Íslandi og vill allt gera fyrir aumingja fátæka fólkið, sem er kannski ekkert sérlega fátækt, eða hvað?

Nei, látiði auðugu kassabúana vera.

Kassabúarnir eru besta landkynning fyrir ríka landið þar sem allt er svo gott og allir hafa það betra en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Það er svo sætt þegar ráðherrar dansa fyrir alheim að ég tali nú ekki um þegar þeir ganga niður tröppur á alþjóðlegum fundum studdir af ráðherrum annara landa sem hafa ekki drukkið alveg jafn mikið eða þola kannski veigarnar betur.

Það er nú ekki dónaleg landkynning að sjá breitt bros á eldrauðum vörum koma og fara eins og þeytispjald þegar verið er að tala við erlendar sjónvarpstöðvar og segja frá því hvað Ísland sé veirulaust og þangað geti fólk frá öðrum löndum, veirulöndum, komið og orgað úr sér veiruna úti í guðsgrænni náttúrunni á Íslandi.

En á morgun er dagurinn þar sem fátæka fólkið, sumt, fær svolítið af peningum inn á reikningana sína og getur hugsanlega séð fram á að hafa mat á morgun og meira að segja kannski líka næstu daga.

Á þriðjudaginn er svo 1.september.

Fyrsti dagur mánaðar sem er bara 30 dagar og þá verður að minnsta kosti einum degi færri hungurdagar.

Auðvitað á ekkert að minnast á fólk sem fremur sjálfsmorð út úr hreinni örvæntingu í ríka landinu þar sem allt er svo gott fyrir hina ofurríku.

Nei þeir sem taka líf sitt eru auðvitað bara helsjúkir, eða er það?

Ef þeir eru helsjúkir, af hverju?

Getur verið að endalaust basl og fátækt geri fólk svo uppgefið á lífinu að allur tilgangur hverfi og eina skjólið sé dauðinn?

Æi, hvað ertu að tala um þetta manneskja, segir einhver.

Nei, það má ekki tala um það sem er óþægilegt þegar dansinn dunar við katlana hjá elítunni og mafíósarnir strá mútum hingað og þangað um heiminn. Það á að þegja og sætta sig við lífið og sjá hvað allt er dásamlegt.

Á morgun verður dásemdar dagur og hægt að borða en svo tekur sama örvænting yfir aftur og að nokkrum dögum liðnum verður kannski búið að greiða flesta reikningana en þeir sem eftir eru velta sér yfir á næsta og næstu mánuði.  Hverjum er svosem ekki sama!

Það var þó allavega matur einn dag.

Hulda Björnsdóttir