Graðir kallar mikilvægari en fátækt fólk?

12.janúar 2019

Góðan daginn

Ég hefði átt að skrifa það sem mér datt í hug þegar ég vaknaði í nótt en er nú búin að gleyma hvernig ég reifst við allt og alla

Krónan er komin í hástökk aftur og allt að fara til fjandans

Sögur um graða þingmenn og ráðherra tröllríða netheimum í gær

Klaustursgaurinn stígur fram og hvítþvær sig og málar flokkinn sem hann var rekinn úr eins og skrattann úr sauðaleggnum. Ris gaursins er mikið og ekki síst þar sem hann er fyrrverandi síslugaur. Ég ætla ekki einu sinni að minnast á skítlegt bréf sem hann sendi mér sem svar við bréfi mínu til þingmanna. Það væri að bera í bakkafullan lækinn og ekki ætla ég að blanda mér í mál fyllibittu á bar á Íslandi sem er svo heppinn að muna alls ekki hvað hann sagði og þekkja ekki einu sinni eigin rödd! Skrípalegt er það, svo mikið er víst.

Félag eldri borgara í Reykjavík, Grái herinn og Landssamband eldri borgara hafa nú tekið sig saman og gert auglýsingu, ekki bara lesna, hún er leikin skal ég segja ykkur.

Tilgangurinn er að vekja athygli á hversu erfitt er að vera 50 ára eða meira á Skrípaskeri og Viðar Eggertsson les með alvöruþunga og spyr hvort við treystum Þórunni H til þess að berjast fyrir bættum hag eldri borgara!

HAH, ertu að meina það Viðar?

Kellingin er nú búin að koma sér fyrir í stól LEB sem hún settist í með miklum dynk eftir að hafa gagnrýnt forvera sinn stanslaust fyrir aumingjaskap. Nú hefur frúin (óþarfi að kalla viðrulegar pelsfrúr Kellingar, finnst mér líklega) búin að starfa í kökuhóp ráðuneytis og skilaði niðurstöðum fyrir útlendinga og ekki krónu fyrir eldri borgara sem hafa greitt skatta og skyldur til ríkisins í 40 ár eða meira. Ekki króna fyrir fulla búsetu!

Svo spyr auglýsingin hvort ég teysti þessari frú?

Nei, er svar mitt.

Næsta auglýsing er um hvort ég teysti Kristbjörgu Kjeld (vona að nafnið sé rétt skrifað) til þess að leikstýra eða leika aðalhlutverk í leikriti. Þetta var einhvern vegin svona. Hvernig í veröldinni á ég að hafa skoðun á leikhæfileikum Kristbjargar? Mér fannst hún fínn upplesari og fínn leikari þegar ég sá hana leika en ég hef enga menntun til þess að meta starfshæfni hennar sem listamanns. Ég get þó sagt að ég treysti Kristbjörgu betur en Þórunni H.

Svo var einhvers staðar viðtal við Viðar og hann sagði minnir mig (ég nenni ekki að lesa viðtalið aftur) að félögin hefðu ákveðið að sýna fram á þann mikla auð sem liggur ónýttur í gömlu fólki og er gráhært! “Gömlu fólki og er gráhært” er mín túlkun!

Skemmtiklúbburinn með yfir 11 þúsund félagsmenn gerir það ekki endasleppt og er meira að segja búinn að plata velferðarráðuneytið til þess að taka þátt í kostnaðinum.

Hvað kostaði ævintýrið í heild?

Hver borgar það sem ráðuneytið borgar ekki?

Hvað fékk leikstjóri í laun?

Hvað fékk höfundur í laun?

Hvað kostar hver birting?

Þetta eru allt spurningar sem skemmtiklúbbur eldri Samfylkingarhóps, sem nú skipa stjórn FEB, þurfa að svara.

Mér er svo sem sama þó fylkinginarliðið sem komið er yfir 60 hópist í grúppu til þess að hafa gaman og halda dansiböll fyrir 100 manns og spilaklúbba og jólakortasölu og utanlandsferðir og guð má vita hvað grúppunni dettur í hug.

Það sem ég skil ekki er að fólk, venjulegt fólk, skuli láta plata sig til að borga félagsgjöld og vera svo auðtrúa að halda að samkoman ætli sér að berjast fyrir afnmámi þjófnaðar á lífeyrisgreiðslum þeirra sem hafa búið á landinu alla sína hundstíð eða að berjast fyrir bættum kjörum þeirra sem skrimmta ekki af aumt skömmtuðum ellilífeyri.

Ég skil ekki að venjulegt fólk sjái ekki í gegnum plottið þegar formaður FEB fer inn á þing og flytur hugnæma jólakveðju úr ræðustól alþingis dulbúna sem fyrirspurn til þeirra sem aldrei hlusta og nýtur á sama tíma ljóma frægðar sem sparkmeistari fyrir áratugum og flokksbræður hans halda ekki vatni yfir því að fá að sitja hjá hetjunni.

Wilhelm Wessman hefur lýst því yfir að hvorki FEB eða LEB hafi svarað honum varðandi stuðning við málssókn hans vegna skerðinga á greiðslum til hans vegna tekna úr Lífeyrissjóði. Það virðist alveg sama hver situr í stólunum hjá FEB og LEB, fólki er skítsama um venjulega fólkið. Hagur þeirra vel stæðu er markmiðið og þar fæst árangurinn eins og kom í ljós á síðasta ári.

Hvað ætli það séu margir í stjórnum þessra sambanda sem taka hálfan ellilífeyri? Það væri fróðlegt að vita en auðvitað verður það ekki upplýst.

Hvað ætli það séu margir í stjón FEB sem njóta góðs af frítekjumarki atvinnutekna? Auðvitað verður það ekki gefið upp, persónulegar upplýsingar eða eitthvað svoleiðis.

Stjórnvöld hlusta á samtök sem hafa 11 þúsund manns á bak við sig. Reynslan hefur sýnt það.

Vinur minn einn kallar landið Skrípasker. Það er líklega réttnenfni því skrípleikurinn er alls staðar.

Skrípasker er eiginlega að verða að glæpaskeri.

Það er glæpur að láta fólk sem hefur 40 ára búsetu sitja á hakanum og ekkert gert til þess að bæta hag þess hóps. Það er glæpur sem gæti hæglega gerst í gjörspilltum löndum í mið Evrópu eða Brasilíu en ætti ekki að viðgangast í norrænu landi eins og Íslandi.

Graðir kallar hafa alla tíð haft sitt fram á landinu. Hvernig var það ekki með sýslumenn, lækna, presta og fleiri embættismenn, hér í denn. Þeir komu á sveitabæina og fengu staup og hlýtt rúm með ábót. Vinnukonurnar áttu ekki margra kosta völ og mörg voru börnin getin uppi í þessum hlýindum fyrri áratuga. Nú er allt vitlaust af því að einhverjir kallar sem ekki ráða við skaftið hafa nýtt sér vald sitt á síðari tímum. Auðvitað á ekki að láta kallana komast upp með svona athæfi en það sem ég skil ekki er að á meðan verið er að undirbúa enn eina gjöfina til glæpamannanna sem smjöttuðu í hruninu er ekki minnst einu orði á þann gjörning en allt fullt af sögum sem hafa verið sagðar oft áður af einum graðkalli!

Væri sama ákefð í umfjöllun um aðstæður fátæklinga á Íslandi og er notuð í graðkallaumfjöllun hefðu kjör almennings á Íslandi, bæði öryrkja og eldri borgara ásamt öðru fátæku fólki, verið bætt fyrir löngu.

Er ekki allt í lagi á Skrípaskeri, eða á ég kannski að breyta nafninu í Glæpasker?

Hulda Björnsdóttir

Heimilisuppbót öryrkja og eldri borgara

4.janúar 2019

Góðan daginn.

Ég er að velta fyrir mér hvers vegna heimilisuppbót eldri borgara er hærri en öryrkja.

Fyrir eldri borgarann er þessi félagslega aðstoð krónur 62.695 á mánuði en fyrir öryrkjann ekki nema 50.312 krónur á mánuði.

Er samkvæmt löggjafanum ódýrara að vera öryrki?

Mér finnst þetta einkennilegt svo ekki sé meira sagt.

Þar sem ég er farin að ræða Heimilisuppbót ætla ég að bæta þessu við:

Margir sem skrifa um málefni eldri borgara og greiðslur þeirra frá TR setja heimilisuppbót inn í sem part af ellilífeyri.

Þetta er að mínu áliti mjög varasamt og hef ég oft bent á hættuna.

Ellilífeyrir er nú 1.janúar 2019 krónur 248.105 á mánuði og er það fyrir skatt.

Ég er þeirrar skoðunar að þeir sem eru að reyna að þoka stjórnvöldum í átt að skilningi á því hvernig búið er að öldruðum á einu ríkasta landi heimsins ættu alltaf að nota töluna sem er undir ellilífeyri og ekki að vera að blanda félagslegum uppbótum eins og til dæmis “Heimilisuppbót” eða annari aðstoð inn í málið.

Þórunn H. Ellert, Bjarni Ben og fleiri hafa talað um, í fyrra, að ellilífeyrir gæti verið 300 þúsund krónur á mánuði. Þetta er bara bull og ekkert annað en pólitískt plott til þess að upphefja þá sem þykjast vera að gea vel við eldri borgara.

Hvernig stendur á þvi að það er ekki talað um bílastyrk og fleiri styrki sem hægt er að fá ef fólk er komið á ellilaun frá TR, rétt eins og heimilisuppbót?

Heimilisuppbót er fyrir fámennann hóp eftirlaunafólks, hún er t.d. fyrir þá sem taka hálfan lífeyri af því að þeir hafa efni á því og hún skerðist ekki baun hjá þessum hópi. Svo ægilega mikilvægt að bæta kjör þeirra sem eru til dæmis með yfir milljón á mánuði og nota til þess peninga sem ríkisstjórnin ákveður að fara eigi í almannatryggingar.

Þessi uppbót skerðist ekki hjá hinum ríku en hún skerðist hjá venjulega Jóninum og Gunnunni ef þau hafa verið svo einföld að fylgja lögum og safna í lifeyrissjóð á starfsævinni sinni.

Það væri frábær hugmynd fyrir þá sem setja lög og reglur landsins að lesa grein Wilhelms Wessmann þar sem hann segir að skilji þau hjónin hækki eftirlaun þeirra um 60 þúsund á mánuði, eða 120 þúsund hjá þeim samanlagt. Fáránleikinn og heimskan í kerfinu kemur skýrt fram í skrifum Willa. Þetta birtist á Facebook og geta þingmenn flett skrifunum upp þar, þurfa bara að gúggla Wilhelm Wessmann og þá kemur þetta allt upp í hendurnar á hinum háttvirtu.

Hulda Björnsdóttir

 

Nýárskveðja til vina minna

1.janúar 2019

Góðan daginn kæri lesandi.

Nýtt ár hefur heilsað og ég óska öllum sem þessa síðu heimsækja, gleði og gæfu á nýju ári.

49251703_1226134860871672_4053839662974763008_o

Þessi gaur sem situr keikur í stofunni hjá mér er táknið sem ég ætla að helga mér þetta árið.

Hann er svo bjartur og fallegur og fullur af baráttuvilja og lætur ekkert buga sig.

Þannig vil ég að árið mitt verði, það er árið 2019.

2018 var snúið og ekki alltaf auðvelt að koma mér í gang en heilsan er líklega það dýrmætasta sem við eigum. Ég hef gert það sem hægt er til þess að halda mér á löppunum og held því áfram á þessu nýja ári og svo verður árangurinn að koma í ljós og kannski verða næstu áramót allt öðruvísi en þessi.

Barátta fyrir bættum kjörum eldri borgara og öryrkja er snúin.

Ég var spurð fyrir nokkrum dögum hvað ég vildi gera og hvernig ég vildi haga baráttunni.

Ég held að ég sé komin með tillögu en er enn að velta henni fyrir mér og móta hana í huganum. Þegar hún kemst á blað verðið þið þau fyrstu sem sjá hugmyndina, ég get lofað ykkur því.

Það er gleðilegt að sjá hvernig fylgjendum hefur fjölgað hérna á síðunni (Milli lífs og dauða” á Facebook), sem er jú síðan okkar, og nýir bætast við.

Ég hef ekki gert neitt í því að auglýsa síðuna en það gæti hugsanlega verið hugmynd fyrir ykkur að mæla með henni ef ykkur finnst hún þess virði.

Eftir því sem fleiri comment koma á póstana því meiri dreifingu fær spjallið. Það þarf ekki endilega að vera neitt ofboðslega gáfulegt comment, bara eitthvað lítið og fuglinn flýgur af stað.

Ég vona að dagurinn verði ykkur sæmilegur og sendi kærar nýárskveðjur til ykkar frá Penela.

Hulda Björnsdóttir

Hvatning til okkar sem viljum árið 2019 bjartara en árið 2018

1.janúar 2019
Ég skrifaði á Pírataspjallið fyrir nokkrum dögum en finnst full ástæða til þess að koma með þessar hugleiðingar mínar hér inn og koma þær í lok þess sem er að velkjast í huga mínum þessa stundina.

Fyrst þetta:

Á sama tíma og verið er að ýja að því að setja á stofn enn eitt flokksapparatið og það að vera fyrir fólk sem er orðið 60 ára og eldra, þá erum við með fólk inni á Alþingi sem er virkilega að fletta ofan hinu og þessu sem hefur fengið að grassera í áratugi.

Við þurfum engin smástyrni sem hafa ekki hugmynd um hvernig venjulegir eldri borgarar hafa það.

Við þurfum ekki nýjan flokk með niðurlægjandi nafni fyrir þá sem eru komnir yfir 60 ára markið.

Það þarf enginn að segja mér að fyrrverandi bankastjóri, þó hann sé úr eldra kerfi, hafi það svo slæmt að hann skilji hvernig þeim líður sem fá rétt rúmar 200 þúsund krónur á mánuði í tekjur.

Við vitum hvernig baráttan hjá FEB hefur verið. Þau hafa fengið allt í gegn fyrir elítuna en ekkert fyrir okkur hin.

Þetta nýja apparat sem á að fara að stofna til þess að koma valdagráðugum velstæðum köllum í góða stöðu er blekking og venjulega fólkið má ekki láta blekkja sig eina ferðina enn með fagurgala sem er minna virði en ekki neitt.

Hér kemur svo innleggið mitt á Pírataspjallið

“Það getur vel verið að ég hafi áður sagt það sem ég ætla að segja en góð vísa er aldrei of oft kveðin.

Ég hef fylgst með stjórnmálum í áratugi, hóf að fylgjast með mjög ung og er nú 73 ára. Ég man aldrei eftir því að önnur eins barátta fyrir upplýsingastreymi frá Alþingi hafi verið háð hvorki utan þings né innan, og sú sem nú hefur litið dagsins ljós, vegna þrautseigju þingmanna Pírata.

Við kvörtum yfir því sem miður fer og gleymum oft að þakka fyrir það sem vel er gert. Þess vegna er ég nú að skrifa hér.

Ég er svo óendanlega þakklát þingmönnum Pírata, öllum, fyrir baráttu þeirra á nýliðnu þingi og hvernig þeir hafa ekki látið vaða yfir sig á skítugum skónum og haldið sínu striki. Það er full þörf á ungu fólki með bein í nefinu eins og þingmenn flokksins virðast allir hafa.

Nú í árslok vil ég senda öllum þingmönnum Pírata bestu óskir um gleðilegt nýtt ár og þakka þeim fyrir að vera ungt fólk sem þorir.

Þakka ykkur öllum fyrir baráttuna sem stundum hefur virst vonlaus en þið hafið ekki gefist upp. Þakka ykkur fyrir að fletta ofan af spillinguni lag fyrir lag rétt eins og verið sé að vinna með lauk. Hvert lag sem opnast leiðir í ljós enn meiri rotnun og tími kominn til þess að ALLIR fulltrúar þjóðarinnar á hinu háa Alþingi líti í eigin barm og uppræti spilinguna.
Með nýárskveðjum til allra Pírata. /Hulda Björnsdóttir” Hér endar það sem ég skrifaði á Pírataspjallið.

Hvatning til okkar á þessum fyrsta degi nýs árs er þessi:

Nú er tími til þess að standa með þeim sem vilja spillinguna upp á borðið.

Hulda Björnsdóttir

Það er laugardagur og mér datt þetta í hug!

29. Desember 2018

Góðan daginn

Hér í Penela er kalt en skínandi sól svo ég ætla að láta það vera að kvarta undan kuldanum.

Rafmagnsreikningurinn er ekki nema rétt rúmlega 86 evrur, þrátt fyrir vetur og gasið líklega um það bil 300 evrur. 386 evrur gera á gengi dagsins 51.858 íslenskar krónur eða þar um bil. Svo er til viðbótar viður í arninum sem ég fékk í október og kostaði eitthvað smávegis, innan við 200 evrur. Viðurinn endist líklega fram á vor.

Húsin hérna eru óeinangruð, byggð úr holóttum múrsteinum. Enginn hiti er í íbúðinni fyrir neðan mig, kallinn er einhvers staðar og kyndir hvort sem er ekki þó hann sé heima. Á hæðinni fyrir ofan býr enginn, þau eru flutt í nýja húsið sitt og íbúðin til sölu. Semsagt ég er í miðjunni og hita upp bæði fyrir ofan og neðan. Ekki að undra að ég borgi slatta fyrir hitunina, það versta er þó að mér tekst ekki að koma hitastiginu inni upp fyrir 18 gráður! Auðvitað er hægt að fara út og láta sólina skína á sig og þar er eiginlega heitara en inni. Veggirnir verða svo ískaldir í svona tíð.

Veturinn tekur enda svo ég ætla ekkert að kvarta meira í bili.

Múslimarnir sem fluttu í húsin á móti eru held ég flestir farnir. Þeir koma með fjölskyldurnar, búa til fleiri börn og yfirgefa svo litla landið mitt og fara til betri landa í Evrópu. Ég er löngu hætt að æsa mig yfir þessu. Veit sem er að þeir eru ekki flóttamenn frá stríðshrjáðum löndum og veit líka að innan tíðar flytja þeir sig allir um set. Það er þó ergilegt að landar mínir sem eru bláfátækir skuli ekki fá sömu fyrirgreiðslu og “börnin skeggjuðu”.

Fínasta dæmið er þó þorpið sem margir voru fluttir til og þar áttu þeir að geta sett upp eigið samfélag og ræktað og gert það sem þeir gera í heimalandi sínu. Þetta var þorp sem hafði verið yfirgefið, eins og svo mörg önnur hér í landinu. Einn góðan veðurdag var svo farið í heimsókn til þess að sjá hvernig nýbúunum vegnaði og hvernig þeim hefði tekist að nýta það sem þau fengu til uppbyggingar.

Ekki sála inni í þorpinu. Hvergi! Allir flognir á burt og enginn veit hvert! Svona gengur þetta stundum fyrir sig hér í litla landinu mínu.

Á þessum tíma árs þarf ég að endurnýja umsókn mína um að greiða skatta í búsetulandinu mínu, samkvæmt tvísköttunarsamningi milli Íslands og Portúgal, og þá sendi ég fullt af gögnum til RSK og þau af algjörri snilld búa til eitthvað vottorð sem ég veit ekkert hvernig lítur út, en veit að virkar, og senda þau vottorðið til Líf VR og TR.

Þetta árið ákvað ég að hafa vaðið fyrir neðan mig og argast í TR áður en janúar 2019 skriði inn. Ég sendi mail til stofnunarinnar og bað vinsamlegast um að þau leiðréttu 70 þúsundin sem þau ætluðu, samkvæmt greiðsluáætlun fyrir árið 2019, að taka af mér. Ég bað um að tekið yrði til við að finna pappírinn sem ég vissi að RSK hafði sent þeim fyrir hálfum mánuði þar sem skýrt var tekið fram að ekki bæri að taka neitt af frúnni því hún greiddi skatta í búsetulandinu og það væri EKKI Íslandi. Svo bað ég auðvitað mjög kurteislega um að mér yrði send staðfesting á því að málið hefði siglt í höfn.

Á þriðja dag jóla var ekki komið svar. Ég vissi að stofnunin væri mönnuð og nú hringdi ég, svona sæmilega róleg eða þannig og ákveðin í því að vera kurteis fram í fingurgóma.

Þú ert númer 5 í röðinni, sagði maskínan.

Ég var sæl, stundum hafði ég verið númer 20 í röðinni svo númer 5 var flott.

Þú ert númer 4 í röðinni, kom fljótlega.

Nú þetta gengur hratt fyrir sig, hugsaði ég.

Góðan daginn, hvernig get ég aðstoðað , sagði rödd í apparatið. Það hafði greinilega verið hlaupið yfir 3 og nú var ég komin í samband.

Sagði ég gaurnum hver ég væri og hann fékk kennitölu og alles og ég sagðist vilja fá nýja greiðsluáætlun og hana vildi ég fá fyrir útborgun á janúar.

Gaurinn bað mig að senda bréf!

Ég er búin að senda bréf, sagði ég.

Hann fann ekkert. Geturðu sent það aftur? spurði hann

Já, bíddu, svaraði ég og hugsaði, andskotans hálfviti, en sagði það auðvitað ekki.

Eftir langa mæðu fann gaurinn skjalið sem ég sendi honum á adressuna sem hann gaf mér upp og þá gat ræfillinn ekki opnað það. Jesús minn, hugsaði ég, og var nú farið að þykkna í frúnni og ásetningur um kurteisi og svoleiðis alveg að renna út um gluggann.

Ég sagði honum hvernig hann ætti að fara að. Auðvitað vissi ég að það var ekkert mál að opna fyrirbærið.

Eftir nokkra stund bað hinn ágæti á línunni mig um að bíða augnablik og tók nú við tónlist sem spilaði eitthvað á meðan ég varð æstari með hverju augnablikinu sem leið og þau urðu ansi mörg en ég var jú að hringja frá útlöndum og ákvað að gefast ekki upp. Ég mundi ábyggilega ekki finna sama gaurinn aftur ef ég legði á og þá þyrfti ég byrja upp á nýtt. Nei, ég ætlaði að bíða.

Á endanum kom röddin aftur, Þakka þér fyrir að bíða, það er verið að vinna í því að leiðrétta skráninguna og ætti þetta að vera komið í lag fljótlega, sagði röddin.

Í dag? spurði ég.

Ja það held ég, sagði gaurinn

Kvaddi ég og þakkaði fyrir og var ennþá kurteis og lagði á.

Hálftíma síðar barst mér mail. Ekki víst að hægt verði að leiðrétta fyrir áramót en verður gert í janúar!

Ég varð óð.

Ég ætla ekkert að segja hér hvað ég sagði í mailinu sem ég sendi til baka en það var greinilega öskureið kona sem var að bölsótast úti í Portúgla.

Ákvað ég nú, heilsu minnar vegna, og lélegs hjarta, að hætta að hugsa um þetta í bili og rífast aftur í janúar og skipuleggja þá hvernig ég möndlaði þann mánuð. Ég vissi sem var að hjartað var ekki par hrifið af æsingi og ef ég ætlaði að komast inn í næsta ár yrði ég að vera róleg og passa að ég væri ekki dauð næst þegar ég hitti hjartalækninn minn, sem er flottasti gæi sem þið getið hugsað ykkur og frábær læknir í þokkabót, en stefnumótið er 1.febrúar. Það var ekki til umræðu að ég léti TR og einhvern gaur þar eyðileggja fyrir mér ánægjuna af því að heimsækja Dr. Pedro. Ekki aldeilis.

Í gær kom svo alveg óvænt mail.

Greiðsluáætlun þín hefur verið leiðrétt! stóð á skjánum.

Hah! Auðvitað sendi ég svar til baka með :Takk fyrir!

Auðvitað er TR ekkert verri stofnun en margar aðrar ríkisstofnanir á Íslandi en samt er alltaf jafn hlægilegt að tala við þá sem eru nýjir og vilja í raun gera allt fyrir mann en þegar þeir tala svo við gamla starfsfólkið kemur annar tónn í skrokkinn og þjónustulundin fýkur aðeins til.

Ég get hlegið að þessu núna, en því miður eru margir sem eru í verulegum vandræðum vegna þess hvernig stofnunin vinnur. Það er fólk sem hefur uppgötvað að það fær ekki krónu frá TR í janúar vegna þess að það vantar einhvern pappír. Stofnunin er ekki að hafa fyrir því að hringja í viðkomandi og vara við. Nei, það er of mikil fyrihöfn og samræmist ekki þjónustulundinni.

Ég heyrði um eitt svona dæmi og viðkomandi var sagt að lifa á konunni!

Kannski þarf að stokka upp í kerfi þjónustustofnana hjá íslenska ríkinu, allavega hjá þeim sem eiga að sjá um að fólk drepist ekki úr hungri ef það er svo óheppið að þurfa að reiða sig á greiðslur frá TR.

Ég ætlaði að skrifa um allt annað þennan daginn en svona gerist þetta stundum og puttarnir taka völdin og ég ræð ekkert við hvað situr eftir á pappírnum, hvað þá skjánum.

Hulda Björnsdóttir

Er allt að verða galið á Skrípaskeri?

28.desember 2018

Gasalega sniðug hugmynd!

Afritað af vef Alþingis:

“Þingflokkar eftir alþingiskosningar 2017

Átta stjórnmálasamtök fengu fulltrúa kjörna á Alþingi í alþingiskosningunum 28. október 2017: Flokkur fólksins (4), Framsóknarflokkur (8), Miðflokkur (7), Píratar (6), Samfylkingin (7), Sjálfstæðisflokkur (16), Viðreisn (4) og Vinstri hreyfingin – grænt framboð (11).”

 

Hér að ofan sést hvernig Alþingi er skipað núna. Átta sjórnmálasamtök með fulltrúa þar.

Svo kemur hin gasalega sniðuga hugmynd frá Ragnari Önundarsyni um að stofna nýjan flokk, einn enn, átta eru ekki nóg, og á nýji flokkurinn að vera fyrir 60 ára og eldri.

Vel á minnst, það eru 2 þingmenn, sem voru reknir úr Flokki Fólksins sem sitja utan flokka á þingi núna, svo það eru eiginlega 9 öfl á hinu göfuga alþingi þegar árið 2019 gengur í garð.

Já, það veitir sko ekki af því að stofna enn eitt nýtt framboðið. Ég veit reyndar ekki, og nenni ekki að fletta því upp, hve gamlir brottreknu gaurarnir eru, en kannski er hér að verða til skjól fyrir þá.

Hér eru nokkur ummæli um hugmyndina:

“hroðaleg hugmynd; ef “frekjukynslóðin” – sá hópur – sem graðgaði til sín bestu bitunum af hagvexti sl 50 ára – platar blásnsnauða eldri borgara til að púkka undir framboð eignafólksins sem heimtar bæði skattfrelsi eigna og peninga . . . .”

“Já og endilega hafið það gamla Sjálfstæðismenn s.s. Ellert Schram og fleiri elli smelli, eða kjósið bara Pírata og þá lagast þetta og svo margt annað.”

“Ekki er öll vitleysan eins á þessu skeri”

“Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur opnaði fyrir umræður um framboð, þeirra sem eru eldri en sextugur, í næstu þingkosningum. Ragnar skrifaði um hugsanlegt framboð sem hann kallar „Gömlu brýnin“.

Ragnar segir undirtektir hafa verið hreint ágætar og allir nema einn, sem hafa tjáð sig, hafi verið jákvæðir.

Enn er óvíst hvert þetta leiðir en augljóst er að hugmyndin nýtur meðbyrs.

#Á næsta ári stofnum við sérstakan stjórnmálaflokk aldraðra, ,,Gömlu brýnin” gæti verið vinnuheiti hans. Enginn fær að vera á lista nema vera 60+,“ skrifaði Ragnar.”

Jæja, ég fór og gúgglaði hver þessi ágæti maður væri, þ.e. Ragnar Önundarson, og langaði að vita hvort hann væri kannski einn af almúganum sem berst í bökkum, eða hvort hann væri einn af elítunni.

Fyrrverandi bankastjóri, fyrrverandi hitt og þetta og veit sínu viti samkvæmt gúgglinu. Sérfræðingur í hinu og þessu, til dæmis um hvernig prófíl myndir stjórnmálakonur eiga að hafa á Facebook!

Hvað er að fólki?

Ætlar fólk virkilega að falla fyrir svona bulli?

Á nú að blekkja okkur sem varla eigum til hnífs og skeiðar og fá okkur til þess að kjósa nýtt apparat, enn eitt apparatið, sem kemur til með að kosta okkur, skattgreiðendur, morð fjár?

Ætlar fólk að láta  glepjast?

Ætlar fólk sem undanfarið hefur til dæmis verið dyggt stuðningsfólk Flokks Fólksins að snúa sér á hina hliðina og fara í samflot bara með hverju sem er ef það heitir eitthvað sem vísar til “gamalt”?

Þessi hugmynd er fyrir elítuna og ekki almennan eldri borgara.

Ef þið eruð svo barnaleg að trúa fagurgalanum, þá þið um það en Skrípasker hélt ég að gæti ekki orðið skrípalegra.

Svei mér þá, það er allt orðið bandvitlaust á þessu skeri og líklega er því ekki viðbjargandi.

Þið sem gleypið þessa hugmynd ættuð að gúggla gaurinn og ef þið, eftir gúgglið, eruð enn á því að styðja ruglið lýsir það best hugarástandi ykkar, stuðningsmannanna.

Ég veit ekki hvort ég á að hlæja eða gráta, held þó að hláturinn verði ofan á því heimskan er svo dásamleg.

Hvað málefni á þessi nýji flokkur að hafa?

Á bara að hafa málefni eldri borgara á stefnuskrá?

Á kannski að hafa utanríkismál með, eða barnaverndarmál? Bara svona til þess að taka smá dæmi.

Já, já, bjóðið bara fram og safnið saman gömlum Sjöllum og Siðflokksgaurum og kannski nokkrum Samfylkingarmönnum og konum og sjáið svo hvað kemur út úr fyrirbærinu.

Væri ekki nær fyrir þá sem hafa einhvern minnsta áhuga á því að bæta kjör eldri kynslóðarinna, þess hluta hennar sem þarf bætt kjör, því það eru ekki allir, væri ekki nær fyrir umbótafólkið að snúa sér til flokka sem eru nú þegar til og fá þá í lið með sér, frekar enn að stofna enn eitt nýtt apparat og sundra þvi sem fyrir er?

Hulda Björnsdóttir

 

Og þakklætið drýpur af trjánum !

27.desember 2018

Góðan daginn

Óendanlegt þakklæti mitt heldur áfram og takmörk þess verða enn endalausari þegar ég skoða hvernig hin dásamlega hækkun eftirlauna frá TR lítur út, ég er að tala um 3,6 prósentin góðu!

Ellilífeyrir er krónur 248.105 núna frá 1.janúar 2019 (3,6 % hækkunin!)

Þetta er svo dásamlegt og ég er í skýjunum borin þar um af endalausu þakklæti til hins örláta fjármálaráðherra og ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem brosir fagurlega til okkar og segir okkur að allt sé svo dásamlegt.

Af hverju skil ég ekki það sem fjármálaráðherrann, fyrrverandi forsætisráðherra og frú núverandi forsætisráðherra eru að reyna af alkunnri manngæsku að troða inn í gamalt höfuð mitt? Af hverju? Hvað er eiginlega að mér? Er ég komin með elliglöp?

Einu sinni, fyrir langa löngu, var talað um að laun þingmanna væru svo lág að ekkert almennilegt fólk fengist til þess að fara á þing.

Einu sinni, fyrir langa löngu, var ákveðið að búa til apparat sem ákveddi laun þingheims og allt varð svo ægilega gott, eða hvað?

Skríllinn, almenningur, sem hefur það betra en nokkru sinni, að sögn fjármálaráðherra, reis upp þegar hann sá hvernig Kjararáðið, apparatið, skammtaði þingheimi og þeim sem undir ráðið heyrðu, gull af gulldiskum. Nei, nú var kominn tími til þess að leggja niður þetta bévaðans apparat og láta þingheim fá laun eins og annað fólk!

Fjármálaráðherrann lagði fram frumvarp sem var auðvitað samþykkt af stjórn og örfáum stjórnarandstöðu þingmönnum. Nú var búið að redda málinu og skríllinn gat troðið mótmælum upp í munninn á sér aftur, eða var það?

Þegar fólk fer að skoða frumvarpið kemur dásemdin í ljós.

Launin eru verðtryggð!

Þakklæti mitt fyrir hönd þingheims drýpur eins og hunang af trjánum og þegar ég skoða eftirlaunin mín eftir að hafa greitt skatta og skyldur til þjóðfélagsins í 40 ár verð ég enn auðmýkri og fell eiginlega alveg í stafi.

Ellilífeyrir hækkaði um dásamlegu 3,6 prósentin um áramót og verður 1.janúar 2019 krónur 248.105, hvorki meira né minna, en auðvitað fyrir skatt.

Hvað er ég eiginlega að belgja mig út?

Jú, staðreyndin mín er svona í laginu.

Á árinu 2018 voru eftirlaun mín frá TR krónur 182 þúsund krónur, rétt rúmlega og fara nú upp í heilar 188.445 krónur á mánuði.

Hvaða bull er þetta í þér manneskja, gæti einhver sagt. Ellilaun frá TR eru 248.105 á mánuði, þú veist ekkert hvað þú ert að tala um.

Dásemdin er sú að ég veit nákvæmlega hvað ég er að tala um. TR reiknar mér tekjur frá Lífeyrissjóði upp á krónur 157.572 á mánuði (fer úr rúmlega 152 þúsundum á mánuði árið 2018, það er jú væntanleg verðbólga á landinu fagra).

Til þess að sjá um að ég sé nú ekki að dansa um í auðævum á gamals aldri eru lögin yndislegu þannig að 157 þúsundin mín lækka greiðsluna frá TR niður í 188.445 á mánuði.

Sanngjarnt eða hvað?

Lífeyrissjóðurinn minn lækkar um 59.660 krónur á mánuði vegna þess dásemdar fyrirkomulags sem heitir SKERÐINGAR.

Æi, vertu ekki að rausa þetta manneskja, hættu þessu vanþakklæti og snúðu þér að því að vera þakklát fyrir að vel sé búið að þingheimi sem setur öll fallegu lögin og sér um að ALLIR FÁI EKKI jafnt!

Það verður að hugsa vel um fuglana sem eiga auðævi landsins, þú hlýtur að skilja það, og þú getur bara verið hamingjusöm. Þú færð að greiða fyrir auðævin og vertu ekki að kvarta endalaust manneskja.

Auðvitað er ég ekkert annað en þakklæti annan daginn í röð, það hljóta allir að sjá. Ég veit ekki alveg hvað ég á að gera við allt þakklætið en reyni að finna eitthvað á morgun.

Hulda Björnsdóttir