Ég veit ekki hvort ég er reið eða bara sorgmædd!

20.04.2024

Góðan daginn

Það er komið á seinni hluta mánaðarins og eitt og annað áhugavert hefur gerst á Íslandi.

Ný stjórn með BB í forsæti eru líklega stærstu tíðindin, eða hvað?

Kata komin á toppinn í hópi forsetaframbjóðenda, samkvæmt einhverri líklega keyptri könnun, og allir búnir að gleyma því sem hún sagði 2017 úr ræðustól Alþingis og hvernig efndirnar voru svo þegar hún stökk frá sökkvandi skipi stjórnar sem hún hafði veitt forstöðu í 7 ár eða svo.

Ég skil ekki hvað fólk hefur lélegt minni.

Ég get ekki hugsað mér að sjá hana á stóli forseta og búandi á Bessastöðum.

Mér finnst fólk sem kemur beint úr stjórnmálum eigi ekki að fá brautargengi í svona embætti.

Hvernig á hún að geta tekið hlutlaust á málum þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar, sem er stjórnin sem hún yfirgaf fyrir nokkrum mánuðum? Er það hægt? Ég held ekki.

Ég held að hún verði landi og þjóð ekki til heilla ef hún nær kjöri.

Það sem ég hef séð til hennar á erlendum sjónvarpstöðvum er ekki fyrir minn smekk. Skæl borsandi þegar hún lýsti því á CNN í Covid hvað allt væri dásamlegt á Íslandi!

Myndirnar á fundum með æðstu ráðamönnum heimsins þegar hún skellir sér í fimleika stöðu, enn og aftur skæl brosandi á meðan allt er að fara til fjandans á Íslandi, voru ekki til þess að auka álit mitt á manneskjunni. Ég skammaðist mín fyrir forsætisráðherrann!

Elítan vill hana auðvitað á Bessastaði, ég skil það.

Almenningur vill hana líka, eða að minnsta kosti sumir, og líklega sá almenningur sem tilheyrir eina prósentinu.

Gengismálin eru annað sem mér þykir áhugavert að fylgjast með á Íslandi.

Hvernig fara á með öryrkja er enn annað áhugavert.

Um næstu áramót á að refsa þeim sem hafa flúið land og fá einhverjar tekjur frá Íslandi og borga skatta á Íslandi. Það á að taka af þessu fólki persónuafsláttinn. Er það löglegt? Hvað ætla félög eldri borgara að gera í málinu, og hvað með verkalýðsforystuna? Kemur þetta verkalýðsforystunni ekkert við?

Hvað gengur ráðamönnum til?

Ég skil þetta ekki. Lítur elítan aldrei til þess hvað það sparar ríkinu í raun mikið að þurfa ekki að sjá eldri borgurum og öryrkjum sem búa erlendis fyrir heilbrigðisþjónustu og félagslegum stuðningi?

Hugsar elítan sem stjórnar landinu aldrei um heildar myndina?

Líklega er máltækið „margur verður af aurum api“ sannmæli um vitlausu elítuna.

Frjálshyggjan er á undanhaldi um allan heim en auðvitað skilur íslenska elítan það ekki. Þar er bara hugsað um að maka eigin krók og gefinn skítur í fátæka, sem eiga helst að drepast sem allra fyrst, svo ekki þurfi að hlusta á ruglið í þessu fátæka liði.

Ég skil ekki hvernig fólk getur kosið aftur og aftur og aftur og aftur, sama sukkið í almennum kosningum.

Ég er líklega að verða kommi, kannski hef ég alltaf verið kommi!

Ég verð æf þegar ég hlusta á núverandi elítu æða áfram í lyginni og blekkingunum og hluti hinna lágu fellur á kné í tilbeiðslu.

Ég hlusta aldrei að RUV og les ekki Moggann.

Ég er líklega kommi því ég hlusta oft á Samstöðina sem mér þykir áhugaverður miðill og þar eru mál rædd almennilega.

Í morgun, eins og venjulega á laugardags morgnum, var enn eitt dásemdar viðtalið. Ég hvet ykkur til að hlusta á þessa nýju stöð. Það getur vel verið að þið séuð ekki alveg sammála öllu sem þar kemur fram en með því að hlusta kemur kannski í ljós annar vinkill á sum mál.

Mér finnst gott að hlusta á samtölin á Samstöðinni og þau gefa mér einhverja von um að kannski séu þær raddir að hola steininn.

Stundum eru sjallar með í hópnum sem verið er að ræða við og þar er ekki um uppbyggjandi tal að ræða. Mér verður illt að hlusta á hrokann og hvernig þeir tala einhvern vegin allir eins. Stundum gefst ég upp á þeim en stundum læt ég mig hafa það því þeir eru partur af spillingunni og nauðsynlegt að vita hvernig hún hagar málflutningi sínum, en hrikalega er sárt að hlusta á hvað allt er dásamlegt í þeirra augum, á meðan svo margir svelta.

Ég skil ekki hvers vegna almúginn rís ekki upp á Íslandi. Hvað varð um alla baráttuna sem einu sinni var? Hvað var það sem hefur drepið baráttuviljann? Er það óttinn við alræði eina prósentsins?

Ég get ekki sagt mikið um hvernig ætti að berjast því ég flúði land fyrir mörgum árum en á þó það inni í hjartanu að einu sinni fyrir mörgum árum árum þegar ég var ung var ég í harðri baráttu fyrir bættum kjörum einhverra!

Ég er á seinni helmingi ævinnar og veit ekkert hvað hún verður löng en ég mun aldrei stíga fæti á Ísland í þessu lífi en ég held því fram að ég eigi rétt á að hafa skoðun og láta hana í ljós þar sem ég fæ eftirlaun frá Íslandi þar sem ég starfaði mest alla ævina og greiddi skatta og gjöld og vann mér inn réttindi til að eiga áhyggjulaust ævikvöld!

Þetta áhyggjulausa ævikvöld er líklega ekki fyrir almúga eins og mig í nútíma firringu elítunnar á Íslandi.

Áhyggjulausa ævikvöldið er fyrir elítuna og við hin getum étið það sem úti frýs og eigum að láta aðalinn í friði í sínum glerhúsum.

Er þetta ekki dásamlegt?

Ég er auðvitað vanþakklát, ég veit það.

Vonandi rís almúginn upp og ég trúi því ekki að sjöllum takist að koma KJ á Bessastaði en ég er hrædd um að svo verði.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a comment