Skipulagið – TR – RSK – Líf – útlaginn segir frá! Einfalt kerfi !

12.janúar 2020

Þá er komið nýtt ár með lægðum og hamagangi á Íslandi.

Hér í Portugal er veturinn grimmur þessa dagana. Í morgun var allt frosið og þegar ég dró frá í svefnherberginu var einn sem býr í blokkinni hinum megin við götuna að koma út. Hann er gamall líklega tæplega 90 ára eða eitthvað svoleiðis og þau hjónin hita ekki upp íbúðina hjá sér yfir veturinn. Þennan morgun var kallin með bláar hendur og gat varla rétt úr sér. Þetta er algengt hjá þeim eldri. Þau láta sig hafa það að vera með húfu og vafin inn í teppi allan veturinn en svo getur sama fólkið eytt stórfé í alls konar glingur! Ég skil þetta ekki og hef aldrei skilið. Kuldaskræfan ég kyndi með öllum tiltækum ráðum og ég vil koma inn í sæmilega hlýja íbúðina þegar ég kem að utan. Auðvitað ægileg heimtufrekja en ég tel betra að halda heilsu með því að hafa hita en að vera öll saman krulluð vegna þess að ég tími ekki að kynda!

Þeir sem segja að það sé heitt í litla landinu mínu eru ekki alveg með á nótunum og ættu eiginlega að skoða hausinn á sér. Það er auðvitað hlýtt miðað við Ísland þegar þar geysa vetrarlægðir en er ekki óttalega hallærislegt að búa í einu landi og miða svo allt við eitthvað annað land? Segi bara svona.

Þetta var semsagt um veðrið.

Svo kemur það sem ég ætlaði að segja um nýja árið.

Eins og þið vitið er ég alveg hreint ótrúlega skipulögð eða þannig. Það er svona skipulagt kaós á borðstofuborðinu mínu, saumaskapur, tungumálanám, söngnótur og blóðþrýstingsmælir ásamt blómakeri. Semsagt allt skipulagt í botn og ég veit nákvæmlega hvar allt er á borðinu en fyrir utanaðkomandi lítur þetta væntanlega út eins og ruslakista, get ég látið mér detta í hug.

Skipulagið fyrir útlagann sem fær eftirlaunin frá Íslandi lítur semsagt svona út í fáum dráttum.

  1. Passa upp á að allar nótur í Portúgal séu rétt flokkaðar í tölvunni. Þetta er mjög mikilvægt upp á skattinn seinna á árinu. Það er sko verið að reyna að koma í veg fyrir skattsvik í landinu mínu og allt sem maður kaupir á að vera skráð á kennitölu. Svo fær maður pínulítinn afslátt af skattinum vegna virðisaukaskatts af hinu og þessu. Mjög sniðugt og virkar held ég bara nokkuð vel.
  2. Íslenska skattskýrslan kemur einhverntíman í febrúar eða mars og þá þarf að ganga frá henni og senda og þar með er kominn grundvöllur fyrir portúgalskri skýrslu.
  3. Lífsvottorðaeyðublöð taka að berast líklega í mars, fyrst frá Líf VR og svo seinna frá TR. Þar er tekið fram að skili maður ekki vottorði um að frúin sé ekki farin til himna og sé enn að baksa á jörðinni þá fái maður ekki greitt hvorki frá Líf eða TR, svo eins gott að standa sig og fá skjalfesta jarðvistina! Stelpan sem vinnur á kirkjuskrifstofunni minni er alltaf jafn hissa þegar ég kem. Svo tekur þetta nokkra daga því útfararstjórinn er ekki alla daga við skrifborðið. Hann er sko bóndi líka! Ég er svo ljónheppin að vinkona mín og hennar maður reka raftækjabúð hinum megin við götuna og stundum, ef illa gengur að ná bóndanum að skrifborðinu til þess að krota nafnið sitt og stimpla þá er hægt að skilja umslagið eftir hjá vinkonu minni og ég sæki það einhvern tíman. Stundum er skannerinn minn ekki alveg í lagi og þá liggur leiðin á bókasfnið og þær bjarga öllu þar því auðvitað þarf þetta að komast til Íslands.
  4. Skila þarf nótum og öllum pappírum til endurskoðendans þegar íslenska skattskýrslan hefur litið dagsins ljós og þá getur stundum verið hálf snúið með gengið ef það hefur rokkað til fjandans megnið af árinu en er svo allt öðruvísi í desember. En það eru til ráð við öllu og er ég löngu búin að sætta mig við að kerfið er ekki einfalt.
  5. Í maí kemur svo endanlega staðfesting frá skattinum í Portugal um að allt sé eins og það á að vera og frúin fær sjokkið þegar hún sér hvað mörg þúsund evrur hún þarf að greiða. Það er sko þannig að þessi frú er hálaunamanneskja á portúgalskan mælikvarða og ekkert við þvi að gera. Bara brosa og vera ekki aftur svo heimsk að nota skattasparnaðinn, sem sú skipulagða á auðvitað inni á bankanum, í einhverja vitleysu eins og hún gerði í fyrra og bjó til fínann garð úr villidýrinu sem var fyrir neðan guggana hennar!. Nei, nú eru engar freistingar leifðar, punktur!
  6. Svo kemur að því að senda þarf portúgalska skýrslu til TR svo þau geti séð að ekki sé svindlað á kerfinu hjá þeim. Auðvitað er þetta allt í gegnum netið og auðvelt fyrir mig. Stundum bið ég um staðfestingu á því að stofnunin hafi móttekið góssið. Ef ég geri það ekki á ég á hættu að einhver finni ekki meilið og ég kannski látin svelta í marga mánuði! Nei nei, það gerist auðvitað ekki því sú skipulagða sér um að fólkið svari!!
  7. Þá er nú komið að því að ekki þarf að gera neitt fyrir TR eða RSK og bara að passa að borga skattinn í Portúgal í enda ágúst. Reyndar kemur endurreikningur TR einvherntíman á þessu tímabili og auðvitað heimtar frúin hæversklega að fá skýringu á því af hverju hún skuldar stofnuninni og hvernig í veröldinni reiknimeistararinir hafi fundið út skuld þegar sú í útlöndunum er viss um að eiga inni. Þau fá að sjálfsögðu sundurliðað hvernig málið er vaxið í augum frúarinnar og oftar en ekki er um einneign að ræða en ekki skuld! Ég nenni ekki að segja ykkur frá því hvernig þetta er með skatta og ekki skatta ef verið er að reikna til baka!
  8. Þegar fer að halla í desember þarf að sækja um til RSK svo ekki verði greiddir skattar í tveimur löndum. Þar fara með alls konar pappírar og meðal annars vottorð frá skattinum í Portúgal um að allt sé greitt hér. Ég fer venjulega upp í Cameruna og þau sækja um vottorðið fyrir mig. Það er flókið og ég nenni ekki að setja mig inn í málið. Líka svo ferlega gaman að koma og heimsækja þau og hlæja að vitlausum Íslendingum sem halda að ekki séu greiddir skatta hér í landinu!!!!
  9. Í desember þarf svo að fylgjast með að TR taki tillit til þess að skatturinn er EKKI greiddur á Íslandi. Það getur verið snúið. Ég fæ staðfestingu frá RSK. Ég sendi mail til TR og grátbið þau að taka nú ekki af mér skatt á Íslandi. Ekki hægt að breyta fyrr en í febrúar segja þau. Ég verð óð og hringi en er nú orðið frekar kurteis og venjulega er málið komið af stað þegar ég hringi! Stelpurnar sem skrá kannast nefninlega við varginn í Portúgal!
  10. Nú er semsagt langt liðið á desember og sú skipulagða komin með sitt á hreint og þá geta jólin og áramótin komið og allt hafist upp á nýtt.

Ég hef oft sagt það og segi það enn að til þess að standa í þessu stappi þarf maður að vera klár í kollinum og við hestaheilsu og helst af öllu með þó nokkuð góða tölvukunnáttu.

Ætli það dræpi einhvern ef kerfið yrði gert einfaldara?

Mér bara dettur það svona í hug, eða þannig.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: