20.september 2019
Góðan daginn
Ég hef verið að velta fyrir mér tillögum Samfylkingarinnar varðandi hækkun eftirlauna frá TR og eins örorkulífeyri.
Ég efast ekkert um góðann hug að baki tillögunum en finnst þó einhvern vegin að erfitt gæti reynst að koma þessu fyrir hjá báðum hópum.
Öryrkjar er metnir eftir því hve örorkan er há, að mati TR og lækna. Sumir eru kannski 30 prósent og aðrir geta verið 75 prósent öryrkjar og þetta þýðir að ekki eru allir öryrkjar með sömu upphæð frá TR samkvæmt núverandi kerfi.
Ég ætla að gefa mér hér ákveðnar forsendur 2ja öryrkja og skoða hvernig tillögur Loga koma út.
Þessir 2 einstaklingar eru báðir 75% öryrkjar.
Annar fær greitt frá Lífeyrissjóði en hinn ekki. Til að hafa málið skýrara skulum við kalla þann sem hefur tekjur frá Lífeyrissjóði Dæmi 1 og þann sem hefur einungis tekjur frá TR Dæmi 2. Þessir 2 einstaklingar eru á svipuðum aldri og gef ég mér að þeir hafi verið öryrkjar í mörg ár vegna slysa.
Dæmi 1 er svona: (allar tölur eru fyrir skatt)
Örorkulífeyrir 46.461 krónur
Aldurstengd örorkuuppbót 11.621 krónur
Tekjutrygginga örorkulífeyrisþega 113.139 krónur
Uppbót v/reksturs bifreiðar (örorkulífeyrir) 17.180 krónur
Samtals gerir þetta krónur 188.421 á mánuði fyrir skatt (eftir skatt krónur 148.873)
Dæmi 2 er svona. (allar tölur fyrir skatt)
Örorkulífeyrir 46.481 krónur
Aldurstengd örorkuuppbót 6.972 krónur
Tekjutrygginga örorkulífeyrisþega 148.848 krónur
Sérstök uppbót til framfærslu örorkulífeyrisþega 43.368 krónur
Samtals gerir dæmi2 245.669 krónur á mánuði fyrir skatt (eftir skatt krónur 211.368)
Eins og sést á dæmunum hér á undan þá eru mál öryrkja ekki alveg klippt og skorin. Málið er einfaldara hjá eftirlaunafólki, en við skulum hafa í huga að öryrki hættir að vera öryrki þegar hann verður 67 ára og verður eftirlaunaþegi!
Ég hef ekki kynnt mér nægilega vel hvort öryrki sem verður eftirlaunaþegi lækki í launum en finnst þó að ég hafi heyrt frá fólki sem segi að það sé reynslan. Gott væri að heyra frá þeim sem hafa farið yfir þennann hjalla til þess að hafa upplýsingar um hvernig útkoman hefur verið.
Eftirfarandi er tilvitnun frá Loga Einarssyni um frumvarpið:
“Í dag mælti ég fyrir frumvarpi Samfylkingarinnar þar sem lagt er til að elli- og örorkulífeyrir almannatrygginga fylgi þróun lægstu launataxta í samræmi við kjarasamninga og þróist með eftirfarandi hætti:
- apríl 2019 317.000 kr. á mánuði (afturvirkt).
- apríl 2020 341.000 kr. á mánuði.
- janúar 2021 365.000 kr. á mánuði.
- janúar 2022 390.000 kr. á mánuði” tilvitnun lýkur
Eins og ég sagði í upphafi efast ég ekki um góðann hug Loga og hans félaga en þegar ég skoða hvernig kerfi Almannatrygginga er í dag varðandi öryrkja og eldri borgara, sé ég ekki hvernig þessar tillögur væru framkvæmanlegar án þess að kerfi Almannatrygginga verði endurskoðað og gjörbyllt. Það væri blessun í dulargerfi eins og við segjum á enskunni. Staðreyndin er sú að kerfið er svo flókið að fyrir venjulegt fólk er ómögulegt að botna í því og þrátt fyrir 10 ára nefndarstarf Péturs heitins er enn verið að stagbæta kerfið og bútasaumsteppið orðið algjörlega galið.
Í þessum pistli fjalla ég eingöngu um öryrkja og verður annar pistill fyrir eldri borgara að fylgja síðar.
Logi er í stjórnarandstöðu og auðvitað verður svona frumvarp ekki samþykkt og þarf ekki að hafa áhyggjur af því. Hins vegar vil ég vekja athygli á flækju kerfisins í þeirri vona að KANNSKI mundi þingheimur kynna sér við hvaða skrímsli öryrkjar búa þegar kemur að kjörum þeirra.
Í dæmi 1 fær einstaklingurinn tekjur frá Lífeyrissjóði sem hann eða hún hefur borgað í alla sína starfsævi og er nú notaður til þess að niðurgreiða það sem TR greiðir þeim einstaklingi. Skerðingarnar eru skrímsli út af fyrir sig með höfuð sem vex og vex með ári hverju.
Yfirlýsingar stjórnvalda um afnám nokkurra aura skerðinga hjá Öryrkjum eru léttvægar. Þær virka skammt og eru líklega best hannaðar til þess að flækja flækjuna enn frekar!
Þegar koma fram tillögur frá Stjórnarandstöðu eins og sú sem varð mér tilefni til þessara skrifa er upplagt að nota tækifærið og skoða kerfið í heild. Sé það gert þá er málið tilbúið til afgreiðslu þegar andstaðan kemst í aðstöðu til þess að breyta því sem breyta þarf!
Hulda Björnsdóttir