23.ágúst 2019
Góðan daginn
Hér koma nokkra bollaleggingar um örorku og greiðslur til þeirra sem hafa þær. Ég tek fram að mér finnst þetta kerfi ótrúlega flókið og hér á eftir kemur kannski ástæða þess fram!
Allar tölur eru per mánuð, viðkomandi býr einn, er barnlaus og hefur hvorki atvinnutekjur eða tekjur frá lífeyrissjói.
Ég gaf mér að í fyrsta dæminu væri einstaklingurinn 50 ára þegar hann færi á örorku og að hann væri með 100 prósent búsetuhlutfall.
Síðan skoðaði ég mismuninn ef viðkomandi væri 35 ára þegar hann færi á örorku og í þriðja lagi skoðaði ég 25 ára einstakling.
Það sem vekur athygli mína er margt í þessu dæmi, sem er í raun ekki flókið og væri hægt að gera samskonar úttekt ef viðkomandi er með börn á framfæri, ef viðkomandi býr ekki einn, hefur tekjur frá lífeyrissjóði og ef svo vildi til að viðkomandi væri með einhverjar atvinnutekjur. Ég held mig hins vegar við einfalt dæmi eins og að ofan segir.
Jæja,
Örorkulífeyrir er í öllum dæmunum 46.481 krónur á mánuði
Aldurstengd örorkuuppbót kemur næst.
50 ára fær 4.649 krónur, 35 ára fær 20.917 krónur og sá 25 ára fær 44.157 krónur
Tekjutrygging er næst og fá allir 3 aldurshópar krónur 148.848 á mánuði samkvæmt þessu
Þá kemur heimilisuppbót sem er hjá öllum 3 hópum 50.312 krónur á mánuði
Loks er svo framfærsluuppbót sem er hjá 50 ára krónur 60.510,
hjá 35 ára krónur 44.242
og hjá 25 ára krónur 21.002 á mánuði
Og rúsínan í pylsuendanum er þessi:
ALLIR þrír hóparnir FÁ GREITT KRÓNUR 252.437 Á MÁNUÐI
Allir hóparnir 3 fá samtals fyrir skatt 310.800 krónur á mánuði
Allir hóparnir 3 greiða í skatt samtals 58.363
Allir hóparnir 3 fá greitt sömu upphæð á mánuði, krónur 252.437 eftir skatt.
Nú væri gaman að fá rökin fyrir því að kerfið er flækt svona fram og til baka. Af hverju er ekki bara ein tala í hverjum flokki fyrir alla öryrkja? Af hverju breytist talan í sumum flokkum eftir aldri en niðurstaðan verður sú sama?
Fyrir hverja er kerfið flækt svona?
Það hlýtur að vera ástæða fyrir þessum flækjum og mér þætti vænt um að fá þær upp á borðið á mannamáli.
Kannski væri þá hægt að senda þær upplýsingar til þingmanna sem vita flestir harla lítið um kjör öryrkja eða hvernig þeim er skammtað lífsviðurværi langt undir framfærsluviðmiðum og líklega treystir þingheimur á guð og lukkuna fyrir hönd öryrkja, eða kannski er þeim bara hjartanlega sama um þennann hóp þjóðfélagsins, svo framarlega að vinirnir sem nú prýða síður blaðanna vegna hárra tekna, sem þeir eiga jú allir skilið að fá vegna mikilvægra starfa, halda sínu!
Hvernig getur þingheimur lagst á koddann á kvöldin og sofið? Það eru jú þingmenn sem setja lög og reglur í landinu og ábyrgðin hlýtur að vera þeirra.
Hafa þingmenn uppskrift af því hvernig öryrkjarnir eiga að lifa af því sem þeim er skammtað?
Hulda Björnsdóttir