Eiga öryrkjar og eftirlaunafólk að flýja land? Er það lausnin?

5.júní 2019

Góðan daginn

Ég ætla að setja smávegis hér inn og líklega að vaða úr einu í annað.

Ég er frekar fúl yfir því að þurfa að fá eftirlaun mín frá Íslandi og geta aldrei gert áætlanir vegna gengis íslensku krónunnar. Laun mín lækka frá mánuði til mánaðar og ég get að sjálfsögðu ekkert gert annað en sætt mig við ástandið.

Ég sá í gær skríbent á Facebook fara mikinn og lýsa því yfir að tvennt ætti að gera væri fólk öryrkjar eða eldri borgarar.

Í fyrsta lagi átti fólk að flytja úr landi t.d. til Spánar þar sem ódýrara er að lifa. Í öðru lagi hvatti hann til þess að sendar væru greinar til erlendra blaða til þess að lýsa ástandinu á Íslandi.

Ég veit hreint ekki hvort ég er sammála eða ekki.

Ég bý ekki á Íslandi en flutti löngu áður en ég fór á eftirlaun og ekki vegna efnahagsástands landsins. Ég ákvað mjög ung að yfrigefa landið um leið og fært væri og gerði það. Ég hef ekki uppi nein áform um að flytja aftur til Íslands en tel mig samt ekki vera þess umkomin að hvetja eldri borgara og öryrkja til þess að flýja land. Það verður að vera val hvers og eins.

Ég skil vel afstöðu þeirra sem vilja að eldri borgarar og öryrkjar yfirgefi ekki landið og að þeir vilji hafa hópana áfram á landinu til þess að berjast fyrir bættum kjörum.

Hvort Facebook og rifrildi þar hefur einhver áhrif ætla ég ekki að tjá mig um. Ég nota Facebook ásamt öðrum nútíma tækjum sem fyrir hendi eru. Ég er sannfærð um að bréf frá mér til alþingismanna hafa einhver áhrif. Kannski ekki stórvægileg en eitthvað þó í skrifum mínum oft á tíðum sem vekur mennina til umhugsunar og hef ég fengið bréf til baka sem segja mér að baráttan sé ekki alveg vonlaus.

Það er ekki fyrir alla að flýja landið. Margir geta ekki hugsað sér að yfirgefa fjölskyldur og sumir hafa hreinlega ekki efni á því að flýja land. Við megum ekki vera svona áköf í því að hreinsa landið af eftirlaunafólki og öryrkjum. Við þurfum að styðja við bakið á þeim sem þurfa á stuðningi að halda. Sá stuðningur þarf ekki endilega að vera fjárhagslegur. Margir eru félagslega einangraðir og gætu notið samveru við annað fólk, jafnvel ókunnuga.

Ég talaði um það um daginn að félög eldri borgara vítt og breitt um landið þyrftu að koma upp þjónustu við þá sem ekki geta nýtt sér tölvutæknina. Ég sagði líka að væri ég á landinu mundi ég setja upp svona þjónustu. Ég er ekki á landinu og verð ekki á landinu. Ég veit ekki hvað ég lifi lengi, heilsan er að gefa sig og ekki á vísann að róa en á meðan ég get mun ég halda áfram að skrifa á netið, bæði Facebook og bloggið mitt. Sumir eldri borgarar sem búa erlendis eru ekki með Facebook og fyrir þá er bloggið.

Þeir sem búa á Íslandi ættu að geta notið stuðnings okkar sem búum erlendis, án þess að þurfa endilega að rífa sig upp með rótum.

Það er mikil reiði í þjóðfélaginu og ekki að ósekju. Ríkasta fólkið rakar saman fé eins og ég hef sagt hérna hundrað sinnum. Ríkasta fólkið skilur ekki líf almúganns. Ríkasta fólkið býr í kössum og fer aldrei út úr þeim. Því miður virðast margir þeirra sem á Alþingi sitja búa í svona harðlokuðum kössum og henda dúsum, sem eru ekki neitt neitt, til öryrkja þessa dagana. Kassabúarnir hafa hins vegar séð til þess að aðrir kassabúar sem komnir eru á eftirlaun geti fengið greiddar óskertar tekjur frá TR með því að taka hálf eftirlaun. Auðvitað sjá kassabúar um sína í eftirlaunamálum. Annað væri jú fáránlegt, eða hvað?

Ég horfi stundum á umræður á Alþingi, alls ekki alltaf, og sá fyrir einhverjum vikum einn ágætann sjálfstæðismann skoða hvort rétt væri að þeir sem væru með milljón í tekjur á mánuði gætu fengið óskertar greiðslur frá TR. Þessi ágæti maður sá að þetta var rétt og sagði úr pontu hins ágæta alþingis að þessu þyrfti að breyta. Hefur það verið gert? Ég hef ekki séð það og hafi ég rangt fyrir mér þá verð ég örugglega tekin í karphúsið fyrir ranga fullyrðingu.

Í nokkrum löndum eru grúppur fyrir Íslendinga búsetta í viðkomandi landi. Ég er meðlimur í einum sem heitir “Íslendingar í Portúgal”.

Í morgun setti ég inn ábendingu um að vatnsbirgðir landins væru í lágmarki. Eitt comment kom þar sem spurt var hvort þetta væri óvanalegt og annað sá ég þar sem viðkomandi var greinilega með skítkast.

Ég var að velta því fyrir mér til hvers svona grúppur eru settar upp. Hver er tilgangurinn ef ekki að gefa þeim sem búa í löndunum upplýsingar um mikilvæg málefni sem skipta búsetulandið máli? Auðvitað tek ég ekki nærri mér undarlegar athugasemdir og í þessari grúppu eru þó nokkrir sem er alls ekki búsettir í Portúgal.

Mér finnst hálf undarlegt að fólk sem býr í landinu viti til dæmis ekki um vatnsskort og kannski veit sumt af þessu fólki ekki um hina ægilegu ógn sem stendur af skógareldum og hvernig eldar ár eftir ár hafa breytt loftslagi í þessu litla landi. Veit þetta fólk til dæmis hvernig fellibylurinn síðasta ár fór með línuna frá Figueira Foss til Miranda, þegar hann æddi yfir og trén sem hafa undanfarið verið varnargarður höfðu verið brennd síðasta sumar og ægilegur vindurinn átti greiða leið upp á hæstu tinda í Semide ? Auðvitað kemur mér þetta ekkert við og ég á ekki að vera að skipta mér af því hvernig útlendingar í löndum haga sér. Mér finnst bara hallærislegt að nýta sér gæða nýs búsetulands án þess að leggja á sig að kynna sér einfalda hluti eins og vatnsmál!

Líklega er ég búin að móðga fullt af fólki núna og verður að hafa það. Þegar ég fer til Slökkvuliðsins hér í litla þorpinu mínu í byrjun hvers mánaðar og færi þeim mitt framlag verður mér hugsað til þeirra sem hafa ekki hugmynd um hvernig slökkvilið landsins eru rekin og halda kannski að ríkið sjái bara um þetta allt !

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: