Og við föllum á kné!

1.júní 2019

Góðan daginn

Ég vaknaði öskureið í morgun.

Öskureið vegna gullfiskaminnis Íslendinga og hvernig stjórnmálamenn geta endalaust blekkt minnislausa einstaklinga.

Á Facebook er síða sem heitir “Lifðu núna” og er þar fjallað um málefni eldri borgara, sumra eldri borgara.

Ég les stundum það sem er á síðunni en alls ekki alltaf og verð stundum fúl yfir því að ekki sé talað um þá sem hafa það allra verst þegar þeir eru komnir á eftirlaun.

Auðvitað á ég ekkert að vera að skipta mér af því hvernig einhver síða á Facebook velur að fjalla um mál eldri borgara. Í gær setti ég inn athugasemd þar sem fjallað var um hvað hjón ætluðu að gera þegar þau yrðu gömul. Það var stefna þeirra að ferðast og njóta lífsins, sem er auðvitað frábært. Ég vogaði mér að segja að þeim tækist þetta líklega ekki á strípuðum launum frá TR. Þvílík ósvífni í mér! Fékk ég svo comment á mig þar sem mér var bent á að öfundin væri ekki góð!

Comment mitt hafði ekkert með öfund að gera. Þetta var bara staðreynd sem ég var svo ósvífin að benda á.

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig hægt væri að koma umræðu um eldri borgara og kjör þeirra á plan þeirra sem hafa það skítt þegar þeir setjast í helgann stein.

Það er endalaust fjallað um þá sem hafa það fínt og búnar til vídeómyndir um fræga eldri borgara og spurt hvort við treystum þeim til þessa og hins. Á meðal hinna frægu, og ég held svei mér þá að það hafi verið fyrsta skotið sem ég sá, var frú formaður LEB sem ég treysti ekki til eins eða neins. Það eru þættir á sjónvarpsstöð þar sem fjallað er um eitt og annað sem er svo dásamlegt fyrir eldri borgara.

Er ekki komið nóg af því sem er svo yndislegt við að verða eldri borgari?

Er ekki kominn tími til þess að taka viðtöl og búa til þætti um þá sem lepja dauðann úr skel alla mánuði ársins? Eða er það kannski ekki alveg nægilega fínt sjónvarpsefni eða viðtal? Getur það verið að þeir sem stjórna öllum þessum dásamlegu eldri borgara vinveittu fjölmiðlum viti ekki hvernig ástandið er hjá stórum hópi þessa fólks? Getur það verið? Þetta er ábyggilega ekki flokkapólitík sem stýrir, það getur bara ekki verið.

Vanþekking þeirra sem láta ljós sitt skína hér og þar er stundum hálf grátleg og alls ekki hlægileg.

Það fyrsta sem verkfræðingnum datt í hug í tilefni athugasemdar minnar um að ekki væri um strípaðan lífeyri frá TR að ræða, var öfund! Virkilega! Hvað er eiginlega að ?

Stjórnmálamenn fá upp í hendurnar tæki til þess að halda lífeyri niðri með málflutningi um dásemdina. Auðvitað trúa þeir því sem forysta eldri borgara segir! Hvað annað er mögulegt? Ekki geta stjórnmálamenn haldið að verið sé að fela óhreinu börnin hennar Evu, nei það er óhugsandi.

Ef notaður væri sami taktur og ákefð við að segja frá óhreinu börnum og beitt er við prinsana þá væri líklega skilningur pólitíkusanna aðeins meira í takt við staðreyndir.

Hverjum datt í hug að gera myndir eins og Efling gerði um venjulega verkafólkið sem var á lúsarlaunum? Það var einhver snillingur og ég vildi að eldri borgarar, eða félög þeirra, græfu upp slíkan snilling sem mundi gera myndir um fátæku eldri borgarana, bara þá, ekki hina vel stæðu. Væri þetta gert og birt mundi viðhorfið hugsanlega breytast og fólk hætta að trúa því að það séu kannski 2 eða 3 sem hafa það svo skítt að þeir eigi ekki fyrir mat síðustu viku hvers einasta mánaðar.

Ég ætla ekkert að tala um stjórnmálaflokk sem laug að þjóðinni og sagðist ætla að nota part af framlagi frá ríkinu til þess að kosta málssókn gegn TR. Ég ætla ekkert að tala um að málið tapaðist í héraðsdómi og vannst í landsrétti og nú er allt á hvolfi yfir gæsku þess sem hélt því fram að stjórnmálaflokkurinn mundi kosta málið en svo drógst það og drógst vegna umsóknar um gjafsókn. Gjafsókn fékkst og skattgreiðendur borga. Skattgreiðendur kosta geymið og öllum er sama um það. Flokkur sem lýgur upp í opið geðið á þjóðinni og þjóðin fellur á kné í aðdáun á ábyggilega eftir að gera það gott í næstu kosningum og lofa enn fleiru og hinir auðtrúa gleypa hrátt. Formaður sem kallar stóran hóp þjóðfélagsins “hina minnstu bræður” í gríð og erg er svo ægilega mikill baráttumaður fyrir bættu ástandi. Sami formaður hélt þrumuræðu í kaffi hjá samkomunni og gerði grín að því að þeir sem niðurgreiddu greiðslur frá TR með lífeyrissparnaði sínum vildu að það óréttlæti væri leiðrétt! Það er flott að standa í pontu æðstu stofnunar þjóðarinnar og belgja sig út af heilögum anda fyrir “hina minnstu bræður” og nýta sér svo hverja einustu smugu til tekna. Já, ég segi hverja einustu smugu!

Ég mótmæli því að vera kölluð “hinn minnsti bróðir” þó ég sé ekki með milljónir í tekjur á mánuði og sé komin yfir 67 ára aldurinn. Auðvitað hafa mótmæli mín ekkert að segja því ég er bara full af öfund og skil ekki dásemdina!

Vel á minnst. Hvað ætli hin dásamlega frú formaður hafi boðist til að leggja fram til málssóknar Gráa hersins geng ríkinu vegna skerðinga á Lífeyrissjóðs tekjum? Ætli þar sé um einhverja stórupphæð að ræða? Það gæti verið en ótrúlegt finnst mér það því pólitískur ávinningur væri líklega ekki tilefni til múgæsingar.

Ég voga mér ekki að setja þennan pistil á Facebook. Ég yrði hálshöggvin og má ekki við því í bili.

Ég vaknaði öskuill og er enn öskuill.

Kannski er það bara hitinn sem fer svona illa í mig og kannski verð ég bara spök á mánudaginn þegar aftur verða komin 25 stig eða minna í litla þorpinu míni í litla landinu mínu.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: