- mars 2019
Góðan daginn
Ég hef ekki skrifað hér í nokkur tíma einfaldlega vegna þess að ástandið á Íslandi er svo ömurlegt að hugsunin ein er niðurdrepandi.
Nú er þó svo komið að ég get ekki orða bundist og eins gott að láta frá mér það sem er að angra mig.
Ég hef stundum sagt að ég treysti ekki Samfylkingunni og Loga. Ég hef argast yfir máttleysi FEB sem hefur yfir 11 þúsund félagsmenn á sínum snærum og ef til vill enn fleiri núna. Ég hef skammast yfir máttleysi formanns Feb og verið reið yfir því hvernig hann hefur talað niður til okkar eldri borgara rétt eins og við værum hinir minnstu bræður þjóðfélagsins sem þurfi að aumka sig yfir. Þetta vita allir sem hafa lesið eitthvað sem ég hef skrifað hingað til.
Nú er nýliðinn fundur hjá Samfylkingunni þar sem sýndar eru fallegar myndir af fólki og birt viðtöl og hamingjan alveg óstjórnleg, sýnist mér.
Ellert B, Schram formaður FEB er Samfylkingarmaður og settist á þing í nokkra daga fyrir jól og var voða vel tekið og menn sátu við hlið fótboltakappans og héldu ekki vatni yfir dásemdinni. Þar sem vitað er svo ekki verður um deilt að formaður FEB er Samfylkingarmaður gæti maður ályktað að hann hefði komið á framfæri kjörum eldri borgara almennt og að formaðurinn flokksins og aðrir væru vel upplýstir um málið og vissu að hópur eldri borgara er á bilinu 67 ára til tæplega 100 ára og misjafnlega vel á sig kominn.
Eitthvað hefur farið úrskeiðis hjá formanninum hjá FEB um að sjá til þess að málið væri ljóst. Eða kannski er þetta allt saman árangur hugljúfra aumingjalegra hugvekja sem fluttar hafa verið annað slagið við hátíðleg tækifæri. Ég hef ekki hlustað á þáttinn á Hringbraut þar sem rætt var við Ellert. Ég hreinlega nenni ekki að leggja það á mig en líklega verð ég að gera það en ekki í bili. Ég þarf á hugarró að halda nokkra daga í viðbót.
Þá er það tilefni skrifa minn í dag.
Björgvin Guðmundsson, sem er held ég dyggur Samfylkingarmaður, skrifar í athugasemd á síðu Fylkingarinnar og hef ég leyft mér að afrita það;
Björgvin segir:
“Ég er ekki ánægður með það, sem segir í stjórnmálaályktuninni um aldraða.Þar segir að búa eigi vel að gömlu og veiku fólki.Með þessu orðalagi er gefið til kynna að einungis eigi að búa vel að öldruðum,ef þeir eru jafnframt veikir.Það eru ýmsir eldri borgarar heilir heilsu en hafa samt engan lífeyrissjóð og ekki nóg til framfærslu,t.d. konur,sem alltaf hafa verið heimavinnandi,húsmæður og ekki verið í lífeyrissjóði,þeir,sem af öðrum ástæðum hafa ekki verið í lífeyrissjóði eða verið í lífeyrissjóðum,sem lent hafa í gjalldþrotum eða öðrum alvarlegum áföllum, þeir sem -slasast hafa alvarlega,eða lent í alvarlegum veikindum og hafa ekki getað verið á vinnuumarkaðnum, eða af öðrum orsökum. Orðalagið um gamla og veika er of slappt. Ég vil,að minn jafnaðarmannaflokkur tali það hreint og skýrt um bætt kjör lægst launuðu aldraðra,að ekki fari á milli mála,að Samfylkingin hafi forustuna í að bæta kjör þeirra. Ég hef komið þessum sjónarmiðum á framfæri við forustu flokksins.” Ummælum Björgvins lýkur.
Hvað var það sem gerði mig svo reiða?
Jú, “búa eigi vel að gömlu og veiku fólki”
Þetta er það sem Samfylkingin ætlar að gera fyrir eldri borgara.
Hræsnin er ótrúleg en kemur ekki á óvart.
Þetta sýnir annað hvort ótrúlega mannvonsku, vanþekkingu, dugleysi eða hreinlega heimsku.
Ég er sammála Björgvin að mestu leyti um það sem hann segir.
Það er ekki mannsæmandi að búa til ályktun vegna hóps sem er eins ólíkur og sólskin og rigning og kalla hann “gamalt og veikt fólk”.
Nú þegar hyllir undir að hin viðbjóðslega ríkisstjórn, sem fyrirlítur eldri borgara og öryrkja og fer ekkert leynt með það, dræpist, gæti verið að Samfylkingin kæmist að og færi að stjórna landinu. Samkvæmt ályktun flokksins mun ekki betra taka við. Líklega verður ástandið enn verra og stjórn FEB með formanninn sem er varaþingmaður Samfylkingarinnar getur þá haldið hjartnæmar hugvekjur um hina minnstu bræður.
Sveiattann.
Hulda Björnsdóttir