Skerðingar tekna frá Almannatryggingum eru aðalmálið

27.október 2018

Góðan daginn.

Það eru einhverjir sem skrifa jafnt og þétt á Facebook og í blöð og krefjast þess að ellilífeyrir frá TR hækki, og ekki bara að hann hækki heldur að hann skuli hækka STRAX.

Hvað lífeyririnn á að hækka mikið er svolítið á reiki hjá skríbentunum, og ekkert eðlilegra en að fólk hafi mismunandi skoðun á upphæðinni.

Það er ágætt að hrópa og heimta hærri lífeyrir frá TR en það er líka sniðugt að setjast aðeins niður og skoða hvað hækkun hefði í för með sér og hverjum hún mundi skila auknum tekjum.

Auðvitað á ég að vita það að verið er að tala um ÞÁ LÆGST LAUNUÐU SEM EKKI SKRIMTA AF ÞVÍ SEM TRYGGINGAKERFIÐ SKAMMTAR ÞEIM.

Það er líka talað aftur og aftur um þá sem ekki njóta neinna annara tekna en þeirra sem TR skammtar.

Ég ætla að leyfa mér að sýna fram á hvernig mitt persónulega dæmi lítur út í krónum. Ég tek mig sem dæmi þar sem ég tilheyri ekki hópnum sem hefur aldrei greitt í Lífeyrissjóð, einhverra hluta vegna og ég tilheyri heldur ekki hópnum sem er allra verst settur í þessu kerfi. Ég tek mig sem dæmi vegna þess að hækki eftirlaun frá TR mun ég fá enn minna af tekjum mínum frá Lífeyrissjóði, sem ég hef þó greitt í samkvæmt lögum í 40 ár, eða alla starfsæfi mína á Íslandi.

Það er nefninlega þannig að í núverandi kerfi niðurgreiðir sparnaður minn í Lífeyrissjóð það sem ég á rétt á að fá frá Tryggingastofnun ríksins!

Lífeyrir minn eftir 40 ára starfsæfi og greiðslu skatta allan þann tíma er þessi:

Frá Lífeyrissjóði fæ ég krónur 152.000 á mánuði fyrir skatt

Frá Tryggingastofnun fæ ég krónur 182.334 á mánuði fyrir skatt

Samtals gerir þetta krónur 334.334 fyrir skatt, og eftir skatt eru þetta 264.726 krónur

Þar sem ég bý erlendis fæ ég ekki heimlisuppbót, sem ég fengi annars ef ég byggi ein og á Íslandi. Heimilisuppbót er ekki partur af lífeyri, hún er félagsleg aðstoð sem ég ætti rétt á ef búseta mín væri ekki erlendis.

Skoðum dæmið aðeins betur.

Ef ég fengi ekkert frá Lífeyrissjóði, hefði aldrei sparað í hann, þá væru tekjur mínar þessar:

Frá TR 239.484 krónur á mánuði fyrir skatta.

Eftir skatt væri upphæðin krónur 204.914 á mánuði.

Eins og ég sagði fyrr fæ ég greiddar krónur 152.000 á mánuði frá Lífeyrissjóði og verða þær til þess að lífeyrir frá TR lækkar um krónur 57.150 á mánuði fyrir skatt.

Greiðsla til mín frá Lífeyrissjóði niðurgreiðir lífeyri frá TR um 57.150 krónur á mánuði, er þetta ekki eitthvað einkennilegt?.

Annað sem ég vil einnig vekja athygli á er að mismunur á greiðslum til mín og þess sem aldrei hefur greitt í lífeyrissjóð eru krónur 59.182 eftir skatt.

Ég fengi kr. 264.726 eftir skatt

Sá sem ekki hefur greitt í lífeyrissjóð fengi kr. 204.914 eftir skatt

Ég fengi 59.182 krónum meira samkvæmt núverandi kerfi en sá sem aldrei hefur greitt í Lífeyrissjóð

Frítekjumark eftirlauna frá TR eru krónur 25 þúsund á mánuði.

Þá spyr ég:

Nú hefur gengið tekið á sig uppsveiflu svo um munar. Verðbólga fer væntanlega af stað. Laun frá Lífeyrissjóði hækka um verðbólgu prósentuna. Hvað gerist þá? Hafa skríbentar hækkaðs lífeyris frá TR skoðaða það mál?

Hækki lífeyrir frá TR og hækki greiðslur frá Lífeyrissjóði vegna verðbólgu, hver greiðir þá hækkunina frá TR? Jú, hækkun Lífeyrissjóðstekna niðurgreiðir hækkunina hjá TR. Skerðingarkerfið er þannig. 25 þúsund króna frítekjumark breytist ekki. Ég hef ekki séð skríbentana tala um að það eigi að hækka.

Enn eina ferðina held ég því fram að það þurfi að hafa hugsað málið til enda þegar farið fram með kröfur um að þetta og hitt sé ekkert mál að leiðrétta strax.

Það þarf að skoða allann hópinn, ekki bara neðsta þrepið.

Ég hef sagt það 170 sinnum að skerðingarnar eru aðalmálið. Það er svo ótrúlega heimskulegt og brýtur í bága við allt hvernig við sem höfum sparað í Lífeyrissjóði, og farið eftir lögum um þann sparnað, erum látin niðurgreiða það sem greitt er frá Tryggingastofnun Ríkisins.

Einhver heldur því fram í dag að ný forysta ASÍ sem kosin var í gær sé handónýt.

Það getur vel verið að hún sé það, ég veit ekkert um það. Ég er svo heimsk að halda að þeir sem taka við forystu, hvar sem er, þurfi tíma til þess að sýna fram á að þeir séu starfi sínu vaxnir. En auðvitað er ég bara heimsk kona sem ekki er takandi mark á, eða hvað?

Ég er á þeirri skoðun að verkalýðsforystan í heild muni snúa sér að því að leiðrétta hið hörmulega óréttlæti, sem þeir sem fá tekjur úr lífeyrissjóði þurfa að sæta.

Forystumaður í FEB sagði á dögunum að ekki ætti að skammast út í FEB og stjórn þess félags. Skammast ætti út í ríkisstjórn því þar væri valdið.

Við forystu FEB og LEB vil ég segja þetta:

Ég og hinn almenni borgari sem kominn er á eftirlauna aldur erum ekki með þúsundir félagsmanna á bak við okkur. Ég og hinn almenni borgari á eftirlauna aldri þurfum að reiða okkur á forystu félaga eldri borgara og að sú forysta berjist fyrir bættum kjörum okkar rétt eins og verkalýðsfélag berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna. Ég og hinn almenni eftirlaunaþegi höfum ekki þann aðgang að ríkisstjórn og þingheimi sem félag með tugi þúsunda manna á bak við sig hefur.

Forysta FEB og LEB verður áfram að búast við því að við, þessir vanþakklátu uppreisnarseggir, fylgjumst með því sem hægt er að fylgjast með af baráttu þessara samtaka. Upplýsingarnar eru nú reyndar ekki fljúgandi eða fljótandi til okkar vesæls almenningsins sem er þó að reyna að harka af sér og drepast ekki úr hungri eða vosbúð.

Að lokum þetta:

Ég fann hvernig kviknaði von í brjósti mér þegar síðasta stjórn FEB var valin.

Ég verð að viðurkenna að sú von hefur fölnað og fjarað út rétt eins og eldurinn í arninum mínum gerir ef ég bæti ekki á hann nýjum spýtum.

Ég fæ kr. 264.726 eftir skatt jafnvel þó ég fái 152 þúsund frá Lífeyrissjóði

Sá sem ekki hefur greitt í lífeyrissjóð fæ kr. 204.914 eftir skatt

59.182 krónur flytja mig í velmegunar hóp, samkvæmt þeim sem tala um baráttu fyrir bættum kjörum eldri borgara.

Er ég svo ýkja mikið betur sett en þeir sem hafa einungis eftirlaun frá Tryggingastofnun?

SKERÐINGAR VEGNA SPARNAÐAR Í LÍFEYRSSJÓÐ, ættu að vera forgangsmál þeirra sem tala um leiðréttingu á kjörum eldri borgara.

Auðvitað verður að vera þak á frítekjum. Það er enginn heilvita maður að tala um að þeir sem hafa “ofurtekjur” séu að fá það sama frá TR og sá sem er með 152 þúsund á mánuði í tekjur. Það þarf ekkert að taka þetta fram, bara augljós staðreynd.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: