Virðist það of gott til að geta verið satt er það líklega ekki satt!

  1. október 2018

Góðan daginn.

Ég er enn fjúkandi ill yfir því að Sjónvarp og dagblöð skuli birta bullið um skattleysi okkar hér í Portúgal og gylliboð Ástþórs á sama tíma og þessar ágætu stofnanir sjá ekki ástæðu til þess að birta tölur um hvernig búið er að eldri borgurum á Íslandi.

Maður eins og Ástþór sem hefur langan slóða á eftir sér virðist geta komið fram í sjónvarpi og dagblöðum aftur og aftur með sama málið.

Ég er líka undrandi á því hvernig fólk skrifar um málefni sem það hefur akkúrat enga hugmynd um og vitleysan sem haldið er fram er fyrir ofan minn skilning og er ég þó nokkuð vel gefin.

Mér datt í hug hvort það gæti verið t.d. að fólk sem setur langt og mikið blogg á DV viti ekki muninn á HAGSTOFU OG ÞJÓÐSKRÁ.

Ég á frekar bágt með að trúa því að Hagstofa sé að skipta sér af búsetu fóks, það er hlutverk Þjóðskrár, eða var það þegar ég fékk bréf um árið.

Ég veit að nú fæ ég líklega í hausinn einhverjar skammir en ætla þó að leyfa mér að setja eftirfarandi fram:

Eftir að ég skoðaði grúppur sem gætu hugsanlega haft Íslendinga búsetta í Portúgal innanborðs fann ég 2. Þær eru líklega fleiri en ég nenni ekki að leita.

Ástþór er að bjóða fólki upp á að svíkjast undan þvi að greiða til samfélagsins skatta og skyldur.

Ég veit að erlendis búa nokkrir íslenskir einstaklingar sem eru eftirlaunaþegar og þiggja eftirlaun sín frá Íslandi en eru skráðir til heimilis á Íslandi.

Ég þekki persónulega dæmi um þetta svo ég er ekki að fullyrða eitthvað út í bláinn. Því miður eru líka einhverjir öryrkjar sem leika þennan leik líka.

Eftirlaunaþegi sem er skráður ranglega á Íslandi heldur öllum bótaréttindum.

Eftirlaunaþegi sem er skráður löglega í landinu þar sem hann býr meira en 6 mánuði á ári missir heimilisuppbót og aðrar uppbætur, sama gildir um öryrkja.

Það er sorglegt að kerfið á Íslandi skuli vera þannig að fólk sjái sér hag í því að sveigja í kringum það. Það væri nær að búið væri svo að þeim sem eru komnir á eftirlauna aldur að þeir gætu farið eftir þeim reglum sem í gildi eru.

Ég hef oft sagt að það eigi að hætta að tala um heimilisuppbót sem part af eftirlaunum frá TR. Hún er félagsleg aðstoð og er bara fyrir suma.

Þessi dæmalausa uppbót mismunar eftirlaunaþegum harpallega og er í alla staði óréttlát að ég tali nú ekki um hvernig hún hefur hækkað mun meira en ellilífeyririnn sjálfur.

Ég ráðlegg fólki sem er að hlusta á Ástþór og hans útsendara að tala við RSK áður en fólk lætur peningana sína í hendur grúppunnar.

Ég bendi fólki líka á að þegar það spyr grúppufélaga um eitt og annað varðandi Portúgal þá breytast hlutirnir mjög hratt í landinu og það sem var í gildi fyrir 3 árum, að ég tali nú ekki um 8 árum, getur hafa snúist í marga hringi.

Aðgengi að bönkum og stofnun reikninga er allt annað í dag en það var fyrir örfáum árum.

Aðgengi að lánum fyrir eftirlaunaþega í Portúgal er ekki rétt eins og að drekka vatn.

Skattareglur í landinu eru flóknar og ekki hægt að gefa einhverja eina formúlu um hvað skattar séu háir. Það er prósenta í gangi, stigskipt eftir tekjum, en ýmislegt spilar inn í og getur haft áhrif á hve háir skattarnir eru.

Ég gæti hugsanlega gefið þeim sem hyggja á flutning til landsins það ráð að tala við Portúgala sem búa eða vinna á Íslandi. Það er fullt af þeim og þeir vita hvernig aðstæður eru í landinu.

Það getur vel verið að einhverjum detti í hug að allir tali ensku hér í landinu og ekki þurfi að hafa áhyggjur af málaerfiðleikum t.d. þegar farið er til læknis, á spítala eða bara á opinbera stofnun. Það er fullt af stofnunum hér í landi þar sem enginn, nákvæmlega enginn talar ensku og þá þarf að grípa til Portúgölsku. Öll pappírsvinna er á portúgölsku.

Eru þeir sem velta fyrir sér flutningi til landsins tilbúnir til þess að læra málið?

Það getur vel verið að íslenskt fólk sem býr í Portúgal sé allt strangheiðarlegt. Ég ætla ekkert að hafa neina skoðun á því, hver og einn getur svarað sinni samvisku.

Mér er vel kunnugt um að á Spáni finnst mörgum það ekki tiltökumál að svindla á kerfinu á Íslandi en auðvitað eru það líklega undantekningar en ekki reglan.

Ég þekki persónulega dæmi frá Bandaríkjunum þar sem ágætt fólk hefur svindlað í áratug og komist upp með það vegna aumingjaskapar míns meðal annars um að tilkynna ekki plottið.

Eftirlaun og bætur öryrkja eru til háborinnar skammar á Íslandi.

Ég hef sagt þetta hundrað og sjötíu sinnum að minnsta kosti og lítið þokast. Það er þó von núna þegar verkalýðsforysta er að taka málefni þessara hópa inn í baráttu verðandi kjarasamninga. Einhvern vegin þarf að koma í veg fyrir að regluverkið sé þannig að það bjóði upp á svik og svínarí. Sé það gert komast menn eins og Ástþór og co ekki inn í fjölmiðlana með gylliboð sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum og vekja upp vonir hjá fólki sem þegar á hólminn er komið eru loftbólur og ekkert annað.

Þið sem eruð að skoða tilboð Ástþórs gætuð til dæmis skoðað hvað hann sagði fyrir ári um Valhalla dæmið. Þið gætuð líka skoðað þetta með að hann sé að fara að byggja heilt hverfi. Var hann ekki að tala um þetta í maí? Ganga framkvæmdir eitthvað skrykkjótt hjá herranum?

Ég nenni ekki að tala um veðrið eða byggingalag og hvað það er dásamlega hlýtt yfir veturinn og gott fyrir gigtarsjúklinga að vera í litla landinu mínu, landinu sem mér þykir nú orðið svo ósköp vænt um og ætla að bera beinin í og láta svo dreifa mér yfir hafið á endasprettinum.

Ég ætla ekki heldur að tala um dauðaslysin sem eru á hverjum degi og skógareldana sem hafa svift landið skjóli frá ógnarvindi og lagt heilu þorpin í rúst og drepið fólk sem hefur verið að reyna að komast undan logunum sem læstu sig svo inn um bílrúðurnar.

Nei, ég ætla ekki að tala um þetta. Ég ætla bara að biðja fólk að trúa ekki Ástþóri, því hann lýgur lengra en hann mýgur.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: