- apríl 2018
Góðan daginn kæru lesendur
Mér líður eins og ég sé stödd í skipi sem strandað hefur á skeri og ruggar fram og aftur með ógnarkrafti brjálaðs veðurs og himinhárar öldur flæða yfir,
Fólkið er að drukkna og getur enga björg sér veitt
Björgunarsveitir standa í fjöruborðinu og horfa á, varnarlausar. Þær geta ekkert gert. Ofurafl ræður ríkjum og skipið er að sökkva með manni og mús.
Nokkrir komast þó af. Það eru björgunabátar, lúxus bátar, sem fyrirmenn sitja í og róa glaðklakkalegir til lands. Þeirra líf skiptir öllu máli. Hinir geta sokkið í hyldýpið. Fyrirmönnunum er nokk sama um einhvern almenning sem var svo heimskur að taka sér far með þessu skipi.
Svona líður mér í dag eftir að hafa skoðað fréttir gærdagsins og hlustað á þátt á vegum FEB.
Fyrirmennirnir brosa breitt og kjamsa á prósentu hækkunum.
1 prósent er ekki neitt fyrir almúgann, láglaunafólkið, öryrkjana og eftirlaunaþegana.
1 prósent er flott fyrir hina ríku. Þeir sjá um sína VG, Framsókn og Sjálfstæðisflokkurinn.
Sjálfstæðisflokkurinn kemur ekki á óvart. Ég bjóst aldrei við því að hann mundi bjarga sökkvandi skipinu. Ég bjóst alltaf við því að hann færi í flottu björgunarbátana.
Framsókn kom mér heldur ekki á óvart. Þeir stóðu fyrir því að slíta stjórnarmyndunarviðræðum eftir örfáa daga til þess að ganga í eina sæng með spillingunni. Líkur sækir líkan heim.
Vinstri græn komu mér í opna skjöldu.
Ég bjóst við því að sá flokkur mundi reyna að bjarga sökkvandi almúganum.
Nei, VINSTRI GRÆN hafa sýnt sitt rétta andlit. Þeim er alveg hjartanlega sama um hverjir sökkva. Þeim er hjartanlega sama um barnafjölskyldur sem svelta. Þeim er hjartanlega sama um fátækt láglaunafólk. Þeim er hjartanlega sama um öryrkja og eftirlaunaþega sem tilheyra venjulega fólkinu sem þarf að reiða sig á björgunarsveitir í ólgusjó þar sem skip þeirra er að farast.
VINSTRI GRÆN eru þau sem sviku með bros á vör fallegu orðin sem féllu eins og hvítur snjór úr stól alþingis fyrir kosningar.
Hvað gerir svo fólk þegar þessi viðbjóðslega ríkisstjórn auðvaldsins fer frá?
Hvað gerir fólkið sem nú er að sökkva með skipinu í ólgandi hafrótinu þegar næstu kosningar verða?
Loforðin verða fögur frá ÖLLUM stjórnmálaflokkum.
Verður hægt að trúa einhverjum?
Ég veit það ekki, en hitt veit ég að núna í morgunsárið er ég að drukkna á skipi sem engin leið er að bjarga.
Er ekki hægt að bjarga fólkinu sem er enn um borð í sökkvandi skipinu?
Gætu Sólveig Anna, Ragnar Þór og fleiri komið til sögunnar og gripið taugina sem örvæntingin reynir að fá einhvern til þess að grípa?
Hvar er FEB núna og LEB? Eru þau enn að bíða eftir því að setjast í nefnd til þess að plokka út ráð til þess að fá þá sem eru að drukkna til að þegja?
Halda þessi samtök enn að orð séu til alls fyrst og að orð fyrirfólksins í fínu björgunarbátunum séu gulls ígildi?
Líklega er vonleysi þess sem er á sökkvandi skipi úti í ólgusjó að grípa mig heljartökum.
Líklega er ekkert eftir annað en biðja til æðri máttarvalda og vona að almenningur setji kross á leiði VG í næstu kosningum og jarði endanlega auðvalds viðbjóðinn.
Hulda Björnsdóttir