15.mars 2018
Formaður FEB er hamingjusamur.
Hann hóf þessa baráttu sína með flottri mynd þar sem hann hafði gætt sér á kaffi og kökum með Þorsteini Víglundssyni og Bjartri framtíð.
Þetta var þegar fyrri ríkisstjórn var og hét.
Nú er komin ný ríkisstjórn og formaður FEB heldur áfram að berjast við boltann rétt eins og hann sé í fótboltaleik.
Maðurinn er 79 ára gamall, (ég sá aldurinn hafðan eftir vinkonu minni á Facebook og nenni ekki að fletta því upp, tek orð hennar góð og gild) sem er auðvitað ekki hár aldur, en ég hef áhyggjur af því hve raunveruleika fyrrtur hann er.
Ég er búin að velta þessum áfangasigri hans fyrir mér og reynt að finna út fyrir hverja hann er að tala. Hann er ekki að tala fyrir mig því ég er yngri enn hann.
Jú, líklega er hann, þar sem hann er sjálfur orðinn 79 ára og talar um okkur sem yngri erum, að tala um fólkið sem komið er á elliheimili fyrir fársjúka og er kannski hátt í nírætt.
Formaður FEB, sem hlýtur að tala í nafni allrar stjórnar FEB segir:
“Núna, um daginn, samþykkti ríkisstjórnin að skipa vinnuhóp, með fulltrúum aldraðra, sem skoða skal stöðu þeirra eldri borgara sem minnstu tekjur hafa og búa við fátækt. Reyndar hefur vinnuhópurinn, í framhaldinu, það hlutverk að rýna þau mál sem varða mörg önnur „klögumál“ af hálfu ellilífeyrisþega, svo sem húsnæði, þjónustu, hjúkrun, frítekjumörk o.s.frv. En sem sagt, hagur eldri borgara verður skoðaður og ræddur, með það fyrir augum, að gera betur í öldrunarmálum. Ég tek hatt minn ofan fyrir Katrínu forsætisráðherra og Ásmundi”
Áfangasigur kallar formaðurinn þetta.
Enn ein nefnd til þess að skoða það ástand sem margar skýrslur hafa verið búnar til um og liggja hér og þar niðri í skúffum.
Björgvin Guðmundsson talar um að leiðrétta þurfi kjör eldri borgara og öryrkja STRAX.
Formaður FEB talar um og kallar það áfangasigur og tekur hatt sinn ofan fyrir frú forsætis að enn eigi að setja málið í nefnd og ekki að skila áliti fyrir en í fyrsta lagi eftir 6 mánuði.
Formaðurinn og þá líklega öll stjórn FEB segir:
“ Ég tek hatt minn ofan fyrir Katrínu forsætisráðherra og Ásmundi velferðarráðherra, sem bæði tóku tillögum um endurskoðun á kjörum aldraðra skjótt og vel. Ég segi heyr, um þau bæði tvö, og ríkisstjórnina, sem hefur fallist á þessi vinnubrögð.”
Formaðurinn og stjórn FEB geta tekið alla sína hatta ofan í friði fyrir mér.
Ég tek EKKI hatt minn ofan fyrir svona bulli.
OG FORMAÐURINN Í UMBOÐI STJÓRNAR FEB HELDUR ÁFRAM:
“Í gamla daga, í fótboltanum, var fagnað þegar sigur vannst í einum leik. Það var áfangi hverju sinni, sem færði þig nánar að meistaratigninni. Sama má segja um það samkomulag sem nú hefur tekist varðandi málefni eldri borgara. Meistaramarkið hefur ekki verið skorað en skrefið er í rétta átt, upphlaup sem getur endað með sigurmarki. Þannig líður mér þessa dagana. Við erum að nálgast áfangann og úrslitin. Og kannski skulum við ekki tala um sigur, heldur samkennd og mannúð og réttlæti”
Herra formaður og stjórn FEB!
Það hefur ekki unnist neinn sigur, það hefur verið leikinn hrikalegur tapleikur sem hefði átt að vinnast auðveldlega ef það hefðu verið almennilegir keppendur.
Keppendur í leik sem eru gjörsamlega veruleika fyrrtir og hafa ekki hugmynd um fyrir hverja þeir eru að keppa geta aldrei unnið neitt. Slíkir keppendur eru taparar frá upphafi til enda. Mótleikararnir hlægja að vitleysingunum sem halda að þeir séu svo ægilega góðir spilarar.
Mótleikararanir vita að liðið sem þeir eru að keppa við eru hálfvitar sem ganga fyrir hroka og líta niður á þá sem eru í liðinu.
Liðsmenn eru ég og þú, við sem erum komin á 67 ára aldurinn, og við erum þeir sem formaður FEB og stjórn gefa skýt í. Þeim er alveg hjartanalega sama um einhverja liðsmenn sem eru svo vitlausir að vera í félaginu og halda í vonina um að eitthvað verði gert fyrir þá.
Formaður FEB og stjórn, því hann talar jú í nafni hennar, segja:
“Látum ekki um okkur spyrjast að við gleymum þeim sem verða útundan, sem ekki eiga í sig og á, þeim sem eru komnir á aldur og hafa hvorki þrek né tíma til að rétta úr kútnum. Hjálpum þeim. Tryggjum þeim áhyggjulaus ævikvöld. Nú skulum við bretta upp ermarnar.”
Fyrirgefið þið stjórn FEB og formaður en svona ummæli eru til skammar og ég er ofsalega reið.
Ég hef fullt þrek til þess að sjá um mig. Ég er ekki útundan eins og einhver ómagi. Ég hef ekki bogið bak og þarf ekki að fá ykkar áfangasigra eða hroka til þess að geta rétt úr bakinu.
Ég og vinir mínir sem eru komnir yfir 67 ára aldurinn, hvort sem við búum á Íslandi eða ekki, þurfum ekki á hroka ykkar í FEB stjórn að halda.
Þið i stjórn FEB eruð hættuleg kjörum okkar. Þið sem standið að svona áfangasigrum og berjið ykkur á brjóst eruð ekki með réttu ráði.
Það eru margir eldri borgarar sem lepja dauðann úr skel. Það eru margir eldri borgarar sem hafa það mjög gott.
Það eru eldri borgarar sem hafa flúið land til þess að geta lifað mannsæmandi lífi á eftirlaunum sínum.
Það eru eldri borgarar sem hafa greitt í lífeyrissjóð alla sína starfsæfi og fá litlu meira útborgað en þeir sem aldrei hafa sparað vegna þess að ríkið notar sparnaði til þess að niðurgreiða tekjur frá TR.
Eru þessir hópar þeir sem hafa orðið útundan og formaðurinn talar svo slepjulega um?
Við þurfum ekki slepju. Við þurfum almennilega baráttu fyrir bættum og réttlátum kjörum allra eldri borgara. Baráttan sem við þurfum er ekki hjá núverandi formanni FEB, því miður.
Kannski væri ágætt fyrir ykkur, formaður FEB og stjórn að stíga niður af hrokastiganum og hætta að tala niður til fólks sem verður fyrir því í hverjum einasta mánuð að ríkið stelur af þeim sparnaði í Lífeyrissjóði og réttindum sem þetta fólk hefur unnið sér inn með vinnu sinni alla sína lífstíð.
Þið í stjórn FEB og formaður eru hættuleg kjörum eldri borgara. Þið standið með hverri ríkisstjórninni á fætur annari og styðjið þær í því að slá málum um bætt kjör á frest og setja í nefndir.
Ég segi ÞIÐ því formaður félags talar í umboði stjórnar. Það er ekkert flóknara en það.
Formaður FEB ætti að hlusta á Björgvin Guðmundsson og skoða það sem hann hefur um þessi mál að segja. Björgvin segir að leiðrétta eigi kjörin strax. Hver ríkisstjórnin á fætur annari hefur lofað því. Efndirnar hafa verið að búa til nefnd og stinga áliti og rannsóknum og niðurstöðum í skúffur sem aldrei verða opnaðar.
FEB, ef þið snúið ekki við blaðinu nú þegar þá eruð þið að svíkja ALLA eldri borgara.
Ef þið haldið að þið hafið unnið einhvern sigur með því að ná fram áhugamáli formannsins þá eruð þið á villigötum og ættuð líklega að fá ykkur eitthvað annað að dunda ykkur við.
Er það virkilega þannig að ALLIR stjórnarmenn sem nú hafa verið kosnir til starfa í stjórn FEB, standi með ummælum og styði formanninn?
Ég spyr og þætti ágætt að stjórnarmenn, hver og einn, svöruðu þessari spurningu samkvæmt bestu samvisku.
Hulda Björnsdóttir