14.febrúar 2018
Góðan daginn
Ég las í morgun enn eina dásamlega bull ræðu formanns FEB þar sem slepjan rennur úr hverju orði.
Mikið er það sorglegt að hafa svona fólk í forsvari fyrir okkur sem komin erum á eftirlaun.
Slepjuræður eru ekki til neins en segja meira um þann sem skrifar en þá sem hann er í forsvari fyrir.
Flokkur fólksins greiddi atkvæði gegn hækkun fjármagnstekjuskatts!
Getur þetta verið satt?
Eftir því sem mér hefur sýnst samræmist þetta ekki stefnumálum flokksins og er alveg með ólíkindum.
Það vill svo einkennilega til að athafnir segja meira en orð.
Það er hægt að tala fjálglega í sjónvarpi og yppa kæruleysislega öxlum. Það sem eftir stendur eru ekki hin fjálglegu orð. Nei, það eru athafnirnar sem gilda.
Sú framkvæmd FF að greiða atkvæði gegn hækkun fjármagnstekjuskatts er óskiljanleg.
Hvað voru þingmenn að hugsa?
Fyrir hverja eru þeir að vinna?
Eru þeir ekki í orði að vinna fyrir þá sem lepja dauðann úr skel?
Voru þau ekki kosin á þing vegna loforða um bættan hag þeirra sem ekki eiga í sig og á?
Nú rísa einhverjir upp og segja mig dómharða og andstyggilega. Það er bara fínt mál.
Ég tek fúslega á mig að vera dómhörð í skrifum um flokk sem sýnir í verki allt annað en það sem hann talar um af mikilli innlifun.
Týni ég einhverjum vinum af Facebook eða fylgjendum á þessari síðu, fyrir þessa skoðun mína þá er mér gott sama.
Fólk kýs vegna orða og loforða sem gefin eru fyrir kosningar.
Fólk ætlast til þess að verkin séu látin tala og atkvæðagreiðsla á Alþingi segir allt sem segja þarf.
Vinstri grænir eru heillum horfnir. Þeir eru komnir í eina sæng með kökugerðarmeistara landsins og una hag sínum vel þar.
Forsætisráðherra sem er VG frú sagði fyrir örfáum mánuðum með blik í augum að öryrkjar og ellilífeyrisþegar gætu ekki beðið.
Nú er frúin komin í stólinn og getur setið þar og djöflast á smart símanum sínum í sal Alþingis á meðan einhverjir Píratar eru að þenja sig. Henni þykir líklega ekki mikið til þess flokks koma, en óskaplega held ég þó að barátta þeirra sé heilbrigðari en margra annarra á hinu háa alþingi.
VG er alveg skítsama um öryrkja og eftirlaunaþega.
VG hefur þegið, og þiggur aukasporslur upp á milljónir og brosa breitt.
VG hefur engan áhuga á málefnum fátækra Íslendinga. Þeim er hjartanlega sama NEMA þegar kemur að kosningum. Þá er breytt um laglínu og sungið hátt og blíðlega: ÞIÐ GETIÐ EKKI BEÐIÐ.
Ég nenni ekki að tala um kökugerðarmeistara og co. Þau eru samkvæm sjálfum sér og bréfið fallega frá 2013 til eldri borgara þar sem formaðurinn lofar gulli og grænum skógum er ekki gleymt.
Hann hefur sjálfur líklega gleymt því sem hann setti í bréfið en nú eru þeir tímar að jafnvel þó fólk sé orðið 67 ára þá hefur það ágætt minni og á smartsíma rétt eins og kökugerðarmeistarinn. Þessi hópur 67 ára og eldri er að stórum hluta í þeirri stöðu að lepja dauðann úr skel og eiga ekki fyrir mat alla daga, hvað þá að geta veitt sér að fara til dæmis á tónleika eða í leikhús.
Það er fólk að rísa upp í þjóðfélaginu sem er í forystu verkalýðsfélaga.
Það er fólk að vakna til lífsins sem er þekkt og tekið er mark á og þetta fólk er farið að sýna málefnum öryrkja og eldri borgara áhuga. Líklega er þetta fólk á leið í 65 ára aldurinn en það er alveg sama hvaðan gott kemur.
Nú er tækifæri til þess að sýna ráðamönnum fram á að við látum ekki troða á okkur lengur. Víð rísum upp með verkalýðsfélögum sem nú eru að hefja sókn eftir langa deyfð.
Nú er tíminn þar sem við skulum öll birta endalaust brjálæðislegar aukagreiðslur sem þingheimur skammtar sér. Það er einfaldlega ekki hægt að skýla sér á bak við Kjararáð í þeim austri.
Það hlægilega við þetta allt saman er að Kjararáð skammtar þingheimi föst laun. Þingheimur skammtar svo Kjararáði laun. Er þetta ekki dásamlegt?
Spillingin er svo ótrúleg að bestu skáldsagnahöfundar ættu líklega í fullu fangi með að búa til samskonar plott.
Svo skulum við vera ánægð með að við sem þjóð erum að dala á líkönum um heiðarlegt óspillt þjóðfélag.
Við erum best í öllu og höfum alltaf verið að eigin mati. Besti Eurovision, besta land í heimi, besta vatn í heimi, fallegasta fólkið í heimi og eitt af allra ríkustu löndum heimsins.
Dásamleg og nú erum við líka að verða best í heimi í spillingu.
Við, sauðsvartur almúginn sem lepur dauðann úr skel skulum nú nýta okkur alla þá tækni sem fyrirfinnst. Við skulum birta allar upplýsingar sem koma á vef alþingis, og láta þær óma dag eftir dag eftir dag eftir dag, þar til ráðamenn verða komnir með upp í kok af þessum viðbjóðslega uppreisnargjarna almenningi sem aldrei er friður fyrir.
Valdið er okkar. Það sýndi sig hjá Eflingu og það sýndi sig líka hjá VR. Við skulum nota meðbyrinn sem er þessa dagana og halda á lofti viðbjóðinum og láta þá sem stýra honum ekki komast upp með það lengur að svolgra í sig gæði landsins og auðævi.
Við getum ekki treyst slepjunni sem rennur út úr formanni FEB. Hann heldur að hann sé enn í fótbolta. Hann niðurlægir okkur í hverju skrifunum á fætur öðrum. Við erum ekki hinir minnstu bræður, við erum fólk, glæslegt fólk sem er komið á ákveðinn aldur. Við erum fólkið sem hefur byggt þetta þjóðfélag upp og það gera ekki hinir allra minnstu aumkunarverðu bræður sem eru hjarta formanns FEB svo nærri. Hinir allra minnstu aumkunarverðu bræður eru spilltir stjórnmálamenn sem skara að eigin köku og baka aðrar enn stærri og betri fyrir sig og sína. Ég hef enga meðaumkun með þeim, alls enga.
Nú er nóg komið.
Hulda Björnsdóttir