Ég trúi ekki mínum eigin eyrum

30.desember 2017
Góðan daginn kæru lesendur.
Þá er næst síðasti dagurinn runninn upp.
Kallinn niðri er búinn að vera kolbrjálaður síðan fyrir jól og ég held að það væri best fyrir mig að láta lögguna hafa eitt herbergi hérna hjá mér svo þeir þyrftu ekki endalaust að koma og reyna að róa vitleysinginn niðri.
Ég þurfti að fara heim úr jólafríinu þar sem rigningin var óstöðvandi og það rignir inn í stofuna hjá mér. Fer aftur norður á morgun og mikið verð ég fegin að losna úr geðveikinni sem grasserar á neðri hæðinni.
Í morgun skrapp ég til Coimbra og þegar ég kom heim aftur að 2 tímum liðnum, var þá ekki löggan enn einu sinni komin.
Líklega hefur hún fjarlægt stúlkuna sem kallinn hefur tuskað til fram og til baka og pabbi hennar var bandabrjálaður fyrir utan þegar ég lagði bílnum. Löggan fór með pabbann og allt er enn rólegt eða þannig.
Músikin byrjaði á mínútunni klukkan 8 í morgun, dúndrandi eins og á rokktónleikum
Ég veit ekki hvar þetta endar en alla vega er búið að fjarlæga stúlkuna núna og hún verður ekki drepin í dag.
Það gæti verið að ég færi norður í dag, seinni partinn. Ég þarf aðeins að undirbúa mig en ef ekki í dag þá fer ég á morgun, snemma í fyrramálið.

Eftir að hafa horft á umræðuna á Alþingi um fátækt og svo heyrt af því hvernig fjárlögin voru afgreidd reiddis ég svo mikið að ég ákvað að segja ekki orð fyrr en ég væri orðin róleg.

Mikil er skömm þeirra sem fluttu fjálglegar ræður um fátæktina og svo greiða þeir atkvæði um fjárlög þvert á það sem þeir sögðu.

Það er eins og ég hef svo oft sagt, þegar fólk er sest á þing og farið að fá launin þá rýkur drengskapurinn út um gluggann eins flugur í kapphlaupi.

Enginn drengskapur við lýði á hinu háa Alþingi Íslendinga. Ekkert annað en hagsmunapot og viðbjóður.

Þeir sem ráða gefa almenningi langt nef og mikil er skömm forsætisráðherra sem fólk kaus í góðri trú.
Auðvitað vissu allir hverslags tuddi fjármálaráðherra er og verður, en að sjá hvernig forsætisráðherra hefur tekið upp óbreytta takta hans er hreint með ólíkindum.

Sú ágæta kona sem kemur að vestan og talaði af miklum þunga um að fátækt þyrfti að útrýma er ekkert annað en fagurgali og svo greiðir hún atkvæði rétt eins og næsti dagur á undan og umræður hafi aldrei farið fram.

Mér dettur það oft í hug að alþingismenn haldi að við almenningur séum upp til hópa háflvitar, sem hægt er að ljúga endalaust að og við gleypum lygina hráa.

Alþingismenn hafa ekki hugmynd um hvernig allar bætur skerðast fram og til baka við hvert lítilræði.
Ein bára veltir annari og loks verður öldugangurinn slíkur að fólk fær hundruði þúsunda bakreikninga vegna þess að þeir fengu einhvern tíman einhverja aðstoð.
Öryrkjar eru sérstaklega undir þessum hnífi og ekki batnar það.

Nú er komið nýtt kerfi varðandi ellilífeyrinn og hægt að taka hálfan ellilífeyri og hálfan lífeyrissjóð og líklega að vinna með. Ég skil þetta ekki og nenni ekki í dag að setja mig inn í málið.

Öryrkjarnir eru ofurseldir kerfi sem enginn skilur og líklega síst af öllu alþingismenn.

Áttu foreldrar langveikra barna ekki að fá desember uppbót samkvæmt gæsku ráðherra?
Fái þau þessa uppbót þá spyr ég:
Mun hún skerða eitthvað annað og fá þau ef til vill bakreikning á næsta eða þarnæsta ári?

Vitleysan er svo gengdarlaus að ég ríf hár mitt í hvert sinn sem ég sé hvernig farið er með öryrkjana.

Ég verð æf þegar ég sé fólk rífast endalaust um einhverja hungurlús sem guðs konan fékk og sama fólk minnist ALDREI á öryrkja eða eldri borgara.

Frú guðs getur vel við unað og mér er hund sama þó hún borgi einhverja smámuni í húsaleigu og fái greitt ofurtaxta fyrir 2 blaðsíður ritaðar í útlöndum. Frúin er jú guðs og það lið er ekki undir sama hatti og ég og vinir mínir sem eru annað hvort öryrkjar eða eftirlaunaþegar. Nei, guðs frúin er í sama hópi og forsætisráðherra og fjármálaráðherra sem stjórnar öllu, ÖLLU, ekki bara fjármálaráðuneyti, hann stjórnar forsætisráðuneytinu líka. Það þarf ekki annað en horfa á forsætirsráðherra til þess að sjá taktana.

Tveir Píratar berjast eins og rjúpan við staurinn og hamast við að fá þingsályktunartillögur sem hafa verið samþykktar, upp úr skúffunum. Þau eiga hrós skilið fyrir eljusemina og vona ég að þau haldi áfram og hafi erindi sem erfiði.

Inga Sæland er með munninn fyrir neðan nefið og vonandi notar hún hann til góðs en kannski væri betra að undirbúa sig aðeins betur þegar verið er að etja kappi við samviskulausann fjármálaráðherra sem hefur ekki hugmund um hvenær hann segir satt og hvenær ekki og er nokk sama um einhverja fátæklinga.

Það er kominn tími til þess að sauðsvartur almenningur hætti að kjósa eins og hann hefur alltaf gert.
Það er kominn tími til þess að almenningur taki ábyrgð á atkvæði sínu og sjái til þess að öfl eins og núverandi stjórn komist ALDREI aftur til valda.

Vonandi lafir þessi stjórn ekki lengi. Kannski gerir hún það því ekki var mikið að marka uppreisn þeirra sem þóttust ekki styðja stjórnina 100 prósent og ætluðu minnir mig að greiða atkvæði samkvæmt samvisku sinni. Líklega hafa uppreisnarseggirnir týnt samviskunni eins og svo margir aðrir þingmenn.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: