Ómerkilegar umræður um fátækt á hinu háa Alþingi Íslendinga

27.desember 2017

Umræður um fátækt á Íslandi fóru fram á Alþingi fyrr í dag.

Málshefjandi var Inga Sæland frá Flokki fólksins.

Gott var að þessi mál kæmu til umræðu á hinu háa Alþingi en óttalega voru þær nú mikið málæði um ekki neitt.

Svona umræður verða oft máttlausar og meira til þess að auglýsa einstaklinga og flokka.

Bjarni Ben var að sjálfsögðu himinlifandi með sjálfan sig og sitt framlag.

Þorsteinn Víglundsson sem óneitanlega belgist út í eigin velmegun getur talað lengi um ekkert.

Hver á eftir öðrum komu stjórnarliðar og lýstu yfir ánægju sinni með að Inga Sæland hefði opnað þessa umræðu á hinu há æruverða Alþingi.

Hver á eftir öðrum komu þingmenn sumir með háfleigar ræður og aðrir með nokkur orð og ég spurði sjálfa mig: Til hvers voru þau að taka til máls?

Jú, það þarf að nota hvert tækifæri til þess að ota sér á framfæri því það koma jú kosningar aftur og þá þarf að vera hægt að sópa rykið af ræðustúfum sem passa inn í loforðaflauminn.

Ég er ekki að segja að umræða um fátækt eigi ekki rétt á sér á hinu háa Alþingi. Nei, þvert á móti hún á fullan rétt á sér. Það sem ég gagnrýni er málæðið sem rennur upp úr þingmönnum bæði stjórnarliðum og stjórnarandstöðu og engar lausnir eða tillögur um raunhæfar lausnir.

Ellilífeyrisþegar eiga greinilega ekki upp á pallborðið hjá þeim sem lögðu orð í belg í dag.

Auðvitað væri best að hægt væri að koma þessu vandræða liði, eldri borgurum, fyrir einhvers staðar uppi í sveit á heimilum fyrir fjölda manns svo hægt væri að spara ríki og borg þessi bévaðans útgjöld sem fylgja fólki stundum sem gerist svo ósvífið að verða gamalt.

Fátæk börn má heldur ekki ræða upphátt. Það er ekki gott að ræða um börn sem ekki hafa efni á að fara í tónlistarskólana, íþróttirnar og tómstundastarf. Þetta eru börn sem á að hafa sem minnst í umræðunni og kjör foreldrar þeirra eiga auðvitað aldrei að komast í opinbera umræðu.

Það er voða fallegt að vera ráðherra og tala um menntun og tómstundir. Ætli ráðherra þekki einhver börn sem ekki geta farið í skólaferðalögin eða tónlistarskólana eða í íþróttafélögin? Ætli ráðherrann þekki einhver börn sem ekki fá almennilegan morgunverð áður en þau fara í skólann og eiga kannski ekki heldur almennilegt húsaskjól til þess að koma í þegar þau fara heim? Ætli Þorsteinn Víglundsson eigi slíka vini?

Það vita allir að Bjarni Benediktsson er úti að aka og sér ekki niður fyrir silfurskeiðarnar og skilur ekki líf venjulegs fólks.

Það er ágætt að vera ráðherra félagsmála og tala fjálglega um allt sem á að gera en verður svo agnarlítið og oftast ekki neitt. Já, það er einmitt svo gott að komast inn í svona umræðu, umræðu um fátækt og höfða til alls þingheims um að standa saman þegar allir vita að allt sem frá stjórnarandstöðu kemur verður fellt og þessi ágæti forsætisráðherra sem nú situr við völd ætlar sér að gera eitthvað einhvern tíman. Ekki strax og ekki á næsta ári, líklega ekki fyrr en nokkrum mínútum áður en næstu kosningar verða og loforðaflaumurinn tekur til að vella eins og grautur sem upp úr sýður og dreifist um allt stjórnlaust.

Inga Sæland og Flokkur fólksins halda líklega eitthvað áfram að malda í móinn eins og gerðist í dag.

Það er ágætt og góðra gjalda vert en orðin mega sín lítils ef framkvæmdir eru í algjörri mótsögn við flauminn sem rennur úr ræðustól.

Það þýðir ekkert að tala og tala ef fólk hefur ekki raunhæfar tillögur um úrlausnir. Jú, eitthvað þarf að gera og á jólum er tilvalið að hamra á fátæku börnunum.

Hvað hafa margir þingmenn Flokks fólksins fylgt dæmi Forseta Íslands og gefið hluta af launum sínum til þeirra sem ekkert hafa þessa síðustu daga mánaðarins?

Hafa þessir þingmenn hugsað sér að láta af hendi rakna ríflegt framlag í hverjum mánuði til þeirra sem eiga minna?

Þingmenn Flokks fólksins eru komin á ofurlaun, rétt eins og aðrir þingmenn. Þau koma úr láglaunastéttum, allavega sum þeirra og kunna að láta sér nægja lítilræði og gætu áreiðanlega haldið áfram sparnaðarleið sinni og gefið stóran part ofurlaunanna til góðgerðarmála.

Gera þau það?

Ég veit ekkert um það en þætti það ekki óeðlilegt og þeim til framdráttar í baráttu fyrir orðum og merkingu þeirra.

Nei, ætli orðin verði ekki bara látin nægja.

Ekki hefur neitt heyrst af málarekstri gegn ríkinu sem Flokkurinn hóf fyrir all mörgum mánuðum? Dagaði það uppi?

Eina ráð okkar ellilífeyrisþega til þess að ná rétti okkar er að fara í mál við ríkið og láta dæma ógilda eignaupptöku á sparnaði okkar. Hver gæti aðstoðað við slík málaferli er mér hulin ráðgáta.

Það er nenfnilega öllum nákvæmlega sama um gamalt fólk sem komið er yfir 65 ára. Það getur etið það sem úti frýs. Það kom skýrt fram í bla bla umræðunum á hinu háa Alþingi fyrr í dag.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: