24. ágúst 2022
Heil vika er eftir af þessum mánuði og margir eldri borgarar og líklega enn fleiri öryrkjar vita ekki hvað þeir eiga að hafa í matinn þessa 7 daga sem eftir eru. Þetta er velferðin sem Kata talar um og BB glennir sig yfir í tíma og ótíma. Kata líklega frekar í erlendum blöðum og á erlendum ráðstefnum en mér sýnist BB glenna sig alls staðar.
Í gær sagðist ég ekki vera par ánægð með hvað verður um tekjurnar mínar frá lífeyrissjóðinum mínum og hið opinbera, TR, stelur af mér í hverjum mánuði.
Fólki finnst ég vanþakklát og ekki skilja að þeir sem eru til dæmist að vinna á leikskólum hafi varla 200 þúsund eftir skatta.
Það sem ég var að tala um í gær eru þessar ágætu 199 þúsund krónur sem ég fæ áður en teknir eru skattar og ellilífeyrir minn frá TR skertur! Ég er ekki að tala um að ég hafi þessar 199 þúsund til ráðstöfunar, síður en svo.
Ég settist niður í morgun og reiknaði, með reiknivél TR hvernig tekjur upp á 199 þúsund geta haft mismunandi áhrif í endanlega útkomu hjá ellilífeyris manneskju.
Svona lítur þetta út.
Fullur ellilífeyrir fyrir skatt og skerðingar er krónur 286.619
Dæmi 1. Ef ég fæ 199 þúsund krónur á mánuði í greiðslur frá Lífeyrissjóði er útkoman eftir skatt og skerðingar krónur 330.738, frá TR krónur 208.319 og frá lífeyrissjóði 199.000 mínus skattar 76.581 og útkoman er 330.738
Ég lagði í lífeyrissjóð 4% af tekjum mínum alla mína starfsæfi frá því að skylt var að greiða í þessa sjóði
Dæmi 2. Ef ég hins vegar fæ 199 þúsund í atvinnutekjur eftir að ég er farin að fá ellilaun frá TR þá er útkoman svona fyrir skatt: 286.619 frá TR (fullur óskertur ellilífeyrir) plús 199.000 frá lífeyrissjóði .
Í skatt borga ég 53.916 vegna TR og 97.626 vegna tekna frá lífeyrissjóði og endanleg útkoma er 351.939 krónur á mánuði í stað 330.738 ef ég fæ þessar 199 þúsund frá lífeyrissjóði.
Dæmi 3. Ef þessar 199 þúsund krónur eru fjármagnstekjur er dæmið svona: frá TR fæ ég 208.319 krónur, sömu upphæð og ef tekjurnar eru frá lífeyrissjóði. Svo fæ ég 199.000 í fjármagnstekjur. Síðan reiknast skattar og eftir það eru eftir krónur 351.939 í tekjur á mánuði
Dæmi 4 er svo ef ég fengi ekkert annað en bætur frá TR og þá lítur þetta svona út: 286.619 krónur (fullur ellilífeyrir) og frádregin staðgreiðsla 36.226 krónur, svo niðurstaðan er 250.393 krónur í tekjur á mánuði.
Hver er svo niðurstaðan?
Jú,
Dæmi 4: Engar tekjur aðrar en frá TR: tekjur eftir skatta krónur 250.393
Dæmi 1: 199.000 krónu tekjur frá Lífeyrissjóði plús skerðing frá TR og heildar útkoman er krónur 330.738 eftir skatt.
Dæmi 2: 199.000 krónur sem eru atvinnutekjur og engar skerðingar frá TR sem þýðir fullur ellilífeyrir frá TR krónur 286,619. Samtals tekjur eftir skatt krónur 379.323
Dæmi 3: 199.000 krónur sem eru fjármagnstekjur: þá er dæmið svona: krónur 208.319 ellilífeyrir frá TR og eftir skatt er útkoman 351.939 á mánuði.
Mér finnst ósanngjarnt að sparnaður minn alla mína starfsævi, samkvæmt lögum, í lífeyrissjóð skuli skerða það sem ég fæ frá TR, en ég hef borgað skatta og skyldur til þjóðfélagsins alla mína starfsævi og inni í þeim sköttum eru greiðslur til velferðarkerfis, þar sem hluti þess er jú greiðslur frá TR.
Ég er ekki stóreigna manneskja eða kona sem hef haft milljónir í mánaðalaun á starfsferlinum.
Ég er bara venjuleg manneskja með frekar lág laun miðað við marga á minni starfsæfi sem borgaði allt sem mér var gert að borga og draga frá launum mínum.
Ég er hreint ekki að reka áróður fyrir því að allir fá óskert allt frá TR! Hreint ekki. Þeir ríku geta séð um sig.
Hver er að berjast af alvöru fyrir breytingum á þessu kerfi?
Stjórnmála menn eru með lokuð augun.
Þeir eru sælir með sitt og gamlingjarnir sem sofa og vilja stærri klukku hafa ekki sýnt mér að þeir séu að berjast fyrir venjulega eldri borgara og öryrkja. Hvað eru þessir kallar með margföld laun eldri borgara eða öryrkja? Spyrja þeir sjálfa sig einhvern tímann að því?
Þeir sem ég hef séð tala um að bæta þurfi kjörin hjá þessum tveimur hópum eru ungt fólk í stjórnarandstöðu og hafa þar af leiðandi engin tök á að gera neitt í málinu.
Blákaldur raunveruleikinn er sá að þingheimi er ríkisbubbum er nákvæmlega sama um fátæka fólkið og ég er reið.
Ég skrifaði þingmönnum og ráðherrum og fleiri sem gátu haft einhver áhrif. Ég gafst upp á þessu öllu fyrir 2 árum. Engin svör komu frá þeim sem voru við völd og gátu gert eitthvað. 4 eða fimm venjulegir þingmenn í stjórnarandstöðu svöruðu einu sinni og svo ekki söguna meir.
Kerfið er svo flókið að þessir stuttbuxna sjallar eða hvítflibba grey geta ekki eytt dýrmætum tíma sínum í að velta fyrir hvað sé hægt að gera fyrir hina sem eru verr staddir. Nei, nei, nei, þeir senda seðlabanka stjóra til þess að segja okkur hvað allt sé okkur að kenna og hvernig við verðum að herða sultarólina svo hægt sé að halda áfram sukkinu.
Hvað hefur BB og fleiri flokksformenn fengið marga milljarða afskrifaða?
Hver borgar þessar afskriftir?
Hafa þeir og þær þurft að taka afleiðingum gerða sinna og borga fyrir illa rekin fyrirtæki í eigu þeirra og ættingja? Nei, þetta fólki heldur áfram að sitja í þægilegu stólunum einhvers staðar, ef ekki á alþingi og halda áfram að ausa úr nægtar skálum almanna fés.
Kata setur á fót nefnd eftir nefnd eða starfshópa til þess að skoða og rýna og skoða meira og skrifa skýrslu svo hægt sé að fóðra skrifborðsskúffur með ályktunum og rýningum.
Mér finnst þessi samkoma hreinlega hlægileg og ekki batnar hún.
Ég gæti haldið áfram í allan dag að ausa úr skálum vonbrigða minna en það skiptir engu máli. Það er ekkert hlustað, á þeim stöðum þar sem hægt væri að breyta, á það sem ég hef að segja.
Ísland alltaf best í öllu!
Húsbænda og hjúa menningin blómstrar sem aldrei fyrr á þessu guðs volaða landi.
Hulda Björnsdóttir