Argandi ill

1.júní 2022

Þá er kominn nýr mánuður og margir geta andað léttar þar sem útborgun frá TR og lífeyrissjóðum hefur skilað sér inn á reikninginn hjá flestum.

Bjarni og co hafa talað glatt um frábæra hækkun bóta almannatrygginga frá 1.júlí 2022

Ekkert bólar á þessum hækkunum og hefur sést á vef TR að 3% verði greidd í síðasta lagi 1.júli, sem auðvitað sparar stofnunnin að senda innlegg fyrir nokkrum krónum og slengja þessu höfðinglega framlagi framan í fólk falið í greiðslu fyrir júlí.

Ellilífeyrir hækkar um 3% og það gerir brúttó krónur 8.348. Athugið að þetta er brúttótala!

Ekki fær fólk þessar 8 þúsund rúmar því strax er tekið af vegna skerðinga og skatta svo eftir verður harla lítið ef fólk er svo heppið að hafa greitt í Lífeyrissjóði.

Núna er ellilífeyrir krónur 278.271 og verður eftir 3% hækkun 286.619

Þetta eru auðvitað alveg gígantískar tölur og ætti ég að halda mér saman og ekki að hafa neina skoðun á þessu máli.

Tryggingastofnun er auðvitað bara stofnun sem fylgir fyrirmælum frá ráðherrum, eða er það ekki?

Það er ekki TR sem stýrir upphæðum bóta almannatrygginga kerfis á Íslandi.

Það eru ráðamenn hverju sinni. Þeir sem kjósendur kjósa til þess að gæta hagsmuna þjóðarinnar! Enginn sem ekki fær atkvæði kjósenda kemst til valda, eða er það ekki?

Kannski ekki alveg rétt því bitlingarnir eru vænir fyrir skyldmenni og bestu vini BB og co.

Í dag er ég reið.

Ég er ekki vonsvikin, ég er einfaldlega öskureið. Það geisar óðaverðbólga á Íslandi og tekjur þeirra sem ekki vaða í peningum elítunnar, duga skemur fyrir brýnustu lífsnauðsynjum. Þeir ríku maka krókinn eins og venjulega og verða ríkari og þeir fátæku verða fátækari því það eru jú þeir sem halda uppi sukkinu fyrir aðalinn með skerðingum og sköttum.

Veit fólk þetta ekki?

Skilur fólk þetta ekki?

Er fólki alveg sama?

Ég spyr vegna þess að þeir sem hafa legið á þjóðinni í áratugi og fengið bónusa og vel gjörðir í gegnum gjaldþrot og alls konar bittlinga og gjafir í bönkum og sjávarútvegi og guð má vita hvað, fitna endalaust eins og púkinn á fjósþakinu.

Engeyjarættin er besta dæmið og þjóðin kýs fjármálaráðherra sem ætti að vera einhvers staðar að skúra gólf eða hreinsa fisk ef litið er til fjármálalæsis viðkomandi.

Spillingin sópast undir teppin og liggur þar og sefur ljúfum svefni áratug eftir áratug.

Lítil kelling skoppar í kringum stóran kall og heldur uppi vörnum fyrir fátækra stefnu stjórnvalda og rennsli auðs til uppáhaldsins.

Tryggingastofnun gefur út tölur í hverjum mánuði um brúttó greiðslur stofnunarinnar. Það eru miklu flottari tölur en nettó tölur og fela svo vel hvað raunverulega rennur í vasa þeirra sem hafa lítið sem ekkert fyrir.

45 prósent skerðingar hjá flestum eldri borgurum, ofan á skerðingar kemur svo skattur sem eru tugir prósenta!

Þeir sem búa erlendis fá ekki félagslegar uppbætur og lifa á nöktum greiðslum ellilífeyris og fái þeir hækkun frá lífeyrissjóði étur Tryggingastofnun það upp um leið. Nei, passa skal upp á að þetta fólk sem getur ekki haldið sig á Íslandi við sult og seyru og reynir að ná endum saman í ódýrari löndum, fái ekki krónu til biðbótar við nakinn ellilífeyri.

Ég er reið.

Ég er öskureið og vil fá að halda sparnaði mínum í lífeyrissjóð, sem ég var skyldug að leggja fyrir í, óskertum. Ég vil að fólk á mínum aldri sem ekki hefur verið hátekjufólk sé ekki mergsogið í hverjum mánuði og haldið í fátæktar gildru síðustu ár ævinnar.

Feitir kallar og kellingar í ríkisstjórn og á alþingi þurfa ekki að velta fyrir sér hverri einustu krónu til þess að hafa fyrir mat alla daga. Nei, þeir fá núna eftir nokkra daga ríflega orlofsuppbót ofan á launin sem eru ekki skorin við nögl.

Feitu kallarnir verða feitari og feitu kellingarnar blása út eins og blöðrur. Sumir sofa í þægilegum stólum þingsala og sumir mæta sjaldan í vinnuna, uppteknir og uppteknar við að sinna áhugamálum eða öðrum störfum!

Örfáir þingmenn malda í móinn og halda uppi vörnum fyrir hina fátæku en það eru ekki margir sem nenna því. Þeir sem malda í móinn eru að sjálfsögðu ekki í stjórnarliðinu og spurning hvaða hljóð kæmi úr skrokkunum ef þeir kæmust til valda?

Þeir ríku verða ríkari, þeir fátæku verða fátækari!  Þannig er Ísland í dag og hefur verið nokkuð lengi.

Haldið bara áfram að hlusta á fagurgala litlu kellu og stóra gaursins.

Haldið bara áfram að trúa lyginni

Haldið endilega áfram að kjósa yfir ykkur sama sukkið aftur og aftur og aftur.

Það er svo þægilegt að vera ekkert að breyta gömlum vana! Eða hvað?

Jú, það er rétt. Íslensk þjóð fær það sem hún á skilið. Þeir sem eru fátækir eiga að vera það þar til yfir líkur og þeir sem eru ríkir eiga að verða ríkari og ríkari þar til þeir drepast.

Trúið fagurgalanum sem vellur út úr fjármálaráðherra og smeðjulegu brosi og grettum forsætisráðherra. Þetta er jú allt svo ægilega flott og fínt á Íslandi, alltaf best í heimi í öllu, líka í spillingu og mannvonsku stjórnvalda.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: