24. nóvember 2021
Hér sit ég í kulda snemma morguns og horfi á dagatalið mitt. 6 dagar eftir af mánuðinum.
6 dagar sem reynast mörgum vina minna erfiðir, sumum nánast óbærilegir.
Ég fletti upp hver ellilífeyrir frá TR er fyrir árið 2021 og kom upp talan 266.033 krónur á mánuði. Þessi tala er áður en skurðarhnífurinn kemur gargandi ef þú ert svo óheppin að hafa sparað í lífeyrissjóð part af tekjunum þegar þú varst að vinna.
45% skurðarhnífur eftir 25 þúsund króna frítekjumark hefur verið dregið frá.
Þvílíkur lúxus og svo á auðvitað eftir að borga skatt þannig saxast jafnt og þétt af þessum 266.033 krónum.
Þetta árið hef ég fengið 203 þúsund frá TR á mánuði og nú er ég komin í tuga þúsunda skuld við stofnunina af því að lífeyrissjóðurinn minn greiddi mér 10 % uppbót fyrir árið vegna góðrar ávöxtunar sjóðsins.
Ég ákvað að breyta ekki tekjuáætlun og standa bara í skuld við stofnunina næsta ár. Það er engin hætta á því að blessuð ríkisstjórnin og TR sem vinnur í umboði stjórnarinnar láti mig ekki borga til baka ÞAÐ SEM ÉG HEF FENGIÐ OFGREITT !!!!!
Það eru komnar jólaauglýsingar á fullt fyrir löngu!
Keyptu þetta og keyptu hitt.
Alls konar skyndilausnir eru í boði fyrir þá sem vilja kaupa sér kjól eða jakkaföt fyrir jólin og þurfa að losna við nokkra tugi kílóa.
Straujaðu af þér spikið segir í einu vídeói. Sjáðu handleggina segir í öðru. Bara strauja allt burtu og vola.
Drekktu kaffi og þú verður þveng mjór eða mjó á nóinu!
Éttu Herbalife og haltu þér í formi!
Græddu svo peninga á öllu saman því þú þarft auðvitað að eiga peninga fyrir lúxusnum.
Píramídafyrirkomulag er lausnin. Smala mennskan er ótrúleg.
Ég fer nú bara í Body shop og kaupi mér það sem ég kýs að setja framan í mig. Þar fæ ég ódýrar og góðar vörur sem hafa reynst mér vel og þegar ég gerði tilraun og bar saman áhrif á ferskju með vökva frá Body Shop og öðru merki sem er ekki í búðum en á að vera best í heimi þá var niðurstaðan að Body Shop stóðst fyllilega samanburðinn.
Ég er svo tortryggin að ég trúi því að hvorki Herbalife né annað slíkt haldi mér í góðu formi.
Ég er svo gamaldags að ég held því fram að heilsusamlegt líferni sé lykillinn og þar er hreyfing og hollt matarræði uppskriftin.
Mikið ofboðslega er ég þreytt á öllum þessum skyndilausna auglýsingum sem dynja alla daga á fólki, bæði mér og öðrum.
Það eru engar skyndilausnir til.
Lífstíll er málið og ekkert annað.
Þú strauar ekki af þér spikið með því að renna yfir vömbina í hringi með einhverju ágætu tæki, og nóg er til af þeim, og sýnir svo myndir fyrir og eftir.
Lyftu lóðum eða bara vatnsflöskum ef þú þarft að losna við auka eitthvað af handleggjum.
Farðu út að ganga eða gakktu stigana heima hjá þér nokkrar ferðir. Þú getur verið viss um að kílóin og heilsan breytast.
Hættu að kaupa rándýrar skyndilausnir og borðaðu skynsamlega og hollan mat.
Minnkaðu bara skammtana og þú kemst ekki hjá því að sjá árangur.
Minni diskar eru frábær lausn. Þú fyllir áfram diskinn af gómsætum matnum og þú sérð fyrir framan þig glás en diskurinn er minni og þar af leiðandi skammturinn minni þó augað sjái það ekki.
Hættu að þamba bjór eins og vitleysingur.
Drekktu vatn eða venjulegt kaffi og te.
Taktu eigin ábyrgð á líkama þínum og láttu auglýsingarnar ekki ná tökum á þér. Stattu í lappirnar og þú sérð árangur.
Ef þú vilt vera akfeitur eða akfeit þá er það þín ákvörðun en ef þú vilt lifa heilsusamlegu lífi þar til þú kveður þá er bara ein leið fær. Líttu í spegilinn og horfðu á líkama þinn og spurðu þig hvort þú sért eins og þú kýst helst að vera. Ef svarið er já þá heldur þú áfram á þeirri braut sem þú hefur verið á, hver svo sem sú braut er.
Ef svarið er nei þá breytir þú til og tekur upp nýja hætti.
Valið er alltaf þitt.
Af hverju er ég að röfla þetta? Jú, ég er að hugsa um framtíðina og hvernig næsta ár verður hjá mér. Það er að koma ný ríkisstjórn spillingar á Íslandi og ég býst ekki við því að neitt verði gert varðandi áunnin eftirlaun mín frá ríkinu, jafnvel þó Inga hafi grenjað og gargað og heimtað réttlæti og útrýmingu á spillingu. Nú er hún grenjandi glöð með spillinguna og skítsama og alla hina, rétt eins og við var að búast.
Öryrkjar búa við sama ástand og jafnvel verra en eldri borgarar á Íslandi. Vissuð þið að þegar öryrki fer á eftirlaun frá TR lækka laun hans?
Ég og aðrir eiga rétt á því að geta lifað af launum sem okkur eru skömmtuð í formi eftirlauna. Við sem tilheyrum millistétt og lægra settum í þjóðfélagi græðgi og spillingar þurfum ekki að búast við NEINU frá Alþingi sem nú er að setjast. Þeir sem þar sitja eru að mestu leyti fólk sem gefur skít í okkur og hugsa eingöngu um eigin gróða.
Þeir örfáu sem bera hag þjóðar fyrir brjósti munu sýna hug sinn við atkvæðagreiðslu um kosningasvindlið í síðustu kosningum.
Ný ríkisstjórn Íslands verður sú allra spilltasta sem setið hefur og almenningur mun ekki gera neitt í málinu. Minnið er ekki betra en hjá gullfiskunum og þrælsóttinn ræður.
Til hamingju Ísland með að vera komið í hóp spilltustu ríkja heims.
Hulda Björnsdóttir