26. september 2021
Mín skoðun!
Mikill sorgardagur í sögu Íslands runninn upp.
Mér sýnist á þeim tölum sem ég hef séð að áframhaldandi afturhald stjórni landinu og flóttafólki frá einu ríkasta landi heims til Spánar haldi áfram að fjölga.
Hvað á fólk sem á ekki fyrir brýnustu nauðsynjum að gera?
Af hverju kýs fólk svona?
Ég veit það ekki en ég held að margir séu hræddir við breytingar og haldi að allt fari til fjandans ef ný öfl komist til valda.
Niðurstöðurnar koma mér ekki á óvart.
Ég ætla ekki að tala um einstaka flokka núna.
Mér finnst þetta vera eins og ein fyllibyttu fjölskylda þar sem meðvirknin er ríkjandi og enginn þorir að gera neitt, og þeir sem eitthvað þora að gera eru kaffærðir um leið.
Þjóð sem leyfir auðvaldinu að kúga sig ár eftir ár og áratug eftir áratug er einkennilegt samsafn af fólki sem vill áfram búa í sama kassanum ár eftir ár.
Það getur ekki verið að skipting styrkja til stjórnmálaflokka af almannafé upp á hundruði milljóna sé eðlileg.
Þeir sem ríkastir eru fá mest!
Þeir sem eru nýir fá EKKI NEITT!
Það væri líklega verðugt verkefni þeirra flokka sem eru á Alþingi eftir þessar kosningar að breyta þessu fyrirkomulagi og hætta að styrkja stjórnmála flokka í kosningabaráttu, eða að minnsta kosti sjá til þess að ALLIR fái jafnt.
Stærsti flokkurinn fær mest!
Þeir ríku fá mest!
Er þetta náttúrulögmál á Íslandi eða hvað?
Er ekki hægt að breyta þessu svo allir sitji að minnsta kosti við sama borð fjárhagslega?
Nú fara næstu dagar líklega í það að rakka niður þá sem voru í forystu fyrir flokkana sem töpuðu eða fengu minna fylgi en búist var við. Það er bara þannig.
Þegar ég sá hvernig komið var í morgun þegar ég vaknaði þá hvarflaði að mér hvort þeir sem eru landflótta á Spáni til dæmis hafi allir haft kosningarétt og hafi nýtt sér hann.
Ég hef ekki kosningarétt og hef ekki kært mig inn á kjörskrá en hefði getað gert það.
Getur verið að tugir þúsunda Íslendinga sem búa erlendis og hafa ekki nýtt sér möguleikann á því að kjósa í mikilvægum kosningum eins og þessum hefðu getað breytt einhverju?
Ég gæti trúað því að svo væri. Ég sá einhvers staðar tölur um þann fjölda sem hefur flúið til Spánar en man ekki töluna. Talan var há og núna er viðbúið að hún hækki enn næstu fjögur árin.
Kannski ættum við að sameinast og koma atkvæðum okkar til Íslands í mikilvægum kosningum eins og þessum í framtíðinni. Ég ætla alvarlega að hugsa það mál og gera eitthvað í því.
Um hádegið verða líklega þættir í útvarpi og sjónvarpi þar sem rætt verður við formenn flokka. Ég ætla að skoða þessa þætti. Það skiptir máli fyrir mig að vita hvað fólkið segir núna.
Voru einhverjar punt dúkkur sem tókst að hala inn atkvæði á kostnað þeirra sem hafa virkilega unnið vel síðustu fjögur árin, jafnvel þó í stjórnarandstöðu hafi verið?
Voru einhverjir sem höluðu inn atkvæði sem ALDREI hafa látið í sér heyra varðandi kjör eldri borgara og öryrkja og fátæks fólk en stukku inn í framboð á síðustu stundu? Nei, það getur auðvitað ekki verið. Allir sem setjast inn á þing gera það af einskærri manngæsku og umhyggju fyrir ÖLLUM, ekki bara fyrir hinum ríkustu!
Eða hvað?
Hulda Björnsdóttir