24. september 2021
Skoðun mín eða mitt álit, sama hvort er.
Ég hef fengið skammir í hattinn fyrir að vera ekki himinlifandi jákvæð vegna bjartsýni formanns LEB.
Hver og einn má hafa sína skoðun fyrir mér.
Fólk má saka mig um svartsýni ef því sýnist svo og mér er slétt sama.
Mér er hins vegar ekki sama þegar verið er að vekja vonir hjá fátæku eftirlauna fólki.
Þegar formaður landssamtaka eldri borgara lýsir yfir hamingju sinni með málið þá kvikna öll viðvörunarljós hjá mér ásamt ærandi sírenuhljóðum.
Er það virkilega svo að formaðurinn haldi að risa mál eins og málsóknin vegna skerðinga verði afgreidd í Héraði og það verði lok málsins ef Herinn vinnur þar?
Virkilega?
Mín skoðun er sú, byggð á margra áratuga reynslu, að risamál eins og þetta verði að fara fyrir öllu dómsstig. Þetta er prófmál og hlýtur að fá fulla meðferð.
Segjum sem svo að ríkið tapi málinu, eru þá líkur á því að það sætti sig bara við það og horfi fram á að þurfa að borga milljarða í auknum útgjöldum? Mín skoðun er sú að ríkið hljóti að áfrýja.
Segjum sem svo að ríkið vinni málið, eru þá líkur á því að Málssóknarsjóður Gráa Hersins setjist bara niður og gefist upp? Nei, mín skoðun er sú að þá mundi málinu vera áfrýjað.
Það hefur frá upphafi verið talað um að þetta mál þyrfti að öllum líkindum að fara fyrir öll dómsstig á Íslandi og ef til vill til Mannréttindadómstólsins.
Það er mín skoðun að almenningur þurfi að gera sér grein fyrir því að langur vegur er frá því að málið sé unnið þó það vinnist kannski á fyrsta þrepinu.
Hafa þeir sem tala um að vinnist þetta mál muni allar skerðingar vegna tekna frá lífeyrissjóðum falla niður hugsað málið til enda?
Hafa þeir hinir sömu gert sér grein fyrir því að þeir sem eru með 18 milljónir á mánuði í tekjur mundu þá líka fá hungurlúsina frá TR?
Það hefur ekki farið hátt umræðan um að þegar þessum málarekstri lýkur og málið væri í höfn fyrir sækjendur hæfist samningaferli á milli ríkis og eldri borgara um hvernig ætti að framkvæma niðurfellingu skerðinganna!
Það þyrfti væntanlega að setja lög um hvernig framkvæmdin yrði til þess að hinir allra hæstu launuðu fengju ekki allt í einu tæpar 300 þúsund á mánuði til þess að leika sér með í viðbót við himinhá laun!
Það hefur verið hvíslað í umræðunni að þak þyrfti að vera á gjörningnum.
Þetta hefur bara verið hvísl og líklega ekki margir sem hafa séð þá umræðu.
Mín skoðun er sú að auðvitað þurfi að vera þak. Það er í fersku minni hvað kostaði að leiðrétta vitleysu TR árið 2017 og hverjir það voru sem græddu mest á þeim málaferlum móður Ingu Sæland.
Í þeim málaferlum vannst málið og fyrir 2 fyrstu mánuði ársins fengu ALLIR sem sótt höfðu um eftirlaun frá TR óskert þaðan, þeir sem voru með 150 þúsund frá Lífeyrissjóði jafnt og þeir sem vorum með milljón á sama tíma. Það mál var ekki hugsað til enda og kostaði ríkið marga milljarða sem hefði verið hægt að nota á trúverðugri hátt fyrir hina lægstu. Ég er bara að vekja athygli á því að mál eru stundum, og oftar en ekki hugsuð til enda!
Fari nú svo ótrúlega að mál þremenninganna vinnist í héraði og ríkið samþykki niðurstöðuna þá væri það að sjálfsögðu gleðiefni og ég yrði fyrst manna til þess að gleðjast yfir því.
Mín skoðun er sú að langt ferli sé fyrir höndum.
Af hverju heldur fólk til dæmis að þurft hafi að setja upp sérstakan málsóknarsjóð til þess að standa straum af kostnaði við málaferlin ef þetta væri svona „pís of cake“ sem tæki kannski nokkra mánuði?
Af hverju heldur fólk að VR hafi gengið í ábyrgð og tryggt að fjárhagslegur kostnaður kæmi ekki til með drepa málið? Var það af því að þetta var bara smá mál?
Af hverju heldur fólk að það hafi ekki verið löngu búið að fara í þennan málarekstur vegna óréttlætis sem hefur verið rætt og vitað um í marga áratugi?
Mín skoðun er sú að formaður LEB og allir þeir sem mála núna vegginn rósrauðan séu að vekja vonir hjá hinum fátækustu og að það sé ljótur leikur.
Ég hef eiginlega ekki trú á því að ég muni örugglega sjá fyrir endanna á þessu máli á þeim árum sem ég á eftir ólifuð á þessu jarðríki.
Eftir að málið er til lykta leitt á öllum nauðsynlegum dómsstigum á eftir að setja lög um framkvæmdina.
Nú þegar er liðið meira en ár síðan farið var af stað. Dómur verður ekki kveðinn upp fyrr en eftir 2 mánuði sýndist mér. Þetta er bara skref eitt. Skref eitt verður ekki búið fyrr um áramót og árið 2022 tekur við með enn fleiri hindrunum hvernig svo sem málið fer.
Velkomin í hóp hinna bjartsýnu sem skamma mig fyrir svartsýnina.
Haldið áfram að argast í mér og skamma mig fyrir að syngja ekki lofsönginn.
Hafi ég rangt fyrir mér lofa ég því að éta hvert einasta orð ofan í mig á opinberum vettvangi. Þið getir allavega treyst því.
Hulda Björnsdóttir