30. júní 2021
29. júní 2021 (upphafið af þessu bloggi var í gær en framhaldið er núna)
Þá er ég búin að hreinsa nokkuð til á vinalista mínum á Facebook og um það bil 40 íslenskir Facebook vinir farnir út. ( Þetta var í gær og nú er kominn nýr dagur og enn fleiri farnir út.)
Suma hef ég blokkað og aðra einfaldlega unfriendað (fyrirgefið íslenskuna)Ég ætla að skilja nokkra íslenska vini eftir á listanum mínum, en þeir verða ekki margir og líklega einungis þeir sem ég hef verið í sambandi við nokkuð reglulega.
Ég ætla að eyða síðunni “Milli lífs og dauða”
Ég er semsagt að skilja við íslenska baráttu fyrir bættum kjörum fátækra og ætla ekki að skipta mér mikið af því sem gerist á landinu.Það verður fínt að komast í frí og hætta að ergja sig á því sem er að grassera á landinu sem ég hef yfirgefið fyrir löngu síðan.
Nýr kafli í lífinu hefst og ég veit ekkert hvert hann leiðir mig en framtíðin er björt og skemmtileg.
Ég verð áfram með almennu Facebook síðuna mína en hætti að setja inn á hana blogg.
Ég þakka þeim sem hafa sett like við “Milli lífs og dauða” og ég þakka fyrir athugasemdirnar og stundum skemmtilegar og fræðandi umræður sem hafa venjulega farið fram á messenger.
Ég óska öllum þeim sem ég eyði af Facebook vinalista alls hins besta í framtíðinni.
Þetta er mikill léttir og hefur verið þó nokkuð lengi að krauma í undirmeðvitundinni. Ég verð svo sorgmædd og reið þegar ég fylgist með því hvernig farið er með fátæka á Íslandi, og hvernig þeir örfáu sem hafa sölsað undir sig eigur landsins bæði á sjó og landi, halda áfram að sölsa undir sig verðmæti og nú síðast með sölu í Íslandsbanka.
Ég hef skrifað um þessi mál í nokkur ár og nú er ég bara komin að leiðarlokum á þeim vetvangi og ætla að fara eitthvað annað skemmtilegt og uppbyggjandi fyrir sálina.
Valdagræðgi sem veldur því að nýir flokkar rísa upp aftur og aftur í örsmáu þjóðfélagi gera það að verkum að sama sukkið heldur áfram óáreitt.
Það getur ekki þrifist spilling í landi þar sem þjóðin er vakandi og lætur ekki vaða yfir sig á skítugum skónum.
Næstu mánuðir verða fullir af loforðasöng hinna valdagráðugu og svo koma kosningar í haust og allt gleymt og grafið þegar kemur að stjórnarmyndun og starfi þingmanna. Fleiri komast á jötuna og fleiri setjast á þægilegu bekkina og leika sér með símana sína og tala við vini og vandamenn á meðan einn og einn stendur í fallegum ræðustól og tuðar eitthvað út í loftið.
Sem betur fer eru örfáir á Alþingi sem vilja breytingar en það er næsta víst að þeir verða ekki við stjórnvölinn næstu fjögur árin og EKKERT MUN BREYTAST ANNAÐ EN ÖRFÁU PRÓSENTIN VERÐA ENN RÍKARI.
Já, eitt af ríkustu löndum heimsins matar spillingu eins og krakka sem verið er að gefa graut, en sveltir hina fátæku og þurfandi og notar þá í besta falli þegar verið er að smala atkvæðum svo hægt sé að sitja áfram að kjötkötlunum.
Ég hef ekki kosningarétt á Íslandi og ætla ekki að fá hann aftur. Ég finn til með þeim sem ég hef verið að berjast fyrir undanfarin ár og vona svo sannarlega að eitthvað breytist en vonin er ekki harla fyrirferðarmikil.
Með kveðju
Hulda Björnsdóttir