Forysta eldri borgara! Allir í framboð !

26. maí 2021

Jæja,

Þá er búið að kjósa, sjálfkjörinn formann LEB því ekkert mótframboð var og nú er Helgi P. orðinn formaður LEB og verður þar næstu 4 árin.

Frú Þórunn er komin í framboð fyrir FRAMSÓKN og ætlar sér líklega stóra hluti þar eins og annars staðar þar sem hún hefur stigið niður fæti, t.d. hjá Sóknarkonum, Eflingu, FEB í Reykjavík og nágrenni og síðast formaður í LEB. Alls staðar hefur frúin komið sér í formannsstöðu nema þessa örfáu mánuði sem hún sat á Alþingi fyrir langa löngu, fyrir þingflokk Jafnaðarmanna. Nú er semsagt í tísku að eldri borgarar, frúin er 76 ára, fari í framboð og líklega eiga þeir að vera skrautfjaðrir í næstu kosningum. Eitthvað verður jú að gera til þess að halda eldri borgurum við efnið og fá þá til að trúa lygarullunni.

Það má auðvitað ekki hafa svona skoðun á manneskju sem er búin að helga starfsæfina formennsku í hinum ýmsu stéttarfélögum af hugsjón einni saman en þar sem ég er svoddan skítseiði ætla ég að leyfa mér að hafa mína skoðun.

Ég get ekki fyrirgefið frúnni þegar hún sagði að eldri borgarar ættu að nota ipadinn til að telja ofan í sig pillurnar og fleira sem apparatið gæti gert til þess að létta lífið hjá þeim sem eru svona venjulegt fólk á ákveðnum aldri!

Ég fylgdist með henni þegar hún var formaður FEB og hlustaði eins og ég gat og hafði heilsu til þegar hún malaði í útvarpi eða sjónvarpi um hitt og þetta sem mér fannst ekki koma mikið við bættum kjörum eldri borgara eða þannig.  Það er hægt að blablabla út í eitt án þess að nokkur árangur náist.

Svo er auðvitað dásamlegt að sitja í alls konar nefndum og éta vínabrauð og fínerí með kaffinu á meðan sumir á sama aldri svelta hálfu og heilu hungri!

Þingseta frúarinnar er semsagt þessi:

Varaþingmaður Reykvíkinga október–desember 1998 (þingflokkur jafnaðarmanna).

Svo er hér tilvitnun af Lifðu núna í tilefni þess að frúin fékk Fálkaorðuna forðum daga

“Barátta fyrir réttindum annarra skiptir máli

Forsetahjónin með þeim sem voru heiðraðir á Bessastöðum í gær

Þórunn H. Sveinbjörnsdóttir formaður Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, var í gær sæmd riddarakrossi Hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín í þágu verkalýðshreyfingar og velferðar. Forseti Íslands veitti orðurnar á Bessastöðum að vanda, en 14 manns fengu heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu. Þeirra á meðal eru Jóhann Sigurjónsson forstjóri Hafrannsóknastofnunar, Kristín Jóhannesdóttir leikstjóri, Ragnhildur Arnljótsdóttir, Steinunn Vasulka myndlistarmaður og sagnfræðingurinn og rithöfundurinn Guðjón Friðriksson.

Frumkvöðull í réttindabaráttu

Þórunn ólst upp í Reykjavík. Hún var lengi formaður Starfsmannafélagsins Sóknar og fyrsta konan sem tók sæti í stjórn Samtaka almennra lífeyrissjóða, forvera Landssambands lífeyrissjóða. Réttur til að vera heima hjá veikum börnum varð fyrst að veruleika í kjarasamningum Sóknar og félagið barðist einnig fyrir því að konur fengju húsmóðurreynslu metna sem starfsreynslu. Þórunn hefur verið ötull formaður Félags eldri borgara síðustu ár. Hún segir að eldra fólk eigi að njóta sömu kjara og aðrir og vill að 300 þúsund króna lágmarkslaun nái einnig til þeirra sem eru komnir á eftirlaun. Þá telur hún gera þurfi risaátak í heilsueflingu eldra fólks.

Málsstaður okkar skipti máli

Þórunn sagði í dag að hún tæki þessa orðuveitingu ekki persónulega, sér fyndist númer eitt, tvö og þrjú mikilvægt, að einhver úr verkalýðshreyfingunni fengi viðurkenningu fyrir baráttu sína fyrir launafólk. „Ég hef oft velt fyrir mér hvers vegna fólk beri ekki meiri virðingu fyrir verkalýðshreyfingunni þar sem menn leggja mikið á sig í baráttunni og standa sig upp til hópa vel. Mér finnst að málsstaður okkar hafi þarna skipt máli og sú grunnhugmynd að hugsa um aðra en ekki sjálfan sig. En vissulega skiptir það mig máli að mér skuli sýnd þessi virðing og mér finnst sérstaklega vænt um að vera heiðruð fyrir minn skerf til velferðarmála“, segir þórunn að lokum.” Tilvitnun lýkur

Allt er þetta hið besta mál og auðvitað eiga allir að vera voða glaðir með framboð frúarinnar og hugsanlega setu í ríkisstjórn með Sjalla mafíunni eftir næstu kosningar. Hvað er ég eiginlega að ybba mig?

Ég ætla svosem ekkert sérlega að tala meira um frúnna en aðeins að segja nokur orð um formann LEB.

Hann laumaðist hálfpartinn til Danmerkur fyrir nokkrum árum og keypti sér þar hús minnir mig og dásamaði hvað allt var auðveldara í Danaveldi en á Íslandi.

Svo birtist Helgi P. aftur á Íslandi og er nú orðinn formaður Landssambands eldri borgara næstu 4 árin.

Hann hefur verið sýnist mér af því sem ég hef lesið og hlustað á hann, mikill baráttumaður fyrir því að fólk, eldra fólk, geti haldið áfram að vinna helst fram í rauðann dauðann og er það auðvitað dásamlegt fyrir þá sem hafa tækifæri til þess en líklega eru ekki margar konur á sjötugs aldri sem vinnuveitendur standa í biðröð til þess að fá í vinnu, eða hvað?

Frúin og Helgi hafa bæði verið í fararbroddi fyrir þessum vinnuáróðri og nokkuð samstíga finnst mér.

Nú vill svo einkennilega til að margir sem eru orðnir eldri borgarar í kerfinu eru útslitið verkafólk, útslitnar Sóknar og Eflingar konur ásamt þó nokkuð mörgum öryrkjum, og þetta fólk er löngu komið á það stig að heilsa leyfir ekki áframhaldandi vinnu en þetta sama fólk þarf að hafa húsnæði og mat rétt eins og hinir stálhraustu.

Hvar er baráttan fyrir fólkið sem vill ekki eða getur ekki unnið fram í rauðann dauðann?

Hvar er alla þessa vinnu að hafa sem á að troða öllum í?

Ég spyr auðvitað eins og sú sem ekki veit og líklega stendur ekki á svörum frá tilvonandi þingfrú og nýjum formanni LEB.

Ég nenni ekki að halda þessu áfram. Það er víst að þessi 40 þúsund eldri borgara hópur sem fólk er oft að slá sér upp á, er ekki kominn til þess að hætta að kjósa Sjalla mafíuna og kvalara. Stærstur hluti 40 þúsundanna mun kjósa það sama og áður og ekki kæra sig um þó einhverjir séu með fögur fyrirheit til þess að laða eldri borgara að kötlunum.

Eftir kosningar verður svo sama sukkið áfram, VG Framsókn og Sjallar halda áfram að malla með auð þjóðarinnar til góða fyrir fáa og gefa skít í hina fátæku. Það er eitthvað mjög einkennilegt við þjóð sem vill endalaust láta troða á sér og svelta hina fátæku.

Ég býst ekki við NEINUM bótum fyrir eldri borgara, öryrkja og fátæka eftir næstu kosningar jafnvel þó einhverjir fálkaorðueigendur og baráttufólk séu í framboði í næstu kosningum. Flokkurinn ræður hvað sem tautar og raular og þannig verður það alltaf.

Það getur þó varla verið að hugsjónir víki stundum fyrir stólum og völdum þegar kemur að setu á Alþingi?

Það væri til þess að kóróna vitleysuna ef fálkaorðan endaði í ráðherrastól í næstu ríkisstjórn.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: