26. apríl 2021
Eru þingmenn almennt með 3 til 4 milljónir í tekjur á mánuði?
Áður en þið svarið því játandi væri vel þess virði að ómaka sig og skoða vef Alþingis og laun þingmanna. Þar er hægt að sjá ALLAR greiðslur, bæði föst laun og hlunnindi og meira að segja nokkur ár aftur í tímann.
Færlsla mín í gær fær viðtökur að flestir commentarar sem eru reyndar ekki margir, segja að launin séu 3 til 4 milljónir á mánuði.
Það er fínt að skella fram fullyrðingu og standa svo eins og krakki þegar beðið er um rökstuðning með sundurliðuðum tölum, og arga VÍST, VÍST, VÍST !
Ég skoðaði málið í gær.
Niðurstaðan er að fullyrðingin um 3-4 milljónir er röng.
Það getur verið að einhverjir séu með þessa upphæð, til dæmis get ég ekki fullyrt að laun ráðherra séu ekki slík.
Kannski vill einhver þingmaður leiða okkur í sannleikann. Hvernig væri til dæmis að FF segði okkur hver laun þeirra þingmanna og hlunnindi eru á mánuði og ágætt væri að með fylgdi fyrir og eftir skatta.
Ég geri mér grein fyrir því að laun þingmanna gætu verið lægri.
Ég geri mér líka grein fyrir því að mörgum finnst þingmenn ekki standa sig í stykkinu og ég get verið sammála um marga þeirra en þó eru nokkrir sem mér finnst vinna vel og sinna starfinu. Skussarnir eru þó fleiri og gleðilegt að sjá þegar sumum sem hafa staðið sig með eindæmum illa er hafnað í forvali en jafn sorglegt að sjá þá sem vel hafa staðið sig vera úti í kuldanum.
Ég er að tala um laun þingmanna núna og ætla að halda mig við það.
Þeir sem hlupu upp og sögðu já við spurningunni hafa sest í múgæsinguna og sitja þar án þess að skoða málið.
Þeir sem vita betur nenna líklega varla að blanda sér í umræðuna.
Kjósendur ganga að kjörborði í haust og geta haft áhrif ef þeir vilja. Til þess að geta tekið skynsamlega ákvörðun í klefanum er líka nauðsynlegt að kynna sér mál en ekki arga með æsingarupphrópunum.
Það er hárrétt að kjör öryrkja og eldri borgara eru til háborinnar skammar.
Leiðin er ekki að ljúga upp á þingmenn launum. Leiðin er að berjast fyrir því að kjör öryrkja og eldri borgara séu bætt!
Kannski ætti skríbentinn sem ég vitnaði í varðandi laun þingmanna, að setjast niður og segja okkur í fullri alvöru hvað tekjur öryrkja og eldri borgara ÞURFA að vera á mánuði svo hægt sé að lifa lífi sem sæmir manneskju en ekki að draga fram lífið í hungri og oft vosbúð þegar aldur færist yfir fólk eða það missir heilsuna.
Hvaða tillögur hefur skríbentinn á takteinum? Ég bíð spennt.
Ég einfaldlega orðin hundþreytt á upphrópunum VÍST ER ÞETTA SVONA án þess að komið sé með sundurliðun og rökstuðning.
Hulda Björnsdóttir