24. apríl 2021
Ég skrifaði í gær um hvernig gengið hefur étið launin mín upp og hvað þau hafa lækkað frá því árið 2019. Þetta kemur skýrt fram þegar ég geri skattskýrslu hér í Portúgal og reikna hvern mánuð yfir í evrur.
Vinur minn Ólafur Jónsson – Olafur Jonson – á Facebook hefur verið ötull við að benda á hvernig gengið er að gjaldfella tekjur okkar sem erum komin á eftirlaun og hvernig útgerðarmafían situr í fyrsta sæti hjá ríkisstjórninni og auðvaldið étur upp það sem við ættum að njóta á síðasta æviskeiði.
Ég skrifaði comment á færslu Ólafs í gær og fékk svar frá einni ágætri frú!
Mitt comment var svona:
“Árið 2020 lækka laun mín um 45.794 á mánuði að meðaltali vegna gengis krónunnar549.538 yfir allt áriðMánaðarlaun í ísl krónum um 360 þúsund“
Svarið frá frúnni var svona:
“ekki fæ eg 360 yrði himinsæl með þau laun”
sagði konan!
Eftir 35 prósent skatt væri hún jafn sæl?
Öfund er stundum einkennilegt fyrirbæri
360.000 mínus 126.000=234.000
Frú Ólöf Friðfinnsdóttir værir þú alsæl með 234.000?
ÖFUND !!!! “
Ég svaraði frúnni og spurði hana hvort hún væri alsæl eftir 35% skatt og hef ekki enn fengið svar.
Það er oftar en ekki þegar fólk les eitthvað að það tekur eftir því sem það telur mikilvægast á eigin skinni og sér ekki heildarmyndina.
Þegar verið er að tala um að laun eða annað hafi lækkað um þetta og þetta mikið er ólíklegt að það séu nettó tölur. Hvenær talar BB og co um nettó tölur þegar hann er að hæla sér og sínum stjórnarherrum af hinni ofboðslega miklu baráttu og velgengni í því að bæta kjör eldri borgara og öryrkja? BB talar um brúttó tölur. TR talar um brúttó tölur þegar þau birta hve mikið við sem fáum greitt frá TR höfum fengið per mánuð og eru þá notaðar heildartölur sem renna á milljónum á milljónir ofan. Það væri sannleikur ef skattar væru dregnir frá summunni en það lítur ekki eins vel út fyrir ráðamenn og TR.
Frúin sem öfundar mig af 360 þúsund krónunum skilur auðvitað ekki að þegar búið er að taka 126 þúsund af í skatt þá er ég með 234 þúsund í vasanum, og hún má ef hún vill, vera full af öfund vegna þeirrar upphæðar. Mér kemur ekkert við hvað frúin fær í sinn vasa en svona athugasemdir eru áhugaverðar.
Öfundarseggirnir eins og frúin ágæta, eru dragbítar á baráttu okkar sem erum að reyna að halda úti sannleikanum.
Öfundin hugsar ekki, hún er bara öfundsjúk og vill hafa það jafn gott og sá sem hún heldur að hafi það örlítið betra en hún.
Fólk eins og frúin sem öfundar mig af 234 þúsund mánaðalaunum eftir skatt er ein af þeim sem EKKI hjálpar til þegar leitað er eftir stuðningi við baráttu gegn óréttlæti þjófnaðar ríkisins af sparnaði okkar í lífeyrissjóði alla okkar starfsæfi.
Það er fullt af svona öfundsýki.
Það er fullt af fólki sem heldur að svona athugasemdir séu til þess að breyta einhverju.
Það er fullt af fólki sem nennir ekki að rísa upp úr sófanum og mæta á mótmæli á Austurvelli.
Það er fullt af fólki sem helgar líf sitt því að benda á hvað aðrir hafi það ofboðslega gott í sömu stöðu að það lið er!
Ólafur vinur minn kallar eftir hjálp. Hann kallar eftir því að við tökum höndum saman og mótmælum hinu gengdarlausa óréttlæti hvernig farið er með gengi íslensku krónunnar og henni handstýrt til þess að mafían geti grætt meira. Frúin sem setti öfundar commentið er ekki líkleg til þess að hjálpa Ólafi vini mínum og okkur hinum sem rembumst eins og rjúpan við staurinn í baráttu sem virðist vonlaus í gjörspilltu umhverfi.
Það koma kosningar í haust og þá fara öfundarseggir á kjörstað og kjósa líklega RÉTT, hvað svo sem það er.
Þangað til verðum við hin að halda í vonina og biðja líklega til æðri máttarvalda að brúttótölur BB og co verði ekki leiðarvísir í kjörkassanum.
Ég benti í gær á hvernig gengið hefur étið upp hækkun sem kom á greiðslur mínar í upphafi árs 2020. Smáaurarnir sem TR hækkaði og Lífeyrissjóður hækkaði um áramótin hafa gengið margfalt til baka vegna ástands hinnar hræðilegu íslensku krónu! Gjörsamlega óþolandi en látið viðgangast mánuð eftir mánuð og ár eftir ár. Spillingin er algjör. Gengi krónunnar er handstýrt og það er líklega meðal mestu rányrkju Íslands sögunnar.
Öfundin blómstrar og heldur spillingunni á floti. Húrra fyrir því !!!!
Ég æli !
Hulda Björnsdóttir