Ég er Portúgali og stolt af því !

23. apríl 2021

Nú er ég búin að skila inn skattskýrslunni hér í Portúgal og hef fengið að vita hvað ég á að borga í skatt fyrir árið 2020 hér í litla landinu mínu.

Endurskoðandinn fékk áfall þegar hún sá að tekjurnar höfðu lækkað um nokkur þúsund evrur frá því að síðasta skýrsla var gerð.

Fólk hér skilur ekki ruglið í íslenska kerfinu og hvernig gengið getur rokkað eins og brjálæðingur fram og til baka.

Íslenskur spekingur spurði mig hvað launin hefðu hækkað núna, þegar ég var að tala um hvað ég hefði lækkað mikið að meðaltali yfir árið í fyrra.Svona spekingar eru dásamlegir.

Ég er auðvitað svo heimsk að ég hefði haldið að til þess að ég hækki þyrfti ég fyrst að komast niður á núll í lækkunum !!!!!

Ég nenni ekki að tuða við svona menn sem vita allt og þeir geta bara verið í sínu horni fyrir mér.

Ég er þreytt á endalausri baráttu vegna einhvers óskapnaðar sem heitir íslenskt gengi á krónu sem er fyrir hina vellauðugu og stjórnað í takt við geðþótta þeirra.

Nú rís einhver spekingurinn upp og tekur mig í kennslustund en ég er hætt að hlusta að kennarana sem halda að gengi hafi ekkert að gera með verðlag á Íslandi og þetta séu bara nokkrir útlagar sem eru að rífa kjaft.

Guð hjálpi greyjunum.

Næst þegar ég verð spurð hvaðan ég sé er alveg öruggt að ég segist ekki vera frá Íslandi.

Ég hef ekki verið á landinu í fjölda ára og mun ALDREI stíga fæti þangað. Líklega hætti ég fljótlega að skrifa stafkrók á íslensku og sný mér að notkun annara mála sem ég kann og get hæglega notað.

Ég á nokkra góða íslenska vini og svo einkennilega vill til að flestir þeirra búa erlelndis en þó eru örfáir á Íslandi sem mér þykir afskaplega vænt um og hafa verið vinir mínir lengi.

Mesta gæfuspor í ævinni minni var þegar ég flutti frá Íslandi og sagði skilið við allt sem þar er en svo sit ég uppi með að vera undir hælnum á kerfi sem greiðir mér eftirlaun vegna þess að ég starfaði á landinu í 40 ár eða meira og borgaði í hítina sem svo átti að sjá um mig þegar ég hætti að vinna.

Hítin brást auðvitað og ég vissi það löngu áður en ég fór að ég mundi aldrei skrimmta af þeim tekjum sem mér væru skammtaðar eftir sparnað í lífeyrissjóð og greiðslu skatta.

Mér er nokk sama um alla þá sem móðgast þegar þeir lesa þetta. Alvöru vinir mínir munu ekki móðgast. Þeir vita hverjir þeir eru og skilja mig.

Ég er grautfúl yfir því hvernig farið er með réttindi mín eftir að ég varð gömul samkvæmt skilgreiningu kerfis sem hefur fyrirlitið fátækt, örorku og eldri borgara eins lengi og ég man eftir mér.

Ég fæddist á Íslandi en það er það eina sem gerir mig að Íslendingi og mér þykir ekki vænt um landið. Mér finnst það að sumu leyti fallegt en hef séð mörg mun fallegri lönd á ævinni og bý í einu sem er ómældur fjársjóður af fegurð.

Mér hefur verið tekið opnum örmum hér í litla landinu mínu en á Íslandi var ég ætíð “the outcast” allt frá fæðingu.

Systir min var svo elskuleg að segja mér þegar ég hringdi í hana til þess að kveðja, að allir hefðu hatað mig. Það kom svo sem ekki sérlega á óvart að sumu leyti og hafði ég fengið að finna fyrir óvildinni alla mína tíð en það særði vissulega að fá sannleikann beint í æð.

Ég er Portúgali og hér á ég heima. Landar mínir hér, allir sem einn, hafa reynst mér eins og stór fjölskylda.

Mér þykir óendanlega vænt um litla landið mitt og litla þorpið mitt. Hér er fegurð í hverju horni og menningin er einlægari en í mörgum öðrum löndum. Ég er þakklát fyrir að geta hjálpað til við að halda uppi þjóðfélagi sem tók mér opnum örmum og það geri ég með því að greiða skatta hér eins og vera ber.

Það er ekkert öðruvísi hér en annars staðar í heiminum að samfélag er rekið fyrir skattpeninga þegnanna. Sumir af hinum herlega stofni hæla sér af því að borga ekki til samfélagsins og halda að eyðsla þeirra sé himnasending til fátæks þjóðfélags. Þetta lið notar heilsugæslu, vegi, opinbera þjónustu og greiðir ekki krónu fyrir og kann ekki að skammast sín.

Íslenska ríkið lætur þetta lið komast upp með plottið og lokar augunum á meðan aðrir þurfa að borga skatta af sínum eftirlaunum. Þetta lið kann ekki að skammast sín og ég læt það alveg vera að finna til stolts yfir því að hafa fæðst á sama landi í upphafi. Alltaf bestir í öllu hvort sem það er gott eða slæmt!

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: