Vorið er komið í litla landinu mínu

24. mars 2021

Þetta verður líklega síðasti pósturinn í dag, nema að ég fái í puttana óstjórnlega löngun og bara verði að setjast aftur niður við tölvuna.

Í svona Covid ástandi þá verður maður að hafa eitthvað fyrir stafni og nú er ég búin að vera heima eða svoleiðis í margar vikur og hlíða (bíddu, er hlíða með ypsiloni hlýða; ég nenni ekki að gá en það er flottara með ypsiloninu finnst mér) öllu sem mér er sagt að gera.

Veðrið er fínt vetrarveður og vorið er komið. Það kom fyrir nokkrum dögum og hefur eiginlega ekki farið aftur.

Nú er útlit fyrir að vorið ætli að halda upp á tímabreytingu með því að skella á nokkrum dögum með flottum hita, það er að segja yfir 20 gráðum sem er auðvitað ekkert annað en hreinn unaður og fullnægir öllum helst þrám í Covidinu.

Sko, sjáið bara hvernig helgin verður !

Já, það verður hlýtt í byrjun sumartímans og bætir upp rugl á svefnvenjum ungfrúarinnar. Skil ekkert í því að ég skuli ekki venjast þessu með tímann. Þetta gerist 2svar á ári, hverju einasta ári og ég ströggla alltaf jafn mikið!

Nú er ég búin að klippa bévaðans tréð í garðinum sem ég stal fyrir 2 árum og er bara nokkuð lukkuleg með árangurinn. Auðvitað ætla ég að brenna í arninum afklippurnar til þess að halda á mér hita þegar vorið hvílir sig aftur eftir nokkra daga.

Veður eins og við eigum von á hér í litla landinu mínu næstu daga er bæði gott og vont. Kostir og gallar haldast í hendur og spássera fram og til baka eins og kærustupar sem er yfir sig ástfangið og getur af hvorugu séð.

Kostirnir eru auðvitað þeir að það verður hlýtt, líka á næturna, svo er sólin svo falleg þegar er hlýtt og blómin svo hamingjusöm og mannfólkið brosir meira á bak við grímurnar.

Gallarnir eru líka glæsilegir. Bombeiros vara við skógareldum og strandverðir vita ekki sitt rjúkandi ráð. Allar líkur eru á því að um næstu helgi flykkist fólk á strendur og setjist niður á bekki og handklæði hálf nakið til þess að sóla sig og þá er líklega ekki verið að pæla í því hvort einhverjir 2 metrar séu á milli. Líklega nær að það séu 2 centimetrar eða svoleiðis.

Svo kemur kvöld og liðið fer og fær sé neðan í því og skoppar uppi á borðum og um allt, rétt eins og beljur á vori sem hleypt er út eftir vetrarlanga innilokun í fjósum landsins.

Það er verið að hamast við að reka nálar í sem flesta til þess að reyna að koma í veg fyrir að fjandans Covid ríði húsum.

Nálaskapurinn gengur misjafnlega en blessað hjúkrunarfólkið gerir sitt besta. Ríkisstjórnin og forsetinn eru ábúðarmikil og segja fólki að vera heima og ekki að snapast út fyrir sóknina í marga marga marga daga.

Handþvottur hefur aukist verulega og úti á götum hittir maður fólk grímuklætt og sumir brosa og aðrir ekki.

Stundum finnst mér veröldin vera svona eins og “Palli var einn í heiminum” en núna eru líkur á að eftir páska geti ég aftur farið í ræktina undir ströngu eftirliti og safnað þar pínulítið meiri vöðvum. Maður veit jú aldrei hvenær þeirra verður þörf, allavega komu þeir sem nú eru til staðar sér vel þegar ég var að saga og klippa trjáskrattann.

Mikið vildi ég að mér tækist að drepa greyið. Það er svo fallegt blómstrandi tré í hinum helmningnum af garðinum og ég væri til í svoleiðis ef þetta drepst. Ég sagði nágranna mínum frá þessu í lágum rómi í gær og hann var eiginlega sammála mér. Kallinn niðri er hins vegar ekki sammála og þegar hann kemur heim næst og sér hvað útlendingsandskotinn er búinn að gera verður líklega að kalla til lögreglu !

Jæja, nú er ég komin út fyrir efnið og samt ekki!

Vorið er hérna í litla landinu mínu og allt að verða svo undurfallegt, annað hvort eru trén með blómum á nöktum greinum eða þau eru að flýta sér að troða út laufum sem eru iðagræn og yndisleg. Það fer hver að verða síðastur að sjá nakta trjáboli en þeir eru þó aðeins innan um.

Ég elska vorið þegar allt vaknar til lífsins eftir dvala vetrarins, svo kemur sumarið og drepur fallegu blómstrandi blómin og aðeins þau harðgerðustu lifa af en þegar fer að kólna með haustinu kemur önnur svona yndistíð þar sem líf færist í hálfdautt gras og tré.

Vínviðurinn er enn ljótar kræklur en það er ekki langt í grænt þar og ólívutrén alls staðar að koma til.

Vonandi verða ekki mörg dauðaslys í sumar og vonandi brenna ekki margir tugir hektar skóglendis í litla landinu mínu. Ég hef eiginlega meiri áyggjur af umferð og skógareldum en Covid!

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: