2. nóvember 2020
Stundum verð ég svo ofboðslega reið að ég sit á mér og sest ekki niður við tölvuna til þess að segja ekkert sem ég gæti séð eftir.
Nú er ég búin að bíða í 3 daga og held að mér sé óhætt.
Tilefnið er enn eina ferðina hælisleitendur.
Umræðan um hvernig fólki er vísað úr landi eftir margra ára búsetu á Íslandi er ekki það sem ég ætla að tala um. Ég blanda mér ekki í þá umræðu.
Það sem ég ætla að þrusa yfir eru íslenskis hælisleitendur sem flytja til útlanda og ætlast til þess að þeir geti með SÓMA sloppið við að greiða skatta til þjóðfélagsins sem þeir leita hælis hjá.
Þetta fólk hælir sér af því að geta notið óskertra eftirlauna og haft það harla gott á eftirlaunum frá Íslandi í fátækum löndum þar sem VENJULEGIR borgarar greiða skatta til þjóðfélagsins og gera sér grein fyrir að ekki er hægt að reka þjóðfélag fyrir EKKI NEITT.
Ég velti fyrir mér hvað þessir íslensku hælisleitendur eru að hugsa. Hvaðan halda þeir að peningar komi fyrir viðhaldi vega sem þeir keyra á? Hvaðan halda þessir hælisleitendur frá Íslandi að peningar komi fyrir læknisþjónustu sem þeir nýta sér í botn í landinu sem kannski hefur tekið á móti þeim?
Halda þessir íslensku hælisleitendur, sem eru líklega ekkert betri en Bjarni Ben og Sigmundur sem földu peninga í skattaskjólum, að fátæk þjóð eigi að halda þeim uppi?
Það er hlálegt að sjá suma af þessum íslensku hælisleitendum í útlöndum bægslast yfir því hvernig sukk og svínarí þrífst á Íslandi. Þessir íslensku hælisleitendur í útlöndum er sama sortin og mafían á Íslandi sem heldur niðri tekjum öryrkja og fátækra til þess að geta sópað að eigin köku fárra forríkra á Íslandi.
Ég fyrirlít þetta pakk sem sendir mér endalausar spurningar um hvort ég borgi skatta í landinu þar sem ég bý.
Auðvitað borga ég skatta þar sem ég bý.
Ég ætlast ekki til þess að fátæk þjóð sjái fyrir mér jafnvel þó ég hafi kosið að búa í landinu síðasta part ævinnar.
Ég er þakklát fyrir hvernig landar mínir í litla landinu mínu hafa tekið á móti mér og ég skammast mín fyrir að vera af sama þjóðerni og íslensku hælisleitendurnir sem hafa flutt hingað og stæra sig af því að HÉR BORGUM VIÐ SKO EKKI SKATTA!
Ég er öskureið fyrir hönd vina minna sem þræla daginn út og daginn inn til þess að sjá fyrir fjölskyldum sínum og horfa upp á hælisleitendur sukka eins og enginn sé morgundagurinn á kostnað minn og annara heiðarlegra. Við sem borgum skatta höldum uppi þessu hyski sem ekki sér sóma sinn í að greiða til þjóðfélagsins.
Við sem borgum skatta höldum uppi heilsugæslu sem þetta pakk nýtir sér án þess að blikna, og það er ekki fyrir að fara ómældu hreysti þessara hælisleitenda.
Við sem borgum skatta höldum uppi vegakerfi og opinberum framkvæmdum sem þetta pakk nýtir daginn út og daginn inn en týmir ekki að taka þátt í með því að borga skatta til þjóðfélagsins.
Svona pakk kann ekki að skammast sín.
Einn góðan veðurdag kemur auðvitað sukkið í bakið á liðinu og þá ætla ég ekki að gráta afdrif íslenskra ómerkilegra hælisleitenda.
Hulda Björnsdóttir