29. október 2020
Góðan daginn.
Ég ætla að setja niður nokkrar línur um Ísland þó ég vildi helst geta notið morgunsins án þess að hugsa um hvernig vinir mínir þar eru pikkfastir í gildru fátæktar og þjóðin hefur kosið yfir sig hvað eftir annað þrælahaldara íhaldsins og veitt BB völd sem eru engu lík.
Í gær ræddi ég við Portúgalskan vin og komst að því enn eina ferðina hvað margir halda að Ísland sé svo dásamlegt og skilja hreint ekkert í því af hverju ég ljómi ekki í framan þegar þeir segja mér frá undrinu.
Bankastjórar á Íslandi voru settir í fangelsi, ríkisstjórnin var sett í fangelsi, landið er með olíulindir og er forríkt, sagði þessi vinur minn mér.
Eitthvað annað á Íslandi en hér í Portúgal, sagði vinurinn við mig.
Hér í Portúgal er spilling og stjórnmálamönnum er alveg sama um fátæka fólkið, eitthvað annað en á Íslandi þar sem allt er svo dásamlegt og gott, sagði vinurinn minn.
Ég reyndi að malda í móinn og segja að það væri Noregur sem væri með olíuna.
Ég reyndi líka að segja að pólitíkusarnir á Íslandi sætu EKKI í fangelsi og hefðu ekkert setið þar!
Vinur minn, sá Portúgalski vissi betur en ég og eins og svo oft áður gafst ég upp og fór.
Það er auðvitað eðlilegt að fólk haldi að þetta sé dásemd ein á eyjunni forríku þegar forsætisráðherra kemur í alþjóðafjölmiðla aftur og aftur til þess að segja frá hvað ríkisstjórnin sé unaðslega góð og hvað allir hafi það gott á landinu.
Núna er þessi mánuður, október árið 2020 alveg að verða búinn. Eins og ævinlega á þessum tíma mánaðarins eru öryrkjar, eldri borgarar margir og fátæklingar að deyja úr hungri og bíða með eftirvæntingu eftir morgundeginum.
Ótrúlega margir, sem ekki eru öryrkjar eða fátækir eftirlaunamenn eða bara fátækir Íslendingar almennt, halda að öryrkjar séu þurfalingar sem lifi á ríkinu en ættu að hundskast út að vinna!
Þegar ég sé færslur sem lýsa því hvernig öryrki sé með yfir 400 þúsund krónur í tekjur á mánuði, garga ég inni í mér og græt á sama tíma. Hvaða fátækir öryrkjar eru með svona tekjur, spyr ég.
Fordómar gagnvart þeim sem hafa misst heilsuna af einhverjum ástæðum eru með ólíkindum.
Sumir öryrkjar hafa fæðst með öryrkjaólina herta að og eiga aldrei möguleika á að losna.
Öryrkjar vildu svo sannarlega komast úr gíslingunni og fara út á vinnumarkaðinn og hitta annað fólk og vera eins og hinir VENJULEGU.
Öryrkjar sem voga sér að reyna að vinna og taka eitt skref í einu í áttina að eðlilegu lífi eru teknir kverkataki skerðinga og ávöxtur erfiðisins er svo sáralítill og niðurlægingin svo ægileg að flestir gefast upp.
Svo situr fólk og þrusar á Facebook og segir að öryrkjar eigi að hætta á bótum og fara út að vinna. Vonandi verður það fólk aldrei fyrir því að slasast eða veikjast og þurfa að leita á náðir ríkisins til þess að fá örorkubætur! Staðreyndin er einfaldlega sú að allir geta orðið öryrkjar á augnabiliki. Þeir sem lenda í bílslysum geta verið sviftir venjulegu lífi á einu augnabliki og eiga aldrei möguleika á því að endurheimta lífið sem var fyrir slysið.
Öryrkjar eru þverskurður þjóðfélagsins. Þeir eru ekki einhverjir aumingjar sem nenna ekki að vinna. Þeir eru venjulegt fólk. Þeir eru fólk sem á börn sem þeir vilja sjá vaxa úr grasi og verða nýtir þegnar þjóðfélagsins. Þeir eru fólk sem verður 67 ára ef þeim endist heilsa til þess að ná þeim aldri og verða þá eldri borgarar. Ekki tekur betra við eftir 67 ára aldurinn. Sultarólin heldur áfram að herða kverkatakið og margir halda það ekki út og binda endi á þjáningarnar.
Öryrki eða fátækt foreldri sem getur ekki gefið barninu sínu að borða alla daga mánaðarins er manneskjan sem við ættum að hugsa til á þessum degi.
Setjum okkur í spor fátæklinganna, eða reynum það, og hættum að andskotast með fjármálaráðherra og forsætisráðherra í lyginni um hvað þetta fólk hafi það fínt.
Horfum á raunveruleikann. Börn sem alast upp í sárri fátækt eru á hraðferð inn í fátækt fullorðinsára. Þau eiga flest enga möguleika á því að rífa sig upp.
Öryrki sem aldrei sér út úr þokunni þar sem síðustu dagar mánaðarins eru eins og helvíti á jörðu kemst aldrei upp úr ástandinu, hann sekkur dýpra og dýpra niður í örvæntinguna og drukknar að lokum.
Eldri borgari sem aldrei á fyrir lyfjum, mat eða brýnustu nauðsynjum hefur í mörgum tilfellum ekki þrek eða hugrekki til þess að rísa upp og mótmæla meðferðinni. Þessi eldri borgari tilheyrir ekki 10 prósentunum sem éta upp allan gróða landsins og moka að eigin velsæld og gefa skít í hina.
Þessi eldri borgari er ég og þú sem eigum vini sem eru enn verr stödd en við og sem við viljum hjálpa en vitum ekki hvernig við eigum að koma stjórnvöldum í skilning um neyðina.
Látum ekki blekkjast af fagurgala og loforða flaumi sem nú rennur eins og fljót yfir landið.
Verum raunsæ, berjumst fyrir mannsæmandi lífi ALLRA.
Hulda Björnsdóttir