10. október 2020
Einkennilegt að lesa það sem ég skrifaði fyrir 4 árum. Hefur eitthvað breyst til batnaðar? Ef horft er framhjá Covid sé ég ekki betur en núverandi ríkisstjórn hafi endalausa fyrirlitningu á eldri borgurum sem ekki tilheyra elítunni, að ég tali nú ekki um fyrirlitningu stjórnvalda á öryrkjum.
Nýir stjórnmálaflokkar bæta ekki ástandið, þeir ættu frekar að sameinast þeim sem fyrir eru og verða öflugt afl sem getur, innan núverandi fyrirkomulags, beitt sér gegn þessari gengdarlausu fyrirlitningu á eldri borgurum, öryrkjum og ekki síst fátækum, á hinu vellauðuga landi Íslandi árið 2020.
“9 október 2016
Undanfarið hef ég verið að skrifa um svanga fólkið á Íslandi og hef þá einkum verið að tala um eldri borgara og hin ótrúlegu svik stjórnvalda og hvernig farið hefur verið með lífeyrissjóð þessa hóps og honum blandað saman við Almannatryggingakerfið og því haldið fram að hann (lífeyrissjóðurinn) væri viðbót við Almannatryggingakerfið..
Þeir sem til þekkja vita að tryggingakerfið var hugsað sem viðbót við sjóðina en ekki öfugt.
Um þetta er hægt að rífast endalaust en besta leiðin er að skoða söguna og þeir sem hafa áhuga og nennu ættu kannski að gera það sér til fróðleiks.
Það eru fleiri en eftirlaunaþegar á Íslandi sem eiga ekki fyrir mat alla daga. Launafólk á lægstu textum er ekki sælt af sínum launum. Þar er við forystuna að eiga og ætti hún að berjast fyrir þeirra málum.
Eftirlaunaþegar hafa ekki marga málssvara og er ég ekkert of góð til þess að leggja mitt af mörkum til þess að tala þeirra máli.
Allir verða gamlir sem lifa. Þeir sem deyja fá ekki eftirlaun. Þetta vita auðvitað allir en hugsa samt ekki út í það. Yngra fólk á Íslandi er upptekið við að lifa lífinu núna og finnst kannski ekkert skipta máli einhverjir áratugir í framtíðinni. Það skiptir reyndar máli og því fleiri sem huga að starfslokum sínum með einhvers konar sparnaði ættu að vera betur settir en þeir sem ekki gera það.
Í morgun las ég þráð á Facebook síðu vinar míns. Hann er oft ekkert að skafa utan af hlutunum og segir það sem hann meinar og það sem margir aðrir eru að hugsa.
Skrif hans vöktu mig til umhugsunar eins og svo oft áður og ekki síður hin ótrúlega harkalegu viðbrögð sem hann fékk. Ég skil stundum ekki, og reyndar mjög oft, hvað fólk getur látið út úr sér í skrifum sínum og brigslað fólki um alls konar hluti. Það er með ólíkindum hvað það eru margir heilagir á landinu!
Ég tilheyri vonda fólkinu og er bara nokkuð ánægð með það.
Skattsvik eru stórt vandamál á Íslandi.
Það má auðvitað ekki tala um þetta. Ef svona hlutir eru nefndir verður allt vitlaust.
Ég þekki líka marga og eru það mjög margir sem fara eftir lögum og reglum og sumir þeirra lepja dauðann úr skel og eiga ekki fyrir mat. Það er fólkið sem ég held uppi vörnum fyrir og ætla mér að gera fram í rauðann dauðann.
Tryggingastofnun hundeltir mig allan ársins hring til þess að sjá um að hver einasta króna sem ég fæ út úr kerfinu sé rétt. Ég bý erlendis. Auðvitað er það gott og blessað og sjálfsagt að gefa þeim allar upplýsingar sem þeir biðja um og sannfæra þá um að ég sé á jörðunni en ekki farin til himna og sé að krefjast bóta þaðan. Ég hugsa að ég þurfi ekki á bótum að halda þegar ég fer yfir um, en það er annað mál.
Ég er mjög sátt við það að þeir eftirlaunaþegar sem ekki hafa, einhverra hluta vegna, getað sparað í lífeyrissjóð fái samfélagslega hjálp frá Almannatryggingakerfinu. Það er ekki nema sjálfsagt að efri árin séu eins falleg og mögulegt er.
Ég er hins vegar ekki sátt við að það sem ég hef sparað verði að engu.
Ég vil fá minn lífeyrissjóð óskertan. Það er ekki verið að gefa mér eitt eða neitt, ég er að taka út það sem ég hef lagt fyrir í marga áratugi og ég borga fullan skatt af sparnaðinum mínum.
Þar sem ég bý erlendis hef ég ekki sömu réttindi og þeir sem búa á Íslandi. Ég er ekki að kvarta mikið yfir því þó mér finnist það ósanngjarnt.
Ef skattleysismörk hefðu hækkað eins gert var ráð fyrir í upphafi væri staðan önnur hjá venjulegu fólki.
Kannski væri hækkun þeirra farsælli lausn en að sletta nokkrum krónum í alla og þessar krónur svo borgaðar með skertum Lífeyri frá lífeyrissjoðunum sem ég og fleiri hafa verið að safna alla starfs æfina.
Það væri hægt að spjalla um þátt verkalíðsforystunnar í þessum málum en ég læt það öðrum eftir og bendi ykkur sem hafið áhuga að lesa skrif Wilhelms Wessmans og Guðmundar Guðmundssonar.
Ég geri ráð fyrir því að verða nú skömmuð en bak mitt er breitt og ég get tekið ýmsu. Held þó að það gæti verið ágætt fyrir þá sem ætla að leggja eitthvað til málanna hér að hugsa tvisvar áður en haldið er af stað.
Ég þekki vel til kjara raunverulegra öryrkja, Ég ólst upp hjá einum. Ég þekki líka vel til þess að vera eftirlaunaþegi bæði á eigin skinni og annarra. Ég veit hvað það er að eiga ekki mat og fara svangur í rúmið. Margir af minni kynslóð ólust upp við erfiðar fátæktar aðstæður þar sem vatn fraus í krönum yfir nóttina og brunagaddur var inni. Sem betur fer voru það ekki allir, margir höfðu það gott.
Árið 2016 á Íslandi, sem er með ríkustu þjóðum heims, ætti enginn að líða skort og þurfa að fara svangur í rúmið eða eiga ekki höfði sínu að halla á nóttunni í hlýju húsi og góðu rúmi.
Kosningaloforð eru ódýr. Þau er auðvelt að svíkja. Nú renna loforðin út í stríðum straumum.
Kæra fólk sem þetta lesið ! Í guðs bænum hugsið ykkar ráð vel áður en þið kjósið aftur sama sukkið og verið hefur.
Litlu framboðin lofa ekki síður en geta þau staðið við fögru fyrirheitin? Hvar ætla þau að taka peningana? Skilja þau kerfið? Af hverju sameinast þau ekki svo öruggt sé að þau komist til valda?
Ég sé ekki betur en 8 ára uppbyggingartíma sé að ljúka og framundan séu mögru árin. Þannig hefur þetta gengið á Íslandi aftur og aftur í gegnum tíðina.”
Ég viðurkenni að eftir lestur þess sem ég skrifaði fyrir 4 árum er ég vonlítil og sorgmædd.
Hulda Björnsdóttir