28.september 2020
Þá er þessi mánuður ALVEG að verða búinn, bara eftir 2 dagar og október rennur í hlað.
Gengið á evrunni virðist enn sem komið er vera það sama og á föstudaginn en ómögulegt að vita hvað gerist seinna í dag.
Það sem mér liggur á hjarta í dag er þetta:
Ég var kölluð hælisleitandi á Facebook og ástæðan var að ég sem eftirlauna manneskja kýs að búa EKKI á Íslandi þar sem ég mundi lepja dauðann úr skel og líklega vera komin til himna fyrir þó nokkrum árum, væri ég á Íslandi.
Það er mikil umræða núna eins og svo oft áður um hælisleitendur og ætla ég ekkert endilega að blanda mér í þá umræðu. Því er haldið fram að þeir sem koma sem slíkir til Íslands fái gull og græna skóga upp í hendurnar án þess að þurfa að hafa nokkuð fyrir lífinu.
Ég þekki aðeins hvernig þetta er hér í Portúgal þar sem fimm fjölskyldur hælisleitenda bjuggu í næsta nágrenni við mig og ég fylgdist með hvernig þeim vegnaði. Í byrjun fengu þær allt upp í hendurnar, húsnæði, túlk, málakennslu, mat, föt og allt sem til þarf. Fljótlega var karlmönnunum komið í vinnu og voru þeir misánægðir með vinnuna. Til að gera langa sögu stutta þá fóru flestar fjölskyldurnar eitthvað annað. Hvort þær fóru úr landinu eða hvað veit ég ekki. Ein fjölskylda er allavega eftir en ég hef ekki séð neinn karlanna líklega í heilt ár eða meira.
Þá ætla ég aftur að koma að mér og reiði minni yfir því að vera kölluð hælisleitandi.
Ég flutti til Portúgal fyrir tæpum 10 árum og kom hingað frá Kína.
Ég keypti hér íbúð, húsgögn, bíl og kom mér fyrir hér, rétt eins og ég hefði gert á Íslandi ef ég hefði verið að flytja þangað aftur frá Kína. Ég hef borgað alla skatta og skyldur hér í landinu, lagt fram fé í eitt og annað sem mér hefur fundist vera þess vert að styrkja. Ég hef aldrei fengið eina krónu frá hinu opinbera hér í landinu. Væri ég hælisleitandi hefði ég væntanlega verið á framfæri hins opinbera og mundi til dæmis ekki vera að kikna undan skattbyrði nú þegar krónan er á leið til helvítis.
Ég get hins vegar fallist á að þá sem ekki greiða skatta hérna og nota óprúttna lögfræðinga til þess að svindla á kerfinu mætti kalla hælisleitendur mér að vandalausu.
Sá hinn sami og hélt því fram að ég væri hælisleitandi í útlöndum gat þess að margir Íslendingar byggju á Spáni sem hælisleitendur.
Ég ætla aðeins að hafa skoðun á þeirri fullyrðingu.
Ég veit ekki hvað það eru margir sem búa á Spáni og eru með heimilisfesti á Íslandi þó svo þeir búi erlendis megnið af árinu. Ég veit hins vegar að sé ekki skipt um heimilisfesti falla ekki niður ýmsar greiðslur frá Tryggingastofnun Ríksins og þar í felst svindlið að mínu mati.
Það eru alls ekki allir sem búa á Spáni, öryrkjar og eldri borgarar, sem ekki fara eftir lögum og reglum. Líklega eru langflestir sem virða tvísköttunarsamninga landanna og hafa flutt lögheimili sitt til búsetulandsins og lúta þar af leiðandi sömu skerðinga og við hin sem förum eftir lögunum.
Eru svindlararnir hælisleitendur?
Ég get ekki svarað því en við sem förum eftir lögum og reglum erum ÚTLAGAR í mínum huga. Eins og ég hef oft sagt hér þá eru margir sem hafa neyðst til að flytja frá Íslandi vegna þess hvernig búið er að þeim sem ekki tilheyra efri lögum þjóðfélagsin. Þetta fólk hefur neyðst til þess að gerast ÚTLAGAR en þetta fólk er hreint ekki HÆLISNEITENDUR ef það tekur þátt í kostnaði við að reka þjóðfélagið sem það býr í erlendis.
Mér er nokkuð runnin reiðin en eftir situr sorgin yfir því hvernig erfiðir tímar sem nú eru að renna upp á Íslandi verða ekki til þess að þeir ríku verði fátækari og þeir fátækari ríkari.
Nei, nú eru að renna upp tímar þar sem hinum fátæku verður látið blæða á meðan hinir ríku græða á tá og fingri.
2008 er að renna upp aftur.
Skerðingar sem þá voru settar á hjá hinum allra lægst launuðu hafa ALDREI verið leiðréttar.
Nú verður, árið 2020 ár gjaldþrota heimila og örvæntingar hins sauðsvarta almúga sem ríkisstjórnir allra tíma vilja ekki vita af nema rétt fyrir kosningar svo hægt sé að stinga túttu loforða upp í sveltandi fólkið.
Íslensk alþýða, fátækt fólk er að verða verr sett en hælisleitendur sem koma frá fjarlægum löndum.
Er ekki eitthvað verulega mikið að í þessu þjóðfélagi, eða er þetta bara allt í fínasta lagi?
Er ekki hægt á einu ríkasta landi veraldar að búa jafn vel að hælisleitendum og fátækum Íslendingum?
Er ekki hægt að búa þannig að eldri borgurum og öryrkjum á Íslandi að þeir geti lifað þar og þurfi ekki að flýja land?
Er endilega nauðsynlegt að þeir sem eiga 80 prósent alls á landinu maki krókinn á meðan sárafátæk börn svelta heilu hungri og foreldrar þeirra og afar og ömmur sjái ekki fram á hvernig hægt verður að finna mat eða húsaskjól í framtíðinni?
Er ekki kominn tími til þess að taka til í ranni þeirra sem stjórna landinu og hrista þá til skilnings á veruleika sem ríkir utan kassanna sem þeir hafa komið sér fyrir í til þess að þurfa ekki að horfa hvernig raunveruleikinn er í laginu?
Nýjar málpípur auðvaldsins stíga nú fram hver á fætur annari og gera lítið úr mér og þér sem lest þetta. Þessar nýju málpípur eru með góðan talanda og hafa lært vel hvernig halda skal ræðu og rökræða en skilningur þeirra á lífinu fyrir utan kassana er ekki að sama skapi fínpússaður.
Mun almenningur, sveltandi almenningur rísa upp? Er þrælsóttinn svo rótgróinn að ekkert verði að gert? Er sagan að endurtaka sig enn eina ferðina og labba í rólegheitum til tímans þar sem heldri menn riðu um héruð og fengu það sem þeir girntust, hvað svo sem það var?
Halló, það er árið 2020 núna og árið 2021 er hinumegin við hornið. Nú er tími til þess að taka í taumana á hrossunum og senda þau og herra þeirra til síns heima með skottið á milli lappanna. Það gerist ekki nema að alþýðan standi saman og geri uppreins gegn þrælahöldurunum.
Hulda Björnsdóttir