25.september 2020
Í dag talaði ég við nokkra um Covid veiruna og var að forvitnast um viðhorf fólks.
Það eru ótrúlega skiptar skoðanir um hættuna sem felst í því að færa lífið í normal horf aftur. Viðskiptasjónarmið voru efst á baugi.
Fjölmiðlar gera allt of mikið úr ástandinu, sagði einn.
Flensa kemur á hverju ári og við lifum það af, sagði annar.
Ég túi ekki því sem sagt er um hættuna, sagði einn.
Fjölmiðlar segja bara það sem stjórnvöld vilja að þeir segi, sagði einn.
Við verðum að passa okkur sjálf, var eitt viðhorfið.
Maskar eru nauðsynlegir, sögðu margir.
Það má ekki loka löndum aftur, það drepur fjárhag allra, var annað svar.
Sjáðu hvernig Svíþjóð hefur komist í gegnum þetta, sagði einn, allt í fínu lagi hjá þeim.
Ég reyndi að malda í móinn og útskýra að ég til dæmis væri á áhættuhópi sem teldist „high risk“ og þess vegna gengi ég með maskann ALLTAF innan um annað fólk, þess vegna heimsækti ég ekki vini mína, en talaði við þá í síma eða gegnum netið.
Það horfðu sumir á mig stórum augum, aðrir skildu viðhorf mitt og enn aðrir tóku undir og sögðust haga sér nákvæmlega eins. Nota maska, halda sig heima eins mikið og hægt er og hafa samband símleiðis eða á netinu.
Ég er enginn sérfræðingur í veirumálum. Ég hef hins vegar fréttir frá mörgum í Kína og frá öðrum löndum bæði í Evrópu og Asíu. Ég á vini í Ástralíu, Canada og Nýja Sjálandi, allir þessir vinir hafa haft samband og við rætt um ástandið og þau sagt mér hvernig þeirra reynsla er.
Flestir hafa annað hvort misst ættingja eða eiga ættingja eða vini sem hafa fengið veiruna og læknast en glíma við eftirköst og hafa ekki náð upp sama þrótti eða heilsu og fyrir veikindinn, jafnvel mörgum mánuðum síðar.
Ég ætla ekkert að dæma um hvað lönd eru að gera og hvort allt sé rétt sem sagt er um fjölda smitaðra eða dauðra.
Ég ætla hins vegar að leyfa mér að hafa þá skoðun að mér ber að taka ábyrgð á því að ég smitist ekki eða smiti aðra og það held ég að gerist ekki nema að ég fylgi ýtrustu leiðbeininum yfirvalda.
Hér í landi er skylda að vera með maska. Fari maður inn í súpermarkað eða verlsun eða einhverja stofnun SKAL vera með maska. Í búðum og á öðrum stöðum eru merki á gólfum þar sem þú átt að vera í röð. Ákveðinn fjöldi má koma inn í minni fyrirtæki og bíða verður fyrir utan þar til röðin kemur að viðkomandi, til dæmis í apótekum og ýmsum verslunum inni í súpermörkuðum og mollum.
Ákveðin fjarlægð þarf að vera á milli tækja í íþróttasölum og búningsklefar eru með merkjum um hvaða skápa megi ekki nota. Alls staðar eru sprittbrúsar (eða eitthvað hreinsiefni). Ég ber með mér mínar blautservíettur og nota þær því ég vil ekki snerta það sem aðrir hafa snert.
Meira ruglið, gæti einhver sagt.
Þetta er nýr sjúkdómur, alls óþekktur og allt lagt í sölurnar til þess að finna bóluefni sem allra fyrst. Þeir bjartsýnustu tala um mitt næsta ár, og þar er ég að tala um áreiðanlega vísindamenn en ekki Trump fylgjendur.
Veiran hefur tekið stökkbreytingu og nú er að kólna, skólar að byrja, fólk að færa sig inn í hús þegar fer að kólna vítt og breytt í heiminum og bestu skilyrði fyrir ófétið skapast og hún getur dreift sér eins og enginn sé morgundagurinn.
ÞAÐ ER UNDIR OKKUR SJÁLFUM KOMIÐ AÐ HALDA FYRIRTÆKJUM OPNUM OG ATVINNU GANGANDI.
Ef við förum með gát og fylgjum ýtrustu kröfum um varúð þá erum við öll að leggja okkar af mörkum til að hemja skrímslið.
Er það til of mikils mælst?
Hulda Björnsdóttir