24.september 2020
Þá er þessi erfiði mánuður að verða búinn og ég vona að næsti verði skárri.
Það eru margir sem nú lepja dauðann úr skel jafnvel þó þeir hafi gerst flóttamenn frá Íslandi og flutt til landa þar sem hægt VAR að draga fram lífið án sultar ALLA DAGA mánaðarins jafnvel þó fólk væri öryrkjar og eldri borgarar á lágum mánaðarlegum greiðslum.
Gengið hefur sett allt í ótrúlegt far, far sem er dýpra og dýpra með hverjum deginum og hverjum mánuðinum sem líður.
Núna þegar þetta er skrifað þá er evran á 161,93 og er það gengi frá því í gær sem hefur ekki verið uppfært enn, enda klukkan á Íslandi ekki orðin 9.
Það er stór munur á 161 krónu og 165 krónum en samt er þetta erfitt fyrir útlagana og það sem er kannski allra erfiðast er óstöðugleikinn.
Íslendingar sem búa á Íslandi finna ekki síður fyrir þunga gengisins. Allt hækkar í verði og laun standa í stað. Ég gæti skrifað langa grein um þetta en ætla að gera annað í dag.
Núna er kominn kosningaskjálfti í suma, líklega nokkuð marga og pólitíkin, þessi viðbjóslega tík, farin að búa sig undir loforðaflauminn.
Öryrkjar og fátæka fólkið getur ekki beðið, sagði Katrín Jakobsdóttir áður en hún komst í ráðherrastól.
Bjarni Ben, ráðherra ýmissa ráðuneyta fyrr og nú sendi bréf árið 2013 til allra eldri borgara og lofaði gulli og grænum skógum. Fólk trúði honum og kaus hann. Nú er árið 2020 og honum finnst þetta fólk bara hafa það fínt og ekkert vit í því að hækka „BÆTUR“ .
Nýir liðsmenn flokka stíga nú fram og einn af þeim sem ég sá fréttir um að ætlaði í framboð fyrir Flokk fólksins er Tommi í Tommaborgurum.
Ég þekki Tomma ekkert, ég þekki nafnið og þar með búið.
Ég gerðist svo djörf að skrifa comment þar sem ég spurði hvernig hann hefði beytt sér fyrir bættum kjörum eldri borgara af því að einhvers staðar sá ég að hrifning var yfir því að fá málssvara eldri borgara á Alþingi.
Ég held að það sé ekkert óeðlilegt við að setja svona spurningu fram.
Svar var að þeir sem gerðu góðverkin væru ekki að auglýsa þau!
Ég veit ekkert um góðverk Tomma, ég veit ekkert um manninn, ég veit hreint ekkert hvort hann er góður ræðumaður og ég veit ekkert hvort hann hefur barist með kjafti og klóm fyrir því að loforð Katrínar og Bjarna væru efnd. Ég veit heldur ekkert hvort hann hefur verið í einhverjum stjórnmálaflokki einhverntíman.
Ég hugsa þó til þess að í Flokki fólksins voru 2 sem sviku fólkið sem kaus flokkinn og fóru í Miðflokkinn. Ég hugsa líka til framámanns í Flokki fólksins sem var ekta sjálfstæðismaður og var kannski ekki alltaf á sömu línu og til dæmis Guðmundur Ingi. Ég veit reyndar ekkert hvað hefur orðið um Holts höfðingjann, hvort hann er enn í FF eða ekki.
Óskastaða væri auðvitað að öll lítil framboð sameinuðust í eitt stórt svo þau gætu haft veruleg áhrif á stjórn mála á Íslandi og þar gæti þrifist mannúð í stað græðgi. 10 prósentin sem eiga svo til allt þurfa að fá sterkt mótafl og það gerist ekki nema með einhverri fjöldasameiningu.
Mér kemur ekkert við hvað fólk á Íslandi kýs, eða er það?
Af hverju er ég að skipta mér af eftir áralanga útivist og vissu um að hverfa aldrei aftur til landsins sem ég fæddist á?
Jú, ég er í þeirri vonlausu stöðu að hafa greitt skatta og skyldur alla mína starfsævi til þessa lands og þar af leiðandi fæ ég eftirlaun frá Íslandi og þess vegna skiptir mig máli hvernig genginu er stýrt af græðgisöflum mafíunnar á landinu.
Ef ég væri ekki í þessari hrikalegu stöðu mundi ég ALDREI nokkurn tíman lesa íslenska frétt eða fylgjast með því sem hauglygnir pólitíkusar í ráðherrastólum eru að blaðra.
Nú rís auðvitað einhver upp og mótmælir þessari frekju í mér og ósvífni og það er allt í góðu lagi.
Fólk sem býr á Íslandi og er fast í fátæktargildru og kemst aldrei upp úr henni hefur hvorki kraft eða þor til þess að rísa upp. Hvað er hægt að gera til þess að hjálpa þessu fólki svo það þurfi ekki að svelta endalaust og að ég tali nú ekki um að það þurfi ekki að gerast flóttamenn til þess að deyja hreinlega ekki úr hungri, vosbúð og örvæntingu?
Ég hef sagt það milljón sinnum að þeir sem þora að tala verði að láta að heyra í sér.
Ég hef líka sagt það milljón sinnum að við erum sterk sameinuð en veik sundruð.
Hvernig á að sameina þennan sundurleita hóp veit ég ekki en einhver veit það og sá hinn sami ætti að segja okkur hvernig. Ég bíð eftir lausninni og ég bíð óþreyjufull eftir mánaðmótum og vona að gengið hafið ekki enn eina ferðina verið fært upp í hæstu hæðir, en það er líklega borin von.
Hulda Björnsdóttir