30. ágúst 2020
Á morgun er síðasti dagur ágúst mánaðar og september heilsar með 30 dögum.
Munurinn er einn dagur og virðist ekki mikill fyrir flesta.
Margir eru þó sem telja hvern einasta dag og gleðjast yfir þeim sem líður.
Það er fólkið sem hefur ekki til hnífs og skeiðar alla daga mánaðarins.
Það er fátæka fólkið í ríka landinu Íslandi.
Það er fátæka fólkið á lágu laununum sem ríkisstjórnin vill nú að fresti kauphækkunum sem það átti að fá.
Ríkisstjórnin sem nú talar um að fresta skuli kauphækkunum fékk ríflega hækkun fyrir nokkrum mánuðum, og var hún ekki afturvirk eins og venjulega, eða hvað?
Á Íslandi eru 2 stéttir, það eru hinir ofurríku og það eru hinir fátæku og sárafátæku.
Hinir ofurríku maka krókinn. Þeir stjórna genginu. Þeir stjórna landinu. Þeir verða gjaldþrota og hinir fátæku borga brúsann.
Hinir ofurríku eru líklega sælir með sitt, eða er það?
Ef þeir væru sælir með sitt mundu þeir þá alltaf heimta meira og meira og troða meiru og meiru undir sig?
Ég held að ríkisbubbarnir á Íslandi séu líklega frekar óhamingjusamir og leiðir á lífinu. Ég held að þeir séu eins og kallinn sem taldi gullpeningana alla daga og var skíthræddur um að eitthvað vantaði upp á auðinn.
Það er svo gott að búa í kassa sem aldrei þarf að líta út fyrir, nema þegar einhverjir hundleiðinlegir fréttamenn taka til að spyrja spurninga um málefni sem þeim koma akkúrat ekkert við.
Hvað kemur til dæmis einhverjum fréttahauk við hvort Samherji hafi greitt mútur í útlöndum, hvað þá á Íslandi? Auðvitað eiga fréttahaukar ekkert að vera að skipta sér af einkamálum fólks sem hefur fengið fiskimiðin að gjöf frá þjóðinni og svo erfa krakkarnir allt saman. Meiri frekjan að vera alltaf að tala um þetta.
Auðvitað eru engin skattaundanskot hjá auðnum þó eitthvað smávegis sé geymt í útlöndum. Það þarf jú að hafa skiptimynt þegar farið er til Ameríku í sumarfrí og svoleiðis.
Hvað er fólk eiginlega að skipta sér af því þó að nokkur hundruð milljóna séu afskrifaðar hjá einhverjum sem blómstrar í pólitík á Íslandi og vill allt gera fyrir aumingja fátæka fólkið, sem er kannski ekkert sérlega fátækt, eða hvað?
Nei, látiði auðugu kassabúana vera.
Kassabúarnir eru besta landkynning fyrir ríka landið þar sem allt er svo gott og allir hafa það betra en nokkurs staðar annars staðar í heiminum. Það er svo sætt þegar ráðherrar dansa fyrir alheim að ég tali nú ekki um þegar þeir ganga niður tröppur á alþjóðlegum fundum studdir af ráðherrum annara landa sem hafa ekki drukkið alveg jafn mikið eða þola kannski veigarnar betur.
Það er nú ekki dónaleg landkynning að sjá breitt bros á eldrauðum vörum koma og fara eins og þeytispjald þegar verið er að tala við erlendar sjónvarpstöðvar og segja frá því hvað Ísland sé veirulaust og þangað geti fólk frá öðrum löndum, veirulöndum, komið og orgað úr sér veiruna úti í guðsgrænni náttúrunni á Íslandi.
En á morgun er dagurinn þar sem fátæka fólkið, sumt, fær svolítið af peningum inn á reikningana sína og getur hugsanlega séð fram á að hafa mat á morgun og meira að segja kannski líka næstu daga.
Á þriðjudaginn er svo 1.september.
Fyrsti dagur mánaðar sem er bara 30 dagar og þá verður að minnsta kosti einum degi færri hungurdagar.
Auðvitað á ekkert að minnast á fólk sem fremur sjálfsmorð út úr hreinni örvæntingu í ríka landinu þar sem allt er svo gott fyrir hina ofurríku.
Nei þeir sem taka líf sitt eru auðvitað bara helsjúkir, eða er það?
Ef þeir eru helsjúkir, af hverju?
Getur verið að endalaust basl og fátækt geri fólk svo uppgefið á lífinu að allur tilgangur hverfi og eina skjólið sé dauðinn?
Æi, hvað ertu að tala um þetta manneskja, segir einhver.
Nei, það má ekki tala um það sem er óþægilegt þegar dansinn dunar við katlana hjá elítunni og mafíósarnir strá mútum hingað og þangað um heiminn. Það á að þegja og sætta sig við lífið og sjá hvað allt er dásamlegt.
Á morgun verður dásemdar dagur og hægt að borða en svo tekur sama örvænting yfir aftur og að nokkrum dögum liðnum verður kannski búið að greiða flesta reikningana en þeir sem eftir eru velta sér yfir á næsta og næstu mánuði. Hverjum er svosem ekki sama!
Það var þó allavega matur einn dag.
Hulda Björnsdóttir