19. ágúst 2020
Ég ætlaði ekkert að skrifa hér eða vera að rífa mig en ég bara get ekki setið á mér núna. Ég er ösku- organdi reið.
Iceland air er bjargað og hvað gerist? Jú, Seðlabankinn lækkar gengið enn meira og hélt ég þó að nóg væri komið.
Upp rísa nú spekingar sem segja að við, sem reynum að halda því fram að gengið hafi áhrif á allt verðlag á Íslandi, séum fífl.
Ég væri ákaflega þakklát ef þessir spekingar vildu sýna mér svart á hvítu hvernig verðlag var fyrir ári og hvernig það er núna á hinu göfuga Íslandi þar sem allt er svo gott. Hefur virkilega ekkert hækkað?
Það er urgast yfir því að við sem höfum flúið land af ýmsum ástæðum, ekki síst vegna þess að þeir sem eru öryrkjar og venjulegir eldri borgarar geta ekki lifað af tekjum sem þeim eru skammtaðar, séum ekki himinlifandi þegar innkoma okkar er skorinn með sverði. Það er urgast yfir því að við skulum voga okkur að kvarta yfir genginu.
Vita þessir spekingar hvað það eru margir sem hafa flúið landið?
Vita þessir spekingar hvað það eru margir sem búa á Íslandi?
Vita þessir spekingar yfirleitt nokkurn skapaðan hlut um hvað það er að vera fátækur í einu ríkasta landi heimsins og horfa upp á börnin svelta og gamla fólkið deyja úr vannæringu og einstæðu móðurina missa kjarkinn þegar hún sér ekki fram á að geta séð fyrir fjölskyldunni enn einn veturinn?
Það er ágætt að vera spekingur og það er ágætt að ráðast á okkur sem erum að tuða. Ég vona svo sannarlega að spekingarnir þurfi ALDREI að lepja dauðann úr skel.
Ég vona svo sannarlega að spekingarnir hafi ALLTAF greitt skatta og skyldur til þjóðfélagsins og ég vona að þeir komi til með að njóta ávaxtar erfiðis síns.
Ég er komin frá einstæðri móður, öryrkja sem barðist í bökkum alla sína tíð. Hún er ein af hinum þöglu hetjum sem ráðist var á þegar hún þurfti að leita aðstoðar hjá opinberum aðilum.
Sem betur fer þurfti móðir mín ekki að lifa þá tíma sem nú eru. Hún slapp við að vera afskipt á elliheimili þar sem öllum var bannað að fara í heimsókn af því að hún og aðrir gætu smitað og breitt út Covid.
Mamma var ekkert öðruvísi en venjulegir öryrkjar nú til dags. Hún lék sér ekki að því að fá berkla þegar hún var ung stúlka og hún lék sér ekki að því að vera með boginn handlegg sem greri skakkt saman vegna mistaka einhvers læknir.
Nei, hún mamma var bara eins og öryrkjarnir núna. Hún vann eins og hún gat og hún átti eitthvað af fólki sem hjálpaði henni. Ég er þakklát fyrir að hún skuli ekki þurfa að horfa upp á þá tíma sem nú eru.
Þeir sem ráðast á öryrkjana og dæma þá lata og druslur ættu að staldra við og hugleiða morgundaginn. Morgundagurinn getur verið dagurinn sem breytir öllu lífi þeirra dómhörðu, þeir geta orðið fyrir slysi sem kippir undan þeim fótunum og þeir fá þá að kynnast því hvað það er að vera í hjólastól, kannski, eða að þurfa að hafa aðstoð við minnstu athafnir, athafnir sem við teljum sjálfsagðar og ekki ástæðu til þess að minnast á. Þeir gætu farið inn í líf sem er endalausir viðþolslausir verkir sem ekkert er hægt að gera við annað en taka lyf og þeir gætu komist í þá aðstöðu að eiga ekki fyrir lyfjum, hvað þá mat eða húsaskjóli.
Margt af þessu fólki sem er í stöðu öryrkja hefur flúið Ísland í von um að eiga mat alla daga ársins. Með gengis garganinu er fótunum kippt undan þessu fólki, bara rétt si svona.
Hverjir eru það sem verið er að hjálpa með gengisfellingu þeirri sem nú gengur yfir?
Er það fátæka fólkið?
Eða er það kannski útgerðin og elítan sem njóta góðs af?
Hverjir eiga peninga til þess að gambla með endalaust? Ekki er það öryrkinn, hinn almenni öryrki sem lög eru brotin á hvern einasta dag. Nei það eru ekki heldur venjulegu eldri borgararnir sem hafa lagt í lífeyrissjóð allt sitt líf og haldið að þeir mundu njóta sæmilegs tíma þegar þeir hættu að þræla.
Það sýður á mér í dag og ég gat ekki setið á mér. Auðvitað rísa spekingarnir upp og segja mér að þegja. Auðvitað rís einhver upp og segir að FEB og LEB geri aldrei neitt í málum eldri borgara. Þessi upprisni gæti numið staðar og hætt að arga Mannréttindadómstóll og ekkert annað. Þessi upprisni gæti kynnt sér málið og kannski skilið að til þess að fara fyrir Mannréttindadómstól þarf mál fyrst að fara fyrir íslenska dómstóla og það er einmitt að gerast núna.
Grái herinn er að sækja mál vegna skerðinga lífeyrissjóðsgreiðslna. Wilhelm og Finnur og Ingibjörg hafa barist eins og ljón fyrir þessari málssókn og í haust kemur væntanlega niðurstaða úr FYRSTA DÓMSSTIGI.
Ég gagnrýni það sem mér finnst gagnrýnivert en ég þakka líka það sem mér finnst vel vera gert.
Ég hef verið grimm við FEB og LEB og held áfram að vera það þegar mér þykir ástæða en það er engin ástæða til þess að vera með rangfærslur og lygi og segja að EKKERT hafi verið gert á undanförnum mánuðum.
Ég ætla að láta þetta gott heita í bili en ég er hreint alveg jafn argandi reið og þegar ég skrifaði fyrsta stafinn.
Það sorglega við gengið er að bráðum verða kosningar á landinu og þá dregur BB upp bréfið frá 2013 eða eitthvað líkt og allir falla á kné og trúa lyginni og setja kross við þrælahaldarana sem sjá um að fátækir verði fátækari og ríkir ríkari.
Hulda Björnsdóttir