2.ágúst 2020
Það er kominn nýr mánuður og einhverjir sem horfa til næstu viku með bjartsýni um að matur verði á diskum eftir svelti síðustu 2ja vikna. Útlagarnir bíða eftir því að sjá hvernig gengið hefur ruggað sér eða stokkið á síðustu dögum júlí mánaðar og þeir horfa með skelfingu á stökk allra gjaldmiðla sem virðast vera á beinni leið til helvítis fyrir fátæklingana.
Í síðasta mánuði talaði ég um hvernig laun mín höfðu farið til andskotans vegna verðleysis evrunnar.
Núna ætla ég að tala um hvernig greiðslur í NOK koma út. Sem betur fer hefur sú norska ekki verið eins skuggaleg og evran allt þetta árið, en hún hefur nú lagt af stað til helvítis rétt eins og evran.
Gengi Nok 2.janúar 2020 13.934
Gengi Nok 2.ágúst 2020 14.95
Laun 160.000 + 195.000 = 355.000 ísl. krónur fyrir skatt
Verðmæti 355.000 ísl. króna í NOK 2. Janúar 2020 = 21.530 NOK
Verðmæti 355.000 ísl. króna í NOK 2. Ágúst 2020 = 20.067 NOK
Mismunur í NOK 1.463
Verðmæti 355.000 ísl. króna hefur lækkað um 21.871 ísl kr. frá áramótum.
Haldi þetta áfram svona út árið þá tapar viðkomandi 21.871 x 5 = 109.359 ísl krónum á næstu 5 máuðum.
Líkelga þykir þetta nokkuð góð launaLÆKKUN.
Hér fjalla ég um tekjur áður en skattur er tekinn af, brúttó tekjur semsagt.
Einhver getur nú spurt hvort ég fái greitt í NOK ?
Nei, ég fæ ekki greitt í NOK. Verðmætið er þetta ef ég fæ greitt í íslenskum krónum og breyti þeim yfir í norskar krónur.
Ég hefði getað tekið dæmið í evrum og það litið enn verr út.
Það skiptir máli hvernig verðmæti íslensku krónunnar er, ekki bara fyrir útlagana, það skiptir líka máli fyrir þá sem enn búa á Íslandi.
Lækki verðmæti krónunnar hefur það áhrif í gegnum allt hagkerfið. Þeir einu sem græða eru mafíósarnir og fyrir þá er gengið látið dúnka niður í ekki neitt.
Þetta skiljum við kannski betur sem þurfum í hverjum mánuði að flytja smáaurana okkar til landsins sem hefur fóstrað okku á árunum eftir 65 ára. Við erum á góðri leið með að þurfa aftur og enn einu sinni að lepja dauðann úr skel rétt eins og við gerðum þegar við bjuggum á Íslandi.
Þeir sem komnir eru á eftirlaun, venjulegt fólk sem hefur sparað í lífeyrissjóði allt sitt líf, eru þeir sem látnir eru súpa seyðið af sukki mafíunnar.
Það er hægt að láta sig dreyma um að stofna stjórnmálaflokk með 45 þúsund atkvæðum eldri borgara!!!!
Slíkir draumar eru dæmdir til þess að mistakast.
Dágóður hópur eldri borgarar hefur það bara nokkuð gott, til dæmis má nefna alþingismenn, ráðherra, ýmsar hálauna stéttir og þá sem hafa getað safnað í digra sjóði ekki síst með því að selflytja gróða til skattaparadísa, allt í góðu lagi varðandi yfirvöld og ekkert verið að sóa tíma í að sakfella slíkt athæfi á sama tíma og bófinn sem stelur brauðhleif í súpermarkaði er dæmdur í fangelsi.
Nei, stjórnmálaflokkur eldri borgara verður aldrei fugl né fiskur. Hverjir verða svo sem í fararbroddi í slíkum hópi? Ætli það verði verkakonan eða verkamaðurinn sem hafa alla sína æfi þrælað fyrir smánarlaunum? Eða öryrkinn sem varð eldri borgari þegar hann varð 67 ára? Ég trúi því ekki.
Trúi því hver sem vill að flokkur eldri borgara á alþingi kæmi einhverju í gegn. Ég trúi því ekki en auðvitað er ekkert að marka mig, konu og meira að segja eldri en 67 ára!
Það er hægt að láta sig dreyma um betri tíð og trúa því að einhverntíma komi sú tíð en hún fylgir ekki framboði sem LEB rekur nú áróður fyrir.
Hulda Björnsdóttir