7. júlí 2020
Dvöl eldri borgara á stofnun og réttindi þar eru eins og frumskógur í villtasta vestrinu, finnst mér.
Af vef TR er þetta:
“Dvöl lífeyrisþega á stofnun getur haft áhrif á greiðslur frá TR. Þá getur verið mismunandi eftir því hvort um er að ræða varanlega dvöl á dvalar- eða hjúkrunarheimili eða dvöl á sjúkrastofnun eins og t.d. sjúkrahúsi. Mikilvægt er að láta Tryggingastofnun vita ef viðkomandi útskrifast af sjúkrahúsi, dvalar- eða hjúkrunarheimili, svo lífeyrisgreiðslur geti hafist að nýju.
- Þegar lífeyrisþegi flytur á dvalar- eða hjúkrunarheimili falla niður bætur frá TR frá fyrsta degi næsta mánaðar eftir flutning
- Greiðslur falla hins vegar niður ef dvöl á sjúkrastofnun nær samtals 6 mánuðum (180 dögum) á undanförnum 12 mánuðum. Þar af verður að vera samfelld dvöl í 30 daga við lok tímabilsins
Viðkomandi getur í báðum tilvikum átt rétt á ráðstöfunarfé frá TR ef tekjur eru undir viðmiðunarmörkum. Þeir sem eiga ekki rétt á ráðstöfunarfé vegna tekna gætu þurft að taka þátt í dvalarkostnaði sínum.
Ráðstöfunarfé
Greiðsluþegar sem hafa tekjur undir 118.591 kr. á mánuði geta átt rétt á ráðstöfunarfé frá TR. Ekki þarf að sækja sérstaklega um ráðstöfunarfé.
- Ráðstöfunarfé er að hámarki 77.084 kr. á mánuði
- Reiknað er út frá fyrirliggjandi tekjuáætlun hjá TR
- Allar skattskyldar tekjur, þ.m.t. lífeyrissjóðs- og fjármagnstekjur, hafa áhrif
- Greiðslur frá TR, félagsmálastofnun og sveitarfélögum hafa ekki áhrif “ tilvitnun lýkur
Samkvæmt þessu eru tekjur eftirlauna mannsins eða konunnar frá Tryggingastofnun ríkisins (eftirlaunin) notuð til þess að greiða fyrir sjúkra – eða dvalar kostnaðinn.
Ríkið rekur heimilið, hjúkrunarheimilið og greiðir ekki bæði fyrir plássið og líka eftirlaun.
Samt er hægt að sækja um ráðstöfunarfé, það er svo sjúklingurinn hafi eitthvað til þess að lifa af, jafnvel þó hann dvelji á dvlar- eða hjúkrunarheimili. Þetta er auðvitað ákaflega mannúðlegt og ég er ekki að agnúast út í það.
Eins og sjá má þá hafa ýmsar tekjur áhrif á upphæð ráðstöfunartekna. Skerðingarhnífurinn er til taks eins og venjulega.
Aftur af vef TR:
“Reiknivél kostnaðarþátttöku
Kostnaðarþátttaka miðast við reglu á yfirstandandi ári sem er í gildi fyrir langflesta íbúa. Reiknivélin er til viðmiðunar.
Við útreikning á þátttöku í dvalarkostnaði eru bornar saman reglur yfirstandandi árs við reglur frá árunum 2006 og 2008 sem eru enn í gildi.
Hagstæðasta niðurstaðan er ávallt valin. Regla yfirstandandi árs er í gildi fyrir langflesta.
Reiknivél kostnaðarþátttöku 2020”
Tilvitnun í TR lýkur hér að ofan.
Reglur sem gilda eru frá árinu 2006 og 2008.
Þessi setning er fyrir ofan minn skilning. Eru notaðar reglur frá 2006 og 2008?
Samt kemur fram að þáttakan miðist við reglu á yfirstandandi ári ?
Þetta er lítið dæmi um hver óskapnaðurinn er sem fólk þarf að fara í gegnum þegar skoðaðar eru upplýsingar á síðu Tryggingastofnunar.
Ég skil þetta mál hreint ekki og ætla mér ekki að reyna að útskýra það.
Það sem ég ætla hins vegar að tuða um er þetta:
Eldri borgari sem býr í Danmörku og þarf að fara á hjúkrunaheimili vegna Alzheimer missir allar bætur frá Íslandi. Hann þarf að borga sjálfur kostnaðinn við vistina eða að leita til danskra yfirvalda eftir aðstoð.
Samnorrænir samningar stýra þessu var mér sagt.
Gott og vel. Þá spyr ég hvort íslenska ríkið borgi danska ríkinu sem svarar eftirlaunum mannsins fyrir sjúkrahúsvistina? Rukkar danska ríkið íslenska ríkið um dvalarkostnaðinn?
Ef ekki hvað verður þá um ellilífeyri mannsins á Íslandi? Hverfur hann bara út í buskann?
Mér finnst þetta frekar einkennilegt mál og langar alveg óstjórnlega til þess að vita hvernig það er í laginu.
Mér er reyndar kunnugt um að kona mannsins í Danmörku getur leitað til danskra yfirvalda eftir aðstoð. Ég veit hins vegar ekki hvernig það mál er í laginu og hvort það er auðveld framkvæmd.
Samnorrænir samningar eru fínir, áybggilega, en það er ófært í stöðunni að þegar eiginkona mannsins leitar eftir upplýsingum frá TR á Íslandi þá sé henni sagt að þetta sé bara svona.
Væri ekki upplagt að TR á Íslandi gæfi henni upplýsingar um hvert hún ætti að snúa sér í Danmörku, til þess að fá aðstoð? Er það tilætlunarsemi að finnast það eðlilegt?
Að fara í gegnum VEF TR er frekar flókið finnst mér. Sumt er auðskiljanlegt en annað er ekki fyrir venjulegt fólk að skilja.
Upplýsingagjöf stofnunarinnar er oft á tíðum hálf aumingjaleg eins og ég rak mig rækilega á þegar ég var að sækja um eftirlaun mín. Ég þurfti að sækja um í gegnum Portúgal, sem var allt í lagi, og fékk leiðbeiningar frá Tryggingastofnun á Íslandi um hvernig ég ætti að gera það og var meira að segja gefin upp adressa og nafn á fyrirbærinu hér í Portúgal, sem reyndist algjörlega úti í hróa og var bara bull og vitleysa. Málið leystist reyndar hjá mér með aðstoð heimamanna en auðvelt var það ekki.
Líklega er ég enn eina ferðina komin í kvörtunarham og ætla að leyfa mér það.
Vonandi verður framtíðin þannig að gjörómöguleg lög almannatrygginga á Íslandi verði þannig að fólk, umsækjendur og þeir sem vinna hjá stofnuninni TR geta labbað um upplýsingarnar og fundið lausnir án þess að þurfa að fara í klofstígvél eða vöðlur.
Hulda Björnsdóttir