5.júlí 2020
Ég ætla aðeins að tala um frítekjumark atvinnutekna í dag og hvernig það dæmi lítur út fyrir eldri borgara.
Fyrst eru hér upplýsingar af vef TR þar sem sést hvernig málið er frá þeirra bæjardyrum og löggjafans:
„Hvað má hafa í tekjur án þess að það hafi áhrif á útreikning?
Atvinnutekjur: 1.200.000 kr./ári
Aðrar tekjur s.s. lífeyrissjóðstekjur og fjármagnstekjur: 300.000 kr./ári
Áhrif tekna yfir frítekjumörkum á ellilífeyri: 45%
Áhrif tekna yfir frítekjumörkum á heimilisuppbót: 11,90%
Greiðslur falla niður: 7.147.707 kr./ári eða 595.642 kr./mán.
Einungis þeir sem fá greiddan lífeyri geta fengið greidda heimilisuppbót og aðrar uppbætur. Búseta erlendis getur lækkað greiðslur lífeyris og tengdra bóta. Þegar búið er að reikna út heildartekjur eru þær notaðar til að ákvarða upphæðir greiðslna.
Upphæðir
- Fullur ellilífeyrir fyrir þann sem býr ekki einn: 256.789 kr/mán.
- Þeir sem búa einir geta átt rétt á heimilisuppbót sem er 64.889 kr./mán.
- Samanlögð réttindi fyrir þá sem búa einir geta verið 321.678 kr./mán.
- Greiðslur heimilisuppbótar falla niður þegar tekjur ná 6.843.428 kr/ári, 570.286 kr/mán.”
Tilvitnun í síðu TR lýkur hér að framan.
Skoðum málið aðeins frekar.
Tökum sem dæmi einstakling sem hefur 150 þúsund krónur í tekjur frá Lífeyrissjóði
og svo annann sem hefur 150 þúsund krónur í atvinnutekjur.
Hvernig skyldi þessi samanburður koma út?
Og ég spyr líka hvort réttlæti væri ekki að tekjur, hvaðan sem þær koma, væru meðhöndlaðar á sama hátt í kerfi sem eftirlaunafólki er skammtað?
25 þúsund krónur má hafa frá lífeyrissjóði áður en skerðingar hefjast. Eftir 25 þúsundin skerðist það sem eftir er um 45%. Semsagt, 150.000 – 25.000 = 125.000 skerðast um 45%
Ef um atvinnutekjur er að ræða þá er dæmið svona:
150.000 -125.000 = 25.000 skerðast um 45%
(frítekjumark vegna atvinnutekna 100.000 plús frítekjumark fyrir alla krónur 25 þúsund gera 125 þúsund án skerðinga fyrir þá sem eru að fá atvinnutekjur)
Nú spyr ég eins og fávís kona auðvitað, Af hverju eru tekjur frá lífeyrissjóði ekki meðhöndlaðar á sama hátt og atvinnutekjur?
Af hverju eru tekjur frá lífeyrissjóði metnar sem öðruvísi peningar en þeir peningar sem greiddir eru fyrir atvinnuframlag?
Eru þetta ekki samskonar peningar?
Fæ ég ekki sama magn til dæmis af mat fyrir hundrað þúsund kallinn sem ég vinn fyrir á almennum vinnumarakaði og fyrir hundrað þúsund kallinn sem ég fæ frá lífeyrissjóði?
Hvaða munur er á verðmæti þessara hundrað þúsund kalla?
Getur það verið að kerfið líti niður á þann sem ekki heldur áfram að fá atvinnutekjur eftir að hann verður 67 ára?
Í löndum þar sem ég þekki til þá er frekar hvatt til þess að eldri borgarar hætti á almennum vinnumarkaði til þess að rýma pláss fyrir þá sem yngri eru.
Á Íslandi er þetta sýnist mér öfugt.
Á Íslandi er samkvæmt þessu kerfi, hvatt til þess að eldri borgarar haldi áfram að vinna fram í rauðann dauðann svo ekki þurfi að borga þeim eftirlaun frá ríkinu, jafnvel þó eldri borgarinn hafi greitt skatta og skyldur til þjóðfélagsins alla sína hundstíð.
Mér finnst þetta ógeðslega fúlt og heimskulegt.
Þegar ég hugsa til fiskverkakonunnar, sjúkraliðans, sjómannsins, verkamannsins og öryrkjanna sem hafa hugsanlega orðið öryrkjar vegna álags í vinnu sem tætti líkama þeirra niður, verð ég reið og skil ekki af hverju verið er að halda því að fólki að vinnan sé meira virði eftir 67 ára aldurinn en sparnaðurinn í lífeyrissjóðinn.
Þetta er nú meira bévaðans kerfið búið er að tjasla saman á forríku landinu fyrir þá sem tilheyra venjulega hópnum.
Er ekki kominn tími til þess að allir í þessum venjulega hópi sitji við sama borð?
Ég hef engar áhyggjur af alþingismönnum og hálaunastéttum sem komast á eftirlaun.
Ég hef áhyggjur af fátæka fólkinu sem verður enn fátækara og almenna launþeganum sem vaknar upp við vondann draum þegar 67unda árið skellur á.
Hulda Björnsdóttir
Þakka þér fyrir skrif þín. Ég er nýorðinn 67 ára og þetta er hálfgerður frumskógur fyrir mér, þ.e Tr, Lífeyrissj. og alles.
LikeLiked by 1 person
Já Víglundur þetta er frumskógur og oft ekki auðvelt að fá einfaldar upplýsingar.
LikeLike