Stöndum saman og berjumst fyrir því að öryrkjar, eldri borgarar og fátækir Íslendingar þurfi ekki árið 2020 að éta það sem úti frýs.

  1. maí 2020

Enn eina ferðina eru komin mánaðamót og enn eina ferðina er hugur minn hjá öryrkjunum á Íslandi og eldri borgurunum sem lepja dauðann úr skel alla daga og ekki síst hjá fátæka fólkinu sem sér ekki út úr skuldum og veit ekki hvernig það á að fá mat handa börnunum sínum.

Á sama tíma og ástandið í einu ríkasta landi heimsins er slíkt þá reka stjórnvöld framan í okkur tunguna og segja okkur enn eina ferðina að éta það sem úti frýs því mikilvægast sé að hjálpa þeim ríku og láta fyrirtæki fá milljónir á milljónir ofan til þess að lifa af veiru faraldurinn.

Fyrirtæki breyta launaseðlum til þess að fá fyrirgreiðsluna segir framámaður sem veit hvað hann er að tala um.

Það kemur mér ekki á óvart. Eftir að hafa unnið sem launagjaldkeri hjá stóru fyrirtæki og séð hvernig uppgefnum tölum var breytt þegar Hagstofa var að gera könnun þá trúi ég manninum og veit að þetta er stundað.

Það sem er grátlegt við þetta allt saman er hvernig stjórnvöld hafa endalaust komið með lausnir sem eru vita gagnslausar fyrir þá sem helst þyrftu á að halda. Hvað veldur því að ekki er hægt að fara í aðgerðir eftir vel ígrundað mál þar sem skoðað er ekki bara upphafið heldur líka endirinn? Af hverju er þetta svona?

Af hverju sé ég frú forsætis halda fagra ræðu á erlendri sjónvarpsstöð þar sem hún lýsir því yfir að allt sé svo dásamlegt á Íslandi í hennar valdatíð? Er það dæmi um hvað allt er dásamlegt að fátæka fólkið á ekki mat og þarf að kaupa lyf  á raðgreiðslum?

Er það dæmi um dásemdina að fátæklingarnir hugleiða margir hverjir nú þegar vorið er komið og sumarið er framundan, að enda þetta vansæla líf og hverfa til eilífðarinnar?

Nei, það getur ekki verið, hvað ertu að rugla núna! gætir þú hugsað með þér, þú sem ert að lesa þetta.

Því miður er þetta svona hjá mörgum, sumir hugleiða hvað sé hægt að gera og aðrir hafa misst vonina fyrir löngu og þegar fer að birta og allt á að vera svo gott kemur krumla þunglyndis og kremur hjartað.

Á ekki lífið að vera til þess að lifa því og hlakka til morgundagsins í þessu forríka landi?

Er það heimtufrekja að ætlast til þess að ALLIR geti farið til læknis ef þeir þurfa og að ALLIR geti borgað fyrir lyfin sín og að ALLIR geti haft mat á borðum ALLA daga mánaðarins?

Ég veit að ég hef talað um þetta sjöhundruð sinnum og á líklega eftir að tala um það í mörg ár.

Ég vildi óska að þessi vísa yrði óþörf og að allir gætu lifað alla daga sæmilegu lífi á landi sem hefur upp á ótal möguleika að bjóða.

Ég vildi óska að kjósendum biðist fólk til að stjórna landinu sem skildi aðstæður venjulega fólksins og að þeir sem ráða ríkjum væru þess megnugir að koma þjóðfélaginu á kjölinn með hag ALLRA að leiðaljósi.

Ég vildi óska að íslenskum vinum mínum gæfist kostur á að dvelja á landinu sem þeir elska og þar sem vinir þeirra og fjölskyldur búa.

Ég vildi óska að íslenskir vinir þyrftu ekki að gerast útlagar í framandi löndum til þess að hafa ofan í sig og á.

Rætast óskir mínar?

Ég veit það ekki en ég held í vonina.

Við megum ekki missa vonina og við þurfum að hjálpa þeim sem nú eru á barmi örvæntingar og sjá ekki út fyrir svartmyrkrið. Stöndum saman og gerum það sem í okkar valdi er.

Stöndum saman og berjumst fyrir því að öryrkjar, eldri borgarar og fátækir Íslendingar þurfi ekki árið 2020 að éta það sem úti frýs.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: