- maí 2020
Nú eru mánaðamót og við útlagarnir þurfum að ákveða hvenær við millifærum af íslenska reikningi okkar, ef við gerum það sjálf. Sumir eru með kerfi þar sem TR eða Lífeyrissjóðir leggja inn beint og aðrir sjá um þetta sjálfir.
Ég er í hópi þeirra sem sjá um málið sjálf. Þar sem gengið er svo rokkandi þessar vikurnar getur verið snúið að taka ákvörðun um hvenær!
Ég þorði ekki að bíða með að millifæra þar til eftir helgi. Fékk evruna á 151,24 og sýnist annar gjaldmiðill, að minnsta kosti einhver, hafa breyst til hins verra það sem af er deginum.
Á mánudaginn millifæri ég svo það sem ég fæ frá TR og ég verð að treysta á guð og lukkuna og vona að ekki hafi hlaupið hástökks hamur á Seðlabankann yfir helgina og allt farið til fjandans aftur!
Núna, þar sem allt er að opnast hægt og rólega hér í Portúgal eftir margra mánaða lokun, þarf ég að gera upp við mig hvað ég ætla að fara langt í sumar. Ætla ég að halda áfram að vera varkár og halda mig að mestu heima við, eða ætla ég að taka til og þeysast út um allar trissur, til dæmis á ströndina þegar er eins heitt og í dag, yfir 40 stig heima hjá mér? Ég veit ekki hvað ég geri. Ég er ekki búin að ákveða enn næstu daga eða vikur.
Ég er þó nokkuð viss um að önnur lota Covid verður í haust og ekki komið bóluefni. Væri ekki skynsamlegt fyrir mig að halda mig sem mest frá almennum stöðum þar sem fólk er ef til vill ekki varkárt?
Söngkennarinn minn byrjar að kenna í næstu viku. Ég hef ekki séð hana í marga mánuði og sakna hennar og fjölskyldunnar alveg endalaust. Ég vildi svo gjarnan geta fengið hlýtt faðmlag frá henni og allri fjölskyldunni, en kannski væri betra fyrir mig að bíða fram á haustið?
Heilsuræktin mín er enn lokuð og ég veit ekki hvenær þau opna. Ég sakna þeirra allra á hverjum degi og mikið væri dásamlegt að komast í ræktina og þurfa ekki lengur að basla heima við að halda mér í formi. Á ég að bíða fram á haustið? Ég veit það ekki!
Eftir helgina þarf ég að fara í súpermarkaðinn og kaupa inn fyrir mánuðinn. Þar eru allir með maska og gæta fyllsta öryggis, eða þannig! Ein ferð í mánuði er nægileg fyrir mig því ég fæ grænmeti og ávexti vikulega frá vini mínum sem er með lífræna ræktun og ég styrki hann frekar enn að kaupa alls konar grænmeti frá súpermarkaði.
Mér finnst flókið að þurfa að velja á milli þess að sjá og knúsa vini mína eða að halda mig heima við og lifa á minningunni um hvernig það er að vera í normal aðstæðum.
Ég hef áhyggjur af því að við hér í Portúgal og fólk um allan heim opni allar gáttir og að bylgja númer 2 verði enn verri en sú fyrsta.
Ég hef áhyggjur af vinum mínum á Íslandi og víðar í heiminum. Ég vona svo sannarlega að okkur takist að halda rónni og bíða þar til bóluefni hefur fundist.
Eins og mörg ykkar sem lesa þetta vita þá hef ég ekki látið bólusetja mig við inflúensu í mörg ár. Þegar bóluefnið kemur við Covid þá hika ég ekki við að fá þá sprautu.
Okkur finnst hallærislegt að vera með maska fyrir andlitinu og ekki síður óþægilegt. Mér finnst það ferlega óþægilegt og ég sakna þess að sjá ekki bros fólksins sem ég mæti. Ég hef þó í huga að maskinn er ekki endilega að vernda mig, hann er ekki síður að vernda hina, já minn maski verndar þig ef þú ert nálægt mér.
Í ágúst er næsta stefnumót mitt við heimilislækninn minn. Venjulega fæ ég knús frá honum og hjúkrunarliðinu. Hvernig verður þetta núna? Verða allir með maska og halda sig í langri fjarlægð frá mér eða verður allt eins og venjulega? 2 mánuðir eru ekki langur tími en þeir geta breytt miklu. Ég lifi í voninni um að ástandið versni ekki. Ég trúi því að við komumst aftur í “normal” aðstæður þó það taki einhverja mánuði. Ég verð að trúa því annars er ekkert líf framundan. Vonin er kannski það dýrmætasta sem við eigum á svona tímum.
Höldum í vonina og trúum því að hún rætist. Draumar rætast ef við höldum þeim lifandi og nærum þá.
Ég sendi ykkur öllum kærleiks faðmlag frá litla landinu mínu sem er svo ægilega heitt í dag og verður á morgun en svo fer aftur að kólna aðeins og lífið verður aftur eins og fyrir hitabylgjuna.
Hulda Björnsdóttir