Sálin mín er brotin í dag – brotin liggja um allt – límið gaf sig og nú þarf nýtt lím

26.mars 2020

Nýr dagur er runninn upp og mig langaði ekki til þess að vakna.

Orustan er að tapast í augnablikinu. Þannig líður mér núna og þannig líður ábyggilega fleirum. Mér finnst ég vera að drukkna langt úti í hafi og engin von um að ég komist að landi. Ég fór á fætur í gærmorgun bjartsýn og vongóð ákveðin í því að gera daginn góðann og fallegann. Þetta tókst nokkuð vel. Ég kann öll ráðin sem hægt er að grípa til þegar ástand virðist vera óleysanlegt.

Það var fallegt veður og hlýtt í litla landinu mínu og sólin skein og sendi vermandi geisla sína yfir allt. Litlu brumin á trjánum voru að stækka og vorið sem ég elska allra árstíða mest breiddi faðminn á móti mér og sagðist vera rétt handan við hornið.

Maður sat á tröppum litla hússins síns og borðaði takós upp úr poka. Hann sá mig í fjarska og bauð mér að koma og fá með sér. Ég hristi höfuðið en þakkaði honum fyrir og sagði honum hvar bíllinn minn væri og hann yppti öxlum og dustaði kusk af skálminni.

Á götu þar sem venjulega er iðandi mannlíf var bara þessi eini maður og ég. Allir aðrir voru lokaðir inni í íbúðum sínum og biðu eftir einhverju sem aldrei kom. Ég upplifði þetta svona í gær um miðjan daginn. Ég hafði gengið um fallegan garðinn og gert þrekæfingar og teigt og hugleitt og var nú á leið heim í þögnina og undarlegt sambland af ótta og öryggisleysi greip mig.

Um kvöldið þegar ég hafði skipt á rúminu mínu og ég stóð og horfði á tandurhrein sængurfötin sem venjulega vöktu með mér góða tilfinningu slitnaði strengur vonar og ég tapaði orustunni. Ég hugsaði um Önnu Frank og hvernig henni leið. Kannski leið mér eins og henni. Kannski var ég að gefast upp þrátt fyrir alla baráttuna. Hvað var öðruvísi núna í aðstæðum sem ég réð ekki yfir samanborið við alla þá hildi sem ég hafði háð í gegnum lífið?  Það var fólk í kringum mig sem ég gat kallað í ef ég þurfti á hjálp að halda og það hafði gerst fyrir 2 dögum. Ég var ekki ein, það var ekki vandamálið.

Það sem núna var ekki í erfiðum aðstæðum var möguleikinn á því að hverfa inn í faðm annarar manneskju og fá raunverulegt faðmlag, ekki bara á pappír eða á mynd. Það sem hafði bjargað mér áður voru faðmlögin og þau er ekki hægt að fá núna. Núna var ég eins og holdsveik manneskja sem allir forðuðust að snerta og ég gekk í stóran sveig framhjá fólki ef það varð á vegi mínum.

Ég er ekki hrædd um að fá veiruna eða veikjast. Ég er ekki hrædd við að deyja, ég er löngu tilbúin til þess að fara yfir á betri stað. Ég er hins vegar að deyja andlega og það er á þessari stundu eitthvað sem ég ræð ekki við. Skelin sem ofurviðkvæm sálin í mér hefur byggt upp er mölbrotin núna. Sálin er berskjkölduð og veit ekki hvernig hún á að raða saman brotunum til þess að komast upp enn einu sinni á þessari óendanlega löngu leið.

Lífið er handan við hornið, það fer ekkert. Mér þykir vænt um lífið mitt og ég er þakklát fyrir það. Núna er það flókið og erfitt og ég er að tapa.

Það er fullt af fólki sem telur í mig kjark. Það er fullt af fólki sem hefur ráð. Það er fullt af fólki sem þykir vænt um mig og veit að ég muni raða brotunum upp á nýtt. Fyrir allt þetta fólk og kærleika þess er ég þakklát. Ég kann ráðin, ég hef notað þau oft og mörgum sinnum. Mér hefur tekist að halda í vonina þar til í gærkvöldi. Að gefast upp er í lagi. Að gefast upp er sárt en það er upphaf að einhverju öðru og betra. Það er alltaf þannig.

Brotin sálin er sterk og rís upp. Hún þarf tíma og henni tekst þetta enn einu sinni. Ofurviðkvæm sál er undarlegt fyrirbæri sem flestir skilja ekki. Þeir sem eiga slíka skilja mig. Nú er tiíminn þar sem ég þarf að halda utan um mig á meðan ég bíð eftir að geta horfið inn í faðmlag einhverrar manneskju sem þykir vænt um mig og skilur að ég þarf ekki orð, ég þarf þessa snertingu sem í felst svo mikill styrkur og huggun. Höfuðið á mér veit að þessir skelfilegu tímar ganga yfir. Sálin er að leita að svari og reyna að sannfæra sig um að höfuðið hafi á réttu að standa.

Þessi dagur er rétt að byrja. Hann verður að vera dagurinn þar sem ég lifi af og þokast eitt skref áfram. Tækin eru öll innan handar og ég nota þau, eitt í einu.

Fyrsta verkið á þessum morgni verður að hverfa inn í hugleiðslu á slóðir fegurðar og ölduniðs sem huggar og hughreystir og styrkir. Næring sálarinnar er þar og hungrið sem nú sverfur að minnkar smátt og smátt. Anna Frank lifði af einangrunina en ekki mikið meira. Þó vonleysi hafi gripið mig heljartökum núna þá held ég minningu Önnu lifandi með því að sigra og breiða vonina út yfir sængina mína þegar allt verður betra á ný.

Þegar allt kemur til alls er lífið fagurt og ég hef óendanlega mikið til þess að vera þakklát fyrir og gleðjast.

Kæri vinur minn sagði við mig að ég væri baráttujaxl. Ég er það og stundum þarf ég að berjast með kjafti og klóm til þess að lifa af andlega í þessum heimi. Þannig tími er núna.

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: