Fer allt til fjandans af mannavöldum?

  1. mars 2020

Góðan daginn kæra fólk

Það er nokkuð liðið síðan ég skrifaði hér og nú ætla ég að bæta úr.

Tímarnir sem við lifum á eru skelfilegir og ekki hægt að hugsa sér hvernig fólkið sem ég ber fyrir brjósti hér á þessari síðu hefur það núna.

Þegar ég opna sjónvarpið er ekkert þar að hafa annað en fréttir af veiru sem er að drepa heiminn, virðist vera.

Þegar ég opna Facebook er svipað uppi á teningnum nema að þar er talað um gengi íslensku krónunnar og hvernig hagkerfið er á niðurleið og ríkisstjórnin brosir og gerir ekkert.

Ég tók þá ákvörðun að vera jákvæð og trúa á lífið og tilveruna og láta ekki bölmóð og áhyggjur ná tökum á mér. Þetta reynist frekar snúið þegar búið er að setja mig í stofufangelsi af því að ég er á ákveðnum aldri.

Ég fór í apótekið fyrir 2 dögum og allt varð þar vitlaust vegna þess að ég átti ekki að vera úti. Ég átti semsagt að vera heima hjá mér og fá sent heim það sem ég þurfti. Í apótekinu var brúsi með hreinsispritti og það átti ég að nota. Ég átti semsagt að snerta tappa sem hundruð manna á undan mér höfðu snert og dæla spritti á hendurna og nudda. Ég neitaði að gera þetta og yfirgaf apótekið alveg spinnegal.

Ég hef verið að passa mig að breiða ekki út víruna þar sem ég er jú á ákveðnum aldri og þar af leiðandi stórhættuleg eða þannig. Ég fer ekki innan um annað fólk nema í brýnni nauðsyn, eins og þessi apótekaferð var og stóð þar í 2ja metra fjarlægð frá næsta manni eins og lög gera ráð fyrir. Svo er ætlast til þess að ég strjúki tappa sem hundrað manns hafa strokið á undan mér. Er þetta ekki eitthvað einkennilegt?

Ég hef ekki tekið þátt í þessu sprittævintýri vegna þess að það gengur ekki upp í huganum og rökhugsuninni hjá mér, það er bara svoleiðis.

Til þess að halda geðheilsunni í sæmilegu lagi á meðan heimurinn fer á hvolf hef ég farið í bílnum mínum eitthvað út í buskann þar sem ég er nokkuð örugg með að verða ekki á vegi fólks og farið í góða göngutúra. Rekst þó einstaka sinnum á eina eða 2 manneskjur og þá tölum við saman með gott bil á milli okkar og allt er í friði og spekt. Undanfarna daga hefur verið gott veður og það bætt ástandið en í dag er rigning og drungalegt yfir.

Mér hafði tekist áður en hörmungarnar dundu yfir, að koma mér vel á veg í góðu líkamlegu formi með því að stunda ræktina og styrkja líkamann. Til þess að halda ástandinu við og kannski bæta það áfram verð ég að komast út í frískt loftið og ganga. Það er bara spurning upp á líf og dauða fyrir mig.

Þegar ég hugsa um hvernig fólkinu líður á Íslandi í óveðri og snjókomu til viðbótar við hagkerfi sem er að fara á hvolf og þegar ég hugsa um öryrkjana mína og eldri borgarana sem fyrir ástandið börðust í bökkum til þess að halda lífinu þá verður mér illt.

Hvað verður um fátæka fólkið sem nú fær ekki að borða á Íslandi?  Hvað verður um fólkið sem hefur þurft að reiða sig á matargjafir frá kærleikssamtökum sem nú hafa þurft að loka? Hvað verður um fátæka fólkið þegar krónan heldur áfram að falla og þeir ríku verða ríkari og hinir fátækari eiga minna og minna? Hvað verður um fátæka fólkið þegar og ef annað hrun skellur á? Hverjir verða látnir taka skellinn? Hvernig var niðurstaðan 2008? Hverju hefur verið skilað til baka til fátæklinganna frá hruninu? Hafa öryrkjar og eldri borgarar fengið bætt það sem þeir þurfti að leggja á sig í hruninu til þess að þeir sem réðu gætu makað sinn krók?

Svarið við þessu er því miður nei!

Eldri borgarar og öryrkjar hafa ekki fengið bættann skaðann.

Fátæka fólkið er enn fátækt og líklega fátækara en það var fyrir 2008.

Þeir sem hafa flúið landið eru nú að horfa á eftir tekjum sínum brenna upp á örskömmum tíma. Þeir sem búa á Íslandi og hafa nýlega gert kjarasamninga horfa sömu augum á launin sín, þessi nýju, verða að minna en engu.

Það er sorglegt að hugsa til þess að ríkisstjórn landsins skuli ekki grípa til aðgerða í stað þess að láta reka á reiðanum fyrir almenning, rétt eins og gert var fyrir hrunið 2008.

Það er eiginlega enn sorglegra að hugsa til þess að þó gengið væri til kosninga nú væri hætta á því að harla lítil breyting yrði til hins betra.

Getur það verið að öll barátta fyrir hina lægst launuðu og þá sem þurfa að reiða sig á hjálp samfélagsins sé á undanhaldi eða hreinlega dauð á landi hinna ríku?

Hafa laun þingmanna og þeirra sem stýra landinu lækkað?

Ég bara velti þessu fyrir mér í landinu mínu þar sem allt er í kyrrstöðu og við vonum að skelfingunni linni. Það er von hjá okkur hér í Portúgal en sú von breytist hjá útlendingi sem þarf að reiða sig á laun frá hinu gjörspillta Íslandi og man vel hvernig ástandið var árið 2008.

Ferst heimurinn núna? Litlu fyrirtækin hér í landinu mínu munu deyja. Fjöldi fóks sem hefur afkomu sína af heimavinnu, handavinnu og matargerð komast ekki yfir lokanir svo vikum skiptir. Listamennirnir sem hafa haft afkomu sína af viðburðum lifa það ekki af fjárhagslega. Fótunum er kippt undan þeirra afkomu þegar brúðkaupum, jarðarförum, tónleikum og öðrum viðburðum eins og fögnun vorsins er lokað og hætt við. Fólk deyr hér í landinu eins og alltaf á veturna, eldra fólk sem hefur ekki ráð á  eða vill ekki hita húsin sín, deyr úr kulda. Það þarf að jarða þetta fólk. Venjulega eru margir við jarðarfarir, núna er það ekki svo. Núna eru messur bannaðar í litla landinu mínu. Núna eru þeir sem komnir eru á ákveðinn aldur skikkaðir til þess að sitja inni við gluggann sinn og horfa út í stað þess að geta farið og fengið sér frískt loft.

Á svona tímum er yndislegt að koma að útidyrum þar sem börn sem búa á efstu hæðinni hafa sest niður og teiknað myndir sem vekja von og þau segja okkur að vera glöð og trúa á veröldina. Ég upplifði þetta í gær þegar ég kom heim úr nokkurra klukkutíma ferð og ég labbaði niður í morgun á náttfötunum til þess að taka myndir sem ég ætlaði að dreifa á Facebook í þeirri von að boðskapurinn gleddi einhverja.

Ég ætla að deila þessum myndum hér með ykkur. Þær eru á Portúgölsku en tala alheims máli kærleikans.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: