Fátækt á Íslandi árið 2020 er viðbjóðslegt þjóðarmein sem ætti ekki að sjást

  1. MARS 2020

Eftir að ég horfði á KVEIK í gærkvöldi var ég eiginlega lömuð.

Ég var ekki bara lömuð. Ég var líka öskureið. Ég fékk ekki tár í augun, ég fékk sting í magann og varð óglatt.

Árið 2020 í einu ríkasta landi heims sveltir fólk heilu og hálfu hungri, rétt eins og þegar ég var að alast upp fyrir mörgum áratugum.

Þátturinn var frábær og eiga þau sem stóðu að honum þakkir skildar fyrir æsingalausa umfjöllun. Þeir sem komu fram í þættinum eru hetjur.  Það er engum heglum hent að standa fyrir framan alþjóð og segja frá því að maður eigi ekki fyrir mat eða húsaskjóli. Þetta fólk eru hetjur þáttarins í mínum huga.

Í dag hafa stigið fram skríbentar sem sitja á Alþingi og segja að þetta verði að laga. Það er gott að einhverjir alþingismenn horfðu á þáttinn.

Það er líka ágætt að segja að þetta þurfi að laga.

Orð eru til alls fyrst en líklega ekki merki um að eitthvað verði gert. Það hefur verið talað um fátækt í marga áratugi og að henni þurfi að útrýma. Líklega hefur hún ekki minnkað mikið frá því að ég var að alast upp. Það er fínt að dressa sig upp í fínasta púss orðalega og skammast yfir ástandinu. Það gæti meira að segja verið að komið yrði á umræðu…eitthvað til þess að búa til enn eina skýrsluna og veifa henni á góðri stundu en slengja henni svo ofan í skúffu einhvers staðar og gleyma öllu saman.

Breytist eitthvað núna?

Ég hef ekki trú á því.

Það væri vel þess virðið að gera annan svona þátt um eldri borgara sem hafa byggt upp þjóðfélagið fyrir þá sem nú koma með stóru orðin og segja að þetta þurfi að laga. Eldri borgararnir sem flúið hafa land og sjá ekki ættingja og vini, eldri borgararnir sem ekki eiga fyrir mat, ekki fyrir læknisþjónustu, ekki fyrir neinu sem gæti talist skemmtun og alls ekki fyrir klæðum og hússkjóli, þeir eldri borgarar eru þögull hópur sem rís ekki upp. Þessi hópur er búinn á því. Hann hefur ekki kraft til þess að rísa upp. Vannærðir líkamarnir geta ekki meira. Sálin er líka örmagna. Einangrun er eina ráðið. Það er ekki hægt að láta fólk sjá hvað ástandið er hrikalegt og þá er ráðið að loka sig af. Þegar allt er orðið kolsvart er aðeins eitt ráð og það er ráð sem ekki má tala um því það er óþægilegt fyrir alla sem eiga að sjá um að öllum líði vel. Eina ráðið hjá mörgum eldri borgurum er að gefast upp og ljúka þessari jarðvist. Það má ekki tala um þessa staðreynd því hún gæti skemmt glansmynd ráðamanna af því hvað eldri borgarar hafa það gott.

Vissulega hafa margir eldri borgarar það fínt, sem betur fer. Það eru til dæmis varla fátækir alþingismenn á eftirlaunum.  Ég þekki ekki einn einasta fyrrverandi þingmann sem lepur dauðann úr skel. Ég man hins vegar vel eftir því þegar við skrifstofustelpurnar vorum sendar niður í Tryggingastofnun til að sækja eftirlaun þingmannsins sem tilheyrði fyrirtækinu sem við unnum hjá.

Það voru engir smáaurar og ekki sambærilegir við það sem mæður sumra okkar voru að fá vegna örorku eða ömmur sem voru komnar á eftirlaun. Við sem sóttum eftirlaun þingmannsins fyrrverandi fengum væna greiðslu fyrir ómakið og var sú upphæð oft notuð til þess að eiga fyrir mat handa börnunum okkar síðustu viku mánaðarins.

Já, fátækt er í tísku núna, eða tískan snýst um að tala um fátæktina úr ræðustólum hingað og þangað.

Svo illa vill til að fátæka fólkið étur ekki fallegu orðin eða stóru orðin.

Fátæka fólkið er nauðsynlegt, sagði Guðmundur Jaki mér einu sinni. Fátæka fólkið eru atkvæði sem hægt er að sækja með faguryrðum, sagði Jakinn mér þegar hann sat við skrifstofuborðið mitt og útskýrði fyrir mér lögmál lífsins sem ég skildi ekki.

Árið 2013 sendi Bjarni Ben fallegt bréf til allra eldri borgara þar sem faguryrðin voru ekki spöruð.

Árið 2017 talaði Katrín Jakobsdóttir um að fátæka fólkið gæti ekki beðið.

Nú eru þessi 2 í æðstu embættum og hafa laun sem eru meðal þeirra hæstu í heiminum fyrir fólk í þeirra stöðu.

Hlustuðu þessi 2 á KVEIK?

Skildu þau hvað var verið að tala um eða héldu þau að þetta væri bíómynd?

Talnalæsi fjármálaráðherra er líklega vert skoðunar ásamt samvisku forsætisráðherra sem líklega, ef hún gerir eitthvað, skipar enn einn skoðunarhópinn!

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: