20.febrúar 2020
Ég er að horfa aftur á KVEIK.
Það er hreint út sagt skelfilegt að sjá hvernig frú FF hefur tekið 100 gráðu snúning og er nú að hneykslast á því hvernig farið var með jafnræðisregluna í dómi vegna jan og feb 207
Frúin er vandlætingin uppmáluð þegar hún lýsir því hvað illa sé farið með almenning og brotið á fólki.
Ég sá hana reyndar í stóli Alþingis fyrr í dag þar sem hún var enn að hæla sér af því að vera eini flokkurinn á Alþingi sem berðist fyrir fátæka fólkið og vildi útrýma fátækt.
Þvílík endemis hræsni, ég get nefnt mörg dæmi um þingmenn sem eru með kjafti og klóm að berjast fyrir bættum kjörum fólks.
Hvernig var það nú aftur með jólauppbótina sem öryrkjar áttu að fá? Var það frú FF sem rak á eftir því að sú greiðsla kæmi til útborgunar?
Ó nei, það var Ágúst Ólafur sem gekk í það mál. Frú FF var líklega upptekin við eitthvað annað en Ágúst svaraði fljótt og vel beiðni um að skoða málið og nokkrum klukkutímum síðar var farið að greiða út.
Hjördís Björg Kristinsdóttir er annar eldri borgarinn sem rætt er við í KVEIKs þættinum ég tók ekki eftir nafni mannsins og nenni ekki að hlusta aftur á þáttinn til þess að finna það út en þau eru sýnist mér hjón af ummælum Hjördísar.
Ég velti fyrir mér hvers vegna var talað við þessi hjón. Það kemur ekki fram held ég. Eru þau í forystu fyrir eldri borgara einhvers staðar?
Maðurinn velti upp þeirri spurningu hvort ástæða væri til að fara í mál vegna dráttarvaxtanna.
Ég skil ekki af hverju fólk bíður ekki eftir úrskurði ráðuneytisins vegna kæru minnar. Ég kærði málið og málið er í skoðun í ráðuneytinu. Þegar sá úrskurður liggur fyrir getur fólk farið að ræða frekari dómstóla leið, en á meðan málið er ekki afgreitt þá er bara bull að vera að tala um frekari málaferli.
Annað sem var auðvitað alveg dásamlegt í þessum þætti var þegar Jón Steinar talaði um að móðir Ingu hefði verið valin af því að hún uppfyllti skilyrði gjafsóknar!
Þegar ég var að tala við Ingu í upphafi þessa máls þá sagði hún að flokkurinn hefði fengið peninga frá ríkinu, 5 milljónir minnir mig, og þeim peningum yrði varið til þess að reka þetta mál. Þegar ég svo fór að reka á eftir því að fréttir kæmu um hvernig málið stæði komst ég að því að það hafði dregist vegna umsóknar um gjafsókn. Þær upplýsingar fékk ég ekki frá Ingu, þó ég hafi reynt að fá þær þaðan. Niðurstaðan var svo sú að FF borgaði líklega ekki krónu! Já, hræsnin lætur ekki að sér hæða.
Þegar ég var að fara af stað með kæruferlið þá talaði ég við Guðmund Inga og hann var ekkert að bjóðast til þess að aðstoða mig á einn eða annan máta. Nei, hann óskaði mér góðs gengis og sagði að allt þetta væri fjórflokknum að kenna.
Guðmundur Ingi hefði hæglega getað leiðbeint mér hvernig best væri fyrir mig snúa mér í kærunum en líklega hefur hann ekki haft hugmynd um hvernig það færi fram!!!!!
Sú aðstoð sem ég fékk var frá Kærunefndinni sjálfri og síðan frá Ráðuneytinu um hvernig ég ætti að snúa mér og hvernig formið væri. Ég hringdi bara og spurði. Þegar ég sendi umboðsmanni alþingis skjölin var mér einnig sagt frá því hvernig formið væri þegar ég færi formlega fram á að málið yrði skoðað hjá embættinu. Umboðsmaður staðfesti móttöku skjalanna og verði kærunni hafnað hjá Ráðuneytinu er næsta skref mitt að senda formlega beiðni til Umboðsmanns Alþingis.
Eins og ég sagði frá einhvern tímann þegar ég skrifaði um málið þá er svona kæruferli ekki einfalt og ég skil vel að fólk veigri sér við slíku.
Ég bíð nú spennt eftir úrskurði ráðuneytisins og held líklega áfram að horfa og hlusta á frú FF skammast yfir því sem henni fannst réttlátt og í lagi fyrir örfáum mánuðum.
Öll umfjöllun um þetta mál þessa síðustu daga ber með sér pólitíska lykt. Lykt sem gýs upp þegar þarf að fara að smala saman atkvæðum. Viðbjóðsleg lykt sem er full af loforðum, vandlætingu, skotum á hina og skömmum. Kjósendur renna á lyktina og setja x við þann sem spreyjar mest.
Munið þið eftir bréfinu góða sem eldri borgarar fengu árið 2013 frá núvernadi fjármálaráðherra? Hinu hugljúfa bréfi þar sem vandlætinging yfir því hvernig fyrrverandi herrar hefðu farið með fólkið?
Eða munið þið eftir forsætisráðherra núverandi sem stóð í Stól Alþingis og lýsti því yfir á hugljúfan máta að fólkið gæti ekki beðið?
Muniði þetta, eða eruð þið orðin ónæm fyrir lyktinni sem gýs upp fyrir kosningar?
Hverjir eru það sem akkúrat núna eru að berjast fyrir bættum kjörum þeirra sem hafa sparað samkvæmt lögum í Lífeyrissjóð?
Er það frú FF eða Simmi, eða fjármálaráðherrann í þröngu buxunum, eða frú forsætis með brosið ljúfa sem fellur eins og tjald jafnskjótt og það birtist, eða Klaustursbræður og systir sem flugu yfir og gleymdu fyrir hverja verið var að berjast?
Nei, Það er ekkert þessara.
Þeir sem eru að berjast fyrir verulegum bættum kjörum þeirra sem nú er stolið frá í hverjum mánuði eru örfáar hræður sem hafa ekki gefið sig og hafa látið verkin tala en ekki staðið og blablablabla í stólum Alþingis. Það er baráttufólkið sem ekki er talað um þegar pólitíkin þarf að smala.
ÆRANDI þögn FF um málsókn Gráa hersins verður enn háværari með hverju öskrinu á fætur öðru á Alþingi.
Hulda Björnsdóttir