Hefurðu leitt hugann að starfslokum þínum?

12.febrúar 2020

Ég er að velta fyrir mér hvort fólk sem er í kringum sextugt eða aðeins þar yfir sé farið að gera ráð fyrir starfslokum og hvað taki þá við.

Ég er líka að velta fyrir mér hvað öryrkjarnir hafa mikið pælt í því sem gerist þegar þeir verða 67 ára.

Þetta eru tímamót sem vert væri að hyggja að þó nokkru áður en þau koma.

Margir hlakka til að hætta að vinna og sjá fyrir sér að þeir njóti lífsins eftir vinnudaginn.  Ég þekki þó nokkra sem hafa séð fyrir sér að geta ferðast um heim og geim þegar ekki þarf að mæta í vinnu og hafa hætt nákvæmlega 67 ára og tekið til við að njóta lífsins. Þetta fólk er hamingjusamt og hefur margt gert ráðstafanir til þess að geta leyft sér eitt og annað sem ekki var hægt á meðan vinnan tók alla kraftana.

Enn aðrir hlakka ekki til og kvíða því að þurfa að setjast í helgann stein. Lífið hjá þeim hefur snúist um vinnuna og hún verið það sem þeir hafa litið á sem akkeri í lífinu. Kannski hugsar fólk ekki svona um málið meðvitað en þetta er oft reyndin.

Sumir missa fótfestuna þegar starfslok skella á og finnst þeir vera einskis virði. Við heyrum ekki oft talað um þetta fólk. Við heyrum og sjáum glansmyndir af þeim sem hafa tekið heiminn með trompi eftir að vinnudagurinn er liðinn. Við sjáum fólk njóta lífsins í sælu á sólarströnd í góðu veðri með góðum félögum og við sjáum fólk í þessum sögum brosandi og hamingjusamt.

Hin hliðin sem ekki er mikið talað um er allt öðruvísi.

Margir sem komnir eru á eftirlaun hafa ekki efni á því að lifa á Íslandi. Þeir héldu að með sparnaði og löghlýðni hafi þeir lagt grunn að friðsælu ævikvöldi þar sem ekki þurfi að hafa áhyggjur af því hvort matur verði á borðum næstu daga eða út mánuðinn. Raunveruleikinn skellur svo á með ógnarþunga og allar áætlanir fjúka út um gluggann. Það sem fólkið fær fyrir sparnaðinn er svo lítið og það sem ríkið leggur fram á móti er enn minna og jafnvel stelur ríkið tugum prósenta af sparnaðinum.

Þá er tekið til bragðs það sem mörgum þykir neyðarúrræði og flutt úr landi. Flutt frá ættingjum og vinum út í óvissuna sem oft er þægileg og passar vel en getur líka haft á sér dökka hlið.

Dæmi eru um að ættingjar frá Íslandi hafi þurft að flytja heim aftur eldra fólk sem hefur ekki staðist freistingu ódýrra veiga og skollið illilega á höfuðið og ekki önnur ráð en að fara til baka.

Þetta er sorgleg staðreynd sem er í lagi að tala um einstaka sinnum í stað glansmyndanna.

Í einu ríkasta landi heimsins er búið svo að stórum hópi eldri borgara, þeirra sem komnir eru yfir 67 árin, sem er ekki hár aldur í nútímanum, að þetta fólk getur ekki bjargað  sér og haft fyrir daglegum þörfum í landinu sem þeir byggðu upp fyrir kynslóðina sem nú ríkir í landinu.

Í þessu forríka landi eru laun almennings svo dýrslega lág að ekki er hægt að lifa af þeim. Það eru ekki bara eldri borgarar sem lepja dauðann úr skel. Nú eru láglaunastéttir að rísa upp og berjast fyrir því að kjör þeirra verði mannsæmandi. Pólitíkusarnir rísa upp hver á fætur öðrum og segja frá því hvað hagsæld þessa fólks sé mikil, hvað miklar skattalækkanir það hafi fengið, hvað læknisþjónusta hafi verið bætt ógurlega og að aldrei fyrr hafi þetta fólk haft það eins gott og nú.

Er þetta svona?

Ég bara spyr!

Mér heyrist ástandið ekki vera upp á marga fiska nema fyrir úrvalsættirnar sem nú ætla sér að sölsa undir sig enn eina þjóðareignina. Ætlar fólk virkilega að láta bjóða sér að mafían eignist enn einn bankann? Ætlar fólk ekki að rísa upp? Ætlar fólk bara að sitja með hendur í skauti og sætta sig við að ekki sé hægt að búa sig undir starfslokin vegna óstjórnar og græðgi stjórnmálamanna sem hafa ALDREI litið upp úr kössunum sem þeir búa í og horft yfir almenning.

Getur það verið að enn eina ferðina verði kosið á Íslandi og mafían fái að halda áfram í skattaskjólum og undanskotum?

Kannski fer núverandi fjármálaráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra með meiru frá og verður ekki lengur formaður flokks sem í upphafi var til þess að hlúa að alþýðunni en missti sjónar á hlutverkinu fyrir langa löngu. Kannski gerist þetta en auðvitað heldur maðurinn áfram að maka krókinn. Þeir gera það jú flestir sem hafa verið í toppstöðunum.

Það gerist ekkert á meðan stór hluti landsmanna kýs yfir sig aftur og aftur sama sukkið.

Eða, getur það verið að ekkert skárra sé í boði?

Ég bý ekki á Íslandi og þarf sem betur fer ekki að horfa á eftir atkvæði mínu í hítina voðalegu. Kosningaréttinum glataði ég fyrir þó nokkru og nenni ekki endurnýja hann.

Á meðan það sem í boði er flýtur alltaf að sama ósi fyllist ég viðbjóði á stjórnarháttum þeirra sem líta á fóstrur á leikskólum sem fimmta flokks starfsfólk.

Hvernig getur það verið að störf þeirra sem sinna börnum foreldra sem eru að skapa verðmæti fyrir þjóðfélagið, séu einskis metin?

Hvernig getur það verið að þeir sem sinna veiku fólki geti ekki séð sér og fjölskyldu sinni farborða í þessu forríka landi? Hvernig getur það verið að það sé minna virði að kenna börnunum í skólum landsins en að vera alþingismaður með milljónir í laun og alls konar bitlinga?

Þeir sem eru að komast yfir sextugt ættu að hugsa sinn gang. Séu þeir almúginn blasir ekki við þeim áhyggjulaust ævikvöld, langt í frá.

Það er ekki auðvelt að búa sig undir starfslok í umhverfi sem er á Íslandi en það er þó þess virði að reyna. Ég hvet þá sem eru að nálgast eftirlauna aldurinn að bíða ekki of lengi. Það er of seint í rassinn gripið þegar dagurinn rennur upp.

Kynnið ykkur vel hvað í vændum er.

Kynnið ykkur hvaða réttindi þið eigið.

Ef þið eruð öryrkjar þá skoðið vel hvað breytist þegar þið verðið 67 ára.

Enginn stjórnmálaflokkur hefur haft dug í sér til þess að krukka í hvernig almannatryggingakerfið stelur lögbundnum sparnaði vinnandi fólks í lífeyrissjóði. Ærandi þögnin ríkir um málssóknina sem baráttujaxlar í Gráa hernum standa fyrir . Ærandi þögnin segir mér að pólitíkinni, þessari ógeðslegu tík, sé hjartanlega sama um mig og þig og hugsi um eigin hag og ekkert annað.

Við sem styðum þetta mál erum mörg. Verkalýðsfélög, félög eldri borgara og ýmis samtök hafa lagt málinu lið þar sem kostnaður við málssóknina verður mikill. Margir einstaklingar hafa lagt sitt af mörkum, margar hendur vinna verkið og auðvelda að réttlætið nái fram að ganga. Við getum sett inn mánaðarlegt framlag ef okkur sýnist svo. Ég gerði það og finnst það góð tilfinning. Það þarf ekki endilega að vera stór upphæð. Höfum í huga hvernig einn frambjóðandi til forseta í Bandaríkjunum byggir sína fjáröflun á framlögum frá almúganum, litlum en stöðugum framlögum. Við getum gert þetta svona á Íslandi. Við sem búum erlendis og höfum gerst flóttamenn frá vosbúð og hungri á Íslandi getum tekið þátt í þeirri von að brátt verði óréttlætinu aflétt og þeir sem spara og tilheyra almenningi fái að njóta ávaxtanna þegar halla fer á ævikvöldið.

Munum það sem ég segi svo oft að sameinuð erum við sterkari en mafían!

Hulda Björnsdóttir

Author: hulda98

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: