Við erum baráttujaxlar – Við étum ekki það sem úti frýs þegjandi !

23.janúar 2020

Enn eina ferðina ætla ég að reyna að koma því til skila sem ég er endalaust að mala um, að mati sumra.

Semsagt

Málið snýst um að heimilisuppbót er EKKI partur af ellilífeyri.

Heimilisuppbót er félagsleg aðstoð sem hægt er að sækja um hjá TR ef einstaklingur býr einn og býr á Íslandi.  Þessi aðstoð lýtur öðrum lögmálum en sjálfur ellilífeyririnn og er ekki ætluð fyrir stjórnmálamenn til þess að hreykja sér af hinum guðdómlegu upphæðum sem greiddar eru til þeirra sem komnir eru á eftirlaun eða þeirra sem eru svo ólánsamir að vera af einhverjum ástæðum öryrkjar.

Auðvitað þurfa stjórnmálamenn ekki að hafa áhyggjur af sínum eftirlaunum. Þau eru tryggð með allt öðrum hætti enda slíkt fólk mun merkilegra en ég og þú sem erum annað hvort öryrkjar eða venjulegt eftirlaunafólk.

Eftirfarandi afritaði ég af vef Tryggingastofnunar Ríkisins og þar fer ekkert á milli mála, og allir ættu að geta skilið, að það sem ég tugga endalaust er byggt á staðreyndum.

Takist mér að sannfæra einn pólitíkus sem nú situr á hinu háæruverðuga þá er líklega kraftaverk sem hefur gerst í miðju óveðrinu á Íslandi.
Hvað telst til félagslegrar aðstoðar?

Það sem telst félagsleg aðstoð og greiðist ekki úr landi er eftirfarandi:

  • Barnalífeyrir vegna náms
  • Dánarbætur
  • Endurhæfingarlífeyrir (og tengdar bætur)
  • Heimilisuppbót
  • Maka- og umönnunarbætur
  • Mæðra- og feðralaun
  • Sérstök uppbót til framfærslu
  • Umönnunargreiðslur
  • Uppbætur á lífeyri”

 

Hitt málið sem ég ergi mig endalaust yfir vegna skilningsleysis ráðamanna er eftirfarandi sem ég afritaði líka af vef TR:

“Flutningur frá Íslandi

Við flutning frá Íslandi skiptir máli hvort flutt er til EES-lands eða ekki og hvort að samningur á sviði almannatrygginga sé til staðar milli Íslands og viðkomandi lands. Lífeyrisþegi sem flytur til að mynda til annars EES-lands heldur áfram lífeyrisgreiðslum sínum frá TR en greiðslur vegna félagslegrar aðstoðar eins og heimilisuppbætur falla niður við flutning. Ef lífeyrisþeginn flytur til lands sem tilheyrir ekki EES falla allar greiðslur niður ef enginn samningur er til staðar á sviði almannatrygginga við viðkomandi land.

Tilkynna þarf flutning til Þjóðskrár Íslands og láta TR vita af breyttu heimilisfangi. Greiðslur geta fallið tímabundið niður ef TR fær ekki upplýsingar um nýtt lögheimili erlendis.

Lífeyrisþegar búsettir erlendis þurfa einnig á hverju ári að skila inn lífsvottorði og skattframtali frá búsetulandi. Ef viðkomandi á maka þarf skattframtal maka að fylgja með.”

Það er ekki eins og hægt sé einfaldlega að vippa sér yfir hafið og lifa í sól og sumaryl það sem eftir er og fara hvert sem hugurinn girnist.

Ó nei,

Ekki alveg.

Það er ekki sama hvert er flúið.

Það eru ekki sömu reglur sem gilda um allan heim.

ÞAÐ ERU EINFALDLEGA ÁTTHAGAFJÖTRAR ÁRIÐ 2020 Á ÍSLANDI!

Það er ekki einfalt að uppfylla allar kröfur sem gerðar eru til eftirlaunafólks og öryrkja sem búa erlendis. Það er heilmikil vinna eins og ég hef nokkrum sinnum útskýrt.

Enn þann dag í dag er okkur sagt að éta það sem úti frýs og vera ekki að rífa kjaft.

Sem betur fer er mál Gráa hersins að renna úr hlaði og hlakka ég til að sjá framlag mitt renna til sjóðsins um næstu mánaðamót og mörg komandi mánaðamót. Líklega verð ég ekki ofan jarðar þegar málið leysist, fari allt á versta veg og málið þurfi að fara til Mannréttindadómstóls, en ég tel það skildu mína að leggja málinu lið.

Við skulum nú, rétt einu sinni, sanna að við stöndum saman þegar mikið liggur við.

Horfiði á framtíðina þegar hægt verður að gefa pólitíkusum langt nef og sýna þeim fram á að við séum baráttujaxlar.

Hulda Björnsdóttir

 

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: