12.desember 2019
Gott kvöld
Ég ætla aðeins að segja frá kæru minni til Félagsmálaráðuneytisins sem ég sendi í dag. Þessi kæra er vegna brota á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar þar sem sem móðir Ingu sem vann fordæmisgefandi mál í Landsrétti vegna brots Tryggingastofnunar ríkisins og dóms um að stofnunin hafi upp á sitt eindæmi skert okkur sem fáum greitt frá Lífeyrissjóðum þegar lög gerðu ekki ráð fyrir að skerðingar væru í gildi, þ.e.fyrir mánuðina jan og feb 2017. Móðir Ingu fékk dráttarvexti sem eru skaðabætur en við hin fengum vexti sem eru fjármagnstekjur.
Allir fengu leiðréttingu vegna jan og feb skerðingar og þar var jafnræði. Þegar kom að dráttarvöxtum skildu leiðir og móðir Ingu fékk dráttarvexti en við hin vexti og þar stendur hnífurinn í kúnni og jafnræðið brotið.
Fyrir mig eru þetta engar stórupphæðir sem um ræðir í vöxtum en þetta er prinsip mál fyrir mig.
Það er brotið á eldri borgurum, freklega í þessu tilfelli , með því að nota reglu um greiðslu vaxta ef Tryggingastofnun hefur misreiknað áætlaðar tekjur og skuldar því einstaklingi greiðslu og þarf stofnunin að borga vexti þegar hún leiðréttir málið. Þetta er það sem gerist um mitt árið eða svo og talað er um að svo og svo mikið sé tekið af fólki vegna ofgreiðslu á greiðslu frá TR. Ég held að flestir ættu að kannast við þetta.
Tryggingastofnun er hins vegar að fara að lögum með þessum útreikningi. Þegar nýju lögin um Almannatryggingar voru sett árið 2017 er ólíklegt að nokkrum heilvita manni hafi dottið í hug að nauðsynlegt væri að hafa í lögunum ákvæði um dráttarvaxta greiðslur af dómsmálum vegna lögbrota stofnunarinnar!
Mitt mál og þeirra sem fengu vexti vegna leiðréttingar á greiðslum jan og feb 2017 snýst ekki um vitlaust reiknaða tekjuáætlun Tryggingastofnunar ríkisins.
Reglur stofnunarinnar snúast um vexti en ekki dráttarvexti. Málið sem ég er að tala um snýst um mismun á vöxtum og dráttarvöxtum.
Móðir Ingu fékk dráttarvexti. Þeir eru ekki tekjur, þeir eru skaðabætur.
Málið sem móðir Ingu fór í með aðstoð Flokks fólksins, (þó flokkurinn borgaði ekki fyrir málssóknina, það var sótt um gjafsókn og hún veitt bæði í Héraðsdómi og Landsrétti), var fordæmisgefandi fyrir aðra eldri borgara sem brotið var á þessa 2 mánuði árið 2017.
Tryggingastofnun túlkar fordæmið aðeins gagnvart skerðingunni, sem er bara partur af dómnum.
Guðmundur Ingi sagði mér þegar ég spurði hann um aðferðina “að þetta væri bara svona og fjórflokknum að kenna”.
Inga sagði að þetta væri bara svona og allir nema móðir hennar ættu að fá vexti en ekki dráttarvexti.
Orðrétt sagði frú Inga:
“Móðir mín var notuð fyrir ykkur öll í svo nefndu prófmáli. Lögmaður hennar gerði ítrustu kröfur fyrir hana sem sinn skjólstæðing þar á meðal kröfu um dráttarvexti. Sú krafa gildir þó ekki fyrir alla heldur einungis aðila málsins.Þeir sem vilja sækja dráttarvextina þurfa að gera það sjálfir gegnum dómkerfið. Tryggingastofnun hefur ekki með þetta að gera svona er bara gildandi réttur.”
Reyndar hef ég fengið að heyra frá Ingu að ég sé vanþakklát mannvonsku fyrirbæri þegar ég hef gert athugasemdir við ummæli hennar varðandi þetta mál.
Ég vogaði mér að vera reið:
Og álit Ingu lét ekki á sér standa:
Mannfyrirlitning, Öfund, og varnaraðili fyrir stjórnvöld. Þannig var lýsing frú Flokksformanns á mér og henni verður flökurt.
Mér er nokk sama um álit formannsins á mér. Mér er hins vegar ekki sama um hvernig komið er fram við okkur eldri borgara sem fengum leiðréttingu vegna lögbrota Tryggingastofnunar ríkisins fyrir mánuðina jan og feb 2017. Mér er ekki sama um að bortið skuli vera á okkur og jafnræðisregla ekki virt.
Til þess að láta reyna á hvort við hin ættum ekki sama rétt og móðir Ingu kærði ég til Úrskurðarnefndar velferðarmála eftir að hafa fyrst kvartað við Tryggingastofnun ríkisins.
Úrskurðarnefndin hafnaði kröfunni um dráttarvexti en benti mér á að kæra til Félagsmálaráðuneytisins, sem ég hef nú gert.
Einhverjir tugir þúsunda eldri borgara fengu leiðréttingu vegna brots Tryggingastofnunar en ég veit ekki til þess að neinn hafi kært misréttið að hafa þurft jafnvel að sæta skerðingum vegna aukinna tekna afturvirkt, sem vextir valda en dráttarvextir ekki!
Einhverjir eldri borgarar hafa ekki tök á því að standa í svona stappi og þess vegna fannst mér ásamt prinsippinu vel þess virði að láta reyna á málið til enda. Það er einfaldlega ekki tekið út með sældinni að sækja rétt sinn á Íslandi og að fenginni reynslu varðandi þetta mál mundi ég ekki leita til þingmanna ákveðins flokks. Þau sýndu það að barátta fyrir svona smámálum er ekki þess virði að leggja í hana.
Ég hef ekki sérstaka trú á því að Félagsmálaráðuneytið geri annað en hafna kröfunni frá mér. Gerist það hins vegar þá er það skjalfest að hægt er að brjóta mannréttindi á Íslendingum eins og ekkert sé ef stjórnvöld taka þann pól í hæðina.
Einhverjir hafa viljað að ég færi í dómsmál. Ég ætla ekki að gera það. Ég hef farið þá leið sem fær er í réttri röð og það verður að duga. Auðvitað fær umboðsmaður Alþingis afrit af kærunni og öll málsskjöl frá mér og það er lokapunkturinn.
Ég veit að eldri borgarar eru misjafnir í misjöfnum aðstæðum. Sumir hafa það fínt og aðrir hafa það mjög slæmt og allt þar á milli.
Það þarf ekki að hafa fyrir því að fá bætt kjör fyrir þá sem standa vel, þeir eru færir um það sjálfir og fá ekki heldur greitt frá Tryggingastofnun vegna hárra tekna annars staðar frá.
Þeir sem hafa það mjög slæmt eru oft og tíðum ekki færir um hvorki andlega eða líkamlega að sækja rétt sinn og hafa hreinlega gefist upp.
Svo eru þeir sem ekki huga að því hvaða rétt þeir eiga og taka það sem að þeim er rétt í þeirri trú að allt sé eins og það á að vera.
Það hefur verið baráttumál mitt að hnika til barómetinu og reyna að fá einhverja til þess að opna augun á þeim sem ráða. Hvort það er vonlaus barátta eða ekki hef ég ekki hugmynd um. Ég held hins vegar að það sé vert að reyna og ég held að við sem stöndum kannski ekki á efsta þrepinu í tekjustiga eldri borgara gætum sameinast og látið til okkar taka. Ég er svo einföld að halda enn að sameinuð getum við sigrað óréttlætið.
Ég hef trú á því að málssókn Finns og félaga varðandi skerðingar vegna tekna úr Lífeyrisjóðum geti nuddað fólki saman. Sú málssókn tekur tíma og ekki hægt að sitja og bíða þar til henni líkur og ekki ólíklegt að við þann endapunkt verði ég dauð og horfi niður með sælubrosi þegar málið vinnst.
Það er ærandi þögn um framtak Finns og félaga hjá stjórnmálamönnum. Ég hef allavega ekki heyrt neitt um málið frá pólitíkusum. Verkalýðsfélögin og félög eldri borgara mörg hver styðja hins vegar málið og er það vel. Ég bíð spennt eftir því að fylgjast með þessu og er vongóð um að á endanum sigri réttlætið.
Hulda Björnsdóttir