Fátækt á Íslandi – ráðherra segir hana ekki til !

6.desember 2019

Góðan daginn

Eins og svo oft áður þá eru mér ofarlega í huga þeir sem ekki eiga fyrir mat síðustu daga mánaðarins, mánuð eftir mánuð og ár eftir ár.

Ég hef stundum talað um að þingmenn og þeir sem ráða þyrftu að prófa þetta ástand á eigin skinni til þess að skilja hvernig þetta fer með fólk andlega og svo fylgir líkamleg vanlíðan í kjölfarið.

Ég er svo heppin að fá að prófa þetta ástand núna í desember og hef ekki verið í þessum aðstæðum í mörg mörg ár.

Ég segi að ég sé svo heppin og enginn má miskilja mig og halda að mér finnist þetta ástand eðlilegt og gott. Nei, því fer fjarri. Mér finnst hins vegar gott að finna til eitthvað líkt og þeir sem ég skrifa svo oft um og argast yfir að stjórnvöld geri ekkert til þess að bæta kjör þessa hóps.

Ég á fyrir öllum reikningum og ég á nægan mat út mánuðinn.

Þannig að ég er ekki alveg í sömu aðstæðum og þeir sem ekki hafa til hnífs og skeiðar alltaf. Hins vegar eru ekki margar evrur í bankanum mínum og það má í raun ekkert fara úr skorðum. Ég má ekki þurfa til læknis, ég má ekki veita mér neitt extra þó það sé þessi mánuður þar sem allir sem vettlingi geta valdið fá kaupæði. Ég verð að velta fyrir mér hverri einustu evru þúsund sinnum til þess að fara ekki yfir á reikningnum mínum og lenda í kostnaðarsömum vanskilum.

Þetta ástand mitt er heimatilbúið.

Ég eyddi því sem átti að fara í skattinn, ekki öllu, bara helmingnum og skattinn verður maður að borga! Ég var búin að leggja fyrir og spara fyrir skattinum en einn góðan veðurdag missti ég stjórnina á lífinu þegar ég horfði niður á viðbjóðslegt illgresisbælið sem blasti við mér í hvert skipti sem ég leit niður í garðinn. Ég var búin að fá nóg. Ekkert hafði verið gert í 5 ár, ekkert og þetta ógeð blasti við mér á hverjum einasta morgni og glotti ógeðlsega framan í mig og hló af því að ég þyrði ekki að láta til skara skríða!

Nú sýp ég semsagt seyðið af ístöðuleysinu og er staurblönk í mesta eyðslumánuði ársins og er bara nokkuð ánægð með ástandið því það minnir mig vel á hvernig fólkinu sem ég skrifa um líður alltaf.

Mitt ástand breytist strax í janúar og þá verður aftur venjulegur mánuður og sparnaðurinn byrjar upp á nýtt fyrir skatti næsta árs og líklega verða ekki freistingar sem ég fell fyrir eins og þetta árið. Lærdómurinn er ágætur en ekki vildi ég þurfa að búa við ástandið aftur.

Við skulum muna að skilningur á aðstæðum fátæka fólksins er allt annað en reynsla sjálf.

Við getum skilið að fátæka fólkið þarf aðstoð, það þarf að bæta kjör þess svo það geti lifað með reisn og gengið beint í baki.

Við gætum hugsað um hvort ekki væri upplagt að prófa til dæmis að vera húsnæðislaus og búa í tjaldi, bíl eða bara úti á víðavangi yfir kaldasta tímann. Við gætum auðveldlega lagt þetta á okkur ef við vildum, eða er það ekki?

Ég hef ekki áhyggjur, ekki miklar, af ástandi sem ég bjó til sjálfviljug, og er nú að upplifa. Ég hef hins vegar verulegar áhyggjur af öryrkjunum, eldri borgurunum og fátæka fólkinu á Íslandi sem býr við svona aðstæður alla daga mánaðararins alltaf, ár eftir ár.

Ég er að reyna að vera ekki reið, ekki mjög reið, út í þá sem hafa völdin til þess að breyta ástandinu varanlega fyrir þessa hópa.

Þeir sem halda um stjórnartaumana búa auðvitað í kössum og sjá ekki út fyrir brúnirnar. Hjá kassabúunum er nú hátíðarmánuður. Þeir fara í ferðalög til útlanda og koma hlaðnir til baka með jólagjafir handa allri fjölskyldunni. Þeir baka kökur og fara í sjónvarpsviðtöl þar sem þeir segja okkur hinum sótsvarta almúga að allt sé svo dásamlegt á Íslandi. Þeir fara jafnvel til útlanda og segja frá dásemdinni og brosa breitt og beygla sig með æðstu ráðamönnum heimsins. ÞAÐ ER JÚ ALLT SVO YNDISLEGT HJÁ ÍSLENDINGUM OG ÞEIR SVO UNAÐSLEGT FORDÆMI! Eða er það? Útlendingarnir trúa þessu. Þeir tala um þetta litla ríki sem býr svo vel að sínum minnstu bræðrum, eins og sumir kalla okkur, og brosins verða enn breiðari.

Nú vil ég kippa kassabúum upp úr velsældinni og láta þá finna fyrir dásemdinni.

Auðvitað verður það ekki , en eitt er víst. Það er hægt að mæta í mótmæli og sýna samstöðu með þeim sem búa utan kassanna. Slíkt tækifæri er núna, á morgun, þann 7.desember 2019 klukkan 14.

Ég bý ekki á Íslandi en ætla að fylgjast með mótmælunum á netinu. Það eru alltaf einhverjir sem streyma life fyrir okkur sem ekki getum verið á staðnum.

Ég vona svo sannarlega að fólk muni eftir búsáhaldabyltingunni og hvernig hún var. Margir lögðu hönd á plóginn þar og nú er risin upp önnur kynslóð sem getur lært af þeirri fyrri.

Gangi ykkur vel, kæru forsprakkar.

Við erum að vakna.

Hulda Björnsdóttir

Author: ebemiede2

I do blog about different matters that interest me.

Leave a Reply

Fill in your details below or click an icon to log in:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Change )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Change )

Connecting to %s

%d bloggers like this: